Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

A-519/2014. Úrskurður frá 13. febrúar 2014

Úrskurður

Hinn 13. febrúar 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-519/2014 í máli ÚNU 13120005.

Kæra

Með bréfi, dags. 4. desember 2013, kærði [A] afgreiðslu Skútustaðahrepps á beiðni hans um upplýsingar varðandi álagningu sorphirðugjalda. 

Málsatvik og bréfaskipti

Um aðdraganda þess að umrædd kæra var lögð fram liggur fyrir tölvubréf sem kærandi sendi oddvita Skútustaðahrepps hinn 21. maí 2013. Þar segir m.a.:

„Vísa í samtal okkar varðandi erindi mitt um sorphirðugjöld. Samkvæmt fundargerð hefur erindið verið rætt og tekin ákvörðun en mér hefur ekki borist svar. Mér skildist á samtali okkar um daginn að í fundargerðinni sé ekki fullnaðarsvar. Ég bíð því enn formlegs svars við erindi mínu, er slíks svars að vænta?“

Í svari sem kærandi fékk frá hreppnum sama dag segir m.a.: 

„Mér þykir leitt hversu ósáttur þú ert við afgreiðslu okkar á erindi þínu. Varðandi gagnrýni þína á að svar hafi ekki borist þér áður en fundargerð var sett á netið og send út vil ég benda á að sveitarstjórnarfundir eru öllum opnir og við reynum að birta fundargerðir eins fljótt og kostur er, ásamt því að senda svör við erindum. Ég ræddi við sveitarstjóra sem sagði mér að svarið til þín væri einungis bókunin sem fram kemur í fundargerðinni svo ég ætla að skýra afstöðu okkar betur. Eins og þér er kunnugt eru sorpgjöld innheimt með fasteignagjöldum, þannig að gjald er lagt á allt íbúðarhúsnæði í sveitinni, við höfum ekki haft sérgjald fyrir hús þar sem ekki er föst búseta. Síðan eru lagt sérstakt gjald á fyrirtæki mishá eftir eðli og umfangi starfseminnar. Við verðum að gæta jafnræðis og getum ekki fellt niður gjald af einu húsi en rukkað aðra. Hafir þú frekari spurningar er sjálfsagt að hafa samband við sveitarstjóra sem þekkir málið.“

Hinn 23. maí sendi kærandi sveitarstjóra tölvubréf og fékk þaðan svar með tölvubréfi, dags. 24. maí. Svarið er þannig úr garði gert að bréf kæranda hefur verið afritað í heild en svo breytt þannig að svörum sveitarstjóra hefur verið bætt inn á milli (þ.e. milli spurninga kæranda). Svörin hreppsins eru þar með rauðu letri en í eftirfarandi tilvitnun er sú leturbreyting gerð, til skýringarauka, að svörin eru ekki rauð heldur skáletruð. Í skjalinu segir m.a.: 

 „Með tilvísun í  upplýsingalög, lög nr. 140 28. desember 2012 fer ég fram á svör við eftirfarandi spurningum:

1. Eftir hverju er farið í Skútustaðahreppi þegar sorphirðugjald er lagt á?
a.   Er sorpuhirðugjald lagt á samkvæmt fastanúmeri hverrar fasteignar í þjóðskrá Íslands?Nei sorpgjald er lagt á íbúðar og frístundahús, aðrar reglur gilda um atvinnuhúsnæði og fyrirtæki þar er um sértækt sorpgjald að ræða.
b. Hvernig er „Notkun” samkvæmt skráningu í þjóðskrá Ísland notuð til að ákveða sorphirðugjald?
Ég skil ekki spurninguna “notkun” skv. skráningu í þjóðskrá?
2. Ef fleiri en eitt hús með búsetu eru með sama fastanúmeri er þá einungis lagt eitt sorphirðugjald?
Ef þú átt við hvort t.d. tveggja íbúða hús greiði eitt eða tvö sorpgjöld þá fer það eftir því hvort viðkomandi eign er skráð sem ein fasteign eða tvær. Ef að fasteignanúmerin eru tvö þá eru tvö sorpgjöld annars eitt.
a. Dæmi um þetta er fastanúmer …. Þar eru skráð 5 sumarhús og 1 bænahús. Er lagt 1 sorphirðugjald eða 6 sorphirðugjöld á þetta fastanúmer?
Mér er ekki heimilt að upplýsa um viðskipti eða álögur einstakra aðila við sveitarfélagið nema með samþykki viðkomandi.

3. Ef fleiri en ein íbúð er í húsi sem ber eitt fastanúmer er þá lagt á eitt sorphirðugjald á allt húsið eða eitt á hverja íbúð? Sjá svar við spurningu nr. 2.

4. Er sama sorphirðugjald fyrir íbúðarhús, sumarhús og býli í rekstri?
Það er sama sorphirðugjald fyrir íbúðarhús og sumarhús sem er lægsti gjaldflokkur. Býli í rekstri greiða mismikið eftir eðli og umfangi starfseminnar.
a. Ef ekki, hvernig er þá sorphirðugjald fyrir býli í rekstri áætlað?
Sjá svar við spurningu 4.

5. Hjá mörgum sveitarfélögum er gjaldi skipt í sorphirðingargjald annarsvegar og sorpeyðingar- eða sorpförgunargjald hinsvegar.
a. Hvernig er því háttað Skútustaðahreppi?
Við notum orðið sorpgjald það innifelur bæði sorphirðingu og eyðingu.
b. Er sorp sótt heim að einhverri fasteign í Skútustaðahreppi?
Nei, ekki á vegum sveitarfélagsins, hins vegar eru sumir sorpgámarnir staðsettir á lóðum einstakra fasteigna/fyrirtækja það er eingöngu vegna þess að þar er nægt pláss að öðrum kosti hefði sveitarfélagið þurft að útbúa fleiri gámasvæði.

6. Varðandi greiðendur sorphirðugjalda í Skútutstaðahreppi:
a. Hve margir greiða sorphirðugjöld?
Lagt á 172 íbúðir og 59 fyrirtæki.
c.     Fyrir hvaða fasteignir er greitt (fastanúmer)?
Ertu virkilega að biðja um lista yfir öll fasteignanúmer sem greiða sorphirðugjöld?Ef svo er þá er mér ekki heimilt að veita þann lista.
d. Í hvaða greiðsluflokki er hver fasteign eða fyrirtæki?
Mér er ekki heimilt að veita upplýsingar um viðskipti einstakra aðila við sveitarfélagið.

7. Hvað eru margar fasteignir í Skútustaðahreppi?
Bendi þér að að afla þeirra upplýsinga hjá Þjóðskrá Íslands þeir halda utanum allar fasteignaskráningar í Skútustaðahreppi en ekki sveitarfélagið sjálft.

8. Hvað eru margar fasteignir í Skútustaðahreppi sem flokkast sem sumarhús eða frístundahús?
Mér telst til að þau séu á bilinu  16-20.“

Hinn 14. ágúst 2013 kærði kærandi framangreint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í kærunni segir m.a.: 

„…. finnst mér margt athyglivert t.d. að íbúar og eigendur sumarhúsa þurfi að bera kostnað af sorphirðu vegna ferðamanna. Það eru hinsvegar svör við spurningum 1-8 og undirliðum þeirra sem ég er ósáttur við og kvarta því til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í stuttu máli þá hef ég gert athugasemdir vegna sorphirðugjalda fasteigna sem ég á í Skútustaðhreppi. Um er að ræða tvær fasteignir. Í hvorugri er föst búseta og önnur þeirra notuð sem geymsla. Af hvorri fasteign borga ég fullt sorphirðugjald kr. 31.500, samanlagt kr. 63.000. Það finnst mér ósanngjarnt og hef óstaðfestan grun um að sumir eigi allt að 5-7 fasteignir á sama fastanúmeri og borgi einfalt gjald. Til að staðfesta eða hrekja þennan grun bað ég um svör við neðangreindum spurningum. Þau svör þarf ég til að meta hvort ójöfnuður og ósanngirni sé í álagningu sorphirðugjalda innan Skútustaðahrepps og milli Skútustaðhrepps og annarra hreppa.
Það er að mínu mati misræmi í svörum 1a og 2a.
Í svörum 2a, 6c og 6d held ég að sveitarstjóri sé að bera fyrir sig 9. gr upplýsingalaga nr. 140 28. desember 2012. Mér finnst sú grein ekki eiga við hér enda sorphirðugjald ekki lagt á skv tekjum eða fjárhag hvers og eins.
Samkvæmt Þjóðskrá er notkun fasteigna skráð t.d. sem hesthús, bænahús, kirkja o.s.frv. Sveitarstjóra ætti að vera þetta kunnugt.
Ég vil fá skilmerkilegt svar við spurningu 4a.
Ekkert af þessum spurningum mínum finnst mér falla undir 15. gr upplýsingalaga nr. 140 28. desember 2012.“

Með bréfi dags. 20. ágúst 2013 óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess að kærandi afmarkaði nánar hvaða gagna hann óskaði aðgangs að. Hann svaraði með bréfi, dags. 20. ágúst 2013. Þar segir m.a.: 

„Gögnin sem ég fer fram á aðgang að eru:
1. Upplýsingar um fyrir hvaða fasteignir og fyrirtæki (fastanúmer) er greitt/innheimt sorphirðugjald í Skútustaðahreppi?
2. Upplýsingar um í hvaða greiðsluflokki hver fasteign eða fyrirtæki er hvað varðar sorphirðugjald í Skútustaðahreppi?
3. Upplýsingar um sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmeri …. Þar eru fimm fasteignir skráðar sem sumarhús. Eru innheimt fimm sorphirðugjöld, eitt fyrir hvert sumarhús eða eitt einfalt sorphirðugjald fyrir öll húsin?
4.  Upplýsingar um hvað margar fasteignir í Skútustaðahreppi flokkast sem sumarhús eða frístundahús, nákvæm tala?
5.  Hvernig sorphirðugjald fyrir býli í rekstri er áætlað, nákvæm lýsing?“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði, með bréfi dags. 23. ágúst 2013, umsagnar Skútustaðahrepps um upplýsingabeiðni kæranda eins og hún lá þá fyrir samkvæmt svari hans dags. 20. s.m. Í svari hreppsins, dags. 9. september 2013, segir : 

„Sveitarstjórn vill byrja á því að koma á framfæri athugasemd vegna tilvísunar úrskurðarnefndar til upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem þau lög eiga ekki við í þessu máli, sbr. 4. mgr. 35. gr. laganna. Þar segir að ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996 haldi gildi sínu til 1. janúar 2016 gagnvart sveitarfélögum með 1000 íbúa eða færri við gildistöku laganna, en íbúar Skútustaðahrepps voru við gildistöku laganna langt undir því viðmiði og eru það enn. 
Þá er nauðsynlegt að benda á að frestur til að bera synjun um beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál er 30 dagar frá því að tilkynnt er um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Svo sem áður greinir varðar kæra í máli þessu synjun um aðgang að tilteknum gögnum með tölvupósti dags. 24. maí 2013, en kæra mun ekki hafa borist úrskurðarnefnd fyrr en 14. ágúst og var þá kærufrestur liðinn. Það hlýtur því að koma til sjálfstæðrar skoðunar hvort vísa beri kærunni frá á þessum grundvelli. Hvað sem þessu líður telur sveitarstjórn Skútustaðahrepps að hafna beri kröfu kæranda um aðgang að umræddum upplýsingum þar sem óskylt sé að afhenda þau á grundvelli upplýsingalaga. 

Fyrst skal vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er áskilið að beiðni um aðgang að upplýsingum skuli varða tiltekið mál sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sem gilda í þessu máli. Þannig er til að mynda ekki unnt að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund. Af sama áskilnaði leiðir að ekki er unnt að krefjast aðgangs að upplýsingum sem einvörðungu er að finna i skrám eða gagnagrunnum stjórnvalda, en ekki í fyrirliggjandi gögnum í tilgreindu máli, sbr. til hliðsjónar úrskurð í máli A-400/2012. Þær upplýsingar sem óskað ef eftir aðgangi að samkvæmt liðum 1, 2, 3, 4 og 5 eru allar því marki brenndar að um almenna upplýsingabeiðni er að ræða sem varðar ekki ákveðið mál sem er eða hefur verið til afgreiðslu innan sveitarfélagsins. Þvert á móti er um að ræða almenna upplýsingabeiðni sem varðar ekki tiltekið mál í skilningi upplýsingalaga, enda eru ýmis umbeðinna gagna ekki til og önnur verður að flokka sem skrár. 

Þá varða liðir 1, 4 og 5 í kæru gögn sem eru ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu, sbr. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ljóst er að samkvæmt upplýsingalögum er stjórnvöldum ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn sem ekki eru fyrirliggjandi í tilefni af gagnabeiðni. Þessu til samræmis hefur verið talið að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau er beðið, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-181/2004, A-239/2007 og A-243/2007. Kærandi hefur meðal annars óskað eftir upplýsingum um fasteignir og sorphirðugjöld innan hreppsins (1. liður), upplýsingum um fjölda fasteigna sem flokkast sem sumarhús eða frístundahús (2. liður) og upplýsinga um hvernig sorphirðugjöld fyrir býli rekstri eru nákvæmlega áætluð (5. liður).  Upplýsingum um þessi atriði hefur ekki verið safnað sérstaklega saman og eru þau því ekki tiltæk. Af þeirri ástæðu telur sveitarstjórn að hafna verði kröfu um aðgang að þessum upplýsingum. 

Jafnframt telur sveitastjórn óheimilt sé að verða við beiðni um aðgang að þeim upplýsingum sem greinir í liðum 2 og 3 á grundvelli 5. gr. laga nr. 50/1996, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt þykir að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Að mati sveitarstjórnar varðar sá greiðsluflokkur sem fasteign er í vegna innheimtu sorphirðugjalda, sem og upplýsingar um gjöld sem lögð hafa verið á einstakar og tilgreindar fasteignir, einka- og fjárhagsmálefni í þessum skilningi. Þannig er sanngjarnt og eðlilegt að upplýsingar um álagningu sorphirðugjalda á einstaka aðila séu ekki aðgengileg almenningi. Með hliðsjón af þessu er byggt á því að umræddar upplýsingar séu hvað sem öðru líður undanþegnar upplýsingarétti.“ 

Með framangreindu bréfi fylgdi annars vegar afrit af álagningarseðlum fasteignagjalda 2013, fyrir fasteignir með fastanúmer …, og hins vegar listi yfir greiðendur sorpgjalda 2013, þar sem þeim er raðað eftir gjaldflokkum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gaf kæranda, með bréfi, dags. 18. september 2013, kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf Skútustaðahrepps, dags. 9. september 2013. Í svari hans, dags. 9. október, segir m.a.:

„Eins fram kemur í fyrri skrifum mínum fór ég fram á þessi gögn til að kanna og sýna fram á það sem ég tel vera óréttlæti misræmi í álagningu sorphirðugjalda innan Skútustaðarhrepps og milli sveitarfélaga. Ég geri eftirfarandi athugasemdir við svör Skútustaðahrepps sem telur fram fjölmörg rök gegn því að veita mér umbeðnar upplýsingar.

Svar við rökum í 1. málsgrein:
Undirritaður er ekki löglærður en telur samt fráleitt að andi upplýsingalaga og hugsanlegrar undanþágu fámennra sveitarfélaga frá þeim sé að mismuna þegnum þessa lands eftir búsetu. Þannig að búseta innan sama lands geri þegna mis réttháa og sveitarfélög geti skákað í skjóli þess. Ef svo er gæti það orðið forvitnilegt mannréttindamál.
Svar við rökum í 2. málsgrein:
Ef upplýsinganefnd fellst á þessi rök þá mun ég aftur fara fram á að fá þessar upplýsingar frá Skútustaðahreppi. Þá getur tvennt gerst, að ég fái upplýsingarnar eða ekki. Fái ég upplýsingarnar mun ég ekki kæra aftur. Fái ég þær ekki mun ég kæra aftur og málið væntanlega fá sömu umfjöllun og afgreiðslu og það fær núna.
Svar við rökum í 3. málsgrein:
Hér gæti miskilnings hjá Skútutstaðahreppi. Um er að ræða tiltekið mál.  Skútustaðahreppi er vel kunnugt um það, hefur rætt það á sveitarstjórnarfundi og afgreitt. Ég sótti um lækkun á sorphirðugjaldi þar sem væri tekið tillit til magns sorps, notkunar húsnæðis og búsetu. Skútustaðhreppur afgreiddi þá umsókn og neitaði að taka tillit til ofan nefnds. Til að kanna og sýna fram á það sem ég tel vera óréttlæti misræmi í álagningu sorphirðugjalda innan Skútustaðarhrepps og milli sveitarfélaga fór ég fram á upplýsingarnar sem Skútutstaðahreppur vill ekki veita mér. Sé grunur minn um misræmi á rökum reistur gæti það orðið grunnur að frekari athugasemdum. Það er því um að ræða tiltekið mál og það vita fulltrúar Skútustaðahrepps.
Svar við rökum í 4. málsgrein:
Skútustaðahreppur heldur því fram að þessar upplýsingar séu ekki til skráðar og ekki séu til sérstakar skrár. Við þetta geri ég eftirfarandi athugasemdir. Í fyrsta  lagi þá hljóta þessar upplýsingar að liggja fyrir. Annars gæti Skútustaðahreppur ekki lagt á sorphirðugjöld ef ekki væri vitað á hverja eða hvernig ætti að haga álagningu. Ef gögnin eru ekki til og álagning fer eftir hentugleika, minni eða einhverju öðru hlýtur það að teljast einkennileg stjórnsýsla. Í öðru lagi er einkennilegt að ekki sé hægt að svara fyrirspurnum nema fyrirfram séu til tilbúin  öll hugsanleg svör við öllum hugsanlegum fyrirspurnum. Hvernig er hægt að sanna að einhver skrá sé ekki til? Fyrst að hægt er að leggja á sorphirðugjöld þá hljóta að vera til um það reglur og gögn.
Svar við rökum í 5. málsgrein:
Þessu er ég ósammála. Sorphirðugjöld eru ekki lögð á samkvæmt tekjum eða m.t.t. efnahags hvers og eins. Því tel ég heimilt skv. upplýsingalögum að veita þessar upplýsingar.“

Nokkur frekari samskipti áttu sér stað milli úrskurðarnefndar um upplýsingamál og kæranda, sem óþarft er að rekja, en í símtali hans við starfsmann nefndarinnar, hinn 5. nóvember 2013, kom fram að í ljósi ábendingar hreppsins um útrunninn kærufrest hefði hann ákveðið að falla frá kærunni. Hann kvaðst myndu senda hreppnum nýja beiðni, en fengi hann nýja synjun myndi hann, eftir atvikum, leggja fram nýja kæru. Var málið (mál ÚNU 13080005) þá fellt niður.

Hinn 23. nóvember barst nefndinni síðan afrit af nýrri beiðni frá kæranda til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Þar segir:

„Vegna álagningar sorphirðugjalda fer ég fram á aðgang að upplýsingum sem innihalda eftirfarandi gögn:
1. Upplýsingar um fyrir hvaða fasteignir og fyrirtæki (fastanúmer) er greitt/innheimt sorphirðugjald í Skútustaðahreppi?
2. Upplýsingar um fyrir hvaða fasteignir og fyrirtæki (fastanúmer) er ekki greitt/innheimt sorphirðugjald í Skútustaðahreppi?
3. Upplýsingar um í hvaða greiðsluflokki hver fasteign eða fyrirtæki er hvað varðar sorphirðugjald í Skútustaðahreppi? 
4. Upplýsingar um sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmeri …. Þar eru fimm fasteignir skráðar sem sumarhús. Eru innheimt fimm sorphirðugjöld, eitt fyrir hvert sumarhús eða eitt einfalt sorphirðugjald fyrir öll húsin? 
5. Upplýsingar um hvað margar fasteignir í Skútustaðahreppi flokkast sem sumarhús eða frístundahús, nákvæm tala?
6. Hvernig sorphirðugjald fyrir býli í rekstri er áætlað, nákvæm lýsing?
7. Hvernig sorphirðugjald fyrir fyrirtæki er áætlað, nákvæm lýsing?“

Sveitarstjóri Skútustaðahrepps spurðist fyrir um stöðu málsins og í svari sínu til hans, dags. 25. nóvember, greindi úrskurðarnefnd um upplýsingamál frá því að kærandi hefði ákveðið að framhalda ekki erindi sínu og hefði verið fellt niður. Hinn 4. desember 2013 barst úrskurðarnefndinni síðan sú kæra sem mál þetta (mál ÚNU 13120005) varðar. Hún hljóðar svo:

„Hér fyrir neðan er svar sveitarstjóra við fyrirspurn minni. Ég lít á þetta svar sem synjun um aðgang að gögnum sem ég tel mig eiga rétt á skv upplýsingalögum og kæri hér með þá synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Vísa í fyrri gögn með tilvísun ÚNU13080005.“

Í umræddu svari sveitarstjóra, sem fylgdi með kærunni, sagði: „Sæll [A]. Það hefur ekkert breyst frá því ég svaraði þessum spurningum með tölvupósti 23. maí s.l. “

Sama dag og kæran barst, þ.e. hinn 4. desember 2013, sendi úrskurðarnefndin bréf til Skútustaðahrepps og gaf honum kost á að gera athugasemdir. Þær bárust með tölvupósti hinn 10. desember 2013. Þar segir:

„Vegna bréfs Úrskurðarnefndar um upplýsingamál dags. 4. des. þar sem Skútustaðahreppi er gefin kostur á að koma á framfæri umsögn og rökstuðningi  vegna kæru [A] á synjun um aðgengi að gögnum, vísa ég til tölvupósts frá mér dags 10. sept. s.l. Í þeim pósti er annars vegar bréf og hins vegar gögn sem ég tel trúnaðargögn í máli þessu. Ekkert hefur efnislega breyst í málinu síðan þá.“

Hinn 7. janúar 2014 sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál tölvupóst til Skútustaðahrepps og sagði m.a.:

„… í umræddum tölvupósti, dags. 10. september, er svarað upplýsingabeiðni kæranda, eins og henni hafði verið lýst 20. ágúst, og er í 5 liðum. Sú beiðni sem mál það sem nú er til meðferðar varðar er hins vegar dags. 23. nóvember og hún er í 7 liðum. Af því leiðir að enn skortir svör um afstöðu hreppsins til þess sem á milli ber.“

Svar barst með tölvupósti hinn 15. janúar 2014. Þar segir m.a.:

„Ég hafði ekki áttað mig á að tvær spurningar hefðu bæst við og útaf stæði að svara. Hér koma svörin við þeim. Í fyrsta lagi þá áréttar Skútustaðahreppur eins og fram kemur í bréfi dags. 9. sept. s.l.  að hafna beri kröfu kæranda um aðgang að umræddum upplýsingum þar sem óskylt sé að afhenda þau á grundvelli upplýsingalaga þar sem um almenna upplýsingabeiðni er að ræða en lögin kveða á um að beiðni um aðgang að upplýsingum skuli varða tiltekið mál.
Ákvörðun um sorpgjald er tekin á grundvelli gildandi reglna (reglug. nr. 541/2000 og lög nr. 7/1998). Hægt er að upplýsa það án þess að upplýsa um viðskipti einstakra aðila við sveitarfélagið að býli í rekstri greiða eitt, tvö eða þrjú lámarkssorpgjöld, fer eftir umfangi reksturs.
Við ákvörðun um sorpgjald á fyrirtæki er tekið mið af vigtunarseðlum frá Sorpsamlagi Þingeyinga.“ 

Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun Skútustaðahrepps að verða ekki við kröfu kæranda um gögn er beri með sér upplýsingar um fyrir hvaða fasteignir/fyrirtæki og hvaða ekki (fastanúmer) sé greitt sorphirðugjald, um í hvaða sorphirðugjaldaflokki hver fasteign/fyrirtæki sé, um fjárhæð sorphirðugjalda vegna eigna með fastanúmer …, um fjölda fasteigna sem flokkist sem sumarhús eða frístundahús og um hvernig sorphirðugjald fyrir fyrirtæki og býli í rekstri sé nákvæmlega ákveðið.

Þegar Skútustaðahreppur tók umrædda ákvörðun höfðu upplýsingalög nr. 140/2012 öðlast gildi, sbr. 1. mgr. 35. gr. Í 4. mgr. 35. gr. segir þó að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996 halda gildi sínu til 1. janúar 2016 gagnvart sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 manns. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga á það við um Skútustaðahrepp. Af því leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar á því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt verður að teknu tilliti til upplýsingalaga nr. 50/1996.

1.

Varðandi ósk kæranda um skýringar á því hvernig sorphirðugjald fyrir býli í rekstri og fyrirtæki hafi verið ákveðið segir m.a. eftirfarandi, í svari Skútustaðahrepps, dags. 15. janúar 2014: „Ákvörðun um sorpgjald er tekin á grundvelli gildandi reglna (reglug. nr. 541/2000 og lög nr. 7/1998). Hægt er að upplýsa það án þess að upplýsa um viðskipti einstakra aðila við sveitarfélagið að býli í rekstri greiða eitt, tvö eða þrjú lámarkssorpgjöld, fer eftir umfangi reksturs. Við ákvörðun um sorpgjald á fyrirtæki er tekið mið af vigtunarseðlum frá Sorpsamlagi Þingeyinga.“ 

Í 22. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 er ákvæði um rétt þeirra sem sértækar ákvarðanir beinast að til að fá rökstuðning fyrir þeim og, ef sá sem tók umrædda ákvörðun er stjórnvald, s.s. sveitarfélag, getur viðkomandi einnig átt rétt á rökstuðningi í samræmi við 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samsvarandi ákvæði voru hvorki í upplýsingalögum nr. 50/1996 né er slík ákvæði að finna í núgildandi lögum nr. 140/2012. Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er aðeins að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar aðila, sem fellur undir upplýsingalög, um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrlausn ágreiningsmála um skýringar á forsendum sértækra ákvarðana, s.s. um fjárhæðir sorphirðugjalda, falla því utan hennar verksviðs og verður að vísa kærunni frá henni að þessu leyti.

2.

Svar kærða við upplýsingabeiðni kæranda kemur í fyrsta lagi fram í svari kærða dags. 9. september 2013 (við bréfi kærða dags. 20. ágúst 2013). Þar segir m.a.: „Kærandi hefur meðal annars óskað eftir upplýsingum um fasteignir og sorphirðugjöld innan hreppsins (1. liður), upplýsingum um fjölda fasteigna sem flokkast sem sumarhús eða frístundahús (2. liður) og upplýsingum um hvernig sorphirðugjöld fyrir býli rekstri eru nákvæmlega áætluð (5. liður).  Upplýsingum um þessi atriði hefur ekki verið safnað sérstaklega saman og eru þau því ekki tiltæk. Af þeirri ástæðu telur sveitarstjórn að hafna verði kröfu um aðgang að þessum upplýsingum.“

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er meðal annars kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með tilgreindum takmörkunum. Þá segir í 10. gr. að sá sem fari fram á aðgang að gögnum skuli tilgreina þau gögn máls sem hann óski að kynna sér. Eins og ákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 161/2006 tekur rétturinn einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið og tilheyrt geta ákveðnu máli, en leggur ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim er leitað. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds, um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Að því marki sem umbeðin gögn eru ekki fyrirliggjandi telst ekki liggja fyrir synjun stjórnvalds í þessum skilningi og verður þ.a.l. einnig að vísa kærunni að þessu leyti frá nefndinni.

3.

Kærði hefur að öðru leyti svarað og sent úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit fyrirliggjandi gagna. Með bréfi hans til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 9. september 2013, fylgdi í fyrsta afrit af álagningarseðli fasteignagjalda 2013 fyrir fasteignir með fastanúmer … og í öðru lagi fyrirtækjalisti vegna sorpgjalda 2013. Hins vegar telur hann sér vera óheimilt að láta þessi gögn af hendi. Um það segir hann m.a.: „Jafnframt telur sveitastjórn [að] óheimilt sé að verða við beiðni um aðgang að þeim upplýsingum sem greinir í liðum 2 og 3 á grundvelli 5. gr. laga nr. 50/1996, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt þykir að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Að mati sveitarstjórnar varðar sá greiðsluflokkur sem fasteign er í vegna innheimtu sorphirðugjalda, sem og upplýsingar um gjöld sem lögð hafa verið á einstakar og tilgreindar fasteignir, einka- og fjárhagsmálefni í þessum skilningi. Þannig er sanngjarnt og eðlilegt að upplýsingar um álagningu sorphirðugjalda á einstaka aðila séu ekki aðgengilegar almenningi. […].“ 

Á umræddum álagningarseðlum kemur fram hvaða eignir um er að ræða, hvaða einstaklingar eigi þær, hvert sé flatarmál þeirra og rúmmál, fasteigna- og lóðarhlutamat, upplýsingar um álögð gjöld, fasteignaskatt og sorphirðugjald, upplýsingar um eigendur og um gjalddaga. 

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Í 5. gr. laganna segir síðan: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Við mat á því hvort umræddir álagningarseðlar innihaldi slíkar upplýsingar má hafa hliðsjón af því er segir í athugasemdum með samhljóðandi ákvæði 9. gr. í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012. Þar segir m.a. að engum vafa sé undirorpið að ákvæðið eigi við um viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en það geti einnig átt við um vissar aðrar upplýsingar, s.s. um fjárhagsmálefni einstaklinga. Þar sem umræddir álagningarseðlar hafa að geyma slíkar upplýsingar nær aðgangsréttur kæranda ekki til þeirra. 

Hins vegar liggur fyrir listi vegna sorpgjalda 2013 þar sem fyrirtækjum er raðað eftir gjaldflokkum. Sömu takmarkanir og koma fram í framangreindri 5. gr. laga nr. 50/1996 gilda um gögn er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum sem fylgdu þeirri grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 50/1996, segir m.a.: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“ Við mat á því hvort þær upplýsingar um lögaðila, sem fram koma á listanum, falli hér undir skiptir máli hvort aðgangur almennings að þeim geti verið til þess fallinn að valda viðkomandi lögaðilum tjóni. Í skýringum við samsvarandi ákvæði, í 9. gr. núgildandi upplýsingalaga nr. 140/2012, er tekið fram að leggja verði mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum viðkomandi lögaðila og að við það mat þurfi almennt að vega saman hagsmuni lögaðilans af því að upplýsingum verði haldið leyndum gagnvart hinum mikilvægu hagsmunum af því að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur upplýsingar um lögaðila á listanum ekki bera með sér upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra að leynd um þær skuli ganga framar lögbundnum rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum. Verður synjun um aðgang að listanum því ekki, vegna hagsmuna lögaðila, reist á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Á listanum eru hins vegar ekki aðeins upplýsingar um lögaðila heldur eru þar einnig upplýsingar um fyrirtæki einyrkja sem geta talist til persónuupplýsinga í skilningi 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Það hugtak er víðfeðmt og tekur til allra upplýsinga, álita og umsagna sem beint eða óbeint má tengja tilteknum einstaklingi, þ.e. upplýsinga sem eru persónugreindar eða persónugreinanlegar. Kemur því til skoðunar ákvæði 7. gr. laga nr. 50/1996 um að eigi ákvæði 4.–6. gr. við um hluta skjals skuli aðeins veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins. 

Í athugasemdum með ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 77/2000, segir að beita verði lögunum með hliðsjón af ákvæði 1. gr. laganna. Hafa beri í huga að upp geti komið tilvik þar sem unnið sé með upplýsingar, sem samkvæmt orðanna hljóðan séu persónuupplýsingar, en séu þó ekki þess eðlis að standa þurfi vörð um þær á grundvelli sjónarmiða um friðhelgi einkalífs. Þá er það ekki mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að enda þótt um persónuupplýsingar teljist vera að ræða, sé eðli þeirra slíkt að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Að því virtu er það niðurstaða hennar að umræddur listi hafi ekki að geyma upplýsingar sem falli undir ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Verði synjun um aðgang að honum, vegna hagsmuna einstaklinga, því ekki heldur reist á því  ákvæði.

Að fenginni ofangreindri niðurstöðu þykir ekki ástæða til að fjalla um aðrar málsástæður sem hafðar hafa verið uppi vegna málsins.

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Skútustaðahrepps að synja beiðni [A] um að fá afrit af álagningarseðlum fasteignagjalda 2013 í Skútustaðahreppi fyrir fasteignir með fastanúmer …. Skútustaðahreppi ber hins vegar að afhenda lista yfir álögð sorpgjöld 2013 þar sem fyrirtækjum er raðað eftir gjaldflokkum. Að öðru leyti er kæru [A] vísað frá. 


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson

.





 




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta