Mál nr. 520/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 520/2021
Fimmtudaginn 24. febrúar 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 6. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða honum ekki atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. október 2021 vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um að greiða honum ekki atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 11. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Svar barst frá Vinnumálastofnun 13. desember 2021 þar sem fram kom að kæruefni málsins væri það sama og í máli kæranda nr. 461/2021 sem væri til meðferðar hjá nefndinni. Þann 16. desember 2021 var úrskurðað í því máli þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði var felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
Með erindi, dags. 17. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá kæranda um hvort kæran frá 6. október 2021 lyti að sama ágreiningsefni og fjallað var um í máli nr. 461/2021 eða hvort fyrir lægi önnur kæranleg ákvörðun. Svar barst ekki. Erindi úrskurðarnefndarinnar var ítrekað 8. febrúar 2022 en ekkert svar barst.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Af kæru má ráða að kærandi sé ósáttur við ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði. Ljóst er að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur þegar úrskurðað um það ágreiningsefni. Að því virtu og með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir