Hoppa yfir valmynd
30. maí 2014 Forsætisráðuneytið

B-528/2014. Úrskurður frá 27. maí 2014

Úrskurður

Hinn 27. maí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. B-528/2014, í máli ÚNU 14050005.

Málsatvik

Með bréfi, dags. 12. maí 2014, krafðist Vinnueftirlitið þess að frestað yrði réttaráhrifum úrskurðar nr. A-528/2014, í máli ÚNU 13070007, sem kveðinn var upp 5. s.m. Því til rökstuðnings segir í bréfinu að Vinnueftirlitið sé ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og telji að tvö þeirra gagna sem Vinueftirlitinu var gert að afhenda, tölvubréf A til Vinnueftirlitsins, dags. 19. september 2011 og dags. 20. október 2011, falli undir sérstaka þagnarskyldureglu 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Gildi upplýsingalög því ekki um þau. Fram kemur að Vinnueftirlitið fyrirhugi að vísa þessum ágreiningi til dómstóla. 

Úrskurðarnefndin taldi ekki þörf á því að upplýsa kærendur í máli ÚNU 13070007 um framkomna kröfu Vinnueftirlitsins og gefa þeim kost á að koma að athugasemdum sínum við hana.

Niðurstaða

Í 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Skuli krafa þess efnis gerð eigi síðar en sjö dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests. Ákvæði um frestun réttaráhrifa var áður í 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í athugasemdum við þá grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996, svo og í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, segir: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að 18. gr. upplýsinglaga nr. 50/1996, og nú 24. gr. laga nr. 140/2012, eigi fyrst og fremst við um tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem geta verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur er aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kunna síðar að verða skýrð af dómstólum.

Vinnueftirlitið hefur vísað til sérstakrar þagnarskyldureglu 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 kröfu sinni til stuðnings. Í umræddu ákvæði segir að starfsmenn Vinnueftirlitsins megi ekki láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans „að eftirlitsferð sé gerð vegna umkvörtunar“. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-528/2014 kemur fram að umrætt ákvæði feli í sér sérstaka þagnarskyldureglu þar sem sérgreint er að í þeim tilvikum þegar eftirlitsferð er farin vegna umkvörtunar þá megi ekki upplýsa atvinnurekanda eða fulltrúa hans um það. Verði að skýra ákvæðið með þeim hætti að það eigi bæði við um munnlegar upplýsingar gefnar við eftirlitsferð og afhendingu gagna sem innihalda sömu upplýsingar. Í málinu liggi hins vegar fyrir af hvaða ástæðum Vinnueftirlitið fór í eftirlitsferð og fáist því ekki séð að ákvæðið geti átt við í málinu. 

Tölvubréfin tvö sem hér um ræðir eru frá A til Vinnueftirlitsins, dags. 19. september 2011 og 20. október 2011. Í því fyrra er kannað hvort Vinnueftirlitið geti haft samband við hann og í því síðara er gerð athugasemd við umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 28. júní 2010. Fram kemur að A hafi skoðað gögn málsins fyrir B, sem slasaðist í vinnuslysi á starfsstöð Launafls ehf. 16. mars 2010. Var það niðurstaðan í úrskurði nr. A-528/2014 að gögnin hefðu ekki að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sem vegið gætu þyngra að haldið væri leyndum en hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent f.h. umbjóðenda sinna L og S.

Í máli þessu hefur ekkert komið fram um að eftirlitsferð hafi verið farin vegna umkvartana A á grundvelli þessara tölvubréfa heldur liggur fyrir í gögnum málsins að eftirlitsferð var farin 17. mars 2010, eða þann sama dag og L tilkynnti um framangreint slys, eða rúmu einu og hálfu ári áður en bréfin voru send. Liggur því ljóst fyrir af hverju eftirlitsferð var farin og ekki um það að ræða í þessu máli að gæta þurfi trúnaðar á grundvelli 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 vegna framangreindra tölvubréfa.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurða nr. A-528/2014 frá 5. maí 2014. Ber því að hafna kröfu Vinnueftirlitsins, þar að lútandi.

Úrskurðarorð

Kröfu Vinnueftirlitsins um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar frá 5. maí 2014 nr. A-528/2014, í máli ÚNU 13070007. er hafnað.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir 


Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta