Nýting efnahagsúrræða stjórnvalda vegna heimsfaraldurs
Ríkisstjórnin hefur frá því heimsfaraldur kórónuveiru hófst kynnt úrræði sem ætlað er styðja við efnahagslega vörn, vernd og viðspyrnu heimila og fyrirtækja. Úrræðin geta falið í sér bein útgjöld fyrir ríkissjóð, líkt og í tilfelli hlutabóta eða greiðslu launa á uppsagnarfresti, tilfærslu tekna milli ára eða ábyrgðir sem geta raungerst síðar sem kostnaður fyrir ríkissjóð. Hér á eftir er farið yfir stöðu nýtingar úrræðanna.
Nýting úrræða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru í m.kr.
Úrræði/Fjárhæð, m.kr. |
Beinn kostnaður |
Tilfærslur/ábyrgðir |
Óafgreitt |
---|---|---|---|
Hlutabætur |
21.319 |
|
|
Laun á uppsagnarfresti |
10.509 |
|
|
Laun í sóttkví |
260 |
|
|
Lokunarstyrkir |
945 |
|
|
Barnabætur |
3.000 |
|
|
Séreignarsparnaður |
|
18.800 |
4.700 |
Ferðagjafir |
566 |
|
276 |
Frestun skattgreiðslna |
|
19.400 |
|
VSK endurgreiðsla |
2.182 |
|
|
Stuðningslán |
5.878 |
2.679 |
|
Viðbótarlán (Brúarlán) |
716 |
|
Hlutabætur
Greiddar hafa verið 21,3 ma.kr. í hlutabætur. Alls hafa 36 þúsund manns notið hlutabóta í einn eða fleiri mánuði frá mars fram í október. Þegar mest var í apríl fengu um 33 þúsund manns greiddar hlutabætur en í september fengu 3.319 greiddar hlutabætur. Um 38% þeirra sem fengið hafa greiddar hlutabætur starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Heildarkostnaður við hlutabætur var metinn á allt að 34 ma.kr. eftir framlengingu úrræðisins til áramóta, en matið var mikilli óvissu háð enda var sambærilegt úrræði sem gripið var til í kjölfar fjármálahrunsins mun minna í sniðum. Alls hafa 75 fyrirtæki endurgreitt hlutabætur fyrir samtals 422 m.kr.
Greiðsla launa á uppsagnarfresti
Greiddir hafa verið ríflega 10,5 ma.kr. til atvinnurekenda vegna launa á uppsagnarfresti. Stuðningurinn nemur 85 prósentum af launum starfsmanns, að hámarki 633 þús. kr. á mánuði í þrjá mánuði auk orlofsgreiðslna og lífeyrissjóðsiðgjalda. Úrræðið er enn opið, en almenna reglan er að stuðningurinn nær til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020 og mest í þrjá mánuði.
Stærstur hluti stuðningsins hefur farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Hæstu fjárhæðirnar hafa farið til Icelandair, 3 ma.kr. en auk þess hafa Bláa lónið, Flugleiðahótel og Íslandshótel fengið rúman hálfan milljarð króna hvert.
Upphaflega var gert ráð fyrir að kostnaður vegna úrræðisins yrði 27 ma.kr. Matið var byggt á þeim forsendum að 90% þeirra launþega sem starfa í ferðaþjónustu og tengdum greinum og nýttu hlutastarfaleið stjórnvalda yrði sagt upp og að vinnuveitendur þeirra myndu fá greiðslur á grundvelli úrræðisins. Auk þess var vænst greiðslna til verslunar og þjónustu í samræmi við tekjufall greinarinnar skv. könnun Samtaka atvinnulífsins í apríl.
Alþingi samþykkti 21. október frumvarp meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um að fyrirtæki sem skiluðu ekki umsóknum um greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti á réttum tíma geti fengið slíkan kostnað greiddan, uppfylli þau önnur skilyrði sem sett voru.
Laun í sóttkví
Alls hafa verið greiddar út 260 m.kr. vegna launa í sóttkví en um er að ræða stuðning við atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum eiga ekki við. Hafa tæplega 2.000 manns hjá 823 atvinnurekendum fengið greitt vegna rúmlega 16.000 sóttkvíardaga.
Í áhrifamatskafla frumvarpsins kemur fram að litlar forsendur séu til að leggja mat á fjölda þeirra sem geta átt rétt á greiðslum vegna mikillar óvissu um þróun faraldursins en gert var ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs yrði um 2 ma.kr. vegna þessarar aðgerðar. Nú er hins vegar ljóst að kostnaðurinn verður mun lægri en áður var talið jafnvel þótt tekið sé tillit til framlengingar úrræðisins en hægt verður að sækja um greiðslur til 31. mars 2022 vegna launagreiðslna sem eiga sér stað fyrir lok árs 2021.
Lokunarstyrkir
Lokunarstyrkir og viðbótarlokunarstyrkir að fjárhæð um 1 ma.kr. hafa verið greiddir til eitt þúsund rekstraraðila. Þar af voru rúmlega 600 rekstraraðilar með 1 starfsmann og nam styrkurinn til þeirra um 337 m.kr. Um 2/3 lokunarstyrkjanna fóru til fyrirtækja sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu, svo sem tannlæknastofur og sjúkraþjálfun, og til fyrirtækja í persónulegri þjónustu, eins og hárgreiðslu-, nudd- og snyrtistofa. Krám og skemmtistöðum var gert að loka tvívegis í vor og svo aftur í september og október. Nú þegar hafa verið greiddir út lokunarstyrkir og viðbótarlokunarstyrkir til u.þ.b. 35 kráa og skemmtistaða upp á um 125 m.kr vegna lokananna í vor. Unnið er að framlengingu og útvíkkun úrræðisins en það mun ná til rekstraraðila sem sæta þurfa lokunum eða því að láta af starfsemi eða þjónustu frá 18. september 2020.
Barnabótaauki
Við álagningu 2020 voru auk barnabóta greiddir 3 ma.kr. í sérstakan barnabótaauka. Konur voru 56% þeirra sem fengu greiddan barnabótaauka en 59% af upphæðinni sem greidd var fór til kvenna.
Úttekt séreignarsparnaðar
Alls höfðu 18,8 ma.kr. verið greiddir úr séreignarsparnaði í byrjun október. Meðalgreiðsla til hvers einstaklings hefur verið um hálf milljón króna frá því að greiðslur hófust í apríl. Nú er gert ráð fyrir að samtals 23,5 ma.kr. verði greiddir úr sjóðunum, þ.a. 21 ma.kr. á þessu ári. Í upphafi var reiknað með að umfang þessa úrræðis yrði 10 ma.kr.. Hægt er að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar til áramóta. Umfang þessara úttekta er um 2,5% af heildareignum séreignarsjóða.
Ferðagjöf
170 þúsund einstaklingar hafa sótt ferðagjafir að andvirði 848 m.kr. og 119 þúsund nýtt a.m.k. hluta þeirra að andvirði 574 m.kr. sem er 38% af þeim 1,5 ma.kr. sem úthlutað var í átakinu.
Flestir hafa nýtt gjöfina í gistingu, eða 32%, 28% hafa nýtt hana í veitingar, 27% í afþreyingu og 12% í samgöngur. Hægt er að nýta gjöfina út árið 2020. Ferðagjöfin hefur verið nýtt hjá rúmlega 800 fyrirtækjum.
Skattfrestanir
Fram til 17. október var samtals búið að fresta 19,4 ma.kr. staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds af launum en upphaflega var áætlað að staðgreiðslu upp á allt að 75 ma.kr. árið 2020 gæti verið frestað til 2021.
Úrræðið fólst í upphafi í almennri heimild til frestunar á 50% af staðgreiðslu á gjalddaga í mars 2020. Í framhaldi var úrræðið þrengt og einskorðað við launagreiðendur sem stríða við tímabundna rekstrarörðugleika. Var þeim veitt heimild til að óska eftir frestun á allt að þremur mánaðarlegum greiðslum af níu á gjalddaga í apríl– desember 2020.
Fyrirtæki í flestum greinum hafa fengið frestun skattgreiðslna í einhverjum mæli. Flest fyrirtækja sem nýtt höfðu úrræðið voru smærri fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn. Stærri fyrirtæki eru þó að baki stærstum hluta þeirrar heildarfjárhæðar sem frestað hefur verið. Um 2/3 fyrirtækjanna eru í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
Endurgreiðsla VSK
Auknar heimildir til að endurgreiða VSK hafa leitt til 2.182 m.kr. aukningar miðað við stöðu afgreiddra umsókna 22. október. Alls hafa borist um 8.800 endurgreiðslubeiðnir vegna bílaviðgerða og þar af hafa 6.900 beiðnir verið afgreiddar fyrir 134 m.kr. Vegna íbúðarhúsnæðis hafa um 7.000 umsóknir verið afgreiddar með 100% endurgreiðslu í stað 60% og nemur mismunurinn 1.926 m.kr.
Úrræði |
Fjárhæð, m.kr. |
Íbúðarhúsnæði |
1.926 |
Heimilishjálp og regluleg umhirða heimila |
76 |
Bifreiðaviðgerðir einstaklinga |
134 |
Annað húsnæði sveitarfélaga |
46 |
Alls |
2.182 |
Áætlað hefur verið að endurgreiðslur gætu aukist um 9 ma.kr. vegna framkvæmda á árinu 2020 en einhver hluti þeirrar fjárhæðar mun koma fram í bókhaldi ríkissjóðs síðar þar sem sex ára frestur er gefinn til að skila umsókn um endurgreiðslu. Stefnt er að framlengingu úrræðisins út 2021.
Stuðningslán
Um miðjan október námu veitt stuðnings- og viðbótarstuðningslán 5,9 mö.kr. til 742 rekstraraðila. Óafgreiddar umsóknir voru um 250 fyrir samtals 2,7 ma.kr. á sama tíma. Fyrirtæki í flestum greinum hafa fengið stuðningslán í einhverjum mæli en rúmlega 60% lánanna hafa verið veitt til fyrirtækja í ferðaþjónustu og 8% í smásölu. Stærstur hluti stuðningslána hefur farið til fyrirtækja með færri en 10 starfsmenn, hvort sem litið er til fjárhæðar eða fjölda lána. Í frumvarpi um lánaúrræðið var gert ráð fyrir að stuðningslán gætu orðið allt að 28 ma.kr., en það mat var frekar hugsað sem ytra áhættumat en mat á líklegum kostnaði. Hægt er að veita stuðningslán til áramóta.
Viðbótarlán (brúarlán)
Ráðuneytinu er kunnugt um að viðbótarlán með 70% ábyrgð ríkissjóðs hafi verið veitt til þriggja fyrirtækja. Heildarfjárhæð ábyrgðar ríkissjóðs af þessum lánum er 716 m.kr.. Upphaflega var gert ráð fyrir því að heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána gæti numið frá 35-50 ma.kr. Þegar viðbótarlán voru kynnt til sögunnar var reynt að meta ytri mörk mögulegra ábyrgða. Þá hafði auk þess ekki verið tekin ákvörðun um veitingu stuðningslána, sem hafa líklega svarað a.m.k. hluta þeirrar eftirspurnar sem annars hefði verið eftir viðbótarlánum. Hægt er að veita viðbótarlán til áramóta.