Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 589/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 589/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21100002

 

Beiðni um endurupptöku í máli

[...]

og barns

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21070031, dags. 22. september 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2021, um að taka umsóknir einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), og barns hans, [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir A) um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu.

    Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 27. september 2021. Þann 29. september 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Þann 1. október 2021 lagði kærandi fram endurupptöku málsins. Þá bárust frekari upplýsingar frá kæranda þann 4. nóvember 2021.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telur að að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum, auk þess sem aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Í greinargerð kæranda kemur fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki sannað með óyggjandi hætti að hann væri tengdur aðila hér á landi fjölskylduböndum né að hann eigi raunveruleg og sérstök tengsl við hann. Ljóst sé að ákvörðun stjórnvalda hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum vegna mistaka þáverandi talsmanns kæranda um að afla nauðsynlegra gagna og gera kröfu um að mál þeirra yrði tekið til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra tengsla kæranda og A við landið. Kærandi hafi nú lagt fram gögn sem varpi ljósi á að hann eigi sannanlega bróður hér á landi sem hafi heimild til dvalar auk þess sem gögnin sanni að raunveruleg og náin tengsl séu á milli þeirra. Kærandi telur að skilyrðin fyrir því að taka mál hans og A til efnismeðferðar hér á landi vegna sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 vera uppfyllt.

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi komið fram að kærandi hafi ekki sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hafi stofnunin talið að virtri frásögn kæranda að hann ætti ættingja sem hafi löglega heimild til dvalar í viðtökuríki og ekkert bendi til þess að tengsl hans við Ísland séu sterkari en tengsl hans við Grikkland. Útlendingastofnun hafi vísað til þess að bróðir kæranda og fjölskylda hans væru handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi auk þess sem kærandi ætti þar annan bróður. Kærandi byggir á því að framangreindar forsendur hafi breyst umtalsvert sem réttlæti það að mál hans og A verði endurupptekið á grundvelli þess að atvik hafi breyst verulega.

    Þann 12. júní 2021 hafi annar bróðir kæranda og mágkona lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. Í málum þeirra hafi sömu gögn  verið lögð fram sem hafi fært sönnur á að bræður kæranda eigi sannanlega bróður hér á landi sem hafi heimild til dvalar hér á landi auk þess sem gögnin hafi sannað að raunveruleg og náin tengsl séu á milli þeirra. Þá hafi talsmanni kæranda borist tilkynning þann 23. september 2021 þess efnis að umsóknir framangreindra aðila hafi verið teknar til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vekur kærandi athygli á því að framangreindir aðilar séu allir frá Gaza svæðinu í Palestínu en íslensk stjórnvöld hafi hingað til ekki sent umsækjendur um alþjóðlega vernd þangað enda meti stjórnvöld hér á landi almennt öryggisástand í ríkinu vera ótryggt. Kærandi vísar til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU18040005 og KNU18040006 frá 28. júní 2018 þar sem nefndin komst að því að taka bæri umsóknir fullorðinna systkina til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla. Kærandi vísar til þess að samkvæmt framangreindu eigi hann ekki fjölskyldu í Grikklandi og tengsl hans við Ísland séu talsvert sterkari en tengsl hans við Grikkland. Kærandi byggir á því að hann hafi átt í góðum og reglulegum samskiptum við bróður sinn fyrir komuna til Íslands sem og eftir komuna til Íslands. Kærandi telur að skilyrðin fyrir því að taka mál hans og A til efnismeðferðar hér á landi vegna sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga vera uppfyllt.

    Þá byggir kærandi á því að taka skuli mál hans og A til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Verði ekki fallist á það af hálfu íslenskra stjórnvalda telur kærandi að endursending þeirra til Grikklands jafngildi broti á grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við endursendingum (non-refoulement). Vísar kærandi til fyrri greinargerðar sinnar til kærunefndar, dags. 27. júlí 2021, um frekari rökstuðning fyrir framangreindum kröfum.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku á því að taka eigi umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á þeim grundvelli að hann hafi sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að hann eigi bróður hér á landi sem hafi heimild til dvalar auk þess sem framlögð gögn sanni að raunveruleg og náin tengsl séu á milli þeirra.

Við túlkun ákvæða 36. gr. laga um útlendinga tekur kærunefnd fram að hin almenna regla sem kemur fram í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er sú að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar. Ef skilyrði a- til c-liðar eru fyrir hendi er heimilt að víkja frá þeirri meginreglu og synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Þó skal taka umsókn til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Í athugasemdum sem fylgdu 36. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um útlendinga, kemur fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í framkvæmd kærunefndar hefur verið lagt til grundvallar að umsókn geti verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laganna vegna heildstæðs mats á þeim atriðum sem fallið geta undir sérstök tengsl og sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins hefur kærunefnd litið til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og lagt til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdir í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjenda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða.

Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi. Kærunefnd telur að leggja skuli til grundvallar að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli þess að

Í ljósi alls framangreinds telur kærunefnd að leggja skuli til grundvallar að ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl verði beitt á þann veg að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, þá verði umsóknin tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið. Sé talið að um ættingja sé að ræða verður því að leggja mat á hversu rík tengsl eru á milli ættingjanna hér á landi.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun dagana 14. og 15. apríl 2021 eiga bróður hér á landi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2021, kemur fram að kærandi hafi ekki með óyggjandi hætti sannað að hann sé tengdur aðila hér á landi fjölskylduböndum né að hann eigi raunveruleg og sérstök tengsl við hann. Þá taldi Útlendingastofnun að virtri frásögn kæranda að hann ætti ættingja með löglega heimild til dvalar í Grikklandi. Var því talið að ekkert benti til þess að tengsl hans við Ísland væru sterkari en tengsl hans við Grikkland. Í úrskurði kærunefndar, dags. 22. september 2021, kom fram að í greinargerð kæranda til kærunefndar hafi ekki verið byggt á sérstökum tengslum og engin athugasemd verið gerð við framangreint mat Útlendingastofnunar. Kærunefnd taldi því ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar. Þá tók kærunefnd fram að kæranda hafi ítrekað verið leiðbeint um framlagningu gagna hjá Útlendingastofnun til að sanna tengsl sín við þann aðila sem hann hafi haldið fram að sé bróðir sinn.

Kærandi hefur nú lagt fram fæðingarvottorð sitt og bróður síns frá heimaríki auk þess kærandi hefur lagt fram fjölda mynda af sér og bróður sínum auk samskipta milli hans og bróður síns. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann og bróðir hans hafi átt í miklum og góðum samskiptum fyrir komuna til Íslands og hér á landi.

Kærunefnd hefur lagt mat á þau gögn sem kærandi hefur lagt fram og telur þau trúverðug varðandi tengsl bræðranna. Þá liggur einnig fyrir að tveir aðrir bræður kæranda hafi lagt fram sömu gögn og kærandi sem sanni tengsl þeirra við bróður þeirra á Íslandi. Með tölvubréfi kærunefndar til Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2021, var óskað eftir upplýsingum um það hvort mál bræðra kæranda hefðu verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við fyrrnefndan bróður. Í svari frá Útlendingastofnun sem barst kærunefnd þann sama dag, kom fram að mál bræðra kæranda hefðu verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli framlagðra gagna svo sem fæðingarvottorða, ljósmynda og skjáskota af samtölum þeirra við bróður þeirra sem búsettur er hér á landi. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á, með trúverðugum gögnum, að hann hafi raunveruleg og sérstök tengsl við bróður sinn hér á landi.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kærunefndar eru skilyrði 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt og ber því að taka umsókn kæranda og A um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og A um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Sandra Hlíf Ocares


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta