Mál nr. 3/2010
Mál nr. 3/2010:
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
forsætisráðherra
Skipun í embætti. Hæfnismat.
Forsætisráðuneytið auglýsti í mars 2010 laust embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæfari eða jafn hæfa þeim karli sem skipaður var. Þá taldi kærandi að einkunnagjöf vegna hæfnisþátta væri röng og ófullnægjandi. Forsætisráðuneytið taldi hins vegar að karlinn hefði verið hæfasti umsækjandinn um embætti skrifstofustjóra, meðal annars á grundvelli hæfnismats, þekkingar og reynslu. Kærunefnd jafnréttismála taldi að forsætisráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar því að gengið var framhjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra. Taldist því ráðuneytið hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. mars 2011 er tekið fyrir mál nr. 3/2010 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru dagsettri 18. október 2010 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort forsætisráðherra hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er ráðherra skipaði karlmann í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í júní 2010.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt forsætisráðherra með bréfi dagsettu 12. nóvember 2010. Hinn 1. desember 2010 var með bréfi dagsettu sama dag ítrekuð beiðni kærunefndar um afstöðu ráðherra. Á fundi kærunefndar 13. desember 2010 var gerð bókun í málinu, þess efnis að málið yrði tekið til afgreiðslu að lokinni frekari gagnaöflun, og var hún send aðilum máls með bréfi dagsettu 16. desember 2010.
- Hinn 20. desember 2010 barst umsögn forsætisráðuneytis með bréfi dagsettu 16. desember 2010 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 20. desember 2010. Með símtali 23. desember 2010 óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til að koma athugasemdum á framfæri og var forsætisráðuneytið upplýst um veittan frest með bréfi dagsettu sama dag.
- Hinn 7. janúar 2011 bárust athugasemdir kæranda með bréfi dagsettu sama dag. Forsætisráðuneytið var með bréfi kærunefndar dagsettu 7. janúar 2011 gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda.
- Hinn 21. janúar 2011 var haldinn fundur með stjórnunar- og mannauðsráðgjafa forsætisráðuneytisins sem mat hæfni umsækjenda og voru aðilar máls, þ.e. ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og kærandi, viðstaddir.
- Með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. janúar 2011, var óskað eftir viðbótarupplýsingum frá forsætisráðuneytinu og barst svar þess með bréfi, dagsettu 30. janúar 2011. Kæranda var sent afrit af því bréfi til kynningar með bréfi nefndarinnar, dagsettu 2. febrúar 2011.
- Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA - Í kæru, dagsettri 18. október 2010, er bent á það að hinn 19. mars 2010 hafi verið auglýst embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu. Kærandi hafi sótt um embættið 6. apríl 2010. Kærandi hafi verið meðal þeirra umsækjenda sem voru boðaðir í tvö viðtöl hjá ráðuneytinu. Kæranda var með bréfi, dagsettu 1. júní sl., tilkynnt að ákveðið hefði verið að skipa B í embættið. Með bréfi, dagsettu 14. júní sl., hafi kærandi, á grundvelli 20. og 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, óskað eftir rökstuðningi ráðuneytisins vegna skipunarinnar. Rökstuðningur var látinn í té með bréfi, dagsettu 28. júní 2010, auk minnisblaðs stjórnunar- og mannauðsráðgjafa ráðuneytisins.
- Kærandi óskaði síðan með bréfi, dagsettu 20. júlí 2010, eftir öllum gögnum sem ráðuneytið byggi yfir varðandi umsókn kæranda og þess sem skipaður var. Umbeðin gögn bárust með bréfi forsætisráðuneytisins hinn 27. ágúst 2010. Kærandi telur að umsókn hennar hafi ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu forsætisráðuneytisins og ráðgjafa þess. Hún telur að einkunnir hennar fyrir þá sjö hæfnisþætti sem fram koma í auglýsingu um embættið séu vísvitandi rangar eða hæfnisþáttunum gefin stig eftir ófullnægjandi yfirferð og rannsókn.
- Kærandi rekur þá þætti í auglýsingunni sem varða helstu verkefni skrifstofunnar og menntunar- og hæfniskröfur. Hún kveðst í umsókn sinni og ferilskrá hafa gert grein fyrir hvernig hún uppfyllti þessa hæfnisþætti og fylgt því eftir í viðtölum við ráðuneytisstjórann og ráðgjafann. Kærandi kveðst hafa talið að hún uppfyllti með ágætum alla hæfnisþættina sjö og að með framhaldsmenntun og starfsreynslu á sviði stjórnsýslufræða og stefnumótunar hafi hún staðið flestum umsækjendum framar. Í gögnum sem kæranda hafi borist frá forsætisráðuneytinu komi fram að ráðgjafinn hafi útfært hæfnisþættina með tilliti til tiltekinnar hegðunar sem hafi átt að spá fyrir um frammistöðu í starfi. Kærandi gerir verulegar athugasemdir við þetta, enda sé útfærsla ráðgjafans og hæfnismat í mörgum tilvikum í engum eða litlum tengslum við viðkomandi hæfnisþátt.
- Fyrsti hæfnisþátturinn sé háskólamenntun sem nýtist í embættinu. Kærandi sé með framhaldsmenntun á sviði stjórnsýslu og stefnumótunar en sá sem skipaður var hafi framhaldsmenntun á sviði stjórnmálafræði. Hér sé um tvær afar ólíkar fræðigreinar að ræða. Sú fyrrnefnda lúti að uppbyggingu, stefnumótun og stjórnun innan stjórnsýslunnar, en viðfangsefni hinnar síðarnefndu sé heimur stjórnmálanna. Þeir hæfnisþættir sem ráðgjafinn hafi lagt áherslu á undir þessum lið séu nær allir á sviði stjórnsýslufræða sem kærandi hafi í námi og starfi sérhæft sig í, svo sem stefnumótun, samráð, upplýsingamiðlun, árangursmælikvarðar o.s.frv. Þegar að einkunnagjöf komi hafi menntun þess sem skipaður var þó af einhverjum ástæðum verið hærra metin en menntun kæranda.
- Kærandi bendir á, varðandi annan hæfnisþáttinn, um að þekking og eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar sé æskileg, að þegar ráðgjafinn hafi útfært þann hæfnisþátt hafi hann verið einskorðaður við stofnanir ríkisins og Stjórnarráðið. Það sé að mati kæranda byggt á vanþekkingu því stjórnsýsla fari fram víðar en innan Stjórnarráðsins og stofnana þess. Kærandi telur sig uppfylla þennan hæfnisþátt ágætlega enda hafi hún gegnt stjórnandastarfi innan Stjórnarráðsins og hafi reynslu af stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þar fyrir utan hafi kærandi starfað í þrjú og hálft ár sem stjórnandi við Listaháskóla Íslands. Í því starfi hafi eitt helsta verkefni hennar verið að innleiða vandaða stjórnsýsluhætti og stefnumótun á grundvelli gæðastjórnunar.
- Sá sem skipaður var hafi fyrst og fremst reynslu af störfum fyrir fjármálaráðuneytið. Í minnisblaði ráðgjafans sé það metið kæranda í óhag að þurfa lengri tíma en hann til að kynnast umhverfinu betur og því fólki sem þyrfti að hafa áhrif á. Hann njóti þess að sama skapi að geta, að mati ráðgjafa, hafist handa strax við úrvinnslu aðkallandi verkefna. Þetta sjónarmið sé ólögmætt að mati kæranda enda sé með þessu verið að gefa starfsmanni Stjórnarráðsins forskot á aðra umsækjendur. Auglýsingin hafi ekkert slíkt gefið til kynna.
- Varðandi þriðja hæfnisþáttinn, þ.e. hæfni í að leiða stefnumótun, samráð og undirbúning skipulagsbreytinga, séu í honum endurtekin ýmis atriði sem tiltekin séu í fyrsta þætti, svo sem stefnumótun, samráð, markmiðssetning, árangursmat o.fl. Allt séu þetta grundvallarþættir stjórnsýslufræðanna sem kærandi hafi sérhæft sig í og séu óviðkomandi stjórnmálafræðigreininni.
- Kæranda hafi á sínum tíma verið falið starf aðstoðarmanns borgarstjóra vegna menntunar sinnar á sviði stjórnsýslu og stefnumótunar. Í störfum hennar hjá Reykjavíkurborg hafi hún tekið þátt í og borið ábyrgð á undirbúningi og innleiðingu ýmissa stjórnsýsluumbóta. Kærandi telji það vera helsta styrk sinn að geta virkjað það besta í hverjum einstaklingi og stýra og taka þátt í hópstarfi. Kærandi hafi unnið að því að byggja upp stjórnsýslu ungs háskóla og móta og innleiða gæðakerfi hans og stefnu á ýmsum sviðum. Kærandi hafi verið fulltrúi Listaháskóla Íslands í víðtæku erlendu samstarfi um aðlögun að samevrópsku háskólasvæði á grundvelli Bologna-samningsins. Einnig hafi kærandi verið fulltrúi skólans í ýmsum samstarfsnefndum og verkefnum innanlands.
- Síðastliðið haust hafi kærandi unnið sem verkefnisstjóri undirbúningshóps að stofnun Íslandsstofu. Kærandi hafi á sama tíma verið starfsmaður nefndar um fyrirkomulag umbótamála innan ríkisins. Á vormánuðum hafi kærandi leitt nefnd um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Að mati kæranda sé þekking hennar, reynsla og hæfni í að leiða stefnumótun, samráð og undirbúning skipulagsáætlana meiri en þess sem skipaður var.
- Í fjórða hæfnisþættinum, hæfni í verkefnisstjórnun og áætlanagerð, sé enn verið að lýsa þeim þáttum stjórnsýslufræðanna sem kærandi hafi menntað sig til og starfað við allt frá því að hún lauk meistaranámi sínu. Sem stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs hafi kærandi leitt stofnun nýrrar ríkisstofnunar, uppbyggingu hennar og rekstur. Framkvæmda- og rekstrarumsvif þjóðgarðsins séu um 600 milljónir króna árlega. Eitt mikilvægasta verkefni síðustu missera hafi verið gerð stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins. Að þeirri vinnu hafi komið hundruð manna: Stjórnarmenn, fjögur svæðisráð, átta sveitarfélög og aðrar opinberar stofnanir. Víðtækt samráð hafi verið haft við landeigendur á svæði þjóðgarðsins, sveitarstjórnarmenn, einstaklinga, hagsmunasamtök, innlenda og erlenda sérfræðinga og samtök á sviði náttúruverndar.
- Eftir að hafa starfað sem verkefnastjóri undirbúningshóps um stofnun Íslandsstofu hafi forsætisráðherra falið kæranda formennsku í nefnd sem unnið hafi að tillögum að breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands en kærandi hafi sagt af sér vegna máls þessa í júní 2010. Að mati kæranda sé hæfni hennar og reynsla á sviði verkefnisstjórnar og áætlunargerðar mun umfangsmeiri en þess sem skipaður var.
- Undir fimmta hæfnisþættinum, um forystu-, samskipta- og skipulagshæfni, séu skilgreind viðfangsefni sem lúti að stjórnun en að hluta til sé verið að umorða þætti sem komið hafi fram, til dæmis undir þriðja og fjórða þætti. Fyrst verði að nefna að skrifstofustjórastarf í Stjórnarráðinu sé stjórnendastarf sem samkvæmt eðli máls og orðanna hljóðan feli í sér mannaforráð. Stjórnunarreynsla kæranda og þess sem skipaður var sé ekki sambærileg. Hann hafi aldrei gegnt stjórnandastarfi og ekki haft mannaforráð. Af þeim gögnum sem fyrir liggi verði ekki séð að reynt hafi á forystuhæfni hans. Stjórnunarreynsla kæranda komi meðal annars frá Listaháskóla Íslands þar sem hún hafi verið forstöðumaður háskólaskrifstofu í þrjú og hálft ár. Fjórar deildarskrifstofur skólans heyri undir háskólaskrifstofu með alls um 15 starfsmenn. Sem stjórnandi hafi kærandi leitt, auk starfsmannastjórnunar, mótun og innleiðingu nýs nemendaskráningakerfis, starfsmannastefnu, jafnréttisstefnu, stefnu um sértækar þarfir nemenda og innra gæðakerfis skólans. Við þessa innleiðingu hafi reynt á forystu- og samskiptahæfileika gagnvart öðrum stjórnendum og starfsmönnum.
- Störf aðstoðarmanns borgarstjóra og aðstoðarmanns ráðherra séu stjórnenda- og leiðtogastörf. Hjá Reykjavíkurborg hafi aðstoðarmaður beint umboð borgarstjóra og boðvald gagnvart öðrum embættismönnum borgarinnar. Í Stjórnarráðinu sé umboð aðstoðarmanns ekki eins skýrt, en þó sé ljóst að staða hans sé metin á við staðgengil ráðuneytisstjóra.
- Kærandi tekur fram varðandi sjötta hæfnisþáttinn, góða íslenskukunnáttu og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti, að hún eigi mjög auðvelt að koma frá sér efni og sem aðstoðarmaður bæði borgarstjóra og umhverfisráðherra hafi hún samið mikinn fjölda af ræðum, ávörpum og blaðagreinum sem birtar hafi verið undir þeirra nafni. Kærandi hafi mjög gott vald á íslenskri tungu og hafi sem stjórnsýslufræðingur tileinkað sér og nýtt þá hæfnisþætti sem fram séu settir undir þessum lið.
- Sjöundi hæfnisþátturinn laut að góðri kunnáttu í ensku og einu Norðurlandamáli og bendir kærandi á að enska sé hennar annað tungumál. Eftir átta ára búsetu í Bandaríkjunum, menntaskólagöngu og háskólagöngu, þ.m.t. meistaranám, sé færni hennar í að lesa, skrifa og tala ensku ekki síðri en íslenskukunnátta hennar. Þá sé kunnátta kæranda í norsku mjög góð enda hafi hún búið sem unglingur um tveggja ára skeið í Bergen í Noregi og lokið þar gagnfræðaskólaprófi. Kærandi hafi hlotið verðlaun fyrir námsárangur í báðum tungumálum og námsstyrk til fjögurra ára við Wellesley-kvennaháskólann vegna þekkingar á enskri tungu og vestrænum menningarfræðum. Tungumálakunnáttuna hafi kærandi að sjálfsögðu nýtt sér óspart í störfum sínum öllum á sviði stjórnsýslu. Sem forstöðumaður háskólaskrifstofu Listaháskólans hafi kærandi borið ábyrgð á erlendum samskiptum, nemenda- og kennaraskiptum og síðast en ekki síst samræmingu náms skólans við evrópskar kröfur. Því hafi fylgt samskipti við menntastofnanir víða um Evrópu, seta í alþjóðlegum nefndum o.þ.h. Í hvert sinn sem kærandi hafi tekist á við ný viðfangsefni í starfi hafi hún ætíð leitað í smiðju erlendra sérfræðinga.
- Kærandi bendir á að ráðgjafinn hafi gefið umsækjendum einkunn fyrir hvern hæfnisþátt, byggða á útfærslu með tilliti til ákveðinnar hegðunar sem átti að spá fyrir um frammistöðu í starfi. Gefin hafi verið stig fyrir hvort viðtal fyrir sig. Sé borinn saman stigafjöldi kæranda og þess sem skipaður var eftir fyrra viðtal komi í ljós að kærandi hafi fengið 31 stig af 40 en hann 33,5. Á skalanum 1 til 10 hafi einkunn kæranda reynst 7,75 en hans 8,38. Í engum hæfnisþætti fái kærandi fleiri stig en hann. Þessu er kærandi afar ósammála. Kærandi er þeirrar skoðunar að háskólamenntun hennar falli mun betur að lýsingu embættisins en hans. Það sama eigi við flesta hina þættina, en þar sé fyrst og fremst verið að leita að eiginleikum sem þeir búi yfir sem hafi sérhæft sig í námi og starfi á sviði stjórnsýslu. Þá sé stjórnunarreynsla þess sem skipaður var engin en það virðist lítil sem engin áhrif hafa á einkunn hans.
- Fyrir seinna viðtalið voru umsækjendur beðnir um að undirbúa örstutta kynningu á því hvernig þeir sæju helstu markmið og verkefni skrifstofunnar vera og hvernig umsækjandi myndi vilja nálgast viðfangsefni skrifstofunnar. Kærandi hafi flutt kynningu sína sem skipt hafi verið niður í þrjá umbeðna þætti, þ.e. markmið, verkefni og nálgun. Handrit kynningarinnar hafi kærandi afhent ráðgjafa og ráðuneytisstjóra. Í gögnum málsins megi sjá að sá sem skipaður var hafi afhent handrit sinnar kynningar. Að mati kæranda sé handrit hennar síst lakara en hans. Eftir seinna viðtalið og yfirferð kynningarinnar hafi ráðgjafi gefið stig að nýju fyrir sömu hæfnisþættina sjö en undirþáttum sé fækkað úr 40 í 17. Einkunn kæranda fyrir seinna viðtalið og kynninguna hafi reynst 4,5 af 17 en hans 12,5 af 17. Á skalanum 1–10 hafi einkunn kæranda reynst 2,65 en þess sem skipaður var 7,35. Þessi einkunnagjöf standist ekki. Sá sem skipaður var fái í matinu hærri einkunn fyrir sérhvern hæfnisþátt, menntun hans sem stjórnmálafræðingur sé talin nýtast betur í starfinu en stjórnsýslufræðimenntun kæranda, hann fái hærri einkunn en kærandi fyrir alla hæfnisþætti sem snúi að stjórnsýslu, skortur á stjórnunarreynslu og mannaforráðum sé ekki metinn honum til lægri einkunnar og að lokum hafi kærandi fengið 0 í einkunn fyrir tungumálakunnáttu.
- Fallist kærunefnd jafnréttismála ekki á að kærandi hafi verið hæfari en sá sem skipaður var krefst hún þess að lagt sé til grundvallar að kærandi hafi verið jafn hæf og hann. Að þeirri niðurstöðu fenginni hafi einnig borið að skipa kæranda í embættið. Við skipan í embættið hafi starfað 54 skrifstofustjórar við Stjórnarráðið. Af þeim hafi verið 38 karlar en 16 konur. Í forsætisráðuneytinu séu fjórar skrifstofur og þeim sé öllum stýrt af körlum. Ein kona beri reyndar starfsheitið skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu en samkvæmt skipuriti hafi hún ekki mannaforráð.
- Meginreglur jafnréttislaganna hafi verið skýrðar þannig að þegar val standi milli tveggja jafn hæfra einstaklinga skuli veita starfið einstaklingi af því kyni sem sé í minnihluta. Þessi túlkun sé viðtekin og þyki sjálfsögð og eðlileg leið til að leiðrétta kynjahlutföll í nútímasamfélögum. Það hafi forsætisráðherra ekki gert og brotið þar með gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
SJÓNARMIÐ FORSÆTISRÁÐUNEYTIS - Forsætisráðuneytið vísar til rökstuðnings sem sendur var kæranda með bréfi, dagsettu 28. júní 2010. Gerður hafi verið samningur við C, stjórnunar- og mannauðsráðgjafa, um aðkomu að skipunarferlinu í heild. Ráðgjafinn hafi unnið að gerð auglýsingar með ráðuneytinu þar sem fram hafi komið þær menntunar- og hæfniskröfur sem ferlið í heild byggðist á. Alls hafi borist 41 umsókn um embættið. Að afloknu mati á umsóknum, sem ráðgjafi og ráðuneytisstjóri hafi farið sameiginlega yfir, hafi verið ákveðið að taka viðtöl við 21 umsækjanda og í framhaldi af því hafi fimm úr þeim hópi verið boðaðir í seinna viðtal.
- Í greinargerð ráðgjafans sé skilgreint að markmið vinnu hans sé að meta hæfni þeirra umsækjenda sem taldir hafi verið hæfir til að koma í viðtöl og að greina hvaða umsækjandi teldist vera hæfastur miðað við þær hæfniskröfur sem lagðar hafi verið til grundvallar fyrir starfið. Ráðgjafinn hafi greint hæfnisþætti í samráði við ráðuneytisstjóra. Niðurstöðum greiningarinnar og yfirliti yfir hæfnisþætti, hegðun og stigagjöf hafi verið skilað til ráðuneytisstjóra og spurningar hannaðar fyrir fyrra viðtal þar sem leitast hafi verið við að afla upplýsinga um alla hæfnisþætti sem fram komu í auglýsingu.
- Þá hafi komið fram í rökstuðningi til kæranda að eftir að fyrri viðtöl hafi verið tekin og upplýsinga aflað um framangreinda hæfnisþætti hafi verið ákveðið að þeir aðilar sem metnir höfðu verið hæfastir yrðu boðaðir í annað viðtal. Staðlaðar spurningar til umsækjenda hafi verið hannaðar til að draga fram þætti sem kanna þyrfti frekar og væru taldir líklegir til að greina á milli hæfustu aðila. Þeir fimm umsækjendur sem boðaðir voru í seinna viðtalið hafi einnig verið beðnir um að undirbúa tíu mínútna kynningu þar sem fram kæmi þeirra sýn á helstu markmið og verkefni skrifstofunnar og hvernig þeir myndu vilja nálgast viðfangsefni hennar.
- Ráðgjafinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hæfasti umsækjandinn væri sá sem skipaður var miðað við frammistöðu í viðtölum og hafi hann fengið flest stig á grundvelli samræmdrar stigagjafar þar sem gefin voru stig fyrir hvern hæfnisþátt fyrir sig. Í ljósi þess að þeir umsækjendur sem boðaðir voru í seinna viðtalið hafi allir verið mjög hæfir hafi ráðuneytisstjóri óskað eftir því að ráðgjafinn ynni sérstakan samanburð á einstökum umsækjendum og þeim sem hæfastur hafði verið metinn, þar á meðal á kæranda og þeim sem skipaður var. Af hálfu ráðgjafans hafi komið fram að rökstuðningur hennar sé þríþættur. Í fyrsta lagi hafi sá umsækjandi sem metinn var hæfastur sýnt fram á hæfni í viðtölum er lúti að öllum hæfnisþáttum og fengið hæstu heildareinkunn af umsækjendum. Í öðru lagi sé menntunarbakgrunnur hans og starfsreynsla talin vera vel til þess fallin að nýtast honum til að stýra verkefnum skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Í þriðja lagi hafi áhættuþættir og þjálfunarþarfir þess sem skipaður var verið taldar vera viðráðanlegri til skemmri tíma en áhættuþættir og þjálfunarþarfir kæranda. Kærandi hefði líklega þurft meiri tíma til að kynnast umhverfinu betur og því fólki sem hún hefði þurft að hafa áhrif á.
- Þeim sem skipar í embætti eða ræður í starf beri ávallt að leggja sjálfstætt mat á umsækjendur á grundvelli heildargagna og það hafi verið gert í þessu tilviki. Farið hafi verið heildstætt yfir umsóknargögn, niðurstöður viðtala og greinargerð ráðgjafans og haft samband við meðmælendur sem sá sem skipaður var hafi bent á í umsóknargögnum sínum. Sá sem skipaður var sé stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu frá London School of Economics and Political Science. Hann hafi jafnframt lokið áföngum í lögfræði og viðskiptafræði sem hluta af námskeiði til prófs í verðbréfa-viðskiptum. Frá árinu 2001 hafi hann starfað á fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem sérfræðingur í umbóta- og hagræðingarmálum og verið staðgengill skrifstofustjóra frá árinu 2007. Áður hafi hann meðal annars unnið hjá Hagstofunni. Um átta ára skeið hafi hann kennt við Háskóla Íslands og við Endurmenntun Háskóla Íslands og verið um tíma aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands þar sem hann hafi meðal annars kennt námskeið um stjórntæki ríkisins í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu (MPA). Sá sem skipaður var hafi átt sæti í fjölmörgum nefndum sem fjallað hafi um umbótamál og breytingar á vettvangi ríkisins. Hann hafi leitt verkefni tengt sameiningu stofnana og ráðuneyta sem nú sé unnið að og starfi auk þess meðal annars með nefnd um heildarendurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands og verkefnisstjórn um sóknaráætlun fyrir alla landshluta 20/20. Þá hafi sá sem skipaður var hlotið afburðagóð meðmæli frá umsagnaraðilum.
- Eftir að hafa metið umsóknargögn og greinargerð og niðurstöðu ráðgjafans, tekið viðtöl við umsækjendur og hlýtt á kynningu þeirra á sýn á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar og rætt við umsagnaraðila hafi það verið mat ráðuneytisins að sá sem skipaður var hafi verið hæfastur til að gegna embættinu. Þá hafi meðal annars verið talið að reynsla þess sem skipaður var sem kennari á sviði opinberrar stjórnsýslu og stjórnmálafræði innan Háskóla Íslands nýttist vel í þeirri vinnu sem framundan væri við að móta almenna nýliðafræðslu innan Stjórnarráðsins.
- Vegna athugasemdar kæranda við menntunarkröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu um embættið upplýsir ráðuneytið að það hafi verið mat þess þegar embættið var auglýst að verkefni skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar væru það fjölbreytt að einstaklingar með margvíslega menntun gætu komið til álita í embættið. Ráðuneytið hafi því hvorki talið rétt né faglegt að afmarka menntunarkröfur frekar en gert hafi verið. Framhaldsmenntun í stjórnmálafræði teljist án nokkurs vafa fullnægjandi menntun til að gegna embættinu með sama hætti og framhaldsmenntun á sviði stjórnsýslu og stefnumótunar.
- Auk mats á staðreyndum um menntun, fyrri störf og þekkingu hafi mat ráðuneytisins og ráðgjafans ekki síður lotið að beinni frammistöðu í viðtölum sem tekin voru. Þær kröfur sem hafi verið lagðar til grundvallar starfinu séu þær sömu og metnar voru í öllu matsferlinu. Hæfnisþættir, stigagjöf, aðferðafræði og spurningar hafi verið útfærðar og samþykktar af ráðuneytinu áður en ráðgjafinn hafi séð umsóknir eða haft vitneskju um hverjir hefðu sótt um embættið. Það kerfi sem skilgreint hafi verið til að meta hæfni umsækjenda hafi ekki verið lagað að einum umsækjanda fremur en öðrum og stuðst hafi verið við sama ferli og aðferðafræði fyrir alla. Öllum umsækjendum hafi verið veitt jöfn tækifæri bæði með því að staðla tímalengd viðtala og með því að hafa viðtölin sjálf stöðluð. Ráðuneytið kveður verkefnið hafa verið unnið á faglegan og hlutlausan hátt þar sem ekki hafi ráðið önnur sjónarmið en að meta hvaða umsækjandi væri hæfastur. Það hafi einkum verið í seinna viðtalinu sem skildi á milli kæranda og þess sem skipaður var. Þar hafi verið reynt með virkum aðferðum að draga fram og varpa ljósi á hæfni umsækjenda og hvort og þá hvernig líklegt væri að sú reynsla og þekking sem þeir hefðu myndu nýtast í embættinu. Þá hafi umsagnir aðila sem umsækjendur hafi bent á einnig haft áhrif á niðurstöðuna.
- Umsagnirnar séu frá lykilfólki innan stjórnsýslu og stjórnsýslufræða hér á landi. Sé sérstaklega vísað til umsagna dr. D, prófessors við Háskóla Íslands, og E, fyrrum forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, þar sem þau hafi mikla þekkingu og yfirsýn yfir stjórnsýslu hér á landi og fræðslu fyrir þá sem starfa á vettvangi hennar. Í umsögn E sé meðal annars bent á að sá sem skipaður var hafi byggt upp mikið tengslanet í ráðuneytum og stofnunum sem séu lykilþættir í því embætti sem hér um ræði. Þá telji D að sá sem skipaður var hafi meiri reynslu á sviði stjórnsýslu en kærandi. Hann þekki það svið mjög vel, sé búinn að vinna mjög lengi í fjármálaráðuneytinu og viti gríðarlega mikið um Stjórnarráðið en kærandi hafi ekki jafn víðtæka þekkingu á því sviði.
- Reynsla þess sem skipaður var af störfum í fjármálaráðuneytinu hafi að mati forsætisráðuneytisins vegið mjög þungt enda einn af meginþáttum í menntunar- og hæfniskröfum sem settar voru fram í auglýsingu um embættið. Verkefni í fjármálaráðuneytinu byggi eins og í forsætisráðuneytinu á miklum samskiptum við önnur ráðuneyti í Stjórnarráðinu og séu reynsla af slíkum verkefnum og tengslanet innan þess mikilvæg atriði þegar verið sé að velja starfsmenn sem eigi að vera leiðandi í mótun innan Stjórnarráðsins.
- Ráðuneytið vekur sérstaka athygli á því að mikill eðlismunur sé á hlutverki og verkefnum aðstoðarmanns ráðherra annars vegar og starfsmönnum og embættismönnum innan Stjórnarráðsins hins vegar, en kærandi hafi gegnt embætti aðstoðarmanns umhverfisráðherra. Aðstoðarmenn ráðherra hafi ekki boðvald yfir starfsmönnum ráðuneyta, leysi ekki úr hefðbundnum stjórnsýsluverkefnum og undirriti ekki bréf eða önnur gögn sem stafa frá ráðuneytum. Aðstoðarmenn ráðherra öðlist því ekki slíka reynslu sem hljóti að vega þungt þegar verið sé að velja skrifstofustjóra á skrifstofu sem eigi að vera í forystu við mótun vinnubragða innan stjórnsýslunnar og þróa stjórnsýsluna.
- Það sé skylda stjórnvalda við val á umsækjendum um störf hjá hinu opinbera að ráða þann einstakling til starfans sem metinn sé hæfastur til að gegna starfinu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Ekki reyni á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti nema talið sé að hún hafi verið ómálefnaleg þannig að telja megi að sú skipan hafi tengst kynferði kæranda. Ráðuneytið hafnar því með öllu að slík ómálefnaleg sjónarmið hafi með nokkru móti haft áhrif á ákvörðun um skipun í umrætt embætti.
- Að hálfu ráðuneytisins hafi til hins ýtrasta verið reynt að haga matsferli þannig að fyllsta jafnræðis væri gætt milli umsækjenda og að hæfni þeirra, reynsla og þekking væri metin með samræmdum og faglegum hætti, meðal annars með aðkomu reynds utanaðkomandi ráðgjafa sem hafi komið að því að semja auglýsingu og síðan að ferlinu í heild. Áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin hafi, án aðkomu ráðgjafans, verið rætt við umsagnaraðila og á lokastigi hafi verið óskað eftir því að ráðgjafinn bæri sérstaklega saman þá umsækjendur sem einkum hafi verið taldir koma til greina í embættið. Niðurstaða ráðgjafans og umsagnir umsagnaraðila hafi stutt og undirbyggt það mat ráðuneytisins að sá sem skipaður var hafi verið hæfasti umsækjandinn.
- Jafnframt bendir ráðuneytið á að í stjórnunarteymi forsætisráðuneytisins gegni kona nú í fyrsta sinn embætti forsætisráðherra og jafnframt embætti ráðuneytisstjóra. Konur gegni því í dag æðstu embættum innan forsætisráðuneytisins og innan Stjórnarráðsins. Séu tiltekin embætti ráðherra, ráðuneytisstjóra og allra skipaðra skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu gegni fjórar konur embætti ráðherra, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra en fjórir karlar gegni embættum skrifstofustjóra. Þar á meðal gegni kona, sem er skipaður skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, nú í fyrsta sinn stöðu ráðgjafa forsætisráðherra í utanríkismálum. Sé litið til Stjórnarráðsins hafi konum jafnt og þétt fjölgað í hópi stjórnenda og jafn margar konur og karlar gegni nú í fyrsta sinn embættum ráðuneytisstjóra auk þess sem konum hafi fjölgað í hópi skrifstofustjóra innan Stjórnarráðsins á undanförnum árum. Við sameiningu tveggja ráðuneyta í nýtt velferðarráðuneyti gegni kona embætti ráðuneytisstjóra og fjórar konur og fjórir karlar gegni embættum átta skrifstofustjóra. Þá gegni kona embætti ráðuneytisstjóra í nýju innanríkisráðuneyti. Telur ráðuneytið að unnið hafi verið í samræmi við áherslur jafnréttislaga um að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum, sbr. 1. mgr. 18. gr. og markmiðsákvæði 1. gr. laganna, bæði innan ráðuneytisins og í Stjórnarráðinu.
- Ráðuneytið minnir að lokum á að það sé almennt viðurkennt í opinberum starfsmannarétti að stjórnvöld hafi allmikið svigrúm, að lagaskilyrðum uppfylltum, til að ákveða við embættisveitingar hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar og eins til að leggja heildarmat á persónulega kosti og eiginleika umsækjenda sem og hæfni þeirra. Þetta eigi ekki síst við í tilvikum sem þessum, þegar um sé að ræða nýtt embætti þar sem verkefnasviðið sé fjölbreytt og eigi eftir að mótast í framkvæmd, og megi í því sambandi vísa til sjónarmiða sem fram koma í áliti kærunefndarinnar nr. 7/2005. Það sé afstaða ráðuneytisins að val þess á sjónarmiðum við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar hafi verið lögmætt og málefnalegt og að hæfasti umsækjandinn hafi verið skipaður í embættið á grundvelli þeirra.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA - Kærandi bendir á að furðu veki að ráðuneytið skuli óska eftir og vísa til umsagnar dr. D prófessors um samanburð á hæfni kæranda og þess sem skipaður var. Í umsókn hans sé D tiltekinn sem umsagnaraðili, en ekki í umsögn kæranda. D hafi kennt kæranda í Háskóla Íslands fyrir rúmum 20 árum og hafi leiðir þeirra ekki legið saman síðan þá, sé undanskilið stutt samstarf í nefnd um endurskoðun stjórnarráðslaga þar sem kærandi gegndi formennsku. D hafi hvorki þekkingu né reynslu af störfum kæranda sem stjórnanda og sérfræðings á sviði stjórnsýslu. Sé því alfarið hafnað að hann hafi forsendur til þess að bera saman hæfni kæranda og þess sem skipaður var.
- Ráðuneytið hafi leitað til allra þeirra fjögurra umsagnaraðila sem sá sem embættið hlaut tilgreindi en einungis tveggja af þeim þremur umsagnaraðilum sem kærandi vísaði til. Af óskýrðum ástæðum hafi ráðuneytið kosið að hafa ekki samband við F rektor sem hefði getað veitt upplýsingar um stjórnunarstörf kæranda í Listaháskóla Íslands og þátt hennar í innleiðingu á vandaðri stjórnsýslu innan skólans.
- Þá hafi því verið haldið fram í greinargerð ráðuneytisins „að verkefnið hafi verið unnið á faglegan og hlutlausan hátt, þar sem ekki hafi ráðið önnur sjónarmið en að meta hvaða umsækjandi væri hæfastur“. Samt sem áður segi einnig: „Reynsla B í fjármálaráðuneytinu vó að mati forsætisráðuneytisins mjög þungt enda einn af meginþáttum í menntunar- og hæfniskröfum sem settar voru fram í auglýsingu um embættið.“ Kærandi bendir á að í auglýsingunni segi: „Þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar er æskileg.“ Af þessu tilefni áréttar kærandi að stjórnsýsla sé stunduð víðar en í fjármálaráðuneytinu eða í Stjórnarráðinu. Í kærunni hafi kærandi gert ítarlega grein fyrir stjórnsýslustörfum sínum og borið þau saman við störf þess sem skipaður var í fjármálaráðuneytinu. Því er mótmælt af hálfu kæranda að hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu „á faglegan og hlutlausan hátt“ að reynsla hans eða þekking af störfum innan stjórnsýslunnar sé meiri en kæranda.
- Þá áréttar kærandi að frá árinu 2007 hafi hún gegnt starfi stjórnarformanns Vatnajökulsþjóðgarðs og hafi sem slíkur verið æðsti yfirmaður þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn sé sjálfstæð ríkisstofnun og stjórnendur hennar séu samkvæmt lögum nr. 60/2007 ráðnir af stjórn og heyri beint undir hana. Starfsmenn þjóðgarðsins séu alls um 50 talsins.
- Með þessum athugasemdum meðal annarra leyfi kærandi sér að halda því fram að mat ráðgjafa og ráðuneytisstjóra hafi ekki byggst málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.
- Forsætisráðuneytið hafi talið að ekki reyni á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um skipun í embætti nema talið sé að hún hafi verið ómálefnaleg þannig að telja megi að sú skipan hafi tengst kynferði kæranda. Þessu er kærandi algerlega ósammála. Meginreglur jafnréttislaganna hafi verið skýrðar þannig að þegar val standi milli tveggja jafn hæfra einstaklinga skuli veita starfið einstaklingi af því kyni sem sé í minni hluta. Þessi túlkun sé viðtekin og þyki sjálfsögð og eðlileg leið til að leiðrétta kynjahlutföll í nútímasamfélögum. Hún sé meðal annars staðfest í dómi Hæstaréttar í máli nr. 46/1998.
- Í niðurlagi greinargerðarinnar hafi ráðuneytið leyft sér að minna á að það sé almennt viðurkennt í opinberum starfsmannarétti að stjórnvöld hafi allmikið svigrúm til að ákveða við embættisveitingar hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar og eins til að leggja heildarmat á persónulega kosti og eiginleika umsækjenda sem og hæfni þeirra. Þetta sjónarmið sé í andstöðu við dóma Hæstaréttar og vísast til dæmis til áðurnefnds dóms í máli nr. 46/1998 þar sem rök stjórnvaldsins hafi ekki verið talin haldbær við veitingu embættisins, hvorki í merkingu jafnréttislaga né stjórnsýsluréttar. Forsætisráðuneytið hafi ákveðið með auglýsingunni hvaða sjónarmið skyldu lögð til grundvallar við embættisveitinguna og hafi enga heimild að lögum til að hverfa frá þeim. Greinargerð ráðuneytisins hafi styrkt þá skoðun kæranda að ákveðið hafi verið að skipa umræddan karl í embættið áður en það hafi verið auglýst og að mati á umsækjendum hafi verið hagað í samræmi við það.
ATHUGASEMDIR FORSÆTISRÁÐUNEYTIS - Ráðuneytið rekur þær menntunar- og hæfniskröfur sem fram hafi komið í auglýsingunni og ítrekar að öll vinna ráðuneytisins og ráðgjafa við úrvinnslu umsóknanna og viðtalanna hafi byggst á því að meta hvort þeir þættir væru uppfylltir og mæla þá. Ekki hafi fyrirfram verið leitað eftir einstaklingi með nám í tiltekinni námsgrein á háskólastigi. Ráðuneytið hafi ekki viljað fyrirfram útiloka umsækjendur með slíka menntun eða aðra háskólamenntun sem talin væri geta nýst í embættinu. Í auglýsingunni hafi stjórnunarreynsla ekki verið tilgreind á meðal hæfisskilyrða. Forsætisráðuneytið sé fámennt ráðuneyti og flestar skrifstofur í ráðuneytinu séu fámennar. Því hafi reynsla af stjórnun fjölmennra vinnustaða ekki verið kostur sem leitað hafi verið sérstaklega eftir fyrirfram og hafi stjórnunarreynsla því ekki vegið þungt við mat á umsækjendum, enda hefði það verið í ósamræmi við auglýsinguna. Fullyrða megi að dagleg stjórnun sé veigaminni þáttur í starfi þess skrifstofustjóra sem hér um ræði en samskipti við utanaðkomandi aðila, teymisvinna og verkefnastjórnun. Það hafi því verið mat ráðuneytisins að reynsla af slíku starfi, meðal annars innan Stjórnarráðsins, vægi þyngra en stjórnunarreynsla á öðrum sviðum og hafi það mat endurspeglast í auglýsingunni. Varðandi önnur atriði, svo sem tungumálakunnáttu, hafi allir umsækjendurnir sem komu í seinna viðtal búið yfir mjög góðri kunnáttu í tungumálum. Fyrir hafi legið í umsóknargögnum að bæði kærandi og sá sem skipaður var hafi stundað framhaldsnám í enskumælandi löndum og starfað eða tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi þar sem reyni á tungumálakunnáttu, þar á meðal í Norðurlandamálum.
- Forsætisráðuneytið kaus að leita fyrst og fremst til umsagnaraðila sem þekktu starf ráðuneyta af eigin raun eða hefðu sérþekkingu á sviði stjórnsýslunnar. Ráðuneytisstjóri hafi rætt við alla umsagnaraðila og leitað til þeirra sem talið var að hefðu besta innsýn í störf skrifstofustjóra innan Stjórnarráðsins og hlutverk þeirra. Dr. D prófessor hafi unnið mjög náið með kæranda skömmu áður en umsagnar var leitað. Forsætisráðuneytið hafi talið þá umsögn mjög veigamikla þar sem um hafi verið að ræða prófessor sem hafi íslenska stjórnkerfið sem sitt sérsvið. Ráðuneytisstjóri leiti gjarnan til annarra umsagnaraðila en umsækjendur benda á, meðal annars til þess að fá fram afstöðu þeirra sem best þekkja til á viðkomandi sviði. Í þessu samhengi megi benda á að starfsvettvangur innan Listaháskóla Íslands hljóti eðli málsins samkvæmt að vera ólíkur starfsvettvangi ráðuneytisins og loks megi benda á að niðurstöður alþjóðlegra rannsókna staðfesti að umsagnir fyrrverandi vinnuveitenda hafi almennt lélegt forspárgildi um framtíðarframmistöðu.
- Forsætisráðuneytið tilgreinir starfsreynslu þess sem skipaður var en hann hafi öðlast reynslu í ráðuneyti sem eigi samskipti við öll önnur ráðuneyti innan Stjórnarráðsins á flestum sviðum, og sé að því leyti eðlislíkt forsætisráðuneytinu. Hann hafi haft umtalsverða reynslu af því að vinna beint að sameiningu stofnana og tilfærslu verkefna milli ráðuneyta og stofnana. Hann hafi jafnframt verið starfsmaður framkvæmdanefndar um stofnanakerfi og rekstur ríkisins um tveggja ára skeið og meðal annars unnið gátlista sem öll önnur ráðuneyti skyldu miða við í starfinu við breytingar á stjórnsýslunni. Sá sem skipaður var hafi unnið að innleiðingu árangursstjórnunar um margra ára skeið og kennt það efni og ritað Handbók um árangursstjórnun. Jafnframt hafi hann tekið þátt í vali á ríkisstofnun til verðlauna sem fjármálaráðherra veitir stofnunum sem þykja skara fram úr og vera til fyrirmyndar. Hann hafi átt sæti í stjórnarnefnd Public Governance Committee (PGC) innan OECD sem fjallar um margvíslegar umbætur á stjórnsýslu og meðal annars um almenna fræðslu innan stjórnsýslu OECD-ríkjanna. Hann hafi kennt við Háskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands um stjórntæki ríkisins og samanburðarstjórnmál þar sem stjórnkerfi ýmissa landa séu borin saman. Þá hafi hann ritstýrt ritrýndum fræðigreinahluta veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla.
- Loks tekur forsætisráðuneytið fram að val á þeim einstaklingi sem talinn hafi verið hæfastur til að gegna embætti skrifstofustjóra byggist á mörgum mismunandi þáttum en þó einkum á þáttum sem tilgreindir hafi verið með skýrum hætti í auglýsingu sem hæfisskilyrði eða æskilegur kostur. Ráðuneytið leggi ríka áherslu á að öllum umsækjendum hafi verið mætt af fyllsta jafnræði og allir átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með sama hætti, bæði munnlega og skriflega. Ráðuneytið og ráðgjafinn hafi komist að sömu niðurstöðu þegar allir þættir hafi verið vegnir og metnir og það verið niðurstaða ráðuneytisins að sá sem skipaður var hafi verið hæfastur til að gegna því og því forystuhlutverki sem embættinu sé ætlað að gegna innan Stjórnarráðsins og stjórnsýslu hér á landi. Það hafi jafnframt verið stutt umsögnum frá einstaklingum með þekkingu og reynslu á sviði Stjórnarráðsins og stjórnsýslu hér á landi. Forsætisráðuneytið telur því að mat þess og ákvörðun um skipun í embættið hafi í hvívetna verið byggð á málefnalegum forsendum og verið í fullu samræmi við ákvæði jafnréttislaga enda hafi kynferði umsækjenda hvorki haft áhrif á mat á hæfni þeirra né á endanlega ákvörðun um skipun í embættið.
NIÐURSTAÐA - Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
- Í kæru sinni fer kærandi, sem er kona, þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er karl var skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu, en kærandi telur sig hafa verið hæfari eða jafn hæfa og sá sem skipaður var.
- Forsætisráðuneytið auglýsti embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar laust til umsóknar með auglýsingu sem birtist 20. mars 2010.
- Í auglýsingunni kom fram að vegna skipulagsbreytinga auglýsti forsætisráðuneytið laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu í ráðuneytinu, þ.e. skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar. Í auglýsingunni kemur fram að helstu verkefni skrifstofunnar séu stefnumótun og þróun í stjórnsýslu ríkisins og Stjórnarráðsins; undirbúningur skipulagsbreytinga innan Stjórnarráðsins og stofnanakerfis ríkisins; stefnumótun á sviði samfélagsþróunar og uppbyggingar; sóknaráætlun fyrir alla landshluta 20/20; stefnumótun í umbótamálum og í rafrænni stjórnsýslu; þróun upplýsingamiðlunar innan Stjórnarráðsins til fjölmiðla og almennings og vefmál Stjórnarráðsins og samhæfing tímabundinna og ótímabundinna verkefna í forsætisráðuneytinu.
- Í auglýsingunni kom fram að menntunar- og hæfniskröfur væru háskólamenntun sem nýtist í starfinu; hæfni í að leiða stefnumótun, samráð og undirbúning skipulagsbreytinga; hæfni í verkefnisstjórnun og áætlanagerð; forystu-, samskipta- og skipulagshæfni; góð íslenskukunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti, góð kunnátta í ensku og einu Norðurlandamáli auk þess sem þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar væri talin æskileg.
- Umsækjendur um embættið voru 41, þar af var 21 umsækjandi tekinn í fyrra viðtal og fimm umsækjendur í seinna viðtal. Ráðuneytisstjóri og stjórnunar- og mannauðsráðgjafi forsætisráðuneytisins tóku öll viðtölin og veitti ráðgjafinn umsækjendum stig að loknu viðtali.
- Kærandi fékk 32 stig af 40 í fyrra viðtali en sá sem skipaður var í embættið fékk 35 stig. Í seinna viðtalinu fékk kærandi 4,5 stig af 17 en sá sem skipaður var fékk 13 stig af 17.
- Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi verið hæfari eða í það minnsta jafn hæf til að gegna embætti skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu og sá sem skipaður var.
- Við úrlausn kærunefndar jafnréttismála á þessu álitaefni ber nefndinni að taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
- Samkvæmt upplýsingum þess sem skipaður var tók hann stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1992, lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1996, MSc-prófi í samanburðarstjórnmálum frá London School of Economics and Political Science í Bretlandi árið 1997, auk tveggja áfanga í námi til prófs í verðbréfaviðskiptum í Háskólanum í Reykjavík, 2007.
- Samkvæmt upplýsingum kæranda tók hún stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1985, lagði síðan stund á nám í alþjóðastjórnmálum við Wellesley College, í Bandaríkjunum, 1985 til 1986. Hún lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1995 og meistaraprófi (MPA) í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun frá La Follette School of Public Affairs í University of Wisconsin í Bandaríkjunum árið 2000.
- Starfsreynsla þess sem embættið hlaut og fjallað er um í ferilskrá er rakin frá ársbyrjun 1996. Til hausts það ár er getið um starf fulltrúa í fjármálaráðuneyti. Frá hausti 1997 fram á sumar 1998 er getið starfs sem markaðsstjóri Vax ehf., þar á eftir tekur við fjögurra mánaða starf frá ágúst 1998 til nóvember 1998 hjá Hugsjón kvikmyndagerð við handritagerð. Frá ársbyrjun 1999 til mars 2001 starfaði hann sem sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands en réðist við svo búið til fjármálaráðuneytisins þar sem hann gegndi starfi sérfræðings til 2010. Síðustu þrjú árin var hann einnig staðgengill skrifstofustjóra. Samhliða starfi sérfræðings í fjármálaráðuneytinu sinnti hann kennslu sem aðjúnkt í stjórnmálafræðiskor félagsvísindadeildar frá 2000 til 2008 og annaðist ritstjórn fræðigreinahluta veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla ásamt D frá 2005 til 2010. Þá er getið stjórnarsetu í fyrirtækjum og stofnunum, ritstarfa og setu í nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera.
- Kærandi hefur greint frá því að hún hafi starfað sem aðstoðarstjórnmálafulltrúi í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík frá 1990 til 1996. Hún starfaði sem sérfræðingur hjá ríkisendurskoðun Wisconsin-þings í Bandaríkjunum frá miðju ári 2000 fram í febrúar 2001. Þá tók við starf aðstoðarmanns borgarstjórans í Reykjavík sem kærandi sinnti frá þeim tíma fram í september 2003. Frá janúar 2004 til júní 2007 gegndi kærandi starfi forstöðumanns háskólaskrifstofu Listaháskóla Íslands. Frá júní það ár fram til febrúar 2009 sinnti kærandi starfi aðstoðarmanns umhverfisráðherra. Frá mars það ár hefur kærandi verið sjálfstætt starfandi. Kærandi getur um ýmis félags- og trúnaðarstörf sem hún hefur sinnt.
- Hvað sérþekkingu snertir er ekki getið sérstaklega um skilgreinda sérþekkingu í auglýsingu en þess getið að æskilegt sé að umsækjendur búi yfir þekkingu og eða reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar.
- Sá sem embættið hlaut hefur greint frá því að hann hafi starfað samfellt frá 1999 í Stjórnarráðinu, fyrst hjá Hagstofu Íslands um rúmlega tveggja ára skeið og svo sem sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu í níu ár. Býr hann því að slíkri þekkingu og reynslu.
- Kærandi hefur sinnt störfum innan stjórnsýslunnar, bæði á vettvangi sveitarstjórnar og ríkisins, sem aðstoðarmaður borgarstjóra og aðstoðarmaður ráðherra. Einnig hefur hún sinnt störfum innan stjórnsýslunnar erlendis sem sérfræðingur hjá Wisconsin-þingi. Býr hún því að slíkri þekkingu og reynslu.
- Hvað aðra sérstaka hæfileika snertir voru raktir í auglýsingu hæfnisþættir sem til var ætlast að umsækjendur byggju yfir. Talin var upp hæfni í að leiða stefnumótun, samráð og undirbúning skipulagsbreytinga; hæfni í verkefnisstjórnun og áætlanagerð; forystu-, samskipta- og skipulagshæfni; góð íslenskukunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti og góð kunnátta í ensku og einu Norðurlandamáli.
- Stefnumótunarreynsla þess sem embættið hlaut byggist á starfi hans í fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem sérfræðingur í umbóta- og hagræðingarmálum. Þá sat hann í fjölmörgum nefndum og starfshópum sem fjölluðu um umbótamál og breytingar á vettvangi ríkisins. Hann vann auk þess með nefnd um heildarendurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands. Hvað hæfni í verkefnisstjórnun og áætlanagerð og forystu-, samskipta- og skipulagshæfni snertir eru ekki tilfærð sérstök dæmi þess að sá sem embættið hlaut hafi búið að slíkri reynslu eða menntun. Hann mun heldur ekki hafa búið að stjórnunarreynslu en bjó hins vegar yfir kennslureynslu.
- Kærandi hefur stefnumótunarþekkingu og -reynslu meðal annars sem aðstoðarmaður borgarstjóra þar sem hún tók þátt í og bar ábyrgð á undirbúningi og innleiðingu ýmissa stjórnsýsluumbóta. Hún vann einnig að því að byggja upp stjórnsýslu Listaháskóla Íslands, móta og innleiða gæðakerfi hans og stefnu á ýmsum sviðum. Þá vann kærandi sem verkefnisstjóri undirbúningshóps að stofnun Íslandsstofu sem er ætlað það hlutverk að sameina stofnanir og einingar sem sinnt hafa kynningar- og markaðsstarfi fyrir Ísland og íslenska þekkingu. Kærandi var einnig starfsmaður nefndar um fyrirkomulag umbótamála innan ríkisins. Loks má geta þess að kærandi leiddi nefnd um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Kærandi býr að menntun og reynslu á sviði verkefnisstjórnunar og áætlanagerðar. Hún var formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þegar stofnunin var sett á laggirnar. Kærandi býr jafnframt að stjórnunarreynslu bæði af vettvangi Reykjavíkurborgar og sem forstöðumaður skrifstofu Listaháskóla Íslands. Hvað varðar forystu-, samskipta- og skipulagshæfni getur kærandi áðurgreindra verkefna þar sem reynt hafi á slíka hæfni.
- Hvað tungumálaþekkingu snertir hefur sá sem embættið hlaut sótt sér framhaldsmenntun í Bretlandi auk þess sem hann hefur ritað fræðigreinar og skýrslur á erlendum tungum og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi.
- Fyrir liggur að kærandi bjó um langt árabil erlendis við nám og störf, meðal annars vegna framhaldsmenntunar. Einnig hefur hún tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi, meðal annars í starfi sem forstöðumaður háskólaskrifstofu Listaháskóla Íslands.
- Líkt og fyrr greinir ber við mat á því hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við skipun í embætti skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar hjá forsætisráðuneytinu, að líta til þeirra sjónarmiða sem löggjafinn hefur afmarkað í 5. mgr. 26. gr. laganna.
- Sé fyrst litið til menntunar er það lögmætt sjónarmið af hálfu forsætisráðuneytisins að auglýsa ekki eftir sérstakri háskólamenntun heldur þeirri sem nýttist í starfi. Eigi að síður ber að leggja mat á það hvort menntun kæranda eða þess sem embættið hlaut væri til þess fallin að nýtast betur í því embætti sem um ræðir.
- Fyrir liggur að skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar hjá forsætisráðuneytinu er ætlað forystuhlutverk við mótun vinnubragða innan stjórnsýslunnar og þróun hennar. Það er mat kærunefndar að framhaldsmenntun kæranda á sviði opinberrar þjónustu og stefnumótunar sé sérhæfðari og liggi nær þeim viðfangsefnum sem skrifstofunni er ætlað að sinna heldur en stjórnmálafræðimenntun þess sem embættið hlaut.
- Hvað starfsreynslu snertir býr sá sem embættið hlaut að ríflega tíu ára starfi innan stjórnsýslunnar, þ.e. Hagstofu Íslands og fjármálaráðuneytinu, en slík reynsla var sérstaklega greind sem æskileg í auglýsingu. Kærandi býr hins vegar að fjölþættari starfsreynslu þar sem hún hefur komið víðar við, meðal annars í ráðuneyti, hjá Reykjavíkurborg, ríkisstofnunum svo og Listaháskóla Íslands. Verður af upplýsingum um starfsferil þeirra tveggja dregin sú ályktun að bæði búi að þeirri reynslu sem æskileg þótti og sú reynsla sé í það minnsta jöfn. Í þessum efnum er vart málefnalegt að líta einvörðungu til reynslu innan Stjórnarráðsins sem stjórnsýslureynslu eins og forsætisráðuneytið sýnist gera. Sú takmörkun er auk þess ekki í samræmi við auglýsingu um embættið.
- Hvað varðar þá sérstöku hæfileika og hæfni sem umsækjendur þurftu að fullnægja samkvæmt auglýsingu um embættið, hefur kærandi fært fyrir því rök að hún fullnægi þessum hæfniskröfum fyrst og fremst með skírskotun annars vegar til viðfangsefna sem hún hefur sinnt á starfsferli sínum og hins vegar með vísan til menntunar sinnar sem feli flesta þessara hæfnisþátta í sér. Fyrir liggur á hinn bóginn að nokkuð skortir á að reynt hafi á alla þessa hæfnisþætti í störfum þess sem embættið hlaut. Má sem dæmi nefna forystuhæfileika en sá sem embættið hlaut hefur aldrei haft mannaforráð né er getið um forystu í þeim nefndum og starfshópum sem hann hefur tekið þátt í. Hallar í þessum efnum ótvírætt á þann sem embættið hlaut.
- Í rökstuðningi sínum til kærunefndar jafnréttismála hefur forsætisráðuneytið byggt á því að leggja beri menntun kæranda og þess sem embættið hlaut að jöfnu þar sem ekki hafi verið auglýst eftir sérstakri háskólamenntun og starfsreynsla þess sem embættið hlaut vegi þyngra þar sem hún hafi verið innan Stjórnarráðsins. Útslagið hafi síðan gert greining stjórnunar- og mannauðsráðgjafa sem ráðuneytið fékk sér til fulltingis og taldi þann sem embættið hlaut hafa skarað fram úr hvað varðar þau sérstöku hæfnisviðmið sem tilgreind voru í auglýsingu.
- Ráðgjafi forsætisráðuneytisins útbjó skjal sem fól í sér útfærslu á hæfnisþáttum þeim sem auglýst var eftir, spurningar sem lagðar yrðu fyrir í viðtali, greiningu á þeirri viðtalstækni sem beitt yrði og svo stigagjöf sem umsækjendum var veitt eftir þessi viðtöl. Stigagjöf þessi leiddi til niðurstöðu sem var þeim sem embættið hlaut verulega í hag umfram kæranda.
- Ráðgjafinn kveðst hafa haft í huga að draga fram í viðtölunum hæfni umsækjenda til að ná árangri í embættinu sem sótt var um. Hvorki liggja fyrir nákvæm gögn um það hvernig umsækjendur svöruðu einstökum spurningum né önnur greinargóð gögn um það hvernig svörin voru metin. Hefði slík greining þó verið mjög mikilvæg, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af því að í sumum tilvikum gengur einkunnagjöf fyrir hæfnisþætti í berhögg við hlutrænar upplýsingar sem fyrir liggja í málinu. Má í því sambandi nefna að kærandi fær engin stig fyrir þann hæfnisþátt sem laut að því að nýta tungumálaþekkingu í ensku og einu Norðurlandamáli til að afla upplýsinga um úrbætur sem geta nýst innan stjórnsýslunnar. Kærandi bjó, starfaði og sótti sér framhaldsmenntun í Bandaríkjunum um átta ára skeið og hafði auk þess búið tvö ár í Noregi. Í því ljósi hefði verið brýnt að þessi niðurstaða hefði verið studd haldbærum gögnum. Sama marki er brennd stigagjöf fyrir hæfnisþáttinn forystu-, samskipta- og skipulagshæfni. Kærandi fékk ekkert stig fyrir getu meðal annars til að taka erfiðar ákvarðanir þrátt fyrir að ráðgjafi hafi tilgreint að kærandi hafi getið tilvika úr fyrri störfum þar sem hún hefði tekist á við slík úrlausnarefni. Sá sem embættið hlaut fékk hins vegar fulla stigagjöf fyrir þennan hæfnisþátt. Hann mun hafa fjallað um málið og gefið óhlutbundin dæmi þar sem hann hafði ekki verið í slíkum aðstæðum í fyrri störfum. Vegna skorts á gögnum hefur kærunefndin takmarkaðar forsendur til að leggja sérstakt mat á stigagjöfina og verður niðurstaða nefndarinnar því ekki byggð á mati ráðgjafans á frammistöðu umsækjenda í viðtölum.
- Þegar höfð er til hliðsjónar sérhæfðari menntun kæranda, fjölþættari reynsla, meðal annars í stjórnsýslustörfum, og það að hlutrænt sýnist hæfni kæranda í þeim hæfnisþáttum sem sérstaklega var óskað eftir vera meiri en þess sem embættið hlaut, verður stigagjöf sem byggist á svo ógagnsærri greiningu sem raun ber hér vitni ekki lögð til grundvallar andstætt lögbundnum grundvelli mats kærunefndar jafnréttismála.
- Í máli þessu er sá ágalli á að ekki var gætt jafnræðis er leitað var eftir umsögnum um kæranda. Ekki var rætt við alla þá sem kærandi benti á en hins vegar var rætt við alla þá sem sá sem embættið hlaut benti á. Einn umsagnaraðila, sem sá sem skipaður var benti á, var beðinn um umsögn um kæranda þrátt fyrir að kærandi hafi ekki nefnt hann sem slíkan. Jafnframt lét viðkomandi í té samanburð á kæranda og þeim sem embættið hlaut. Umsagnaraðili þessi hafði unnið um árabil með þeim sem embættið hlaut en takmarkað með kæranda. Sýnist orka tvímælis að veita mikið vægi þessum samanburði umsagnaraðila þess sem embættið hlaut, þar sem mjög hallaði á kæranda. Verður niðurstaða kærunefndar jafnréttismála ekki byggð á þessari umsögn.
- Af framangreindu er ljóst að sá sem skipaður var hafði hvorki menntun eða starfsreynslu umfram kæranda né sérþekkingu eða aðra þá hæfileika sem áttu að ráða úrslitum um skipun hans í embættið. Forsætisráðuneytið hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því er sá sem embættið hlaut var skipaður en ekki kærandi. Þegar menntun kæranda, starfsreynsla og hæfni í þeim sérstöku hæfnisþáttum sem sérstaklega var óskað eftir er borin saman við sambærilega kosti þess sem embættið hlaut verður vart önnur ályktun dregin en að kærandi hafi í það minnsta verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut.
- Fyrir liggur að allir fjórir skrifstofustjórar forsætisráðuneytisins eru karlar og af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, voru á þeim tíma sem hér um ræðir og eftir því sem næst verður komist, 38 karlar og 16 konur.
- Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar því að gengið var fram hjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra hjá ráðuneytinu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
- Er því fallist á kröfur kæranda að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, hafi verið brotin þegar ákvörðun var tekin um að skipa karlmann í embætti skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar hjá forsætisráðuneytinu.
- Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna tafa vegna umfangs málsins og við gagnaöflun.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Forsætisráðherra braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.
Björn L. Bergsson
Erla S. Árnadóttir
Þórey S. Þórðardóttir