Hoppa yfir valmynd
7. október 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Viðbrögð og aðgerðir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu

Fréttatilkynning nr. 6/2005

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun á fundi sínum tillögur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra um viðbrögð og aðgerðir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu.

Nefnd ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem ríksstjórnin setti á laggirnar 1. mars 2005, hefur frá þeim tíma unnið að því gera úttekt á stöðu mála hér á landi vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu og leggja fram tillögur um aðgerðir hér á landi af því tilefni.

Tillögurnar sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun lúta að fjórum þáttum:

Í fyrsta lagi að viðbúnaði. Fylgjast þarf náið með þróun áhættumats og viðbúnaðar í öðrum löndum, hjá Evrópusambandinu og hjá WHO og aðlaga viðbúnaðaráætlanir hér á landi eftir atvikum í kjölfarið. Það hlutverk er fyrst og fremst í höndum heilbrigðisráðuneytis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Endurskoðun viðbragðsáætlana innanlands er þegar hafin hjá sóttvarnalækni, heilbrigðisstofnunum, lögreglu/almannavörnum og mikilvægt að hún haldi áfram. Mikilvægt er að bráðabirgðaniðurstöður úr slíkri vinnu liggi fyrir eins fljótt og unnt er, þannig að unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir vegna innkaupa og birgðahalds hjá heilbrigðisstofnunum, lögreglu og öðrum aðilum. Jafnframt var lagt til að samstarf yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis verði aukið vegna smitsjúkdóma sem geta borist milli dýra og manna. Einnig að yfirdýralæknir standi að rannsókn í samstarfi við sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun á faraldsfræði fuglainflúensu hér á landi meðal farfugla og eldisfugla með það fyrir augum að afla þekkingar á útbreiðslu fuglainflúensunnar og kanna líkur á smiti frá villtum andfuglum yfir í alifugla hér á landi.

Í öðru lagi að lyfjum. Í heimsfaraldri inflúensu má búast við að innflutningur viðeigandi lyfja takmarkist eða stöðvist alveg um nokkurn tíma. Mikilvægt er að sett verði ákvæði í lög um möguleika á neyðarráðstöfunum vegna lyfjaframleiðslu. Einnig var lagt til að hefja framleiðslu dreypilyfja hér á landi, líkt og gert er í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum okkar, og að öryggisbirgðir dreypilyfja í landinu verði ávallt samsvarandi a.m.k. þriggja mánaða notkun og var heilbrigðisráðuneytinu falið að hefja þegar vinnu við málið. Þegar hefur verið aflað 89.000 meðferðarskammta af inflúensulyfjum en lyfin eru ýmist gefin til meðferðar á sjúkdómi af völdum inflúensu eða til fyrirbyggjandi meðferðar vegna inflúensu. Er þetta hlutfallslega sambærilegt magn og margar aðrar þjóðir hafa verið að kaupa. Lagt var til að sóttvarnalæknir í samráði við heilbrigðisráðuneytið leggi mat á hvort rétt sé að tryggja frekari birgðir af innflúensulyfjum en nú hefur verið gert. Jafnframt er nauðsynlegt að sömu aðilar kanni nánar möguleika íslenskra lyfjafyrirtækja á framleiðslu slíkra lyfja. Á fundi norrænna heilbrigðisráðherra, sem haldinn var í júní sl., var ákveðið að skipa samnorrænan starfhóp til að kanna möguleika á framleiðslu inflúensubóluefna á vegum Norðurlandanna. Starfshópurinn, sem íslenskir fulltrúar eiga sæti í, mun skila tillögum til ráðherranna um miðjan nóvember nk.

Í þriðja lagi að fræðslu, æfingum og upplýsingamiðlun. Lagt var til að ábyrgð á skipulagningu fræðslu og upplýsingamiðlunar í þeim tilgangi að kynna almenningi stöðu mála hverju sinni verði hjá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Í fjórða lagi var lagt til að nefnd ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamála- og dóms- og kirkjumálaráðuneyta starfi áfram. Nefndin skili um miðjan desember nk. stuttri skýrslu til ráðherranna tveggja um framvindu mála sem og kostnaðaráætlun vegna ráðstafana sem óhjákvæmilegt verður talið að grípa til af þessu tilefni. Jafnframt að hópur sérfræðinga á vegum fimm ráðuneyta, forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, utanríkis-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis geri úttekt á efnahagslegum áhrifum hugsanlegs heimsfaraldurs hér á landi og aðgerða sem mögulega þarf að grípa til vegna hans. Jafnframt leggi sérfræðingarnir mat á þörf fyrir sérstakar hagvarnaráðstafanir af þessu tilefni en í því felst m.a. úttekt á birgðum og þörf fyrir birgðasöfnun o.fl. Lagt er til að sérfræðingahópurinn skili skýrslu sinni til ráðuneytisstjóranefndarinnar fyrir 1. apríl næsta vor.

Nánari upplýsingar veitir Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta