Kynnti sér starfsemi ISAVIA á Keflavíkurflugvelli
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynnti sér starfsemi flugvallarins. Flugstöðin opnaði árið 1987 og var þá 23 þúsund fermetrar að stærð og um hana fóru 750 þúsund farþegar. Í fyllingu tímans hafa umsvif alþjóðaflug aukist verulega og þar með starfsemi á flugvellinum en í ár er gert ráð fyrir að 7.8 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll sem spannar nú hátt í 75 þúsund fermetra að stærð.
Ráðherra fundaði með forsvarsmönnum Isavia og kynnti sér stækkunarframkvæmdir á flugvellinum sem snúa meðal annars að nýju farangursflokkunarkerfi, nýjum komusal með farangursmóttöku fyrir farþega, nýju veitingasvæði auk stærri komuverslun Fríhafnarinnar ásamt nýju landgöngum og hliðum.
„Keflavíkurflugvöllur skiptir miklu mál fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og aðalgáttin til og frá landinu. Sá mikli fjöldi áfangastaða og brottfara er aðdáunarverður í samanburði við marga flugvelli í stærri löndum í kringum okkur. Það er mikilvægt að við hugum að samkeppnishæfi flugvallarins og stuðlum að hann geti stutt við íslenska ferðaþjónustu, atvinnulíf og almenning til framtíðar. Þannig ákváðu stjórnvöld til dæmis að auka hlutafé Isavia um 15 milljarða í heimsfaraldrinum til þess að styðja við uppbyggingu hans. Það er mörg tækifæri fólgin í flugiðnaði hér á landi sem við eigum að nýta,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.