Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2014 Forsætisráðuneytið

A-520/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

Úrskurður

Hinn 1. apríl kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-520/2014 í máli ÚNU 13030007

Kæra og málsatvik

Með bréfi 13. mars 2013 kærðu [A, B og C] afgreiðslu 20 sýslumannsembætta á beiðni um afhendingu gagna. Í kærunni er vísað til þess að þann 20. desember 2012 hafi kærendur óskað upplýsinga frá sýslumannsembættum landsins um kjör löglærðra starfsmanna þar. Þann 17. janúar 2013 hafi borist svar í tölvupósti frá Sýslumannafélagi Íslands fyrir hönd 23 sýslumannsembætta þar sem upplýst var um launaflokka starfsmanna embættanna, fasta yfirvinnutíma og hvort starfsmaður væri staðgengill sýslumanns. Svar sýslumannsins í Reykjavík með sömu upplýsingum hafi borist þann sama dag. Í kærunni kemur fram að kærendur hafi talið svar Sýslumannafélagsins ófullnægjandi og beiðni kærenda hafi því verið ítrekuð með bréfi 30. janúar 2013. Þann 13. febrúar sama ár hafi borist svar í tölvupósti frá Sýslumannafélaginu f.h. 20 sýslumannsembætta. Þar kemur fram að félagið telji þær upplýsingar sem þegar hafi verið sendar kærendum væru fullnægjandi. Ekki sé um önnur fastlaunakjör að ræða en greint hafi verið frá í fyrra svari. Varðandi starfsaldur sé því til að svara að skráning sé ónákvæm og því varhugavert að byggja á henni. Í ráðningarsamningum einstakra starfsmanna sé ekki að finna neinar upplýsingar varðandi laun og kjör sem ekki hafi þegar verið veittar. Í kærunni kemur fram að í beiðnum kærenda 20. desember 2012 og 30. janúar 2013 hafi sérstaklega verið óskað eftir annars vegar ráðningarsamningum og hins vegar fastlaunasamningum umræddra starfsmanna og einnig eftir atvikum öðrum gögnum um föst launakjör. 

Í  kærunni kemur fram að á svipuðum tíma og framangreind samskipti áttu sér stað hafi kærendum borist umbeðnar upplýsingar frá sýslumönnunum í Reykjavík og á Patreksfirði, Ísafirði og Siglufirði. Kærð sé ákvörðun hinna 20 embættanna að afhenda ekki umbeðnar upplýsingar. Áréttað er að réttur til aðgangs að gögnum um laun og föst launakjör opinberra starfsmanna, þ. á m. að ráðningarsamningum og öðrum ákvörðunum og samningnum sem kunni að liggja fyrir um föst launakjör þeirra byggi á skýrri og fastmótaðri framkvæmd eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 sem lögfest hafi verið með nýjum upplýsingalögum nr. 140/2012. Skýrt sé að réttur til aðgangs nái þannig til gagna sem geymi upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn eigi rétt til. Þá er fundið að því að þau svör sem hafi borist frá hinum kærðu embættum hafi verið send af Sýslumannafélagi Íslands. Í kærunni kemur fram að kæran beinist að embættum sýslumannsins á Akranesi, sýslumannsins á Akureyri, sýslumannsins á Blönduósi, sýslumannsins í Bolungarvík, sýslumannsins í Borgarnesi, sýslumannsins í Búðardal, sýslumannsins á Eskifirði, sýslumannsins í Hafnarfirði, sýslumannsins á Hólmavík, sýslumannsins á Húsavík, sýslumannsins á Hvolsvelli, sýslumannsins á höfn, sýslumannsins í Keflavík, sýslumannsins í Kópavogi, sýslumannsins á Sauðárkróki, sýslumannsins á Selfossi, sýslumannsins á Seyðisfirði, sýslumanns Snæfellinga, sýslumannsins í Vestmannaeyjum og sýslumannsins í Vík.  

Málsmeðferð

Í kjölfar þess að kæran barst úrskurðarnefndarinnar áttu sér stað bréfleg samskipti af hálfu nefndarinnar og kærenda um það hvort kæran uppfyllti skilyrði 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar voru síðan rituð bréf 27. maí 2013 til þeirra sýslumannsembætta er kæran lýtur að. Í bréfunum, sem voru samhljóða, voru embættin upplýst um að kæran hefði borist og athygli þeirra vakin á efni 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Var því beint til embættanna að þau tækju ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið hefði slík ákvörðun ekki þegar verið tekin. Kysu embættin að synja kærendum um aðgang að gögnum þeim er beiðni þeirra lyti að var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit af hinum umbeðnu gögnum. 

Dagana 29. og 30. maí 2013 bárust nefndinni svör frá sýslumanninum á Höfn, sýslumanninum á Hólmavík og sýslumanninum á Bolungarvík. Þar kom fram að hjá umræddum embættum væru engir löglærðir fulltrúar og því engin gögn að finna sem beiðni kærenda lyti að. 

Þann 4. júní 2013 barst úrskurðarnefndinni bréf frá Sýslumannafélagi Íslands sem var undirritað af formanni félagsins. Kemur þar fram að flestir sýslumenn hafi tekið sig saman og falið Sýslumannafélagi Íslands að svara erindi kærenda í einu lagi. Af hálfu félagsins er því hafnað að nokkuð sé athugavert við form svara félagsins til kærenda. Þá hafnar félagið að afhenda kærendum ráðningarsamninga. Að mati félagsins séu í ráðningarsamningum upplýsingar af því tagi sem undanþegnar séu upplýsingarétti samkvæmt 4. tölulið 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sbr. 7. gr. sömu laga. Í bréfinu er í þessu samhengi vísað til bankareikninga starfsmanna. Þegar hafi verið veittar upplýsingar um föst launakjör sbr. 3. tölulið 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þá sé ástæða til að taka fram að útgáfudagar ráðningarsamninga séu ekki áreiðanlegar upplýsingar um starfsaldur, sem séu upplýsingar sem kærendur hafi leitað eftir. Dagsetning á gildandi ráðningarsamningi segi ekki til um samanlagðan starfsaldur starfsmanns hjá hinu opinbera. Almennt hafi sýslumenn ekki aðgengilegar upplýsingar um fyrri starfsaldur starfsmanna á öðrum embættum eða stofnunum ríkisins. Sýslumannafélagið líti svo á að með svari sínu til kærenda með tölvupósti 30. janúar 2013 og aftur 13. febrúar 2013 hafi með skýrum hætti verið tekið fram að þegar hafi verið veitt fullnægjandi svör og að hafnað væri beiðni um ráðningarsmaninga, þrátt fyrir að það væri ekki gert með sérstakri tilvísun í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Með bréfi 6. júní 2013 tilkynntu kærendur úrskurðarnefndinni að þeim hefðu borist bréf frá sýslumanninum á Höfn og sýslumanninum á Hvolsvelli. Af bréfinu verður ráðið að kærendur telji að umrædd embætti hafi brugðist með fullnægjandi hætti við beiðni þeirra um gögn.

Þann 3. júlí 2013 var þess óskað af hálfu úrskurðarnefndarinnar að Sýslumannafélagið skýrði nánar hvort það teldi sig geta komið fram fyrir hönd einstakra sýslumannsembætta gagnvart úrskurðarnefndinni. Félagið brást við erindinu 8. sama mánaðar. Þar kom fram að bréf félagsins 4. júní hefði verið ritað í umboði umræddra sýslumannsembætta. Frekari svör bárust nefndinni 26. júlí 2013. Þar kom fram að málið snéri að gerð stofnanasamnings löglærðra starfsmanna sýslumannsins í Reykjavík. Sýslumannafélag Íslands hefði annast gerð stofnanasamnings f.h. allra sýslumannsembætta utan Reykjavíkur en sá stofnanasamningur var látinn nefndinni í té. 

Þann 25. september 2013 voru af hálfu úrskurðarnefndarinnar rituð bréf til þeirra sýslumannsembætta er kæran laut að. Var óskað eftir að sýslumannsembættin staðfestu að bréf Sýslumannafélags Íslands til úrskurðarnefndarinnar 4. júní 2013 hefði verið ritað í umboði sýslumannsembættanna. Slík staðfestingar bárust frá öllum sýslumannsembættum sem kæran beindist að. 

Úrskurðarnefndini barst bréf frá sýslumansembættinu í Búðardal, dags. 4. desember 2013, þar sem fram kom að engin löglærður fulltrúi starfaði þar.

Þann 17. mars 2014 ritaði úrskurðarnefndin bréf til Sýslumannafélags Íslands en með bréfinu var þess óskað að félagið léti nefndinni í té þau gögn sem kærendum höfðu verið afhent af hálfu félagsins sem og þeirra gagna sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafði afhent kærendum. Úrskurðarnefndin fékk gögnin send 19. mars sama ár. 

Meðferð málsins hefur dregist fyrir úrskurðarnefndinni vegna þeirra samskipta sem nefndin taldi nauðsynleg vegna óvissu um umboð Sýslumannafélags Íslands. 

Niðurstaða

1.

Í beiðni kærenda 20. desember 2012 var óskað eftir ráðningar- og fastlaunasamningum löglærðra starfsmanna sýslumannsembætta landsins. Í beiðninni kom einnig fram að eftir atvikum væri einnig óskað eftir öðrum samningum sem hefðu að geyma upplýsingar um föst launakjör.  Sýslumannafélag Íslands brást við beiðninni með tölvupósti 17. janúar 2013 en í honum kemur fram að með tölvupóstinum séu kærendum látnar í té umbeðnar upplýsingar frá þeim sýslumannsembættum sem beiðni kæranda var beint til. Af gögnum málsins verður ráðið að félagið hafi sent tölvupóstinn fyrir hönd umræddra sýslumannsembætta og að í kjölfarið hafi það komið fram fyrir hönd sýslumannsembættanna gagnvart kærendum og úrskurðarnefndinni. 

Kærendur óskuðu á ný eftir sömu gögnum frá umræddum sýslumannsembættum með beiðni 30. janúar 2013. Tekið var fram að sérstaklega væri óskað eftir að fá þau gögn sem tilgreind hefðu verið í beiðninni frá 20. desember 2012 og að viðbrögð Sýslumannafélags Íslands við þeirri beiðni hefðu verið ófullnægjandi. Ómögulegt væri að greina af þeim upplýsingum sem kærendum hefðu verið látnar í té hvort um tæmandi talningu á launakjörum starfsmanna væri að ræða. Auk þess lægi starfsaldur hvers starfsmanns ekki fyrir eins og lesa mætti úr ráðningarsamningum. Sýslumannafélag Íslands brást við þessari beiðni kærenda með tölvupósti 13. febrúar og synjaði um aðgang að hinum umbeðnu gögnum.   

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga.  Ákvarðanir Sýslumannafélags Íslands fyrir hönd ýmissa sýslumannsembætta 17. janúar 2013 og 13. febrúar sama ár voru því eðli máls samkvæmt byggðar á efnisákvæðum laga nr. 140/2012. 

2.
Beiðni kærenda um aðgang að gögnum var reist á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012 en þar er kveðið á um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Samkvæmt ákvæðinu er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, sé þess óskað, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í 7. gr. laganna er fjallað um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna. Í 1. mgr. 7. gr. segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til taki „ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti“. Á hinn bóginn er í 2. mgr. 7. gr. kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé skylt að veita upplýsingar um tiltekin atriði sem varði opinbera starfsmenn. Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. er því skylt að veita aðgang að upplýsingar um „föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda“. 

Í athugasemdum um 7. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að í 2. mgr. 7. gr. sé að finna undantekningar frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. lagagreinarinnar. Þá segir að með „gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr.“, sé átt við „gögn í málum þar sem teknar séu ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna“. Um þetta segir nánar í athugasemdunum: 

Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.

Í eldri upplýsingalögum nr. 50/1996 var ekki að finna sambærilegt ákvæði og 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar óskað var aðgangs að gögnum um launakjör starfsmanna í gildistíð eldri laga reyndi því á þá almennu takmörkunarheimild vegna einkahagsmuna einstaklinga sem fólst í 1. málslið 5. gr. laganna, sbr. núgildandi 1. málslið 9. gr.  Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að núgildandi upplýsingalögum var í umfjöllun um 3. tölulið 2. mgr. 7. gr. vísað til þeirrar framkvæmdar sem hafði skapast við beitingu 5. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 að því er varðaði upplýsingar um launakjör starfsmanna. Sagði eftirfarandi í athugasemdunum að þessu leyti: 

Samkvæmt skýrri og fastmótaðri framkvæmd á upplýsingalögum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem á sér einnig stoð í athugasemdum sem fylgdu 5. gr. frumvarpsins að lögunum, hafa 3. og 5. gr. laganna verið skýrðar svo að sé óskað aðgangs að gögnum um laun opinberra starfsmanna skuli veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem ná til fastra launakjara þeirra, þar á meðal ráðningarsamningum og öðrum ákvörðunum og samningum sem kunna að liggja fyrir um föst laun þeirra. Rétturinn til aðgangs samkvæmt gildandi lögum nær þannig til gagna sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn á rétt til. Hins vegar hefur vegna ákvæðis 1. málsl. 5. gr. núgildandi upplýsingalaga verið litið svo á að óheimilt sé að veita aðgang að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um greidd heildarlaun opinbers starfsmanns hvort sem þau eru hærri en föst laun hans, t.d. sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri af einhverjum ástæðum, svo sem vegna launafrádráttar af sérstökum ástæðum. Má um framangreindar skýringar t.d. vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-277/2008, A-214/2005, A-393/2011 o.fl. svo og álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5103/2007. Lagt er til að breyting verði á þessu að því er varðar þá opinberu starfsmenn sem teljast æðstu stjórnendur. [...]Í 3. tölul. 2. mgr. er því mælt fyrir um það að einvörðungu skuli veita upplýsingar um föst laun opinberra starfsmanna [...] Með föstum launakjörum er m.a. átt við ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunna að liggja fyrir um föst laun starfsmanns. Rétturinn til aðgangs nær þannig til gagna sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn á rétt til. Jafnframt felst í þessu að óheimilt er að veita upplýsingar um greidd heildarlaun opinbers starfsmanns, hvort sem þau eru hærri en föst laun hans, t.d. sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri af einhverjum ástæðum, svo sem vegna launafrádráttar af sérstökum ástæðum. 

Úrskurðarnefndin telur ljóst að almennt teljast samningar milli stjórnvalda og starfsmanna þeirra um starfssambandið undanþegnir upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn kunna í slíkum samningum að koma fram upplýsingar sem almenningur á rétt til aðgangs að sbr. áðurnefndan 3. tölulið 2. mgr. 7. gr. Sú regla, eins og önnur ákvæði 2. mgr. 7. gr., felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 7. gr.  

Í ljósi þessa telur úrskurðarnefndin að stjórnvöld geti fullnægt lagaskyldu sinni samkvæmt 2. mgr. 7. gr. með því að láta þeim sem óskar aðgangs að gögnum á grundvelli ákvæðisins aðeins í té þær upplýsingar sem sérstaklega eru þar tilgreindar. Vegna beiðni um aðgang að upplýsingum samkvæmt 3. tölulið 2. mgr. 7. gr. er stjórnvaldi því ekki skylt að afhenda gögn eins og ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunna að liggja fyrir um föst laun starfsmanns eða gögn sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaður á rétt til, kjósi stjórnvaldið fremur að útbúa og veita aðgang að öðru gagni þar sem upplýsingar þær sem tilgreindar eru í ákvæðinu koma fram eða þá að beita heimild 3. mgr. 5. gr. til þess að strika út upplýsingar í tiltækum skjölum sem óheimilt er að birta. Því var sýslumannaembættunum, er beiðni kærenda var beint til, heimilt að afhenda kærendum yfirlit yfir föst launakjör tiltekinna starfsmanna umræddra embætta í stað þeirra gagna sem tilgreind voru í beiðninni, enda nær réttur kærenda samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga ekki til ákveðina gagna heldur til þeirra upplýsinga sem tilteknar eru í ákvæðinu.  

3.

Sýslumannafélag Íslands hefur látið úrskurðarnefndinni í té þau gögn sem afhent voru kærendum í tilefni af beiðni þeirra 20. desember 2012. Um er að ræða töflu sem ber heitið „Föst launakjör fulltrúa sýslumannsembættanna utan Reykjavíkur“ en taflan skiptist í fjóra dálka. Í dálk sem ber yfirskriftina „Fulltrúi“ koma fram tölur í hlaupandi röð frá einum til 39 og verður ráðið að hver tala í dálknum standi fyrir einstakan starfsmann en í sömu röð annarra dálka töflunnar sé að finna upplýsingar um viðkomandi starfsmann í samræmi við yfirskriftir hinna dálkanna þriggja sem eru „Launaflokkur“, „Föst yfirvinna klst“ og „Staðgengill“. Þannig komi fram í dálknum „Launaflokkur“ númer launaflokks viðkomandi starfsmanns og í dálknum „Föst yfirvinna klst.“ komi fram fjöldi klukkustunda sem viðkomandi fái greiddar í yfirvinnu. Loks sé tilgreint í dálknum „Staðgengill“ hvort starfsmaðurinn sé staðgengill sýslumanns eða ekki. Í töflunni sem Sýslumannafélag Íslands afhenti kærendum koma hvorki fram nöfn umræddra starfsmanna né hvaða sýslumannsembættum þeir starfa hjá. 

Réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um föst launakjör í skilningi 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga verður ekki takmarkaður með þeim hætti að ekki sé skylt samkvæmt ákvæðinu að greina frá því hver föst launakjör tiltekins nafngreinds starfsmanns séu. Því var Sýslumannafélagi Íslands ekki heimilt að leyna nöfnum þeirra starfsmanna sem hinar umbeðnu upplýsingar lutu að, nema fyllilega væri ljóst að kærendur hefðu ekki hug á að fá þær upplýsingar. Engu skiptir í því samhengi að beiðni kærenda beindist að upplýsingum um föst launakjör fleiri einstaklinga. Að sama skapi bar að tilgreina hjá hvaða sýslumannsembættum umræddir starfsmenn störfuðu þar sem beiðni kærenda var ekki beint að Sýslumannafélagi Íslands heldur hverju og einu sýslumannsembætti. 

Þá verður ekki ráðið af öðrum upplýsingum í töflunni hver föst launakjör fulltrúa sýslumannsembættanna voru. Þótt þar komi fram launaflokkar einstakra starfsmanna, hver föst yfirvinna þeirra séu og hvort þeir séu staðgengill sýslumanns er alls óljóst hvaða þýðingu þessar upplýsingar hafa fyrir föst launakjör þeirra. Er þannig ekki vísað til neinna samninga sem kunna að gilda að öðru leyti um launakjör fulltrúa sýslumannsembætta en ætla verður að slíkra upplýsingar sé að finna í þeim gögnum sem kærendur óskuðu aðgangs að. Uppfylltu veittar upplýsingar að þessu leyti ekki áskilnað 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Af þessu tilefni bendir  úrskurðarnefndin á að stofnunum og lögaðilum, sem bundin eru af ákvæðum upplýsingalaga, er heimilt að bregðast við beiðnum um aðgang að gögnum með því að leiðbeina hvar megi nálgast þau hafi þau þegar verið gerð opinber. Vísast um þetta til 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga þar sem sú krafa er gerð að stjórnvald tilgreini þá nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar eru aðgengilegar. Var því Sýslumannafélagi Íslands, fyrir hönd þeirra sýslumannsembætta sem beiðni kærenda var beint til, ekki heimilt að gera ráð fyrir að kærendur hefðu í höndum aðrar upplýsingar sem þurfti til að greina föst launakjör þeirra starfsmanna er beiðnin laut að. Þá áréttar úrskurðarnefndin að hafi aðrar upplýsingar um einstaka sýslumannsfulltrúa skipt máli varðandi útreikning á föstum launakjörum þeirra umfram það sem fram kemur í hinni afhentu töflu, eins og til dæmis starfsaldur fulltrúanna, bar sýslumannafélaginu að veita aðgang að slíkum upplýsingum. 

Í ljósi alls þessa voru viðbrögð Sýslumannafélags Íslands við beiðni kærenda ekki í samræmi við 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þrátt fyrir að úrskurðarnefndin hafi með bréfi 27. maí 2013 farið þess á leit við sýslumannsembættin að þau létu nefndinni í té þau gögn sem kærendum hafði verið synjað um aðgang að, hefði slík ákvörðun á annað borð verið tekin, hafa gögnin ekki verið afhent nefndinni. Nefndin hefur því ekki forsendur til að taka ákvörðun um að veita kærendum aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Verður því, í samræmi við þau sjónarmið sem úrskurðarnefndin hefur rakið í úrskurði þessum., lagt fyrir þau sýslumannsembætti sem kærð voru að afhenda kærendum upplýsingar um nöfn löglærðra starfsmanna embættanna og föst launakjör hvers og eins þeirra hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Úrskurðarnefndin bendir á að til fastra launakjara, í skilningi 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, teljast föst yfirvinna, bílastyrkir, húsaleigustyrkir og önnur þess háttar hlunnindi.  

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir sýslumanninn á Akranesi, sýslumanninn á Akureyri, sýslumanninn á Blönduósi, sýslumanninn í Borgarnesi, sýslumanninn á Eskifirði, sýslumanninn í Hafnarfirði, sýslumanninn á Húsavík, sýslumanninn í Keflavík, sýslumanninn í Kópavogi, sýslumanninn á Sauðárkróki, sýslumanninnn á Selfossi, sýslumanninn á Seyðisfirði, sýslumann Snæfellinga, sýslumanninn í Vestmannaeyjum og sýslumanninn í Vík að afhenda kærendum upplýsingar um föst launakjör löglærðra starfsmanna embættanna.  


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir              

Friðgeir Björnsson 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta