Hoppa yfir valmynd
6. október 2007 Utanríkisráðuneytið

Breytt bandalag - ný staða Íslands

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 109/2007

Utanríkisráðherra flutti framsögu í morgun á þingi þingmannasambands NATO sem fram fer í Reykjavík. Framsagan var haldin samkvæmt þeirri hefð að utanríkisráðherra gestgjafaríkisins ávarpi æðstu nefnd þingsins, stjórnmálanefndina, og svari spurningum.

Ráðherra sagði það sérstakt fagnaðarefni að þingið skuli nú haldið hér á landi í fyrsta sinn einmitt á því ári sem markaði nýtt upphaf í öryggis- og varnarmálum Íslands. Starf þingsins væri til marks um lýðræðislegan grundvöll NATO sem sætti eftirliti þjóðþinga aðildarríkja sinna og almennings í hverju ríki. Þau lýðræðislegu gildi þyrftu ávallt að vera skýr og öllum sýnileg í starfsháttum og skipulagi bandalagsins.

Þá sagði hún að það væri ljúf skylda Íslands að axla nú sjálft ábyrgð á öryggis- og varnarmálum. Þetta bæri upp á umbreytingatíma innan NATO, öryggisumhverfið væri nýtt og hún hefði nýlega rætt þessar nýju aðstæður ítarlega við framkvæmdastjóra NATO og fleiri í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. Í stað kyrrstæðs varnarviðbúnaðar kalda stríðs tímans væru allir sammála um að nú væru pólitísk samskipti og frumkvæði mikilvægari en nokkru sinni fyrr, hvort sem um er að ræða hefðbundna hættu eða nýjar s.s. af völdum loftslagsbreytinga. Við þessu þyrftu öll ríki að bregðast í sinni utanríkisstefnu, öryggishugtakið væri breytt. Gat ráðherra þess að í þessu ljósi væri framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hluti af utanríkisstefnunni í heild.

Utanríkisráðherra rakti nýskipan varnarmála á Íslandi í fjórum liðum, þ.e. grannríkjasamstarf við Noreg, Danmörku og fleiri ríki, samþættingu íslenska loftvarnarkerfisins við sameiginlegt loftvarnarkerfi NATO, umbreytt öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli með búnaði og aðstöðu sem NATO þjóðir geti nýtt og skipti á upplýsingum milli bandalagsríkja m.a. með loftvarnarkerfinu.

Ráðherra vék að þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum og að framlag Íslands þar yrðu borgaraleg verkefni í endurreisnarskyni. Hún lagði mikla áherslu á að reynslan í Afganistan sýndi nauðsyn hins borgaralega þáttar í friðaruppbyggingu en forsenda árangurs væri stuðningur almennings í hverju landi.

Að lokinni framsögunni svaraði utanríkisráðherra spurningum þingfulltrúa m.a. um grannríkjasamstarfið, um gildi borgaralegs framlags til friðargæsluverkefna innan NATO, um samstarf Íslands við Evrópusambandið, um Mið-Austurlönd og um útrás íslenskra fjármálafyrirtækja.

Ræða utanríkisráðherra

 

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 6. október 2007



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta