Hálf öld frá einvígi aldarinnar: Haldin verður samkeppni um minnisvarða
Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá því að skákeinvígi aldarinnar fór fram í Laugardalshöll milli þeirra Bandaríkjamannsins Bobby Fischers og Sóvíetmannsins Boris Spasskís. Þessara tímamóta var minnst í sal Skáksögufélagsins á Hótel Natura en einvígið er að mörgum talið einn hápunkta kalda stríðsins en skákmennirnir tveir tefldu röð skáka í Reykjavík í júlí og ágústmánuði árið 1972.
,,Einvígi Fischers og Spasskys um heimsmeistaratitilinn í skák árið 1972 í Reykjavík hafði meiri áhrif heldur en nokkur óraði fyrir, bæði í heiminum öllum en ekki síst hér á Íslandi. Það var ekki aðeins að Ísland og Reykjavík urðu þekkt heldur varð gróskan í skákheiminum meiri en nokkur gat vænst,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptráðherra meðal annars við tilefnið.
Þá greindi ráðherra einnig frá áforum ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Reykjavíkurborg um að halda opna samkeppni um minnisvarða um einvígið. Einnig verður tímamótanna einnig minnst með vitundavakningu um skák í skólum, málþingi og sérstakri afmælishátíð sem nær hápunkti dagana 25 .- 30. október þegar fram fer heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák.
Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þau: Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, Einar Þorsteinsson, formann Borgarráðs, Gunnar Björnsson, formann Skáksambands Íslands, Guðna Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, Sæmund Pálsson - Sæma Rokk, vinur og lífvörður Bobby Fischer og Guðmund G. Þórarinsson, fyrrverandi formann Skáksambands Íslands.