Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2020
Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2020. Álögð gjöld nema samtals 180,3 ma.kr. og lækka um 9,5 ma.kr. á milli ára, en breytingar einstakra skatta eru bæði til hækkunar og lækkunar. Rétt er að hafa í huga að hér er um að ræða svokallað frumálagningu sem getur tekið breytingum síðar.
Álagningin ber óhjákvæmilega merki Covid-faraldursins og þeirra áhrifa sem hann hefur haft bæði á hagkerfið og stefnu stjórnvalda. Tekjustofnar drógust saman samhliða minni efnahagsumsvifum og auknu atvinnuleysi sem ásamt aðgerðum stjórnvalda, m.a. lækkun álaga og auknum stuðningi við atvinnulífið, birtist nú í lægri tekjum ríkissjóðs. Ber þar hæst mikil viðbót í endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og lækkun bankaskatts. Álagt tryggingagjald lækkar um 5 ma.kr. milli ára og birtist þar breytt staða á vinnumarkaði en atvinnuleysi náði nýjum hæðum í því ástandi sem faraldurinn skóp árið 2020. Aðgerðir stjórnvalda á borð við hlutabótaleið er helsta ástæða þess að tekjur af tryggingagjaldi lækkuðu ekki frekar og að tekjuskattur einstaklinga hækkaði um 1,5% milli ára.
Gjaldskyldum félögum fækkar um 242, eða 0,5% milli ára og eru nú 48.088 en félögum sem greiða tekjuskatt fækkar um 286, eða 1,7% milli ára. Áframhald er á þeirri góðu þróun að skilum framtala fjölgar hlutfallslega. Fyrir lok álagningar höfðu borist meira en 86% framtala og er það örlítið hærra hlutfall en í fyrra, en um leið umtalsverð aukning frá fyrri árum. Betri og tímanlegri skil framtala fyrir álagningu eru til þess fallin að fækka kærum og endurákvörðunum og skapa með því meiri vissu um að álagningin skili sér í ríkissjóð.
Endurgreiðsla ofgreiddra opinberra gjalda lögaðila nam um 24 mö.kr. í ár samanborið við 20 ma.kr. árið á undan og hækkaði því um 20% milli ára.
Álögð gjöld | Fjöldi | |||||||
M.kr. á tekjuári | 2019 | 2020 | Br. | % br. | 2019 | 2020 | Br. | |
Tekjuskattur | 68.201 | 69.197 | 996 | 1,5% | 16.564 | 16.278 | -286 | |
Fjármagnstekjuskattur | 1.956 | 3.427 | 1.471 | 75,2% | 790 | 801 | 11 | |
Útvarpsgjald | 769 | 809 | 40 | 5,2% | 42.957 | 44.220 | 1.263 | |
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki | 10.923 | 4.784 | -6.139 | -56,2% | 4 | 5 | 1 | |
Fjársýsluskattur | 3.248 | 3.085 | -163 | -5,0% | 109 | 87 | -22 | |
Sérstakur fjársýsluskattur | 2.390 | 1.873 | -517 | -21,6% | 8 | 7 | -1 | |
Jöfnunargjald alþjónustu | 48 | 48 | 0 | 0,9% | 47 | 50 | 3 | |
Tryggingagjald* | 102.208 | 97.045 | -5.164 | -5,1% | 22.812 | 23.077 | 265 | |
Alls | 189.742 | 180.266 | -9.476 | -5,0% | ||||
Fjöldi gjaldskyldra félaga | 48.330 | 48.088 | -242 |
*Markaðsgjald og iðgjald slysatryggingar sjómanna eru hér talin með í tölum um tryggingagjald.
Tekjuskattur lögaðila
Álagður tekjuskattur er 69,2 ma.kr. og hækkar um 1 ma.kr. eða 1,5% milli ára, en gjaldendum fækkar um tæplega 300. Merkja má áhrif Covid faraldursins í ólíkri þróun álagningar milli atvinnugreina. Áhrifa breyttrar hegðunar almennings og samkomutakmarkana gætir t.a.m. í álagningu tekjuskatts af íþrótta- og tómstundastarfsemi m.a. vegna minni tekna af rekstri líkamsræktarstöðva og annarri íþróttastarfsemi. Álagning á rekstur veitinga- og gististaða minnkar einnig mikið milli ára en spilar þar saman breytt hegðun Íslendinga og fækkun ferðamanna. Mest eykst álagning tekjuskatts á heild- og smásöluverslun og fasteignaviðskipti og vegur þar þungt aukin einkaneysla innanlands og lægra vaxtastig. Líkt og fyrri ár er fjármála- og vátryggingastarfsemi með mestu álagninguna af einstökum atvinnugreinum eða 22% þó hlutdeild hennar í heildarálagningu minnki milli ára.
Tekjuár | ||
Tekjuskattur, hlutfall af heild | 2019 | 2020 |
Fjármála- og vátryggingastarfsemi | 23,3% | 22,0% |
Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum | 9,7% | 12,0% |
Framleiðsla, m.a. vinnsla sjávarafurða og stóriðja | 11,8% | 11,7% |
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð | 9,6% | 9,8% |
Rafmagns-, gas- og hitaveitur | 8,0% | 8,3% |
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi | 6,6% | 7,0% |
Annað | 31,0% | 29,2% |
Samtals | 100,0% | 100,0% |
Fjármagnstekjuskattur
Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undanþegnir almennri tekjuskattskyldu greiða fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á þessa lögaðila nemur 3,4 ma.kr. sem er 1,5 ma.kr. hærri fjárhæð en á árinu 2020 og nemur hækkunin því 75,2% milli ára. Þar sem fáir greiðendur standa að baki hækkuninni er óvíst hvort hún sé varanleg en gæti t.a.m. verið tilkomin vegna söluhagnaðar í einstökum viðskiptum.
Útvarpsgjald
Álagt útvarpsgjald á lögaðila nemur 809 m.kr. sem er 5,2% hækkun milli rekstraráranna 2019 og 2020. Á hvern gjaldanda hækkaði það úr 17.900 kr. í 18.300 kr., eða um 2,2%. Þá fjölgaði gjaldendum þess um 1.263 þrátt fyrir fækkun lögaðila á grunnskrá.
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“)
Skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki er 0,145% fyrir tekjuárið 2019 og lækkar úr 0,376% frá fyrra ári. Gjaldstofninn er heildarskuldir viðkomandi lögaðila sem eru yfir 50 ma.kr. í lok hvers árs. Álagður bankaskattur nemur nú um 4,8 ma.kr. og lækkar um tæplega 6,1 ma.kr. á milli ára, eða um 56,2%. Fimm lögaðilar greiða þennan skatt en fjórir greiddu hann árið á undan.
Fjársýsluskattur
Álagning fjársýsluskatts, sem er innheimtur í staðgreiðslu nemur 3,1 ma.kr. og nær til 87 lögaðila. Skattstofninn samanstendur af öllum tegundum launa eða þóknana hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum, þar með talið bónusgreiðslum ef einhverjar eru. Skatthlutfallið hélst óbreytt frá fyrra ári, 5,5% og lækkar álagður fjársýsluskattur um 5% milli ára.
Sérstakur fjársýsluskattur
Sérstakur 6% fjársýsluskattur leggst á hagnað fjármálafyrirtækja, þ.m.t. tryggingafélaga, sem er umfram 1 ma.kr. Samkvæmt álagningartölum ríkisskattstjóra nemur hann um 1,9 ma.kr. á þessu ári og lækkar um 0,5 ma.kr. frá fyrra ári eða um 21,6%. Sjö fyrirtæki greiða þennan skatt í ár eins og árið 2019 en árið 2020 greiddu átta fyrirtæki þennan skatt.
Tryggingargjald
Álagning tryggingagjalds á launagreiðslur ársins 2020 nemur 97 ma.kr. og er það 5,2 ma.kr. minna en árið áður, eða 5,1%, en gjaldendum tryggingagjalds fjölgaði aftur á móti um 265, eða 1,2%. Þrátt þau áföll sem gengu yfir vinnumarkaðinn vegna Covid faraldursins minnkaði stofn tryggingagjalds aðeins um tæplega 1% milli ára að nafnvirði. Lækkun álagningar frá fyrra ári er því fyrst og fremst tilkomin vegna þess að almennt tryggingagjald lækkaði 0,25 prósentustig í upphafi árs 2020 en ekki vegna mikils samdráttar skattstofnsins.
Endurgreiðsla vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar
Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nema alls 10.431 m.kr. samkvæmt álagningunni í ár samanborið við 5.186 m.kr. í fyrra. Mikil aukning endurgreiðslna milli ára kemur m.a. til vegna tímabundinnar hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli og hækkunar á kostnaði til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022. Afslátturinn gengur upp í tekjuskatt ef fyrirtækið er með hagnað en er annars útgreiðanlegur að fullu.
Endurgreiðslan í ár er að upphæð 9.715 m.kr. og skuldajöfnunin að upphæð 716 m.kr. samanborið við 4.361 m.kr. endurgreiðslu í fyrra og 824 m.kr. skuldajöfnun. Alls fá 264 lögaðilar stuðninginn í ár en þeir voru 201 á síðasta ári eins og fram kemur í eftirfarandi töflu.
Upphæðir | Fjöldi | ||||||
M.kr. á tekjuári | 2019 | 2020 | % br. | 2019 | 2020 | Br. | |
Endurgreiðslur | 4.361 | 9.715 | 122,8% | 181 | 245 | 64 | |
Skuldajöfnun á móti tekjuskatti | 824 | 716 | -13,2% | 48* | 63* | 15 | |
Samtals | 5.186 | 10.431 | 101,2% | 201 | 264 | 63 |
* 44 lögaðilar fengu bæði skuldajöfnun og endurgreiðslu í álagningu ársins 2020 samanborið við 28 í álagningu ársins 2020.