Hoppa yfir valmynd
9. maí 2014 Forsætisráðuneytið

A-527/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

Úrskurður

Hinn 5. maí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-527/2014 í máli ÚNU 13110008.

Kæra

Þann 17. febrúar 2014 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A yfir því með hvaða hætti Höfði, hjúkrunar- og dvalarheimili, hefði brugðist við úrskurði nefndarinnar, nr. A-514/2014, frá 28. janúar 2014. Í kærunni segir m.a.:

„Með vísan til […] kærir undirritaður hér með ákvörðun Höfða um að heimila mér einungis lesaðgang að umræddri endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2012 [...]. Það er krafa mín að Höfði afhendi mér eintak af skýrslunni án frekari dráttar, en undirrituðum er óskiljanleg þessi afstaða stjórnar að neita að afhenda skýrsluna. Einungis er stjórn og framkvæmdastjóri að gera þeim einstaklingum sem vilja fylgjast með og gæta réttar síns sem borgurum, erfiðara fyrir að fylgjast með fjármálum Höfða og þeim athugasemdum sem endurskoðandi telur að betur megi fara.  Ég bendi á að það hlýtur að hafa verið vilji löggjafans þegar upplýsingalögin voru bundin í lög, að gera almenningi auðveldara fyrir en áður að nálgast gögn og fá að fylgjast með opinberum stofnunum hvað stjórnsýslu þeirra varðar.  Ég bendi á að þessi afstaða takmarkar verulega möguleika þess sem vill kynna sér hlutina, að vera bundinn því að lesa skýrsluna einungis á skrifstofu Höfða, og það væntalega undir eftirliti starfsmanna eða stjórnarmanna.  Hvað óttast viðkomandi?“  

Málsmeðferð

Kæran var send Höfða til athugasemda með bréfi, dags. 18. febrúar 2014. Í svari Höfða, dags. 28. febrúar 2014, segir m.a.:

„Í úrskurðarorðum nefndarinnar frá 28. janúar 2014 í úrskurði nr. A-514/2014 í máli ÚNU 13100002 kemur eftirfarandi fram: „Höfða, dvalar og hjúkrunarheimili, ber að veita kæranda, A, aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2012…..“ Á grundvelli ofangreindra úrskurðarorða nefndarinnar var kæranda tilkynnt í bréfi dags. 7. febrúar 2014 að honum væri velkomið að koma á skrifstofu Höfða þar sem kæranda verði veittur aðgangur að umræddri endurskoðunarskýrslu til aflestrar. Á slíkt hefur kærandi ekki fallist og telur sig eiga rétt á að fá afhent afrit af umræddri endurskoðunarskýrslu en eins og ofangreind úrskurðarorð nefndarinnar hljóða er ekki kveðið á um afhendingu gagna. Eftir tölvupóstsamskipti við kæranda var ákveðið af hálfu Höfða að senda fyrirspurn til úrskurðarnefndar um upplýsingamál varðandi túlkun hennar á úrskurði sínum. Kærandi fékk samdægurs afrit af fyrirspurn okkar ásamt svari starfsmanns nefndarinnar um að erindið yrði borið undir nefndina á næsta fundi. Ekki hefur fengist svar frá nefndinni þrátt fyrir að í tölvupósti frá 12. febrúar sl. hafi starfsmaður nefndarinnar staðfest að málið verði borið undir nefndina næst þegar hún kemur saman en á heimasíðu nefndarinnar má sjá að hún kom saman þann 13. febrúar sl. 
Að okkar mati styrkir það túlkun okkar á úrskurðarorðum nefndarinnar að í fjölmörgum úrskurðum sínum sem birtir eru á heimasíðu nefndarinnar er kveðið á um afhendingu gagna í úrskurðarorðum, en í úrskurðarorðum nefndarinnar nr. A-514/2014 er einungis kveðið á um aðgang að endurskoðunarskýrslu. Þetta á bæði við úrskurði sem kveðnir voru upp fyrir og eftir úrskurð í þessu máli. Það er túlkun okkar að hefði það verið vilji nefndarinnar að Höfða bæri að afhenda afrit af endurskoðunarskýrslu þá hefði það komið fram í úrskurðarorðum. Því er það eðlilegt að okkar mati að synja afhendingu afrits gagna þar til túlkun á úrskurðarorðum nefndarinnar liggur fyrir. Að okkar mati erum við ekki að hefta aðgang kæranda að umræddri endurskoðunarskýrslu eins og fram kemur í kæru og höfnum því alfarið að afstaða okkar takmarki möguleika kæranda til að kynna sér hlutina. Í því sambandi bendum við á að kærandi býr skammt frá skrifstofu Höfða eða nánar tiltekið í 330 metra göngufjarlægð og því greiður aðgangur að skýrslunni.“

Kæranda var, með bréfi dags. 22. apríl 2014, gefinn kostur á að tjá sig um svar Höfða. Í umsögn hans, dags. 25. apríl, segir m.a.: 

„Undirritaður ítrekar kröfur um að fá umrædda endurskoðunarskýrslu afhenta og hafnar þeim rökum sem stjórn og framkvæmdastjóri Höfða færa fram að ekki sé þörf á að afhenda mér gögnin þar sem ég búi svo nálægt Höfða að ég geti vel  gengið á skrifstofu Höfða og lesið umrædda skýrslu. Málið snýst auðvitað ekki um nálægð þeirra sem óska eftir að kynna sér opinber gögn sem lög kveða svo á um að viðkomandi eigi rétt á að kynna sér, heldur eðlilegt aðgengi og skyldu stofnunar til afhendingar gagna.  Eins og ég hef áður bent á í þessu máli hlýtur það að vera skylda stofnunar að afhenda gögn sem þessi, eða setja á heimasíðu sína þannig að gögnin séu öllum aðgengileg.  
Hvað t.d. ef ég ætti heima á Akureyri eða London, ætti ég þá að koma mér til Akraness og á skrifstofu Höfða, eða myndu stjórnendur Höfða þá senda mér eintak af skýrslunni?  Nei, krafa mín gengur út á að fá skýrsluna afhenda refjalaust og án undanbragða, það hlýtur að vera andi bæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga að stofnanir standi þannig að málum. Benda má á að stjórn og framkvæmdastjóri Höfða beita öðrum vinnubrögðum heldur en stjórnendur Akraneskaupstaðar sem hafa nú þegar sent mér afrit af endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Akraneskaupstaðar fyrir árið 2012 án þess að bera við þeim rökum sem hér um greinir sem stjórn og framkvæmdastjóri Höfða bera fyrir sig.  Höfði er undirstofnun Akraneskaupstaðar og ætti því að notast við sömu vinnubrögð hvað þetta varðar.“

Hinn 27. apríl skýrði kærandi kröfu sína nánar með tölvupósti. Þar segir m.a.: 

„Að gefnu tilefni skal það tekið fram af minni hálfu að ég er fullkomlega sáttur við að fá umrædda skýrslu í PDF formi senda í tölvupósti til mín eða senda í ljósriti heim til mín.  Það skal áréttað hér með hafi leikið vafi á því með hvers konar hætti ég væri að gera kröfu til stjórnenda Höfða um að skýrslan bærist mér. Það skal tekið fram einnig að til glöggvunar fyrir bæjarbúa og aðra þá sem áhuga hafa á fjármálum opinberra stofnana væri nú ekki í vegi að ársreikningar þeirra ásamt endurskoðunarskýrslum væru birtar á vefsvæði viðkomandi stofnunar öllum aðgengilegt.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. 

Niðurstaða

Kæra máls þessa lýtur að því á hvaða formi Höfði, dvalar og hjúkrunarheimili, afhendi kæranda endurskoðunarskýrslu í samræmi við ákvörðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem fram kemur í úrskurði hennar nr. A-514/2014, dags. 28. janúar 2014, í máli ÚNU 13100002. 

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn „á því formi“ sem óskað er.  Í athugasemdum við þessa grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir m.a.: „Heimilt er að bera bæði synjun að hluta og synjun að öllu leyti undir nefndina. Hins vegar verður að liggja fyrir formleg ákvörðun um að synja beiðni áður en nefndin tekur kæru til meðferðar.“ Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál liggur slík ákvörðun fyrir.

Samkvæmt 18. gr. upplýsingalaga  nr. 140/2012 skal, eftir því sem því við verður komið, veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. 

Í lögunum er ekki gert ráð fyrir því að stjórnvald, eða lögaðili sem fellur undir lögin, uppfylli skyldu sína með því einu að leyfa lestur gagna á starfstöð viðkomandi. Verður því ekki á það fallist að Höfði, dvalar og hjúkrunarheimili, geti uppfyllt skyldu sína samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-514/2014, um aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings fyrir árið 2012, með því einu að leyfa kæranda að lesa hana á skrifstofu heimilisins heldur beri heimilinu að afhenda kæranda afrit af  þeirri skýrslu sem hann óskar aðgangs að.

Úrskurðarorð

Höfða, dvalar og hjúkrunarheimili, ber að afhenda kæranda afrit af endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2012.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Erna Indriðadóttir                              

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta