Hoppa yfir valmynd
14. október 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Viðbúnaður vegna hættu á fuglaflensu

Þetta kom meðal annars fram í svari Jón Kristjánssonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, þegar hann svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu. Ráðherra tók jafnframt fram að birgðir lyfja í landinu sem nota mætti við meðferð og í fyrirbyggjandi starfi væru “með því hæsta sem þekkist meðal þjóða heims.”

Þingmaðurinn spurði m.a. um viðbúnaðaráætlun stjórnvalda og svaraði ráðherra m.a. þessu: “Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld kerfisbundið aukið viðbúnað við alvarlegum heilbrigðisógnum þ.m.t. heimsfaröldrum af völdum inflúensu. Slíkir faraldrar ganga að jafnaði þrisvar á öld og nú eru liðin tæp 40 ár frá því síðasti heimsfaraldur reið yfir. Þegar heimsfaraldur inflúensu geisar eru nánast allir næmir fyrir sjúkdómnum. Þeir ná því mun meiri útbreiðslu en hefðbundnir inflúensufaraldrar og afleiðingarnar eru misalvarlegar en þær eru alltaf verri en í hefðbundnum faraldri.

Eftir að fuglainflúensan, sem er auðkennd sem H5N1, hófst í Asíu fyrir nokkrum árum hefur hún náð að breiðast talsvert út og valda miklu tjóni í alifuglarækt. Það alvarlega við þennan fuglainflúensufaraldur er að á annað hundrað manns í nokkrum löndum S-A Asíu hafa sýkst af fuglum og meir en helmingur þeirra látist. Enn sem komið er eru engin merki þess að sjúkdómurinn smitist manna á milli. Óttast er að ef ekki tekst að uppræta fuglainflúensuna geti hún með tímanum stökkbreytzt og öðlast hæfni til að smitast manna á milli og þar með valdið heimsfaraldri. Ekkert verður þó um þetta fullyrt og hugsanlegt er að næsta heimsfaraldri valdi allt önnur inflúensuveira.

Sóttvarnalæknir hefur unnið að viðbragðásætlunum í samvinnu við heilbrigðisstofnanir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á undanförnum misserum. Slíkar áætlanir eru einnig unnar í samvinnu við Aþjóðaheilbrigðismálastofnunina, Evrópusambandið og Norðurlöndin.

Þar sem líklegt er að nýr heimsfaraldur inflúensu muni snerta alla innviði samfélagsins ákvað ríkisstjórnin 1. mars sl. að setja á laggirnar nefnd ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem fékk það meginhlutverk að gera úttekt á stöðu mála hér á landi vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu og leggja fram tillögur um aðgerðir hér á landi af því tilefni. Hefur nefndin fundað með mörgum ráðuneytum, stofnunum og aðilum atvinnulífsins hér á landi vegna viðbúnaðarráðstafana.

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt tillögur nefndarinnar sem hafa verið kynntar opinberlega. Þar kemur fram að gerð viðbúnaðaráætlana er fyrst og fremst í höndum heilbrigðisráðuneytis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Jafnframt er lagt til að samstarf yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis verði aukið vegna smitsjúkdóma sem geta borist milli dýra og manna. Einnig að yfirdýralæknir standi að rannsókn í samstarfi við sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun á faraldsfræði fuglainflúensu hér á landi meðal farfugla og eldisfugla með það fyrir augum að afla þekkingar á útbreiðslu fuglainflúensunnar og kanna líkur á smiti frá villtum andfuglum yfir í alifugla hér á landi.

Mikilvægustu aðgerðirnar sem grípa þarf til er að afla bóluefna og inflúensulyfja. Vitað er að bóluefni verður af skornum skammti í upphafi heimsfaraldurs inflúensu vegna takmarkaðrar framleiðslugetu lyfjaiðnaðarins. Því lögðu norrænu heilbrigðisráðherrarnir til í júní sl. að kannaðir yrðu möguleikar á að hefja framleiðslu inflúensubóluefnis á Norðurlöndunum og hefur nefnd sérfræðinga hafið störf til að kanna þetta mál. Búist er við að hún skili tillögum sínum til ráðherranna um miðjan nóvember nk.

Til eru lyf sem geta stytt sjúkdómstíma og dregið úr einkennum sjúkdómsins ef þau eru notuð rétt. Ríkisstjórnin heimilaði kaup á nokkru magni af slíkum inflúensulyfjunum sem nefnast Tamiflu og Relenza árið 2004. Á þessu ári hafa verið keyptar til viðbótar umtalsverðar birgðir af inflúensulyfinu Tamiflu sem nota má til meðferðar og fyrirbyggjandi meðferðar inflúensu. Til eru lyfjabirgðir í landinu fyrir um þriðjung þjóðarinnar en það hlutfall er með því hæsta sem þekkist meðal þjóða heims.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta