Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2019 Innviðaráðuneytið

Fjallað um traust til stjórnmála á fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra

Norrænir sveitarstjórnarráðherrar eftir fund sinn í Bergen í Noregi í dag. - mynd

Traust almennings til stjórnmála og stjórnkerfis og hatursumræða beint er gegn kjörnum fulltrúum var sérstakt umfjöllunarefni á reglulegum fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra sem haldinn var í Bergen í dag. Ráðherrarnir ræddu mikilvægi þess að Norðurlöndin standi saman um aðgerðir til að auka lýðræðislega þátttöku allra í samfélaginu og sporna gegn hvers kyns einelti eða hatursorðræðu á samfélagsmiðlum gegn fólki sem býður sig fram og velst til að taka þátt í stjórnmálum – hvort sem er á þingi eða í sveitarstjórnum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, gerði grein fyrir aðgerðum íslensku ríkisstjórnarinnar við að efla traust á grunnstofnunum samfélagsins. Eitt af fyrstu verkefnum núverandi ríkisstjórnar hafi verið að skipa starfshóp sem fékk það verkefni að fjalla um þætti sem hafa áhrif á traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og hvernig hægt væri að vinna markvisst að því að auka traust almennings. 
Niðurstaða starfshópsins hafi verið að móta þurfi heildarstefnu um heilindi í stjórnmálum og stjórnsýslu og fylgja eftir með aðgerðaáætlun. Í tillögum hópsins hafi m.a. verið lagt til að móta siðareglur og siðferðisleg viðmið, auka gagnsæi með heildarstefnu um upplýsingagjöf til almennings, semja reglur um samskipti við hagsmunaaðila og auka vernd uppljóstrara. 

Á fundinum upplýsti Sigurður Ingi að hatursumræða eða einelti á samfélagsmiðlum gagnvart kjörnum fulltrúum væri ekki áberandi í umræðu á Íslandi. Það væri engu að síður til staðar undir yfirborðinu og við því þyrfti að bregðast með markvissum hætti, m.a. með rannsóknum í samvinnu við háskólasamfélagið.

Sigurður Ingi kynnti loks áform stjórnvalda að leggja fram þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og að þetta væri í fyrsta sinn sem heildstæð stefna á vegum ríkisins væri mótuð fyrir sveitarstjórnarstigið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta