Fréttapistill vikunnar 1. - 7. oktober
Nefnd falið að semja lagafrumvarp um stofnfrumurannsóknir
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að fjalla um nýtingu stofnfrumna til rannsókna og lækninga og semja frumvarp til laga um stofnfrumurannsóknir. Stofnfrumurannsóknir hófust fyrst á níunda áratugnum. Töluverður árangur hefur náðst nú þegar og eru vonir bundnar við að stofnfrumur geti orðið til þess að lækna ýmsa illvíga sjúkdóma. Stofnfrumurannsóknir vekja hins vegar margvíslegar siðfræðilegar spurningar, einkum þegar notast er við fósturvísa til rannsóknanna og hafa umræður um þau efni verið ofarlega á baugi meðal margra þjóða á liðnum árum. Hér á landi eru slíkar rannsóknir ekki heimilar samkvæmt lögum, nema þær séu liður í glasafrjóvgunarmeðferð eða greiningu arfgengra sjúkdóma í fósturvísunum sjálfum. Að öðru leyti er ekki fjallað um stofnfrumurannsóknir í íslenskum lögum. Formaður nefndar um nýtingu stofnfruma til rannsókna og lækninga er Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Nefndinni er ætlað að ljúka störfum í lok mars 2006.
Faghópur geri tillögur til úrbóta á sviði geðheilbrigðisþjónustu við aldraða
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að fela hópi fagfólks að gera tillögur til úrbóta á sviði geðheilbrigðisþjónustu við aldraða. Ráðherra mun tilkynna nánar um stofnun hópsins þann 10 október sem er alþjóðageðheilbrigðisdagurinn. Þetta kom fram í ávarpi sem ráðherra flutti á ráðstefnunni ,,Andlegt og líkamlegt heilbrigði” sem haldin var í dag í tilefni Alþjóðageðheilbrigðisdagsins. Ráðherra fjallaði í ávarpi sínu um evrópsku aðgerðaáætlunina í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á ráðstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Helsinki í byrjun þessa árs. Í áætluninni segir að sérstaklega þurfi að fjalla um málefni viðkvæmra aldurshópa og eru aldraðir nefndir í því sambandi. Með vísun til þess nefndi ráðherra mikilvægi þess að greina og meðhöndla þunglyndi meðal aldraðra svo það skerði ekki lífsgæði og valdi margvíslegum neikvæðum afleiðingum, andlegum, líkamlegum og félagslegum. Ráðherra sagði enn fremur: ,, Við þurfum einnig að meta þörf fyrir sérhæfð úrræði vegna alvarlegra geðsjúkdóma meðal aldraðra. Við þurfum að skoða hvernig við getum byggt þjónustuna á þeim stofnunum og úrræðum sem þegar eru til staðar og jafnframt að hvaða leyti við þurfum að bæta við nýjum úrræðum sem eru sérstaklega ætluð öldruðum. Og við þurfum að vera framsýn og sjá fyrir eins og kostur er hvernig best er að haga uppbyggingu á þessu sviði með hliðsjón af hækkandi meðalaldri þjóðarinnar.”
Úrslit samkeppni um deiliskipulag LSH verða kynnt 12. október
Dómnefnd í samkeppni um deiliskipulag fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús hefur lokið mati sínu á þeim hluta matsins sem snýr að tillögum keppenda. Miðvikudaginn 12. október kl. 14:00 mun dómnefndin afhenda Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra dómnefndarálit sitt. Tillögurnar verða til sýnis almenningi í anddyri Barnaspítala Hringsins, við Hringsal, frá 13. október til loka október.