Hoppa yfir valmynd
9. maí 2014 Forsætisráðuneytið

A-528/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

Úrskurður

Hinn 5. maí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-528/2014, í máli ÚNU 13070007.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 29. júlí 2013, kærði A, f.h. L og S, þá ákvörðun Vinnueftirlitsins, dags. 2. júlí 2013, að synja honum um aðgang að gögnum í tengslum við slys er varð á vinnustað L 16. mars 2010.

Málsatvik

Kærandi sendi Vinnueftirlitinu beiðni um afhendingu gagna með tölvubréfi, dags. 29. maí 2013, þar sem fram kom að hann óskaði f.h. L og S eftir gögnum vegna slyss sem C varð fyrir þann 16. mars 2010. Í málinu lægju fyrir skýrslur Vinnueftirlitsins annars vegar frá 28. júní 2010 og hins vegar frá 22. nóvember 2010, sbr. eftirlitsskýrslur nr. A91227, en engar upplýsingar lægju fyrir um ástæður þess að ný skýrsla var gerð. Því væri gagna óskað s.s. bréfaskrifta, minnisblaða eða tölvupósta sem til staðar væru í málaskrá Vinnueftirlitsins sem kynnu að varpa á það ljósi.

Vinnueftirlitið svaraði beiðni kæranda fyrst með tölvubréfi, dags. 5. júní 2013, þess efnis að málið væri í vinnslu og hins vegar með tölvubréfi, dags. 14. júní 2013. Í síðara tölvubréfinu kemur fram að ástæða þess að slysaumsögnin var endurgerð var ábending frá aðila tengdum málinu. Eftir skoðun gagna hafi komið í ljós að ábendingin átti við rök að styðjast og því hafi umsögin verið endurgerð og sé síðari umsögnin endanleg umsögn. Þá kemur fram að í málinu séu engar sérstakar upplýsingar eða rannsóknargögn önnur en þau sem endurspeglast í endurgerðri umsögn. Sé óskað eftir gögnum á grundvelli upplýsingalaga þá sé farið fram á að það verði gert með skriflegu erindi.

Með bréfi kæranda til Vinnueftirlitsins, dags. 19. júní 2013, óskað hann í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 eftir öllum gögnum og upplýsingum fyrirliggjandi hjá Vinnueftirlitinu í tengslum við eftirlitsskýrslur sem það lét framkvæma 28. júní og 22. nóvember 2010. 

Vinnueftirlitið synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 2. júlí 2013, og kemur þar m.a. fram:

„Eftir að hafa skoðað þau gögn sem um ræðir hefur Vinnueftirlitið (VER) áveðið að láta ekki eftirfarandi gögn af hendi:
1. Umsögn VER um vinnuslys hjá L (eftirlitsskýrsla), dags. 28.06.2010,
2. Umsögn VER um vinnuslys hjá L (eftirlitsskýrsla), dags. 22.11.2011,
3. Tjónstilkynningu hins slasaða til S dags. 31.03.2010,
4. Rannsóknarskýrslu L dags. 16.03.2010,
5. Lögregluskýrslu sýslumannsins á Eskifirði, dags. 27.03.2010,
6. Tölvupóstsamskipti VER við þann aðila sem kom með ábendingu til stofnunarinnar um ágalla á eftirlitsskýrslu (slysaumsögn) stofnunarinnar, dags. 28.06.2010.

Þau gögn sem falla undir 1. til 5. tölul. varða upplýsingar um atburð í lífi hins slasaða sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari enda um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða m.a. koma þar fram heilsufarsupplýsingar. Afhending framangreindra gagna er því hafnað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. 

Þau gögn sem falla undir [6.] tölul. varða upplýsingar um aðila sem kom með ábendingar til VER um ágalla á eftirlitsskýrslu (slysaumsögn) stofnunarinnar dags. 28.06.2010 sem varð, ásamt öðru, til þess að VER gerði nýja eftirlitsskýrslu (slysaumsögn) dags. 22.11.2011, þar sem atvinnurekanda hins slasaða [voru] veitt fyrirmæli um úrbætur á vinnuumhverfi þess vinnustaðar þar sem ofangreint vinnuslys átti sér stað. Skv. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum mega starfsmenn VER ekki láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans, að eftirlitsferð sé gerð vegna umkvörtunar. Afhending framangreindra gagna er því hafnað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2010 og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.“

Eins og fyrr sagði barst kæra máls þessa með bréfi, dags. 29. júlí 2013, og kemur þar fram að kærandi telur röksemdir Vinnueftirlitsins fyrir því að hafna aðgangi að gögnum ekki eiga sér lagastoð. Slysið hafi orðið á starfsstöð umbjóðanda kæranda, L, og sé fyrirtækið því aðili máls í skilningi 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Vinnueftirlitinu sé því skylt að afhenda gögnin enda varði þau hagsmuni L sérstaklega og verulega umfram aðra þar sem þau lúti að mati opinbers eftirlitsaðila á því hvort farið hafi verið að settum lögum og reglum á vinnustaðnum í umrætt sinn og hvort félaginu hafi borið að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir að slys endurtaki sig. Sá aðili sem hafi orðið fyrir umræddu slysi hafi nú höfðað dómsmál á hendur L til greiðslu skaðabóta og sé S stefnt til réttargæslu í málinu. Vegna þess sé nauðsynlegt að fyrir liggi ástæður þess að tvær rannsóknarskýrslur hafi verið gerðar. Þá kemur m.a. fram í kærunni:

„Umbjóðendur mínir telja að engar af undanþágum 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eigi við um beiðni umbjóðanda míns. Umbeðin gögn séu ekki undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga auk þess sem ekkert hafi komið fram um heimild Vinnueftirlitsins til að takmarka aðgang aðila að gögnum á þeim grunni að um sé að ræða upplýsingar um einkamálefni annarra og að þeir hagsmunir skuli vega þyngra en hagsmunir umbjóðenda minna, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna.

Telja verður að ástæður þær sem Vinnueftirlitið setur fram í ákvörðun sinni eigi ekki við rök að styðjast og verði synjun því ekki byggð á undanþáguákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 eða ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Að mati umbjóðenda minna verður ekki fallist á að gögn þau sem synjað er um aðgang að teljist hafa að geyma viðkvæmar persónupplýsingar þannig að 9. gr. upplýsingalaga geti átt við. Þá verður ekki talið að ákvæði 1. mgr. 83 gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum takmarki aðgang að umræddum gögnum. Umrætt ákvæði vísar til þess að upplýsingar sem starfsmenn Vinnueftirlitsins kunna að öðlast við framkvæmd eftirlits skuli ekki látnar öðrum í té enda sé ástæða til að ætla að slíkum upplýsingum skuli haldið leyndum. Í fyrsta lagi verður sú aðstaða sem uppi er í þessu máli ekki talin eiga við um framangreint ákvæði enda er ekki um að ræða upplýsingar um starfsemi umbjóðanda míns eins og ákvæðið vísar til. Í öðru lagi, ef ákvæðið væri engu að síður talið eiga við, þá er það umbjóðandi minn, L, sem telst vera aðili málsins og því ekki um það að ræða að upplýsingar verði afhentar „öðrum“. Í þriðja lagi hefur ekki verið sýnt fram á að ástæða sé til þess að umræddum upplýsingum skuli haldið leyndum. Í öllu falli verður að telja að meginreglan um upplýsingarétt verði ekki skert með þeim hætti sem Vinnueftirlitið heldur fram. Réttur til aðgangs að gögnum er meginreglan og skuli undantekningar frá þeirri reglu því skýrðar þröngt.
[...]
Þá er ljóst að synjun verður ekki studd við 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980. Í því sambandi liggur fyrir að ekki var um að ræða eftirlitsferð í skilningi laga nr. 46/1980, heldur rannsókn á orsökum slyss eða óhapps sem fjallað er um í 81. gr. laga nr. 46/1980. Þá liggur fyrir vitneskja umbjóðanda míns á því að ný rannsóknarskýrsla á atburðinum var gerð vegna ábendingar viðkomandi aðila. Þá eiga hér við sömu rök og nefnd hafa verið hér að framan um að ekki sé um að ræða upplýsingar um starfsemi umbjóðanda míns og jafnvel þó svo verði talið, þá verður honum, sem aðila máls, ekki synjað um slíkar upplýsingar. Þá skal ítrekað að réttur aðila til aðgangs að gögnum er varða hann verulega umfram aðra er meginregla og skuli undantekingar frá þeirri reglu skýrðar þröngt.“

Jafnframt vísar kærandi til þess að tölvupóstsamskipti við aðila þar sem fram kom ábending til stofunarinnar teljist fyrirliggjandi gögn í skilningi 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Synjun á þeim gögnum verði ekki studd við 9. gr. sömu laga enda ekkert komið fram um að þau varði einkahagsmuni viðkomandi aðila. Ennfremur vísar kærandi máli sínu til stuðnings til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-99/2000 frá 3. ágúst 2000 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 330/2000 frá 19. október 2000.

Málsmeðferð

Kæran var send Vinnueftirlitinu til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 12. ágúst 2013. Svör Vinnueftirlitsins bárust með tveimur bréfum, dags. 27. ágúst 2012. Annað bréfið er fylgibréf með þeim gögnum sem afhent voru vegna málsins en hitt bréfið felur í sér efnislega umsögn Vinnueftirlitsins vegna kærunnar. Í umsögn Vinnueftirlitsins kemur fram að afhending gagna hafi verið hafnað á grundelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 2. málsl. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá kemur m.a. fram í umsögninni:

„Þeirri staðhæfingu kæranda er mótmælt að slysaumsagnir Vinnueftirlitsins séu eingöngu rannsóknarskýrslur. Þegar vinnuslys er tilkynnt til Vinnueftirlitsins metur stofnunin hvort þörf sé á sérstakri vettvangskönnun (rannsókn á orsökum slyss), sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ef Vinnueftirlitið metur að þörf sé á vettvangskönnun þá er jafnframt farið í eftirlitsheimsókn á vinnustaðinn, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980. Slysaumsagnir Vinnueftirlitsins fela því bæði í sér niðurstöður stofnunarinnar um orsakir vinnuslysa og jafnframt niðurstöður eftirlitsheimsókna sem geta falið í sér fyrirmæli til viðkomandi atvinnurekanda um úrbætur á vinnuumhverfi vinnustaðarins þar sem slysið varð. Ef slysaumsagnir/eftirlitsskýrslur hafa að geyma fyrirmæli Vinnueftirlitsins um úrbætur teljast þær hluti eftirlitsmeðferðar í skilningi 2. mgr. 83. gr., sbr. 5. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980.

Vinnueftirlitið átti tölvupóstsamskipti við aðila sem kom með ábendingar til stofnunarinnar um ágalla á slysaumsögn Vinnueftirlitsins, dags. 28. júní 2010, sem varð, ásamt öðru, til þess að Vinnueftirlitið endurgerði slysaumsögnina. Í hinni endurgerðu slysaumsögn Vinnueftirlitsins (eftirlitsskýrslu A91227), dags. 22. nóvember 2011, eru sett fram ný fyrirmæli kæranda (L) um úrbætur.

Þagnarskyldákvæði 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 er ætlað að tryggja að starfsmenn og aðrir þeir sem kvarta til Vinnueftirlitsins eða koma með ábendingar til stofnunarinnar þurfi ekki að óttast eftirmála af slíku. Þetta er sérákvæði um þangarskyldu starfsmanna Vinnueftirlitsins sem skv. gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ganga framar þeim lögum. Af framangreindum ástæðum telur Vinnueftirlitið því ofangreind tölvupóstsamskipti undanþegin upplýsingarétti skv. upplýsingalögum nr. 140/2012.

Ef Vinnueftirlitið hefði látið ofangreinda tölvupósta af hendi til kæranda þá hefur stofnunin upplýst atvinnurekanda eða fulltrúa hans um hver kvartaði til Vinnueftirlitsins og þar með brotið trúnað við þann aðila. Vinnueftirlitið telur slíkt vera skýlaust brot á þagnarskyldu starfsmanna stofunarinnar skv. 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.“

Vinnueftirlitið afhenti úrskurðarnefndinni eftirfarandi gögn vegna málsins:

1. Umsögn Vinnueftirlitsins um vinnuslys hjá L (eftirlitsskýrsla), dags. 28. júní 2010.
2. Umsögn Vinnueftirlitsins um vinnuslys hjá L (eftirlitsskýrsla), dags. 22. nóvember 2011.
3. Tjónstilkynningu hins slasaða til S, dags. 31. mars 2010.
4. Rannsóknarskýrslu L dags. 16.mars 2010.
5. Lögregluskýrslu sýslumannsins á Eskifirði, dags. 27. mars 2010.
6. Tölvubréf frá B til Vinnueftirlitsins, dags. 19. september 2011.
7. Tölvubréf frá B til Vinnueftirlitsins, dags. 20. október 2011.

Umsögn Vinnueftirlitsins var afhent kæranda með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 13. september 2013, þar sem kæranda var gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 1. október 2013, þar sem skýringum Vinnueftirlitsins var alfarið hafnað og ítrekaðar voru fyrri kröfur og sjónarmið. 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Mál þetta lýtur að gögnum Vinnueftirlitsins í tengslum við slys er varð á starfsstöð L 16. mars 2010. Kærandi óskaði aðgangs að gögnum fyrst með tölvubréfi, dags. 29. maí 2013, og í kjölfarið bréflega 19. júní 2013, eftir að Vinnueftirlitið fór fram á að ef óskað væri eftir aðgangi að gögnum á grundvelli upplýsingalaga yrði það gert með skriflegu erindi. Af því tilefni þykir úrskurðarnefnd um upplýsingamál tilefni til að taka fram að í 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að sá „sem [fari] fram á aðgang að gögnum [skuli] tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyri með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál.“ Þá kemur fram í 2. mgr. sama lagaákvæðis að setja megi „það skilyrði að beiðni komi fram á eyðublaði sem lagt [sé] til.“ Upplýsingalög gera því ekki þá kröfu að upplýsingabeiðnir séu settar fram skriflega nema þegar þeir aðilar, sem falla undir gildissvið laganna, hafa útbúið sérstakt eyðublað sem nota á almennt um upplýsingabeiðnir. Ef slíkt eyðublað er ekki fyrir hendi getur upplýsingabeiðni komið fram munnlega eða skriflega s.s. með tölvupósti eða bréfpósti, en þarf vissulega að vera svo skýr að unnt sé að afgreiða hana án verulegrar fyrirhafnar. Stjórnvaldi ber í kjölfarið að afgreiða beiðnina í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012. 

2.

Vinnueftirlitið byggir synjun sína um afhendingu gagna m.a. á ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að almenn „ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum.“ Vinnueftirlitið heldur því fram að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé sérákvæði um þagnarskyldu og gangi því framar ákvæðum upplýsingalaga. 

Þegar kemur að samspili einstakra þagnarskylduákvæða í lögum, annars vegar, og ákvæða  upplýsingalaga nr. 140/2012 skiptir máli hvort þagnarskylduákvæðin teljist almenn eða sérstök. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir meðal annars um þetta í umfjöllun um 4. gr. laganna: 

„Í lögum má enn fremur finna sérákvæði um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar. Það fer eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga. Í nokkrum þessara ákvæða eru tilgreindar þær upplýsingar, sem þagnarskylda á að ríkja um, með mjög almennum hætti. Þar má t.d. nefna þegar þagnarskylda á að ríkja um einstaklingsbundnar upplýsingar, einkamálefni, persónuleg málefni eða upplýsingar um hagi einstaklinga eða fyrirtækja. Slík ákvæði valda almennt ekki vanda þar sem auðvelt er að skýra þau til samræmis við 9. gr. frumvarpsins. Þá eru ákvæði sem tilgreina skýrar þær upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja um. Að því leyti sem slíkum ákvæðum er ætlað að vernda sömu hagsmuni og ákvæði 6.–10. gr. frumvarpsins ber að skýra þau til samræmis við þau að svo miklu leyti sem hægt er. Þannig ber t.d. að skýra ákvæði sem mæla fyrir um þagnarskyldu um einkamál og heimilishagi eða þagnarskyldu um nöfn sjúklinga, vitneskju eða grun um sjúkdóma og heilsufar þeirra, til samræmis við 1. málsl. 9. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Þá ber að skýra ákvæði, sem mæla fyrir um þagnarskyldu um efnahag, tekjur eða gjöld einstaklinga, til samræmis við 1. málsl. 9. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í 2. málsl. 9. gr. frumvarpsins er mælt svo fyrir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Til samræmis við þetta ákvæði ber að skýra ákvæði sem mæla fyrir um þagnarskyldu um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða rannsóknir í þágu atvinnulífs sem kostaðar eru af einkaaðilum.“

Þá segir: 

„Þau sérákvæði laga um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til ganga skýrlega lengra en ákvæði 6.–10. gr. frumvarpsins, eða taka til annarra upplýsinga en þar eru undanþegnar aðgangi almennings, ganga framar ákvæðum frumvarps þessa, ef að lögum verður, og hindra því aðgang að þeim upplýsingum sem þar er getið. Afar fá slík ákvæði eru í íslenskum lögum þannig að um óveruleg frávik er að ræða frá þeim rétti til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.“ 

Í 2. máls. 1. mgr.  83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir um starfsmenn Vinnueftirlitsins: „Eigi mega þeir heldur láta öðrum í té upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila, ef þeir hafa fengið vitneskjuna vegna eftirlits síns og ástæða er til að ætla, að henni skuli haldið leyndri.“ Þá er 2. mgr. ákvæðisins á þá leið að: „Starfsmenn Vinnueftirlitsins mega ekki láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans, að eftirlitsferð sé gerð vegna umkvörtunar.“

Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 83. gr. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum felur ekki í sér sérstakt þagnarskylduákvæði, þar sem sérgreint sé hvaða upplýsingum skuli haldið leyndum, heldur er ákvæðið almennt og leggur þær skyldur á Vinnueftirlitið að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort það geti átt við. Gengur ákvæðið því ekki framar ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 heldur ber að skýra það til samræmis við ákvæði 9. gr. eða eftir atvikum 3. mgr. 14. gr. laganna. 

Ákvæði 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum felur aftur á móti í sér sérstaka þagnarskyldureglu þar sem sérgreint er að í þeim tilvikum þar sem eftirlitsferð er farin vegna umkvörtunar þá megi ekki upplýsa atvinnurekanda eða fulltrúa hans um það. Verður að skýra ákvæðið með þeim hætti að það eigi bæði við um munnlegar upplýsingar gefnar við eftirlitsferð og afhendingu gagna sem innihalda sömu upplýsingar. 

Í máli þessu tilkynnti L Vinnueftirlitinu að morgni 17. mars 2010 að slys hefði orðið á starfsstöð þess við lok vinnudags 16. mars 2010. Vinnueftirlitið fór í eftirlitsferð þann dag sem tilkynning barst. Með vísan til þessa fæst ekki séð að ákvæði 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum geti átt við í máli þessu þar sem fyrir liggur af hvaða ástæðum Vinnueftirlitið fór í eftirlitsferð. Verður mál þetta því afgreitt á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012.

3.

Beiðni kæranda um aðgang að gögnum er reist á 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt aðila. Til þess að framangreint lagaákvæði geti átt við þarf gagnabeiðandi að teljast aðili í skilningi ákvæðisins en hann telst til aðila ef gögn innihalda „upplýsingar um hann sjálfan“. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að upplýsingalögum kemur fram að „með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ í 1. mgr. ákvæðisins er vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra.“

Þau gögn sem hér um ræðir tengjast öll slysi er varð á starfsstöð L, sem er annar af tveimur umbjóðendum kæranda. Hinn umbjóðandi kæranda er S sem er tryggingarfélag kæranda og stefnt hefur verið til réttargæslu í dómsmáli er varðar slysið. Þar sem gögn máls þessa tengjast öll umræddu slysi á starfsstöð L varða þau L sérstaklega og verulega umfram aðra og telst því fyrirtækið til aðila í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá verður að telja að sama eigi við um S enda hvílir væntanlega endanleg ábyrgð, á þeim kröfum sem beint yrði að L, á tryggingarfélaginu í því tilviki sem hér um ræðir. Verður því að líta svo á, með hliðsjón af aðstæðum í máli þessu, að upplýsingarnar sem um ræðir varði S jafnframt sérstaklega og verulega umfram aðra.   

Vinnueftirlitið byggði synjun sína um afhendingu gagna á ákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem segir:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“  

Þar sem mál þetta er afgreitt á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 getur 9. gr. laganna ekki komið til skoðunar. Aftur á móti ber að skoða 3. mgr. 14. gr. þar sem fram kemur að heimilt sé „að takmarka aðgang aðila að gögnum hafi þau jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. “

4.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þau gögn sem afhent hafa verið vegna málsins. Um er að ræða tvær umsagnir um vinnuslys hjá L, dags. 28. júní 2010 og 22. nóvember 2011. Í báðum umsögnunum er m.a. er fjallað um tildrög slyss, vinnubrögð og starfshætti, aðstæður á slysstað og áhættumat auk þess sem þar eru myndir af slysstað. Þá er í seinni umsögninni jafnframt fjallað um þær upplýsingar sem fram koma í lögregluskýrslu sýslumannsins á Eskifirði, dags. 27. mars 2010, sem byggir á viðtölum við hinn slasaða og vitni að slysinu en lögregluskýrslan er jafnframt meðal gagna þessa máls. Þá eru í seinni umsögninni sett fram fyrirmæli um notkun súluborvélar þar sem segir að tryggja skuli að öryggishlíf sé ávallt á vélinni með virkum öryggisrofa. Þá liggja fyrir tvö tölvubréf frá B til Vinnueftirlitsins, dags. 19. september 2011 og 20. október 2011. Í því fyrra er kannað hvort Vinnueftirlitið hafi haft samband við hann og í því síðara er gerð athugasemd við umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 28. júní 2010. Fram kemur að B hafi skoðað gögn málsins fyrir C, sem slasaðist í vinnuslysinu 16. mars 2010. Umrædd gögn hafa ekki að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sem vegið getur þyngra að haldið sé leyndum en hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent f.h. umbjóðenda sinna.

Þau gögn sem eftir standa eru gögn sem stafa frá umbjóðendum kæranda, þ.e. L og S. Umrædd gögn eru annars vegar tjónstilkynning hins slasaða til S, dags. 31. mars 2010, og hins vegar rannsóknarskýrsla L, dags. 16. mars 2010. Upplýsingalög standa því ekki í vegi að stjórnvald afhendi aðila þau gögn sem frá honum stafa, eða hefur verið að honum beint, auk þess sem gögnin hafa ekki að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sem vegur þyngra að haldið sé leyndum en hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent f.h. umbjóðenda sinna.

Með vísan til alls framangreinds ber Vinnueftirlitinu að afhenda kæranda f.h. umbjóðenda sinna þau gögn sem mál þetta varðar og tilgreind eru í sjö liðum í málsmeðferðarkafla hér að framan.

Tekið skal fram að í úrskurði þessum er aðeins leyst úr því hvort kærandi f.h. L og S eigi rétt á að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum sem aðili máls í skilningi 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í samræmi við það hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort aðrir eigi rétt á að fá aðgang að þeim. 

Beðist er velvirðingar þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu máls þessa.

Úrskurðarorð

Vinnueftirlitinu ber að afhenda [A]. f.h. L og S eftirfarandi gögn:

1. Umsögn Vinnueftirlitsins um vinnuslys hjá L (eftirlitsskýrsla), dags. 28. júní 2010.
2. Umsögn Vinnueftirlitsins um vinnuslys hjá L (eftirlitsskýrsla), dags. 22. nóvember 2011.
3. Tjónstilkynningu hins slasaða til S, dags. 31. mars 2010.
4. Rannsóknarskýrslu L dags. 16.mars 2010.
5. Lögregluskýrslu sýslumannsins á Eskifirði, dags. 27. mars 2010.
6. Tölvubréf frá B til Vinnueftirlitsins, dags. 19. september 2011.
7. Tölvubréf frá B til Vinnueftirlitsins, dags. 20. október 2011


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Erna Indriðadóttir

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta