Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 32/2013, úrskurður 29. júlí 2013

Mál nr. 32/2013
Millinafn: Heydal

 Hinn 29. júlí 2013 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 32/2013.

Til að heimilt sé að fallast á nýtt millinafn verður nafnið í fyrsta lagi að fullnægja skilyrðum 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Ef millinafnið sem óskað er eftir er jafnframt ættarnafn er þó aðeins heimilt að fallast á það ef það fullnægir einnig skilyrðum 7. gr. sömu laga.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um mannaöfn skal millinafn dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nafnið fullnægir þessum skilyrðum.

Í sömu málsgrein segir að nöfn sem aðeins hafi unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna séu ekki heimil sem millinöfn. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands mun nafnið Heydal skráð sem síðara eiginnafn konu í einu tilviki í þjóðskrá. Nefndin telur þó, með hliðsjón af síðari lið þess, að það geti ekki talist hafa hefð sem eiginnafn í íslenskri tungu. Almennt er ekki hefð fyrir því að síðari liður sé -dal, -fjörð, -fell, -holt o.s.frv. heldur eru slíkir seinni liðir einkennandi fyrir ættarnöfn og millinöfn.

Nafnið Heydal fullnægir þeim skilyrðum sem fram koma í 6. gr. fyrir því að á það verði fallist sem almennt millinafn.

Í gögnum málsins, sem mannanafnanefnd bárust frá Þjóðskrá, kemur fram að nafnið Heydal sé ættarnafn samkvæmt skrá yfir ættarnöfn sem tekin voru upp á árinu 1920. Kemur því til skoðunar hvort ákvæði 7. gr. laga um mannanöfn standi millinafninu Heydal í vegi.

Sá sem fékk leyfi fyrir ættarnafninu Heydal samkvæmt þágildandi lögum bar nafnið Jón Sigurðsson, og mun hann hafa verið fæddur um 1890. Ekki hefur verið hægt að tilgreina nákvæmlega hver þessi einstaklingur er og því ekki hægt að leita afstöðu mögulegra afkomenda hans til ættarnafnsins. Ástæða þess mun fyrst og fremst vera fjöldi þeirra einstaklinga frá þessum tíma sem báru nafnið Jón Sigurðsson. 

Með vísan til þess að sá er upphaflega fékk réttinn til ættarnafnsins Heydal getur ekki lengur verið á lífi, að engin gögn finnast um að sá sem keypti réttinn til umrædds nafns sem ættarnafns hafi nokkurn tíma tekið það upp og að nafnið virðist aldrei hafa verið notað sem kenninafn hér á landi telur mannanafnanefnd, þrátt fyrir framangreint, að það sé nægjanlega upplýst að nafnið hafi ekki verið notað sem ættarnafn, og að enginn eigi rétt til þess að nota það sem slíkt, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Hér reynir því ekki á þær takmarkanir á rétti til millinafna sem fram koma í 7. gr. laga um mannanöfn, þrátt fyrir að nafnið hafi fengið skráningu sem slíkt nafn árið 1920.

Nafnið Heydal telst dregið af íslenskum orðstofnum, og hefur ekki eignarfallsendingu. Það fullnægir samkvæmt framangreindu skilyrðum laga nr. 45/1996 fyrir því að á það verði fallist sem millinafn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Heydal er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta