Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2024

Norsk skýrsla um þróun EES-samningsins og skýrsla Enrico Letta um framtíð innri markaðarins

Að þessu sinni er fjallað um:

  • nýja norska skýrslu um þróun EES-samningsins og reynslu Norðmanna
  • fund leiðtogaráðs ESB og skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins
  • samkomulag um stofnun samevrópsks gagnagrunns á heilbrigðissviði
  • tillögu um bætt starfsskilyrði starfsnema
  • aðgerðaáætlun til að bregðast við skorti á hæfu vinnuafli
  • samkomulag um nýjan tækniþróunarvettvang

Norsk skýrsla um þróun EES-samningsins og reynslu Norðmanna

Með ákvörðun ríkisstjórnar Noregs 6. maí 2022 var sérstök nefnd sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila í norsku atvinnulífi skipuð til að rannsaka og leggja mat á þróun og reynslu Norðmanna af EES-samningnum síðastliðin 10 ár og jafnframt af öðrum þýðingarmiklum samningum sem Noregur hefur gert við ESB á umliðnum árum. Verkefni nefndarinnar var jafnframt að veita norskum stjórnvöldum ráðleggingar um hvernig best verði staðinn vörður um norska hagsmuni í samskiptum og í samstarfi við ESB, m.a. á grundvelli EES-samningsins.

Þann 11. apríl sl. lauk nefndin starfi sínu með skilum á skýrslu til utanríkisráðherra Noregs (NOU 2024:7). Skýrslan er einskonar framhald af sambærilegri skýrslu sem gefin var út í janúar 2012 (NOU 2012:2). Skýrslan er umfangsmikil, tæpar 350 blaðsíður, auk fylgiskjala, og er efni hennar skipt í 15 meginkafla sem eru eftirfarandi:

  1. Meginniðurstöður, hugleiðingar og ráðleggingar nefndarinnar
  2. Skipun nefndarinnar og verkefni
  3. ESB og staðan á alþjóðavettvangi: Erfiður áratugur að baki
  4. Samstarf Noregs við ESB síðastliðinn áratug, 2012 – 2023
  5. Rekstur og framkvæmd EES-samningsins
  6. Svigrúm til þátttöku, áhrifa og aðlögunar
  7. Lýðræðis- og réttindamál
  8. Loftslags- og umhverfismál
  9. Orkupólitík
  10. Áhrif á norskt efnahagslíf
  11. Atvinnu- og viðskiptamál
  12. Vinnumarkaðsmál
  13. Viðbragðs- og krísustjórnun innan ESB og EES
  14. Utanríkis-, öryggis- og varnarmál
  15. Samningar sem önnur ríki hafa náð: Sviss, Bretland og Kanada

Hér á eftir er í stuttu máli gerð nánari grein fyrir helstu niðurstöðum og ráðleggingum nefndarinnar til stjórnvalda.

Almennar niðurstöður og þróun EES-samstarfsins

Rakið er hvernig ESB hefur þróast á umliðnum árum í takt við breytta heimsmynd. Þannig hafi áherslan færst yfir á þá efnahagslegu áhættuþætti sem felast í því að starfrækja opið markaðshagkerfi. Áherslan sé nú á að tryggja efnahagslegt öryggi og það sem nefnt hefur verið opið strategískt sjálfræði ESB, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins. Skýrt er tekið af skarið um að EES-samningurinn sé langmikilvægasti og yfirgripsmesti alþjóðasamningur Noregs. Hann verði hins vegar auknum mæli að skoða í samhengi við aðra samstarfssamninga Noregs við ESB. Í þessu samhengi er bent á að stefnumótun og löggjöf af hálfu ESB snúi nú í auknum mæli jafnt að almennri reglusetningu á innri markaðinum og að því að takast á við breytta öryggis- og viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum annars vegar og til að bregðast við áskorunum á sviði loftslags- og umhverfismála hins vegar. Tekið er fram að þessi þróun hafi og muni áfram leiða til áskorana við rekstur og framkvæmd EES-samningsins. Gagnrýnt er í skýrslunni að umræða um EES-málefni sé oft á tíðum afmörkuð við þröngan hóp sérfræðinga, enda þótt eðli málanna séu með þeim hætti að þau kalli á víðtækari pólitíska og samfélagslega umræðu. Er skýrslunni m.a. ætlað að gagnast sem uppfærður þekkingargagnagrunnur fyrir slíka umræðu.

Að mati nefndarinnar hefur EES-samningurinn hingað til reynst nægjanlega sveigjanlegur til að halda í við þróun regluverks ESB og að hann veiti norskum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra réttindi sem eru umtalsvert betri en unnt væri að ná fram með hefðbundnum viðskiptasamningi.

Tekið er fram að það sem á við Noreg í umfjöllun um EES-samninginn í skýrslunni eigi einnig almennt jafnt við um önnur EES/EFTA-ríki, þ.e. um Ísland og Liechtenstein, enda þótt skýrsluhöfundar leyfi sér einungis, eðli málsins samkvæmt, að vísa til Noregs í umfjöllun sinni.

Stjórnsýsla og framkvæmd EES-samningsins

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til norskra stjórnvalda er kemur að stjórnsýslu og framkvæmd EES-samningsins:

  • Að Noregur leggi sitt að mörkum til að draga úr svonefndum upptökuhalla, þ.e. að stytta lista þeirra ESB-gerða sem bíða þess að verða teknar upp í EES-samninginn. Í því samhengi er nefnt að samningsaðilar, þ.e. ESB og EES/EFTA-ríkin, ættu að koma sér saman um almennar viðmiðunarreglur er kemur að aðlögun gerða að tveggja stoða kerfi EES-samningsins, t.d. með uppfærslu á bókun 1 við EES-samninginn.
  • Að í þeim tilvikum þar sem sjálfstæðum stjórnsýslustofnunum ESB er falið vald til að taka bindandi ákvarðanir beri jafnframt að veita Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sambærilegar valdheimildir í samræmi við tveggja stoða kerfið.
  • Að huga þurfi að úrræðum ESA vegna nýrra verkefna og aukins málafjölda.
  • Að samráð við ESA verði eflt þannig að stofnunin sé sem best upplýst um stöðu mála í Noregi á hverjum tíma.
  • Að vísbendingar séu um að styrkja þurfi EFTA-dómstólinn vegna aukins umfangs og flóknari mála.
  • Að meira þurfi að gera, að mati nefndarinnar, til viðhalda og þróa áfram sérþekkingu á EES-rétti í stjórnsýslu Noregs á öllum stjórnsýslustigum.
  • Að nýta þurfi betur tækifæri til að senda norska sérfræðinga til starfa hjá framkvæmdarstjórn ESB og fjölga þeim málefnasviðum innan framkvæmdastjórnarinnar sem sérfræðingar eru sendir til að starfa við og jafnframt að umræddir sérfræðingar séu hluti af langtímaáætlun stjórnvalda til að styrkja þekkingu á ESB innan norsku stjórnsýslunnar.

Svigrúm til þátttöku, áhrifa og aðlögunar

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til norskra stjórnvalda er kemur að svigrúmi til þátttöku, áhrifa og aðlögunar við mótun ESB-gerða, upptöku þeirra í EES-samninginn og framkvæmd þeirra:

  • Að aðkoma hagsmunaaðila á mótunarstigi gerða verði aukin.
  • Að Noregur auki þekkingu sína á því hvernig önnur ríki innleiða reglur ESB og að metið verði hvort taka eigi upp kerfisbundna athugun á því hvernig nágrannaríki innleiða reglur líkt og gert er í Danmörku.
  • Að norsk stjórnvöld nýti sér tækifæri sem gefast til að taka þátt í dómsmálum fyrir EFTA-dómstólnum og Evrópudómstólnum í málum sem varða norska hagsmuni.
  • Að í þeim tilvikum sem stjórnvöld leggi til grundvallar óvissa túlkun um efni EES-reglna beri þeim að upplýsa að svo sé og að leggja sitt af mörkum til að túlkunin sé staðfest eða skýrð af dómstólum þegar tækifæri gefst til.
  • Þá er í skýrslunni fjallað almennt um möguleikana til að hafa áhrif á efni EES-löggjafar á mótunarstigi þeirra og við upptöku þeirra í EES-samninginn.

Lýðræðis- og réttindamál

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði lýðræðis- og réttindamála:

  • Að þess verði betur gætt við innleiðingu EES-gerða í norska löggjöf að það sé gert með lögum frá Stórþinginu þegar efnisinnihald viðkomandi gerða hefðu, undir hefðbundnum kringumstæðum, kallað á aðkomu þingsins.
  • Að skoðaðar verði breytingar á stjórnarskrá í tengslum við stjórnskipulega málsmeðferð við samþykkt Stórþingsins á EES-reglum sem fela í sér framsal eftirlitsvalds til ESA eða sjálfstæðra stofnana ESB.
  • Að árlega verði gefin út hvítbók, til framlagningar á Stórþinginu, um þróun stefnumótunar á vettvangi ESB og um málefni sem eru til umfjöllunar eða væntanleg.
  • Að þýðingum á EES-gerðum verði  flýtt og að formleg þýðing gerðar skuli liggja fyrir eigi síðar en þegar norsk löggjöf til innleiðingar er birt. Jafnframt að kannaðir verði möguleikar á því að fá norskar þýðingar á gerðum birtar í stafrænum lagagagnagrunni ESB, EUR-Lex.
  • Að leitast verði við að tryggja aðgang fulltrúa sveitarfélaga snemma í ferlinu.
  • Að norska EES-upplýsingakerfið verði endurskoðað og einfaldað.
  • Að fræðsla um ESB og EES verði stærri hluti af námsskrá grunn- og framhaldsskóla.

Umhverfis- og loftslagsmál

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði umhverfis- og loftlagsmála:

  • Að grípa þurfi til aukinna ráðstafana til að draga úr kolefnislosun í Noregi til ná loftslagsmarkmiðum sem samið hafi verið um við ESB, en fram kemur í skýrslunni að Noregur hafi með kaupum á losunarheimildum frá öðrum löndum, meðal annars í gegnum viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, gert kleift að fresta samdrætti í losun „heima fyrir“.
  • Að dregið verði úr upptökuhalla gerða á sviði grænna umskipta.
  • Að viðhalda skuli loftslagssamstarfi við ESB m.a. með stefnumótun til ársins 2050. (Einn nefndarmaður skilaði séráliti um þetta atriði.)

Orkumál

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði orkumála:

  • Að gerð verði gangskör að því að komast að niðurstöðu um hvort útistandandi ESB-gerðir á sviði orkumála falli undir EES-samninginn og að dregið verði úr upptökuhalla vegna þeirra gerða sem undir samninginn falla.
  • Að það þjóni hagsmunum Noregs að til staðar sé virkur evrópskur orkumarkaður og að því beri að styðja við aðgerðir ESB til að koma slíkum markaði á og viðhalda honum.
  • Að svigrúm sem er til staðar innan EES-samningsins og EES-reglna beri að nýta til að styðja við heimili og til að tryggja framboð orku.
  • Að stjórnvöld eigi með virkum hætti að taka þátt í umræðu á vettvangi ESB um nauðsyn þess að styðja við iðnað og atvinnulíf til að tryggja að lausnirnar tryggi samkeppnishæfni Noregs og aðfanga- og afhendingaröryggi orku.
  • Að tryggja beri breiðari aðkomu ólíkra hagsmunaaðila að vinnu er varðar EES-gerðir á orkusviðinu.

Áhrif á norskt efnahagslíf

Í umfjöllun nefndarinnar um áhrif af þátttöku á innri markaðnum fyrir norskt efnahagslíf  er vísað til fyrri úttekta og þeirrar niðurstöðu að áhrif EES-samningsins á norskt efnahagslíf séu jákvæð. Þá nálgast nefndin álitaefnið með því að reifa hvaða áhrif það kynni að hafa ef Noregur segði sig frá samningnum og lítur til reynslu Bretlands (Brexit) í þeim efnum.

Atvinnu- og viðskiptamál (n. Næringspolitikk)

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði atvinnulífs og viðskiptamála:

  • Að leggja beri EES-samninginn, í eins ríkum mæli og unnt er, til grundvallar við frekari þróun samstarfs við ESB á sviði viðskiptamála.
  • Að forgangsraða skuli samtalinu við ESA um áframhaldandi samþykki fyrir því að heimilt verði að leggja á svonefnt sérstakt tryggingagjald í N-Noregi, en það gjald er lægra en almenna tryggingagjaldið.
  • Að stjórnvöld séu sérstaklega á varðbergi gagnvart breytingum á löggjöf ESB sem ekki fellur undir EES-samninginn en kann eftir sem áður að hafa áhrif á samkeppnishæfni á innri markaðnum.
  • Að stjórnvöld fylgist með stuðningsaðgerðum ESB fyrir atvinnulíf og meti afleiðingar þeirra fyrir norskt atvinnulíf og hvort og þá að hvaða marki sé tilefni til að grípa til mótvægisaðgerða.
  • Að aukin þverlæg reglusetning af hálfu ESB geri það mikilvægara að stjórnvöld hugi vel að aðkomu allra viðkomandi hagaðila að meðferð gerða af því tagi í hverju tilviki.
  • Að tryggja beri þátttöku Noregs í viðeigandi samstarfsáætlunum á vettvangi ESB og nýta sem best þá stuðningsmöguleika sem í þeim felast og eru opnir fyrir norskt atvinnulíf og nýsköpunar- og rannsóknaraðila.
  • Að fylgja beri sömu ferlum og reglum og gilda um aðildarríki ESB er kemur að eftirliti með fjárfestingum og óska eftir nánu samstarfi við ESB um framkvæmdina.
  • Að tryggja verði, með hliðsjón af samkeppnishæfni, að lagarammi norsks atvinnulífs og úrræði séu í samræmi við það sem gildir um atvinnulíf innan ESB.

Vinnumarkaður

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði vinnumarkaðsmála:

  • Að móta beri skýra stefnu er kemur að því að tryggja nauðsynlegt framboð vinnuafls frá EES-svæðinu til lengri tíma en á sama tíma styðja við aðgerðir til að byggja upp hæft vinnuafl innanlands.
  • Að skipulag á vinnumarkaði sé tryggt og að gripið sé til aðgerða til að berjast gegn lögbrotum og félagslegum undirboðum reynist þess þörf.
  • Að svigrúm innan regluverks sé nýtt til að tryggja framangreint.
  • Að sérstökum áskorunum innan samgöngugeirans verði mætt með skýru regluverki og skýrri framkvæmd stjórnvalda við eftirlit og framkvæmd reglna.
  • Að norsk stjórnvöld verði að beita sér snemma í löggjafarferlinu innan ESB er kemur að mótun löggjafar á sviði vinnumarkaðar og draga lærdóm af lausnum einstakra aðildarríkja.
  • Að styrkja þurfi samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á sviði EES-mála.

Viðbragðs- og krísustjórnun innan ESB og EES

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði viðbragðs- og krísustjórnunar:

  • Að Norðmenn leggi áherslu á víðtækari öryggispólitíska þýðingu samstarfs á sviði viðbúnaðar og krísustjórnunar í því skyni að standa vörð um traust og samstöðu milli landanna og til að efla almennt samfélagslegt öryggi í álfunni.
  • Að vinna beri að því að fá eins góðan aðgang og mögulegt er að fundum og upplýsingaskiptum innan ESB vegna krísuviðbúnaðar og hægt er eins og t.d. á vettvangi EU's Integrated political crisis response (IPCR) og á óformlegum ráðherrafundum á vettvangi ráðherraráðs ESB, þar sem EES-samningurinn veitir ekki samningsbundinn rétt til þátttöku.
  • Að styrkja beri samstarf á þessu sviði alþjóðlega, á milli Norðurlandanna og við ESB.

Utanríkis-, öryggis- og varnarmál

Nefndin beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnvalda á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála:

  • Að halda beri áfram að leita eftir nánu samstarfi við ESB á þessum sviðum.
  • Að Noregur skuli leitast eftir aðild að nýjum samstarfsáætlunum og aðgerðum ESB á þessum sviðum þegar þær falla utan gildissviðs EES-samningsins.
  • Að stjórnvöld fylgi eftir hugmyndum ESB um strategískt samstarf með það að markmiði að skýra nánar hvernig unnt er að útfæra slíkt samstarf.
  • Af hálfu nefndarinnar er lögð áhersla á alvarleika þeirrar stöðu sem upp er komin í öryggis- og varnarmálum. Meirihluti nefndarinnar leggur áherslu á, að til viðbótar við þátttöku Noregs í NATO, eigi að leggja aukna áherslu á að efla samstarf við ESB og aðildarríki þess á þessum sviðum til að tryggja öryggi.

Reynsla annarra ríkja: Sviss, Bretland og Kanada.

Nefndin skoðaði sérstaklega tvíhliða samninga sem ESB hefur gert við Sviss, Bretland og Kanada og er það niðurstaða nefndarinnar að þeir samningar séu þrengri að efni og umfangi og veiti lakari markaðsaðgang en EES-samningurinn. Er það einróma niðurstaða nefndarinnar að EES-samningurinn þjóni þörfum Noregs betur en slíkir tvíhliða samningar.

Fundur leiðtogaráðs ESB og skýrsla Enrico Letta um framtíð innri markaðarins

Leiðtogaráð ESB kom saman til tveggja daga fundar í vikunni, 17. og 18. apríl.

Stuðningur við Úkraínu, staða mála í Austurlöndum nær og samskipti ESB við Tyrkland voru til umfjöllunar á fyrri fundardeginum. Þá var upplýsingaóreiða í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins og erlend íhlutun á því sviði einnig til umræðu. 

Á síðari fundardegi ráðsins var blásið til sérstakrar umræðu um samkeppnishæfni og innri markaðinn, hvernig styrkja megi efnahaginn, framleiðslustarfsemi, iðnað, tæknigetu og fjármagnsmarkaði í ESB. Einnig voru tækifæri sem tengjast markmiðum um kolefnishlutleysi, stafvæðingu og eflingu hringrásarhagkerfisins til umræðu auk þess sem sérstaklega var rætt um samkeppnishæfni, sjálfbærni og viðnámsþrótt í landbúnaði.

Á fundinum kynnti Enrico Letta, forseti Jacques Delors stofnunarinnar og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, skýrslu um framtíð innri markaðarins sem beðið hefur verið eftir með nokkurri eftirvæntingu. Skýrslan var unnin að beiðni leiðtogaráðsins og hefur verið í smíðum frá því í september í fyrra. Við gerð skýrslurnar var haft víðtækt samráð og sótti Enrico Letta m.a. yfir 400 fundi í 65 borgum í ESB til að undirbúa skýrsluna og hlusta eftir sjónarmiðum, þar á meðal á fundi með forsætisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna í Brussel 22. Mars sl. og á fundi sameiginlegu þingmannanefndar EES sem haldinn var í Strasbourg 28. febrúar sl., sbr. umfjöllun um þann fund í Vaktinni 1. mars sl., sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 16. febrúar sl. um óformlegan ráðherrafund ESB um samkeppnishæfni og framtíð innri markaðarins.

Skýrslan sem ber heitið, Much more than a market, er víðfeðm að efni til og þar er settur fram fjöldi tillagna sem miða að því að efla innri markaðinn og auka samkeppnishæfni hans gagnvart helstu keppinautum á heimsvísu, s.s.  Bandaríkjunum og Kína í ljósi efnahagslegra áskorana og þróunar sem orðið hefur á alþjóðavettvangi.

Sú tillaga sem fyrsta kastið hefur e.t.v. vakið hvað mesta athygli er að koma þurfi á fót sérstöku miðlægu ríkisaðstoðarkerfi á vettvangi ESB. Slíkt kerfi er að mati Letta nauðsynlegt til að tryggja samkeppnishæfa iðnaðarstefnu og til að ná fram strategískum markmiðum ESB. Til að koma á fót slíku kerfi þarf hins vegar pólitíska sátt og nægilegt fjármagn frá aðildarríkjunum. Umfang ríkisaðstoðar hefur verið í brennidepli umræðu á vettvangi ESB um nokkurt skeið enda verja tvö stærstu aðildarríkin, Frakkland og Þýskaland, töluverðum fjárhæðum, í skjóli ákvarðana um tímabundna rýmkun á reglum um ríkisaðstoð, til að styrkja innlendan iðnað. Minni aðildarríki sem ekki eru eins megnug hafa á móti lagt áherslu á að stigið sé varlega til jarðar þegar kemur að tilslökunum á reglum um ríkisaðstoð enda geti slíkt leitt til uppskiptingar á innri markaðnum og röskunar á heilbrigðri samkeppni innan hans. Er framangreind tillaga Letta einmitt hugsuð til að jafna þennan aðstöðumun á milli aðildarríkjanna og forðast röskun á innri markaðnum en um leið að tryggja að unnt sé að veita evrópskum iðnaði og atvinnustarfsemi, í samræmi við stefnumörkun ESB á hverjum tíma, þann stuðning sem nauðsynlegur er talinn til að standast alþjóðlega samkeppni frá hinum stóru viðskiptablokkunum.

Í skýrslunni er bent á að fjármögnun verkefna af hálfu einkageirans sé nauðsynleg til að ná strategískum markmiðum um græn og stafræn umskipti og til að auka getu á sviði varnarmála. Mikilvægt sé að gera nauðsynlegar breytingar til að koma á virkum sameiginlegum fjármagnsmarkaði til að miðla fjármagni með betra móti frá einkaaðilum í mikilvægar fjárfestingar á innri markaðinum. Unnið hefur verið að umbótum á regluverki til uppbyggingar á sameiginlegum fjármagnsmarkaði (Capital markets union) um árabil en mörgum þyki þó lítið hafa áunnist, sem skýrist af því að ríki ESB hafa ólíka sýn á það og hvað þurfi til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Vegast þar á sjónarmið um aukna samvinnu aðildarríkja ESB til að ná sameiginlegum mikilvægum markmiðum annars vegar og hins vegar rótgróin sjónarmið um sjálfstæði og fullveldi ríkjanna er kemur að ríkisfjármálum, útgáfu ríkisskuldabréfa, tekjustofnum og samræmingu skattareglna innan sambandsins. Sjá nánari umfjöllun um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar í ESB í Vaktinni 15. mars sl.

Í skýrslunni er áhersla lögð á fjórfrelsið sem er megin inntak innri markaðar ESB, þ.e. frjálst flæði vöru, vinnuafls, þjónustu og fjármagns, en það hefur reynst viðvarandi verkefni, á þeim 30 árum sem liðin eru frá því að stofnað var til hans, að hrinda hindrunum á þessum sviðum úr vegi. Til dæmis er bent á að fjarskiptamarkaðurinn sé enn nokkuð sundurskiptur og landsbundinn innan ESB og að þörf sé á að leyfa í auknum mæli samruna fjarskiptafyrirtækja til að þau standist alþjóðlega samkeppni, sbr. einnig framangreindra umfjöllun um hindranir í vegi uppbyggingar á virkum sameiginlegum fjármagnsmarkaði.

Ein af tillögum skýrslunnar gengur út á að komið verði á fót fimmta „frelsinu“ til viðbótar við framangreint fjórfrelsi, sem taki til rannsókna, nýsköpunar og menntunar á innri markaðinum.

Annað sem vekur athygli í skýrslunni, við fyrstu rýni, er að kallað er eftir ýmsum umbótum á sviði samgangna. Má þar helst nefna tillögu um samevrópskt háhraðajárnbrautakerfi sem tengi allar höfuðborgir og stærri borgir innan ESB saman. Slíkt kerfi myndi umbylta ferðalögum innan ESB og verða aflvaki fyrir frekari samþættingu innan ESB. 

Fjöldi annarra tillagna er að finna í skýrslunni og er leiðtogaráðið hvatt til þess að hafa skýrsluna til hliðsjónar við mótun stefnu til framtíðar, sbr. yfirstandandi vinnu við nýja fimm ára stefnumörkun leiðtogaráðs ESB (e. EU strategic agenda 2024 – 2029) sem nú er unnið að og gert er ráð fyrir að leiðtogaráðið samþykki í kjölfar Evrópuþingskosninganna í júní nk., sbr. umfjöllun í Vaktinni 13. október sl. um fund ráðsins sem haldinn var í Granada á Spáni.

Við gerð skýrslunnar komu Ísland, Noregur og Liechtenstein á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þátttöku ríkjanna á innri markaði ESB á grundvelli EES-samningsins. Athugasemdum var komið á framfæri bæði sameiginlega af hálfu EES/EFTA-ríkjanna auk þess sem Noregur og Ísland komu hvort um sig athugasemdum á framfæri.

Í lokakafla skýrslunnar sérstaklega vikið að þátttöku EES/EFTA-ríkjanna á innri markaðinum og að mikilvægi þeirra er kemur að efnahagslegu öryggi, viðnámsþrótti og samkeppnishæfni innri markaðarins. Þá er sú ályktun dregin, að þátttaka EES/EFTA ríkjanna á innri markaðnum á grundvelli EES-samningsins, árétti kosti markaðarins og mikilvægi hans á alþjóðavísu.

Þá er athyglivert að í skýrslunni er gerð grein fyrir að EES-samningurinn taki almennt ekki til viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum, öryggisstefnu eða iðnaðarstefnu á vettvangi ESB en það eru einmitt þau málefnasvið sem hafa verið í mikilli þróun hjá ESB að undanförnu vegna þeirra alþjóðlegu áskorana sem uppi eru, sbr. meðal annars umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. þar sem fjallað er um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins. Áréttað er í skýrslunni mikilvægi þess að tryggja að þróunin í þessa veru verði ekki, að ófyrirsynju til þess að skapa viðskiptahindranir á innri markaðinum. Þannig er lögð áhersla á að halda uppi samtali við EES/EFTA-ríkin um áframhaldandi þróun samstarfsins til að tryggja ekki brotni uppúr þátttöku þeirra í innri markaðinum.

Í lok fundar leiðtogaráðsins í gær ályktaði ráðið meðal annars um nýjan sáttmála ESB um samkeppnishæfni (e. New European Competitiveness deal) sem tryggja eigi langtíma samkeppnishæfni, velmegun og strategískt sjálfræði ESB. Af ályktuninni er ljóst að ESB mun áfram styðjast við heildstæða nálgun á öllum málefnasviðum til að ná markmiðum um aukna framleiðni, sjálfbæran vöxt og nýsköpun samtímis því að styðja við félagslega og efnahagslega stefnu ESB. Stefnt skuli að því að dýpka innri markaðinn, aflétta hindrunum, stuðla að heilbrigðri samkeppni og bæta frjálst flæði vöru, þjónustu og fjármagns. Þá verði áfram unnið að því að koma á fót skilvirkum og aðgengilegum sameiginlegum fjármagnsmarkaði sem stuðli að fjárfestingum með skilvirkari hætti en nú er. Enn fremur er gert ráð fyrir frekari stuðningi og þróun iðnaðarstefnu ESB til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og samkeppnishæfni ESB á sviði tæknimála.

Í ályktunum ráðsins er jafnframt m.a. vikið að stuðningi við framleiðslu hreinnar orku og fjárfestingum í orkuinnviðum til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi. Stefnt skuli að því að styrkja rannsóknir og nýsköpun, hringrásarhagkerfið og stafrænu umskiptin. Einnig verði lögð áhersla á að bæta og einfalda regluverk ESB í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og endurskoða reglur sem ná ekki tilsettum árangri. Þá verði ráðist í aðgerðir á vinnumarkaði til að stuðla að aukinni færni vinnuafls, auknum hreyfanleika og atvinnuþátttöku. Enn fremur skuli ráðast í aðgerðir til að styðja við samkeppnishæfni, sjálfbærni og viðnámsþrótt í landbúnaði þar á meðal með því að minnka reglubyrði, tryggja réttláta samkeppni og umhverfisvernd.

Samkomulag um stofnun samevrópsk gagnagrunns á heilbrigðissviði

Þann 15. mars sl. náðist samkomulag á milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni nýrrar reglugerðar um stofnun gagnagrunns á heilbrigðissviði (e. European Health Data Space, EHDS). Tillaga að reglugerðinni var lögð fram af hálfu framkvæmdastjórnar ESB 3. maí 2022 en hennar hafði þá verið beðið með óþreyju um nokkurt skeið í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 13. maí 2022.

Litið er á EHDS sem eina af meginstoðunum við uppbyggingu á samstarfi aðildarríkja ESB á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union ). Til framtíðar er samstarfinu m.a. ætlað að nýtast til að bregðast með samhentum hætti við heilsuvá.

Markmið með reglugerðinni er að færa hinum almenna borgara vald til að bæta og stýra aðgengi að eigin heilbrigðisupplýsingum og í leiðinni að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki aðgengi að nauðsynlegum gögnum í meðferðarskyni, óháð búsetu. Talað er um aðalnotkun gagnanna (e. primary use) í þessu samhengi. Þá er regluverkinu ætlað að liðka fyrir og auðvelda svokallaða afleidda notkun gagnanna þ.e. í rannsóknar- og nýsköpunarskyni og við opinbera stefnumörkun (e. secondary use). Auk þess er reglugerðinni ætlað að bæta virkni innri markaðarins gagnvart þróun, markaðssetningu og notkun á stafrænni heilbrigðisþjónustu þar sem gögn eru sett fram með samræmdum og samhæfðum hætti.

Frá því tillögurnar komu fram hafa umræður og álitaefni einkum snúist um möguleika einstaklinga til að neita því að gögn um þá sjálfa séu sýnileg og notuð (e. Opt-out of sharing their health data). Gagnrýnisraddir halda því fram að um leið og opnað sé á þann möguleika kunni ávinningur af gagnagrunninum að vera í hættu.

Fyrirliggjandi samkomulag byggist á miðlunartilllögu sem sett var fram af hálfu Belga, en þeir fara nú með formennsku í ráðherraráði ESB.

Samkvæmt samkomulaginu verður sá möguleiki fyrir hendi að einstaklingar geti sagt sig úr grunninum „opt-out in primary use“ vegna notkunar gagnanna í meðferðarskyni og jafnframt vegna aukanotkunar gagnanna (opt-out in secondary use) en ákvörðun um innleiðingu þessara möguleika í landsrétt aðildarríkjanna verður valkvæð fyrir aðildarríkin. Til að gæta samræmis er þó skylt að sniðmát sjúkraskrárgagna sem sett er í grunninn sé það sama hvort heldur ætlunin er að nota upplýsingarnar innanlands eða í öðrum löndum. Eftir sem áður verður heimilt að nýta gögnin í  rökstuddum undantekningartilvikum þegar almannahagsmunir eru í húfi, sbr. 34. gr. reglugerðarinnar.

Kröfur eru settar á framleiðendur um að meta sjúkrakrárkerfi  (e. Eloctronic Health Record (EHR) system) með sérstökum aðferðum (e. self certification assessment) áður en þau eru sett á markað og eiga niðurstöður þess mats að fylgja með tæknilegum upplýsingum um kerfið. Þá er gerð krafa um að gögn, sem nota á í rannsóknarskyni ( e. secondary use), verði geymd og unnin innan ESB með ákveðnum undantekningum fyrir þriðju ríki. Aðildarríki geta hins vegar gert kröfur í landslögum um rafræna vinnslu heilbrigðisupplýsinga úr gögnum sem ætluð eru til notkunar í meðferðarskyni (e. Primary use).

Sérstakir tímafrestir um innleiðingu og framkvæmdahraða eru styttir frá því sem lagt var upp með af hálfu ráðherraráðsins og er innleiðingartími hinna ýmsu ákvæða reglugerðarinnar allt frá einu upp í 10 ár frá gildistöku hennar með hliðsjón af tegundum gagna og notkun þeirra.

Reglugerðin gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við samkomulagið og er lokaatkvæðagreiðsla um málið á Evrópuþinginu áætluð í næstu viku. 

Aðkoma embættis landlæknis að uppbyggingu gagnagrunnsins.

Í samhengi við framangreint er þess að geta að miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis vinnur nú að uppbyggingu á svonefndri landsgátt til að miðla samantekt um heilsufar sjúklings (e. Patient summary) á milli landa og er ráðgert að sú lausn verði hluti af umræddum gagnagrunni um heilbrigðisupplýsingar þegar fram í sækir. Verkefnið er í tveimur hlutum og fjármagnað af samstarfsáætlun ESB á sviði heilbrigðismála (EU4Health) með beinum styrkjum samtals að fjárhæð rúmlega 4 milljónir evra.  Fyrri hluta þess mun ljúka í lok ágúst 2025 og seinni hluta þess í árslok 2026. Verkefnið mun hafa mikinn ávinning í för með sér fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi sem mun með þátttöku í því koma sér upp miðlægum aðgangi að sjúkrasögu sjúklings. Sjá nánar um styrkveitingu til verkefnisins í fréttatilkynningu embættis landlæknis.

Bætt starfsskilyrði starfsnema

Þann 20. mars sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri tilskipun sem hefur það markmið að bæta starfsskilyrði starfsnema.

Mikið atvinnuleysi ungs fólks (15-25 ára) er áskorun innan ESB þar sem atvinnuleysistölur í þeim hópi eru tvöfalt hærri en meðaltalsatvinnuleysi í ESB. Markmið ESB er að lækka þetta hlutfall, þ.e. að hlutfall ungs fólks sem hvorki er í vinnu, starfsþjálfun eða námi lækki niður í 9% fyrir árið 2030 en hlutfallið var um 13% árið 2019. Um 3 milljónir ungra einstaklinga er í starfsþjálfun innan ESB á hverjum tíma og er um helmingur þeirra starfa launaður. Miðar tillagan að því að tryggja að starfsnemar njóti ekki lakari aðbúnaðar en aðrir starfsmenn innan vinnustaðar, t.d. þannig að fulltrúar starfsmanna, s.s. trúnaðarmenn geti beitt sér fyrir réttindum þeirra. Þá er gert ráð fyrir því að sett verði viðmið um tímalengd starfsþjálfunar og haft verði eftirlit með því að almenn störf séu ekki eyrnamerkt eða rangnefnd sem starfsþjálfunarstörf. Að lokum er gert ráð fyrir auknu gagnsæi þannig að upplýst sé um verkefni starfsnemanna, tækifæri til frekara náms og endurgjald sem í boði er þegar fyrirtæki auglýsa starfsþjálfunarstöður lausar til umsókna.

Tillagan byggir á mati og fenginni reynslu á framkvæmd tilmæla ráðherraráðs ESB um gæðaramma starfsþjálfunar frá árinu 2014 og er samhliða lögð fram tillaga að endurskoðun þeirra tilmæla. Þar er meðal annars mælt með því að starfsnemar fái sanngjörn laun og njóti félagslegrar verndar, auk þess að stuðlað sé að jöfnu aðgengi og tækifærum til starfsþjálfunar með því að tryggja að vinnustaðir séu aðgengilegir fyrir fatlaða starfsnema. Þá eru vinnuveitendur m.a. hvattir til að bjóða nemendum fasta stöðu, eða veita þeim starfsráðgjöf, að lokinni starfsþjálfun.

Framangreindar tillögur fela jafnframt í sér viðbrögð við ákalli um endurskoðun verklags á þessu sviði á vettvangi ESB, m.a. frá Evrópuþinginu sem samþykkti þingsályktun um þetta efni í júní 2023.

Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Aðgerðaáætlun til að bregðast við skorti á hæfu vinnuafli

Í lok marsmánaðar sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér orðsendingu þar sem kynnt var aðgerðaáætlun til að bregðast við skorti á hæfu vinnuafli í ESB. Skortur á vinnuafli á tilteknum sviðum sérstaklega hefur verið vaxandi vandamál í aðildarríkjum ESB og er talið að skorturinn muni standa samkeppnishæfni ESB fyrir þrifum ef ekki verður að gert. Líkur eru taldar á vandamálið muni að óbreyttu vaxa á komandi árum, bæði vegna lýðfræðilegrar þróunar og vegna aukinnar eftirspurnar eftir sérhæfðu starfsfólki samhliða breytingum á vinnumarkaði vegna grænna og stafrænna umskipta. Til að bregðast við þessu eru í aðgerðaáætluninni lagðar til aðgerðir á fimm eftirfarandi sviðum sem vonir standa til að unnt sé að hrinda í framkvæmd með skjótum hætti:

  • Á sviði þátttöku minnihluta hópa á vinnumarkaði.
  • Á sviði starfsþróunar, þjálfunar og menntunar.
  • Á sviði bættra starfsaðstæðna í tilteknum atvinnugreinum.
  • Á sviði hreyfanleika vinnuafls og námsfólks á innri markaði ESB.
  • Á sviði innflytjendamála með því að laða hæfileikafólk, utan ESB, til starfa innan sambandsins.

Við framsetningu aðgerðaáætlunarinnar var m.a. haft samráð við aðila markaðarins en áætlunin byggir jafnframt á fjölmörgum aðgerðum og stefnum sem framkvæmdastjórnin hefur þegar lagt fram.

Framlagning aðgerðaáætlunar á þessu sviði var boðuð í stefnuræðu forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen, síðastliðið haust, sbr. m.a. umfjöllun um ræðuna í Vaktinni 15. september sl.

Sjá nánar um aðgerðaráætlunina, einstakar aðgerðir og um boðaða eftirfylgni með henni í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB um málið.

Samkomulag um nýjan tækniþróunarvettvang

Samkomulag náðist 7. febrúar sl. milli ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins um efni tillögu að reglugerð um stofnun nýs tækniþróunarvettvangs (Strategic Technologies for Europe Platform - STEP). Tillagan var síðan endanlega samþykkt í Evrópuþinginu 27. febrúar sl. og í ráðherraráði ESB 28. febrúar í samræmi við samkomulagið.

Með STEP mun eiga sér stað tiltekin endurskoðun á regluverki samstarfsáætlana- og samkeppnissjóðakerfis ESB, svo sem varðandi InvestEU, Horizon Europe, Innovation Fund, the Recovery and Resilience Facility og samheldnisjóð ESB (e. Cohesion Fund), sbr. einnig hinn nýja European Defence Fund en ákveðið hefur verið að 1,5 milljarður evra muni renna í þann sjóð á yfirstandandi úthlutunartímabili, árin 2021-2027.

Markmiðið með vettvangnum er að veita öflugri stuðning við þróun og framleiðslu nýrrar tækni sem talin er mikilvæg fyrir græn og stafræn umskipti, efnahagslegt öryggi ESB, samkeppnishæfni og strategískt sjálfræði ESB.

Fjallað var um tillögu að reglugerðinni í Vaktinni 23. júní sl. og er þar jafnframt farið stuttlega yfir þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB og yfir endurskoðun og endurskipulagningu sambandsins á samstarfsáætlana- og sjóðakerfi þess sem nú stendur yfir og framangreind reglugerð er hluti af.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta