Hoppa yfir valmynd
14. október 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 8. - 14. október




Ráðleggingar sóttvarnarlæknis til ferðamanna vegna fuglainflúensu
Vegna fjölda fyrirspurna tekur sóttvarnarlæknir fram að ekki sé mælt með neinum ferðatakmörkunum eða bólusetningu vegna fuglainflúensu sem geisað hefur í Asíuríkjunum Víetnam, Tælandi, Kambódíu, Indónesíu, Laos, Kína, Kazakstan, Mongólíu eða Rússlands fyrir austan Úralfjöll. Þetta kemur fram á heimasíðu landlæknisembættisins. Þar segir einnig að vegna frétta um að fuglainflúensa af sama stofni hafi nú greinst í Tyrklandi skuli tekið fram að það sama gildi þar og fyrir áðurnefnd Asíuríki. Ferðamönnum til þessara landa er hins vegar bent á eftirfarandi varúðarráðstafanir: Að forðast að komast í snertingu við lifandi hænsnfugla og villta fugla - forðast að heimsækja markaði með lifandi fuglum og fuglabú – forðast að snerta yfirborð sem menguð eru af fuglaskít, forðast að snerta dauða fugla - að borða ekki ósoðið eða illa soðið fuglakjöt og egg – huga að almennu hreinlæti og tíðum handþvotti og flytja ekki heim með sér fuglaafurðir til landsins. Þá getur sóttvarnarlæknir þess einnig að ekki sé mælt með því að ferðamenn taki inflúensulyf með sér á ferðum sínum nema búast megi við að viðkomandi komist í snertingu við fugla, s.s. dýralæknar sem vinna við að takmarka útbreiðslu fuglainflúensu.
Heimasíða landlæknisembættisins: http://www.landlaeknir.is




Faghópur greini vanda vegna óholls mataræðis, offitu, átröskunar og hreyfingarleysis
Í forsætisráðuneytinu fer nú fram undirbúningur að skipan faghóps til að greina þann vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að hópurinn geri tillögur að framkvæmdaáætlun sem lögð verði fyrir ríkisstjórn vorið 2006. Þetta kom fram í ávarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ,,matvæladegi” Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands sem fram fór á Grand Hótel í dag, 14. október.




Drög að klínískum leiðbeiningum um þvagleka og meðhöndlun hans í heilsugæslu
Landlæknisembættið hefur gefið út á vefsetri sínu drög að klínískum leiðbeiningum um þvagleka og meðhöndlun hans í heilsugæslu. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki, einkum í heilsugæslu og sjúklingum og aðstandendum þeirra. Drögin eru birt til umsagnar þar til í byrjun desember.

 




Um 250 manns sátu vel heppnaða Norræna lýðheilsuráðstefnu
Norræn lýðheilsuráðstefna var haldin í fyrsta sinn á Íslandi dagana 9. – 11. október, en þetta er áttunda ráðstefnan sem haldin er af þessu tagi. Ráðstefnuna sátu um 250 manns. Á heimasíðu Lýðheilsustöðvar hafa nú verið birt erindi fyrirlesara og einnig myndir frá ráðstefnuhaldinu.
Heimasíða ráðstefnunnar...

 




Grímseyingar gefa barnadeild FSA nýjan fjarfundabúnað
Félagar í Kiwanisklúbbnum Grími í Grímsey hafa gefið barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) fullkominn fjarfunda- og tölvubúnað. Í frétt á heimasíðu FSA segir að búnaðurinn sé af fullkomnustu gerð og mikill fengur sé af honum því hann færi deildina nær umheiminum.







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta