Hoppa yfir valmynd
23. september 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 17. - 23. september




Viðbyggingu og endurbótum lokið við öldrunarstofnunina Naust á Þórshöfn

Framkvæmdum er lokið við viðbyggingu og endurbætur Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Nausts á Þórshöfn. Í nýju byggingunni er ein tveggja manna íbúð og sjö einbýli með salerni og sturtu. Í nýbyggingunni er einnig borðsalur og ýmis önnur aðstaða. Nýtt anddyri var byggt við eldri hluta húsnæðisins. Á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) er sagt frá framkvæmdunum í máli og myndum.
Sjá nánar á heimasíðu FSR...



Upplýsingar um bið eftir þjónustu LSH

Þeir sem bíða eftir skurðaðgerð á LSH (Landspítala – háskólasjúkrahúsi) eru 12,7% færri nú en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir janúar til ágúst 2005. Í fyrra biðu 2.585 eftir skurðaðgerð á þessum tíma en til samanburðar bíða nú 2.301 einstaklingur eftir aðgerð. Flestir bíða eftir aðgerð á augasteini og er meðalbiðtími nú rúmir níu mánuðir en var nærri heilt ár í fyrra. Meðalbiðtími eftir gerviliðaaðgerð á hné er nú tæpir níu mánuðir og tæplega fjögurra mánaða biðtími er eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm. Hjartaþræðingum fjölgar frá ári til árs. Á árunum 2000 – 2004 fjölgaði þeim um 33% og samkvæmt stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins hefur þeim nú fjölgað um 19,4% frá því í fyrra. Bið eftir hjartaþræðingu er nú rúmir þrír mánuðir.
Sjá stjórnunarupplýsingar LSH...





Áfangaskýrsla fjölþjóðlegs samvinnuverkefnis um börn og offitu

Komin er út áfangaskýrsla um 1. áfanga verkefnisins ,,Börn, offita og tengdir langvinnir sjúkdómar sem má forðast”. Hjartavernd vinnur að þessu verkefni í samvinnu við evrópsk hjartaverndarfélög og samtök þeirra (European Heart Network) og hlutu þau styrk frá Evrópusambandinu til verkefnisins. Í fyrsta áfanga verkefnisins var gerð könnun meðal þátttökuþjóðanna á markaðssetningu matvæla til barna og hvaða reglur giltu þar um. Lesa má nánar um verkefnið á heimasíðu Hjartaverndar og þar er áfangaskýrslan einnig birt.




Klínískar leiðbeiningar um varnir gegn tannátu á Íslandi

Vinnuhópur á vegum landlæknisembættisins hefur lokið gerð klínískra leiðbeininga um varnir gegn tannátu á Íslandi. Sigurður Guðmundsson, landlæknir fjallar í inngangi að leiðbeiningunum um þróun tannátu hér á landi í gegnum tíðina. Þar kemur fram að tannáta hér á landi var vaxandi vandamál á síðustu öld allt fram á miðjan níunda áratug síðustu aldar og tíðni sjúkdómsins mun hærri á Íslandi en hjá nágrannaþjóðunum. Ástandið nú er svipað og í flestum löndum Evrópu en aftur á móti hefur komið fram að tannáta dreifist mjög mismunandi eftir þjóðfélags- og aldurshópum og virðist sem lítill hópur eigi við mjög alvarlegan vanda að stríða. Sigurður segir að vegna mismunandi aðferða í forvörnum gagnvart einstaklingum og hópum og þar sem alþjóðlegar áherslubreytingar og endurmat á forvörnum hafi iðulega komið til framkvæmda hér án þess að hugað væri að íslenskum aðstæðum hafi þótt nauðsynlegt að móta stefnu sem lýtur að áhættumati tannátu ásamt klínískum leiðbeiningum um forvarnir. Leiðbeiningarnar eru birtar á heimasíðu landlæknisembættisins.




Alþjóðlegur hjartadagur á sunnudaginn, 25. september

Mikilvægi þess að halda kjörþyngd og vera líkamlega vel á sig kominn eru áhersluatriði hjartadagsins sem haldinn verður á sunnudaginn. Hjartadagurinn hefur verið haldinn reglulega, síðasta sunnudag í september frá árinu 2000. Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) með stuðningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og UNESCO, hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á daginn. Í tenglsum við alþjóðlega hjartadaginn hefur verið tekinn saman listi með tíu einföldum ráðum til að hugsa vel um hjartað. Listinn ber yfirskriftina Heilbrigt hjarta...ævilangt. Umrædd ráð má lesa á heimasíðu hjartaverndar. Þar er einnig að finna dagskrá sunnudagsins 25. september, en Hjartavernd verður með opið hús þennan dag. M.a. verður kynnt áhættureiknivél Hjartaverndar, boðið upp á blóðþrýstingsmælingar og veitt almenn fræðsla um forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum.
http://www.hjartavernd.is




Bið eftir lyfjum

Læknar hafa kvartað yfir því við landlæknisembættið að lyf við alvarlegum sjúkdómum sem eru skráð hér á landi hafi ekki verið til þegar á þurfti að halda og oft fengið þau svör að eftir þeim sé margra daga eða margra vikna bið. Þetta kemur fram í pistli sem Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir hefur skrifað og birt er á heimasíðu embættisins. Matthíast er þar að bregðast við ummælum fulltrúa Félags íslenskra stórkaupmanna í fréttum þar sem fjallað var um afleiðingar þess fyrir sjúklinga að heildsalar hafi ekki átt skráð lyf á lager. Matthías segir aðalatriði þessa máls að nauðsynleg lyf sem lyfjafyrirtækjunum beri að hafa á lager séu ekki til staðar sem valdi sjúklingum, læknum og lyfjafræðingum apótekanna erfiðleikum.






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta