Jarðvarmi framtíðarorkulind Kenía – mikil tækifæri í beinni nýtingu orkugjafans
Jarðvarmi er framtíðarorkulind Kenía, segir Johnson P. Ole Nchoe framkvæmdastjóri Jarðhitastofnunar Kenía (GDC) en hann sótti á dögunum Íslensku jarðhitaráðstefnuna sem haldin var í Hörpu. Hann segir í viðtali við Heimsljós (sjá myndband) að nú sé unnið að tilraunaverkefni um kornþurrkun, beina nýtingu jarðvarma í þágu matvælaöryggis í Kenía með fjárhagslegum stuðningi íslenskra stjórnvalda. Hann kveðst vænta þess að þegar verkefninu lýkur í árslok verði samið um fimm ára stuðning Íslendinga við þetta mikilvæga þróunarstarf.
Hann segir að jarðhiti hafi þá kosti vera áreiðanlegur orkugjafi, hreinn og umhverfisvænn, auk þess sem margvísleg tækifæri felist í jarðvarmanum, ekki hvað síst með konur í huga, til að byggja upp og þróa nýtingu á jarðvarma í Kenía.
Nchoe segir að Ísland hafi verið á svipuðum stað í efnahagslegu tilliti á sjöunda áratug síðustu aldar og Kenía er í dag. Nú sé munurinn mikill hvað þjóðartekjur áhrærir og því sé vilji fyrir því í Kenía að tileinka sér tækniþekkingu Íslendinga til að þróa jarðhitann með svipuðum hætti og hér hefur verið gert.
Meginþema ráðstefnunnar í Hörpu að þessu sinni sneri að þeim hindrunum sem eru í vegi framþróunar í jarðhita. Nchoe nefndi strax tækniþekkingu sem þröskuld í þessari þróun, þekkingin á þessu sviði væri flókin, en með stuðningi Íslands og utanríkisráðuneytisins hafi tekist í Kenía að yfirstíga þessar tálmanir. Þar kvaðst hann ekki hvað síst eiga við beina nýtingu jarðhitans. Þá sagði hann að rúmlega eitt hundrað ungir Keníabúar af báðum kynjum hefðu átt þess kost að vera í námi við háskóla á Íslandi um jarðhita á síðustu tíu árum.
Á ráðstefnunni flutti Johnson P. Ole Nchoe erindi um beina nýtingu jarðvarma í Kenía. Hann sagði að fæðuöryggi væri eitt af áhersluatriðum í stefnu stjórnvalda í Kenía á næstu fimm árum og mikil tækfæri og áskoranir væri að finna í nýtingu jarðhita í allri virðiskeðjunni. Því vildu Keníabúar tileinka sér þekkingu Íslendinga og annarra af því hvernig hindrunum hefði verið rutt úr vegi með tilliti til fæðuöryggis. Um væri að ræða svið sem kæmi Kenía afskaplega vel.
Hann þakkaði Íslendingum fyrir einkar ánægjulegt samstarf síðustu tíu árin og kvaðst vonast til þess að með heimsókn sinni til Íslands sem framkvæmdastjóri GDC hafi hann sýnt vilja til að dýpka sambandið milli þjóðanna.
---
Frá 2013 hafa íslensk stjórnvöld staðið fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku í samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn (e. Nordic Development Fund, NDF) en verkefnið er einnig tengt viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans (e. Geothermal Compact) um aukna jarðhitanýtingu á svæðinu. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2017 en framkvæmd nokkurra verkþátta, sem ekki hefur náðst að ljúka, mun halda áfram 2018. Verið er að ljúka við undirbúning að verkefni sem felst í því að setja upp þurrkofn á svæði í Menengai, sem er í umsjón jarðhitafyrirtækis Kenía (e. Geothermal Development Company, GDC), til að nýta jarðhita við þurrkun matvæla en talið er að þar felist áhugaverðir möguleikar sem einnig gætu nýst fyrir löndin í kring.