Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2010 (frá úrskurðarnefnd frístundahúsamála)

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

  

úrskurður

uppkveðinn 28. febrúar 2011

í máli nr. 4/2010 (frístundahúsamál)

 

A og B

gegn

C.

 

Mánudaginn 28. febrúar 2011 var ofangreint mál tekið fyrir í kærunefnd húsamála og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

Kærunefndina skipa í þessu máli Arnbjörg Sigurðardóttir héraðsdómslögmaður, Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og Ásmundur Ásmundsson verkfræðingur.

Aðilar þessa máls eru:

Sóknaraðilar: A og B, lóðarleiguhafar lóðarinnar X í sveitarfélaginu Y. Jón Ármann Guðjónsson héraðsdóms­lögmaður fer með málið fyrir þeirra hönd.

Varnaraðili: C, eigandi jarðarinnar X í sveitarfélaginu Y. Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður fer með málið fyrir hennar hönd.

 

Krafa sóknaraðila er að staðfest verði að leigusamningur sé framlengdur um 20 ár frá lokum samnings að telja, eða til 1. júlí 2030.

Krafa varnaraðila er aðallega að kæru verði vísað frá kærunefndinni. Til vara gerir varnaraðili þá kröfu að kröfum sóknaraðila um framlengingu leigusamnings verði hafnað.

 

Með kæru, dags. 24. júní 2010, beindi lögmaður sóknaraðila til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila.

Með bréfi kærunefndar, dags. 30. júní 2010, voru kynntar fyrir sóknaraðilum breytingar sem gerðar voru á lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, og tóku gildi 1. júlí 2010, en með þeim voru kærunefnd fjöleignarhúsamála, kærunefnd húsaleigumála og úrskurðarnefnd frístundahúsamála sameinaðar í eina nefnd, kærunefnd húsamála. Að teknu tilliti til þessa var ljóst að afgreiðsla þessa máls myndi dragast fyrir nefndinni og var sóknaraðilum jafnframt tilkynnt um það.

Með bréfi kærunefndar, dags. 12. ágúst 2010, var varnaraðila gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum.

Með bréfi kærunefndar, dags. 26. ágúst 2010, var lögmaður sóknaraðila upplýstur um að lögmaður varnaraðila hefði óskað eftir viðbótarfresti til 8. september 2010 til að koma sjónarmiðum umbjóðanda síns á framfæri.

Greinargerð lögmanns varnaraðila, dags. 3. september 2010, var send lögmanni sóknaraðila til kynningar með bréfi nefndarinnar, dags. 15. september 2010. Lögmaður sóknaraðila óskaði eftir viðbótarfresti til að koma athugasemdum á framfæri og var veittur frestur til 29. september 2010. Athugasemdir lögmanns sóknaraðila bárust með bréfi, dags. 25. september 2010, og voru sendar lögmanni varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 29. september 2010, þar sem gefinn var kostur á að gera athugasemdir við bréf lögmanns sóknaraðila. Lögmaður varnaraðila var veittur frestur til að gera athugasemdir til 8. október 2010 og var lögmaður sóknaraðila upplýstur um það með bréfi, dags. 4. október 2010. Frekari athugasemdir lögmanns varnaraðila bárust með bréfi, dags. 4. október 2010, og voru sendar lögmanni sóknaraðila til kynningar með bréfi, dags. 7. október 2010.

Kærunefnd óskaði eftir frekari sjónarmiðum lögmanns varnaraðila með bréfi, dags. 12. nóvember 2010, sem bárust nefndinni með bréfi lögmannsins, dags. 24. nóvember 2010. Lögmanni sóknaraðila var sent afrit af bréfi lögmanns varnaraðila til kynningar með bréfi, dags. 17. janúar 2011. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I.

Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að sóknaraðilar leigja lóðina X í sveitarfélaginu Y, í eigu varnaraðila samkvæmt lóðarleigusamningi, dags. 12. september 1981. Leigan var tímabundin til 25 ára frá 12. september 1981 til 12. september 2006 en skyldi framlengjast um þrjú ár, væri samningnum ekki sagt upp fyrir þann tíma.

Sóknaraðilar krefjast þess að staðfest verði að samningurinn hafi framlengst um 20 ár frá samningslokum, eða til 1. júlí 2030. Í kæru segir að með bréfi, dags. 30. júlí 2008, hafi sóknaraðilum verið tilkynnt að leigusamningur yrði ekki framlengdur og að samningur aðila rynni þannig út 12. september 2009. Sóknaraðilar hafi þá lýst því yfir að óskað væri eftir framlengingu leigusamnings með vísan til nýrra laga nr. 75/2008 og samningurinn með því framlengst til 1. júlí 2010. Sóknaraðilar hafi nýtt málskotsrétt sinn skv. 12. gr. laga nr. 75/2008 og byggja þeir kröfu sína á því að samningurinn hafi með því framlengst um 20 ár frá samningslokum eða til 1. júlí 2030.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málskoti sóknaraðila verði vísað frá kærunefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila um framlengingu leigusamningsins verði hafnað. Af hálfu varnaraðila er tekið fram að af þeim sökum að 1. september 2008 hafi ný lög tekið gildi, nr. 75/2008, sem hafi falið í sér verulega breytingu á réttarstöðu aðila að frístundahúsalóðum. Varnaraðili hafi, með bréfi, dags. 12. nóvember 2008, tilkynnt sóknaraðilum að fallist væri á að framlengja samninginn til 1. júlí 2010, með vísan til bráðabirgðaákvæðis laganna, og að leigutíminn yrði ekki framlengdur frekar. Þess hafi verið krafist að sóknaraðilar myndu að þeim tíma liðnum rýma lóðina og fjarlægja af henni, á sinn kostnað, öll hús og mannvirki í samræmi við fortakslaus ákvæði leigusamningsins.

 

II.

Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðilar krefjast staðfestingar á því að leigusamningur teljist framlengdur um 20 ár frá lokum samnings að telja, það er til 1. júlí 2030.

Sóknaraðilar vísa til þess að með bréfi, dags. 30. júlí 2008, hafi þeim verið tilkynnt að leigusamningur yrði ekki framlengdur og að samningur aðila rynni því þannig út 12. september 2009. Sóknaraðilar hafi þá lýst því yfir að óskað væri eftir framlengingu leigusamnings með vísan til nýrra laga nr. 75/2008. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða hafi slík yfirlýsing haft í för með sér framlengingu leigusamnings um eitt ár frá samningslokum, þó aldrei lengur en til 1. júlí 2010. Þar sem leigu skyldi ljúka 12. september 2009 hafi samningur framlengst með þessari tilkynningu sóknaraðila til 1. júlí 2010. Þessi skilningur hafi einnig verið staðfestur í því að varnaraðili hafi gert sóknaraðilum reikning fyrir leigu alls ársins 2010. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 75/2008 falli málskotsréttur leigutaka niður sé málskot ekki sent fyrir lok leigusamnings sem hafi verið 1. júlí 2010. Samkvæmt 4. mgr. 12. sömu laga framlengist leigusamningur sjálfkrafa um 20 ár frá lokum samnings að telja hafi annar hvor aðili nýtt sér málskotsrétt sinni skv. 2. eða 3. mgr. 12. gr. Sóknaraðilar hafi nýtt þennan málskotsrétt sinn og krefjast staðfestingar á því að leigusamningur teljist framlengdur um 20 ár frá lokum samnings að telja eða til 1. júlí 2030.

Sóknaraðilar hafna alfarið skírskotun varnaraðila til eignarréttarákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og benda á að sóknaraðilar hafi á grundvelli samninga sinna og almennra traustfangsreglna byggt upp veruleg verðmæti á eign sinni sem teljist til eignaréttinda þeirra og þeir yrðu sviptir ef réttindi þeirra væru ekki tryggð með lögum nr. 75/2008. Verði að horfa til sérstöðu leigu sumarhúsalóða að þar hafi myndast sú hefð að aðilar geri langa leigusamninga sem framlengist og aðilar byggi upp verðmæti og tengsl við hið leigða.

Kæran byggist á gildandi lögum og sé í fullu í samræmi við þau. Samkvæmt lögunum eigi sóknaraðilar rétt á að skjóta máli sínu til nefndarinnar og með málskoti framlengist réttur þeirra sjálfkrafa.

Sóknaraðilar séu með leigusamning og líti svo á að þá framlengist leigusamningur þeirra óbreyttur. Telji varnaraðili að leigugreiðslur eigi að breytast geti kærunefnd tekið á því máli síðar en sóknaraðilar krefjist þess ekki að leigugreiðslum verði breytt heldur axla þær leigugreiðslur óbreyttar. Því sé ekki gerð sérstök krafa um breytingu leigugreiðslna. Rétt sé þó að hafa til vara kröfu um að kærunefndin ákvarði ársleigu framlengds leigusamnings, verði litið svo á að greinargerð varnaraðila verði túlkuð sem mótmæli við núverandi ársleigu.

Sóknaraðilum sé ekki heimilt að gera kröfur um innlausnarverð fyrir mannvirki leigutaka, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 12. gr. laganna. Slíkt sé á færi leigusala samkvæmt lögunum. Sóknaraðilar líti svo á að leigusamningur þeirra hafi með málskoti verið framlengdur um 20 ár og því sé ekki ástæða til að halda því til haga varðandi hugsanlegar bætur fyrir mannvirki.

Ljóst megi vera af 12. gr. laganna að málskotsrétturinn standi einn og óhaggaður og ekki sé skylda til að setja fram aðrar kröfur. Í raun sé ekki gert ráð fyrir því að önnur kröfugerð sé höfð uppi. Í greininni komi skýrt fram, þ.e. 4. mgr. 12. gr., að hafi annar hvor aðili nýtt sér málskotsrétt sinn, sbr. 2. eða 3. mgr., þá framlengist leigusamningur sjálfkrafa um 20 ár frá lokun samnings að telja. Einu undantekningarnar frá þessari sjálfkrafa framlengingu sé ef leigusali krefst innlausnar, sbr. 2. tölul. 5. gr., eða ef leigutaki unir því að leigusamningur falli úr gildi og fjarlægir mannvirki af lóð á sinn kostnað.

Varnaraðili hafi ekki krafist innlausnar í samræmi við lög og sóknaraðilar uni því ekki að leigusamningur falli úr gildi. Því sé skilyrðum um sjálfkrafa framlengingu fullnægt.

 

III.

Sjónarmið varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er í fyrsta lagi vísað til þess að málskot sóknaraðila til kærunefndar hafi verið til málamynda, í því skyni einu að freista þess að fá leigusamninginn framlengdan um 20 ár, með vísan til 4. mgr. 12. gr. laganna, enda verði af kæru ekki ráðið í hvaða skyni öðru málinu sé skotið til nefndarinnar.

Varnaraðili byggir á því að sá sem skýtur máli til úrlausnar nefndarinnar skuli setja fram skýra og afmarkaða kröfugerð í kæru sinni, sbr. 5. mgr. 12. gr., sbr. 26. gr., auk þeirra málsástæðna og rökstuðnings sem kærandi byggi kröfur sínar á. Málskot til kærunefndarinnar verði því samkvæmt framansögðu ekki sett fram í þeim tilgangi einum að fá leigusamning framlengdan um 20 ár, enda geti slíkt vart talist sjálfstæður réttur sóknaraðila. Slíkt myndi þýða að leigusamningar væru í raun óuppsegjanlegir, að því tilskildu að leigutaki gætti þess að vísa máli til kærunefndar fyrir lok leigumála, á 20 ára fresti, og fá þannig samninginn framlengdan um önnur 20 ár án þess að leigusali hefði nokkuð um það að segja. Slíkt rýri augljóslega mjög eignarrétt leigusala og geri hann í raun óvirkan. Verði með engu móti séð að það hafi getað vaka fyrir löggjafanum, enda gangi það í berhögg við eignarréttarákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi lagagildi hér á landi.

Þá sé á því byggt af hálfu varnaraðila að umræddur leigusamningur hafi í raun verið úr gildi fallinn samkvæmt efni sínu í síðasta lagi 12. september 2009, enda hafi sóknaraðilum þá verið tilkynnt bréflega, innan samningsbundins frests, að samningurinn yrði ekki framlengdur frekar og rynni því út á fyrrgreindum degi. Með fyrrgreindu bréfi, dags. 12. nóvember 2008, hafi leigutíminn þó verið framlengdur til 1. júlí 2010, í samræmi við sérstaka heimild í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laganna þar sem segi að leigusala sé heimilt að framlengja um eitt ár tímabundinn leigusamning sem samkvæmt efni sínu fellur úr gildi innan tveggja ára frá gildistöku laganna, „en þó aldrei lengur en til 1. júlí 2010“. Ákvæði þetta feli því í sér heimild til að víkja frá efni tímabundins samnings sem í gildi hafi verið við gildistöku laganna, en alls ekki skyldu. Af hálfu varnaraðila hafi hins vegar, meðal annars í samræmi við sjónarmið um meðalhóf, verið ákveðið að framlengja leigumálann til tilgreinds dags á grundvelli umræddrar heimildar, þótt varnaraðila hefði verið í lófa lagið að láta slíkt hjá líða og hefði leigusamningurinn þá sjálfkrafa fallið úr gildi 12. september 2009 í samræmi við fyrrgreint bréf, dags. 30. júlí 2008.

Í þessu sambandi beri til þess að horfa að sá frestur sem tilgreindur sé í bráðabirgðaákvæði laganna feli í sér lögbundin lok leigusamnings (1. júlí 2010) sem ekki verði vikið frá einhliða nema samkomulag aðila liggi því til grundvallar. Ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna, sem vísað sé til af hálfu sóknaraðila, feli því ekki í sér heimild til að víkja frá afdráttarlausu orðalagi 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laganna, enda gangi það ákvæði framar öðrum ákvæðum laganna, í samræmi við hefðbundin lögskýringarsjónarmið, þar sem um sé að ræða sérákvæði er lúti að ákveðnum tegundum samninga, þ.e. tímabundnum samningum, sem samkvæmt efni sínu féllu úr gildi innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Sjá einnig í þessu sambandi ákvæði 3. mgr. 30. gr. laganna sem kveði á um að ákvæði leigusamninga sem í gildi voru við gildistöku laganna skuli standa óhögguð um leigutíma, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða um samninga sem falla úr gildi fyrir 1. júlí 2010.

Í athugasemdum varnaraðila er á það bent að bráðabirgðaákvæði laganna taki til sérstakra tegunda samninga, þ.e. tímabundinna leigusamninga sem falla úr gildi innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Í þessu felist að ákvæði slíkra samninga skuli eftir sem áður standa óhögguð nema leigutaki óski sérstaklega eftir framlengingu samningsins sem þá framlengist um eitt ár frá samningslokum, en þó aldrei lengur en til 1. júlí 2010. Sé hins vegar ekki sérstaklega óskað eftir slíkri framlengingu af hálfu leigutaka, teljist leigusamningur hafa fallið niður í samræmi við ákvæði samnings, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með bréfi sóknaraðila, dags. 27. ágúst 2008, hafi slík ósk um framlengingu samningsins verið sett fram, en þess jafnframt óskað samningurinn yrði framlengdur eða nýr gerður. Af hálfu varnaraðila hafi slíkri málaleitan verið hafnað með bréfi, dags. 12. nóvember 2010, en þó fallist á að frestur til að rýma lóðina yrði framlengdur til 1. júlí 2010, með vísan til bráðabirgðaákvæðis laganna.

Bráðabirgðaákvæðið verði ekki skilið öðruvísi en svo að það feli í sér lögbundin lok leigusamninga sem falla undir bráðabirgðaákvæðið, þ.m.t. umræddur leigusamningur. Slíkir leigusamningar verði því ekki framlengdir frekar án atbeina leigusala, enda þyrfti slíkt að eiga sér skýra og afdráttarlausa stoð í lögum. Sóknaraðilar hafi því ekki getað síðar, með málskoti til kærunefndarinnar, öðlast betri rétt en þeir hafi átt lögum samkvæmt.

Varnaraðili kveðst ekki mótmæla þeim sjónarmiðum að sóknaraðilar hafi „byggt upp veruleg verðmæti“ á lóðinni. Samkvæmt fortakslausu orðalagi leigusamningsins hafi sóknaraðilum/leigutökum borið að „fjarlægja öll hús og mannvirki af lóðinni“ að loknum leigutíma. Sóknaraðilum hafi því alla tíð verið fullljóst að þær kynnu að þurfa að sæta slíku við lok leigutímans og hafi því verið í lófa lagið að haga uppbyggingu sinni með hliðsjón af því. Með engu móti verði því séð að í þessu geti falist upptaka eignarréttinda, eins og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila. Öll uppbygging mannvirkja á lóðinni hafi því alfarið verið á ábyrgð og áhættu sóknaraðila, í samræmi við framangreint.

Varnaraðili byggir á að 12. gr. laga nr. 75/2008 verði ekki skýrð á þann veg að leigutaki öðlist með málskoti einu saman sjálfstæðan rétt til framlengingar á leigusamningi með þeim hætti sem byggt sé á af hálfu sóknaraðila. Í samræmi við meginsjónarmið laganna hljóti að verða að gera þá kröfu að sóknaraðilar setji fram afmarkaða kröfugerð, auk þeirra röksemda sem þær byggi kröfugerð sína á, sbr. einkum 2. málsl. 26. gr. laganna þar sem segi að „í kæru skulu koma fram kröfur kæranda ásamt stuttri lýsingu málsatvika og málsástæðna sem og rökstuðningur“. Kæra eða málskot verði með öðrum orðum ekki sett fram til málamynda í þeim tilgangi einum að ná fram framlengingu leigusamningsins á grundvelli 4. mgr. 12. gr., enda augljóst að slíkt fæli í sér verulega skerðingu hins beina eignarréttar leigusala og gerði hann í raun óvirkan. Það geti ekki hafa verið tilgangur laganna og fari berlega í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár, enda verði ekki séð að sérstakir almannahagsmunir standi til þess að gengið verði með slíkum hætti á stjórnarskrárvarin réttindi. Í þessu sambandi jafnframt að horfa til meginreglna samningaréttar um frelsi til samningsgerðar og skýra ákvæði laganna með hliðsjón af því. Einkum skipti hér máli að umræddur leigusamningur hafi verið gerður árið 1981, löngu fyrir gildistöku laganna, þegar nær óskert samningsfrelsi hafi ríkt á þessu sviði.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila sem kærunefndin kallaði eftir kemur fram að varnaraðili telji leiguverð slíkrar lóðar sé á bilinu 200–250.000 krónur á ári. Þessi verðhugmynd sé byggð á samtölum við fasteignasala.

 

IV.

Niðurstaða

Sóknaraðilar krefjast þess að staðfest verði framlenging á leigusamningi aðila til 1. júlí 2030. Til vara er þess krafist að kærunefndin ákvarði ársleigu framlengds samnings, verði litið svo á að greinargerð varnaraðila feli í sér mótmæli við núveranda ársleigu. Til þrautavara krefjast sóknaraðilar þess, verði niðurstaða nefndarinnar önnur en sú að þær eigi rétt til framlengingar leigusamnings til 20 ára, að nefndin úrskurði um innlausnarverð eignarinnar skv. 2. tölul. 5. mgr. 12. gr.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málskoti leigutaka verði vísað frá kærunefndinni. Til vara gerir varnaraðili þá kröfu að kröfum leigutaka um framlengingu leigusamnings verði hafnað.

Samkvæmt 12. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, sbr. lög nr. 66/2010, geta aðilar að leigusamningi um lóð undir frístundahús skotið máli varðandi framlengingu leigusamnings til kærunefndar húsamála. Sé máli skotið til nefndarinnar innan tilgreindra fresta framlengist samningurinn sjálfkrafa. Varnaraðili byggir kröfur sínar meðal annars á því að ákvæði laganna fari í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Hlutverk kærunefndar húsamála er einvörðungu að skera úr máli á grundvelli laganna og fjallar ekki um gildi laganna gagnvart stjórnskipunarlögum eða öðrum lögum landsins. Verður því að bera slíkan ágreining undir dómstóla telji aðilar tilefni til.

Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 75/2008 kemur fram að ef tímabundinn samningur um leigu á lóð undir frístundahús falli úr gildi innan tveggja ára frá gildistöku laganna skuli leigutaki hafa rétt til að framlengja leigusamning um eitt ár frá samningslokum að telja en þó aldrei lengur en til 1. júlí 2010. Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða segir að leigutaki skuli tilkynna leigusala þessa fyrirætlan sína skriflega innan tveggja mánaða frá því að lögin taki gildi, en að öðrum kosti falli niður réttur hans til að framlengja samning. Lög nr. 75/2008 tóku gildi 1. júlí 2008.

Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða segir að hafi samningar ekki náðst um áframhaldandi leigu eða afnám hennar geti leigusali, sbr. 5. mgr. 12. gr., eða leigutaki, sbr. 8. mgr. 12. gr., skotið kæru til kærunefndar húsamála. Um brottfall málskotsréttar leigusala gildi ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 12. gr. og um brottfall málskotsréttar leigutaka gildi ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 12. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 75/2008 getur leigusali skotið máli til kærunefndar húsamála allt frá því að eitt ár er eftir af leigusamningi. Málskotsréttur leigusala fellur niður hafi málskot ekki verið sent sex mánuðum fyrir lok samnings. Eftir að málskotsréttur leigusala fellur niður getur leigutaki skotið máli til kærunefndarinnar, sbr. 3. mgr. 12. gr. Málskotsréttur leigutaka fellur niður hafi málskot hans ekki verið sent fyrir lok leigusamnings. Í 4. mgr. 12. gr. kemur fram að ef annar hvor aðilinn hefur nýtt sér málskotsrétt sinn skv. 2. eða 3. mgr. framlengist leigusamningur sjálfkrafa um 20 ár frá lokum samnings að telja.

Varnaraðili tilkynnti sóknaraðilum um uppsögn leigusamningsins með bréfi, dags. 30. júlí 2008, og skyldi samningnum ljúka 12. september 2009. Með bréfi dags. 27. ágúst 2008 óskuðu sóknaraðilar eftir framlengingu leigusamnings með vísan til laga nr. 75/2008. Með þeirri tilkynningu framlengdist leigusamningur aðila til 1. júlí 2010, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 75/2008.

Sóknaraðilar skutu málinu til kærunefndarinnar með bréfi dags. 24. júní 2010. Þá var eftir ein vika af framlengdum samningi. Málinu var þannig skotið til nefndarinnar innan tilskilins frests skv 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 75/2008. Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 75/2008 framlengdist leigusamningur aðila þar með um 20 ár frá 1. júlí 2010.

Hvorugur málsaðila hefur haft uppi beinar kröfur um endurskoðun ársleigu. Slík endurskoðun kemur ekki til nema á grundvelli beinnar kröfu. Þar af leiðandi varðar niðurstaða málsins aðeins leigutíma og verður ekki tekin afstaða til leigugjalds.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Samningur aðila um leigu lóðar nr. 4 í landi jarðarinnar X í sveitarfélaginu Y er framlengdur til 1. júlí 2030.

 

Reykjavík, 28. febrúar 2011

 

Arnbjörg Sigurðardóttir

Karl Axelsson

Ásmundur Ásmundsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta