Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 130/2011

Miðvikudagurinn 23. nóvember 2011

 

 

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Guðmundur Sigurðsson læknir, Kristín Benediktsdóttir hdl. og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. mars 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um heimilisuppbót.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 3. febrúar 2010, sótti kærandi um heimilisuppbót. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 15. febrúar 2010, voru greiðslur ákveðnar frá 1. mars 2010 til 1. mars 2011. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 12. október 2010, var kæranda tilkynnt um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar frá Þjóðskrá um að kærandi hefði breytt um lögheimili og því þyrfti kærandi að sækja um heimilisuppbót að nýju. Greiðslur heimilisuppbótar féllu niður frá og með 1. desember 2010. Kærandi sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn, dags. 22. febrúar 2011. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 28. mars 2011, var kæranda tilkynnt um að umsókn hennar hefði verið afgreidd og greiðslur ákveðnar frá 1. apríl 2011. Greiðslur vegna heimilisuppbótar féllu því niður frá 1. desember 2010 til 31. mars 2011. Kærandi óskar eftir að fá greidda heimilisuppbót vegna þessa tímabils.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

 „Undirrituð var með heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun (TR) fram til desember 2010. Samkvæmt afgreiðslu umsóknar um heimilisuppbót frá 15. febrúar 2010 voru greiðslur ákveðnar frá 1. mars 2010 til 1. mars 2011. Í september flutti undirrituð og fór til TR í B með nýjan húsaleigusamning og fékk þar þær upplýsingar að þar sem samningurinn væri opinn, ekki tímabundinn, ætti hún ekki rétt á heimilisuppbót. Nú í mars þegar undirrituð sótti um endurnýjun á örorku var henni tjáð hjá TR á Laugarvegi að hún ætti rétt á heimilisuppbót og hún þyrfti að senda afrit af samningi til TR og var húsaleigusamningurinn sendur þá til TR.

Undirrituð hefur ekki verið með heimilisuppbót frá 1. desember 2010 og telur að starfsmaður TR í B hafi veitt rangar upplýsingar þegar hún ætlaði sér að sækja um heimilisuppbótina um leið og nýjum húsaleigusamningi var skilað inn. Starfsmaður TR að Laugarvegi benti undirritaðri á að senda bréf til Úrskurðarnefndar almannatrygginga og óska eftir leiðréttingu þar sem um mistök starfsmanns væru um að ræða við upplýsingagjöf.

Fjárhagur hefur verið sérstaklega erfiður hjá undirritaðri síðustu misseri og framundan er ferming dóttur minnar og munar því um hverja einustu krónu. Undirrituð hefur sótt fjármálanámskeið á vegum starfsendurhæfingar B og einnig einkatíma í fjármálaráðgjöf hjá C.

Með bréfi þessu er því farið fram á að Tryggingastofnun greiði undirritaðri heimilisuppbót fyrir tímabilið 1. desember 2010 – 1. mars 2011 og síðan haldi greiðslur áfram í samræmi við umsókn sem skilað var inn til TR 16. mars 2011.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 13. maí 2011. Greinargerð, dags. 3. júní 2011, barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 Kæruefni

Kærandi er 75% öryrki og hefur árum saman notið örorkulífeyris og tengdra bóta m.a. heimilisuppbótar frá Tryggingastofnun ríkisins. Greiðslur heimilisuppbótar féllu hins vegar niður í fjóra mánuði frá og með  desember 2010 til og með mars 2011.  Við það er kærandi ósátt og kærir niðurfellinguna þessa fjóra mánuði til æðra stjórnvalds.

Lög og reglugerðir sem málið snerta

Samkvæmt 8.gr. laga nr.99/2007 um félaglega aðstoð er Tryggingastofnun heimilt að greiða þeim sem njóta tekjutryggingar frá stofnuninni svonefnda heimilisuppbót að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimilisuppbót kemur þá til viðbótar öðrum bótum. 

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri er að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II.kafla.

Samkvæmt 1. mgr. 52.gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 skal sækja um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.  Samkv. 1. mgr. 14.gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.  Það er því ljóst að sækja þarf um heimilisuppbót eins og aðrar bætur frá Tryggingastofnun.

Samkvæmt 1. mgr. 53.gr. almannatryggingalaga skulu bætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi.

Málavextir

Kærandi er 39 ára gömul kona sem býr í B. Hún hefur notið endurhæfingarlífeyris og síðan örorkulífeyris samfleytt frá 1. apríl 2002. Hún hefur einnig notið heimilisuppbótar mestallan þennan tíma.

Þann 15. febrúar 2010 var kæranda tilkynnt með bréfi að Tryggingastofnun hefði afgreitt umsókn hennar um heimilisuppbót. Greiðslur hefðu verið ákveðnar frá 1. mars 2010 til 1. mars 2011.  Í bréfinu segir m.a.:

“Greiðslur heimilisuppbótar miðast við núverandi heimilisfang þitt. Ef þú flytur er nauðsynlegt fyrir þig að sækja um heimilisuppbót að nýju.”

Eins og fram kemur í kærubréfi flutti kærandi nokkrum mánuðum síðar (í september 2010) frá X í B að X í sama bæjarfélagi. Þrátt fyrir fyrirmælin í ofangreindu bréfi lét kærandi undir höfuð leggjast að sækja um heimilisuppbót að nýju.

Þann 12. október 2010 var kæranda sent bréf og henni tilkynnt að Tryggingastofnun hefðu borist upplýsingar úr Þjóðskrá um breytingu á lögheimili hennar. Vegna  nýs lögheimilis þyrfti hún að sækja um heimilisuppbót að nýju.  Varað var við því að greiðslur heimilisuppbótar myndu falla niður frá 1. desember 2010 ef ný umsókn hefði ekki borist fyrir 15. nóvember 2010.  Sérstaklega var tekið fram að ef um leiguhúsnæði væri að ræða þyrfti afrit af húsaleigusamningi að fylgja nýrri umsókn.

Það er skemmst frá því að segja að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum Tryggingastofnunar sinnti kærandi þessu ekki.   Féll því greiðsla heimilisuppbótar niður frá og með 1. desember 2010.   Það er svo ekki fyrr en í febrúar 2011 að kærandi sækir um heimilisuppbót að nýju í tengslum við umsókn um örorkubætur. Þeirri umsókn er svarað með bréfi dags. 22. mars 2011 þar sem kæranda er bent á að stofnunin geti ekki afgreitt umsókn um heimilisuppbót þar sem húsaleigusamning vanti. 

Kærandi brást við þessu bréfi með því að afhenda Tryggingastofnun afrit af gildandi húsaleigusamningi sínum. Það gerði hún 28. mars. Þann sama dag var kæranda síðan sent bréf og henni tilkynnt að fallist hefði verið á umsókn hennar um heimilisuppbót og að greiðslur hefðu verið ákveðnar frá 1. apríl 2011, þ.e. næstu mánaðamótum á eftir. 

Greiðslur heimilisuppbótar hófust því að nýju í apríl 2011 eftir að hafa fallið niður fjóra mánuði þar á undan.

Röksemdir/staðhæfingar kæranda og svör Tryggingastofnunar við þeim

Upplýsingar frá umboði Tryggingastofnunar í B

Kærandi heldur því fram að þegar hún flutti á nýjan stað í september 2010 hafi hún farið í umboð Tryggingastofnunar í B með nýjan húsaleigusamning eins og henni bar. Þar hafi hún hins vegar fengið þau svör að þar sem húsaleigusamningur hennar væri ótímabundinn ætti hún engan rétt á heimilisuppbót. Vegna þessarar kæru hefur stofnunin haft samband við umboðið í B og kannað hvort einhver starfsmaður kannist við að hafa haldið þessu fram við kæranda eða aðra umsækjendur. 

 

Enginn kannast við þetta þar, enda alrangt að form húsaleigusamninga að þessu leyti skipti einhverju máli varðandi rétt til heimilisuppbótar. 

 

Reyndar er hvergi í lögum og reglugerðum um heimilisuppbót minnst á húsaleigusamninga, enda heimilisuppbót ætluð bæði leigjendum og íbúðareigendum sem uppfylla skilyrði fyrir þessum bótum að öðru leyti.  Eina ástæðan fyrir því að vinnureglur Tryggingastofnunar gera ráð fyrir því að  krefja leigjendur (í hópi umsækjenda um um heimilisuppbót) um húsaleigusamninga er til þess að hjálpa starfsfólki stofnunarinnar að átta sig á hvar í viðkomandi húsi þeir búa, því í leigusamningum er það að jafnaði tilgreint nákvæmlega en nöfn leigjenda koma hvergi fram í opinberri fasteignaskrá, öfugt við þá sem eiga íbúðirnar sem þeir búa í.  Þessi vinnuregla auðveldar því Tryggingastofnun að hafa eftirlit með því hvort leigjendur í hópi umsækjenda búa einir eða eru með sambýling, en stofnuninni ber að hafa eftirlit með því. Séu þeir með sambýling verða þeir eins og aðrir í þeirri stöðu að rökstyðja fyrir stofnuninni hvernig þeir geti talið sig vera eina um heimilisrekstur með rétt til heimilisuppbótar þrátt fyrir að búa ekki einir í hlutaðeigandi íbúð.

 

Tryggingastofnun hefur engar skýringar á því hvers vegna kærandi telur sig hafa fengið þessi einkennilegu svör hjá umboðinu í B.  Líklegast verður að telja að einhver misskilningur hafi þarna orðið.

 

Upplýsingar frá þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar við Laugaveg

Í kærubréfi er því einnig haldið fram að starfsmaður í þjónustumiðstöð hafi bent kæranda á að kæra umrædda afgreiðslu (þ.e. að fella niður heimilisuppbót í fjóra mánuði) til úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem um mistök starfsmanns hafi verið um að ræða við upplýsingagjöf. Ekker liggur nánar fyrir um þetta, enda ósannað að um nokkur mistök hafi verið að ræða heldur miklu fremur einhvern misskilning á milli kæranda og starfsmanns Tryggingastofnunar.

Niðurstaða

Tryggingastofnun telur rétt í ljósi allra málavaxta að kærandi verði að bera hallann af því að hafa ekki afhent umboðinu í B afrit af gildandi húsaleigusamningi í september 2010 ásamt umsókn um heimilisuppbót.  Afar ólíklegt verður að telja að starfsmaður Tryggingastofnunar hafi haldið því fram við kæranda að ótímabundnir leigusamningar sviptu menn rétti til heimilisuppbótar.  Hafa verður líka í huga að kærandi er búinn að njóta heimilisuppbótar meira og minna samfleytt í níu ár og ætti því að vera vel orðinn kunnugur þeim reglum sem um heimilisuppbót gilda.  Loks ber að geta þess að Tryggingastofnun sendi kæranda bréf bæði í október 2010 og í mars 2011 þar sem rækilega er útskýrt að afrit af húsaleigusamningi þurfi að fylgja umsókn um heimilisuppbót á nýjum stað, ef um leiguhúsnæði sé að ræða.  Hvergi í þessum bréfum kemur fram að einungis tímabundnir leigusamningar hafi gildi í þeim efnum, enda alger fjarstæða.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. júní 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um heimilisuppbót.

Kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn, dags. 3. febrúar 2010. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 15. febrúar 2010, voru greiðslur ákveðnar frá 1. mars 2010 til 1. mars 2011. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 12. október 2010, var kæranda tilkynnt um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar frá Þjóðskrá um að kærandi hefði breytt um lögheimili og því þyrfti kærandi að sækja um heimilisuppbót að nýju. Greiðslur heimilisuppbótar féllu niður frá og með 1. desember 2010. Kærandi sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn, dags. 22. febrúar 2011. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 28. mars 2011, var kæranda tilkynnt um að umsókn hennar hefði verið afgreidd og greiðslur ákveðnar frá 1. apríl 2011. Greiðslur vegna heimilisuppbótar féllu því niður frá 1. desember 2010 til 31. mars 2011. Kærandi óskar eftir að fá greidda heimilisuppbót vegna þessa tímabils sem greiðslur féllu niður. Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að hún hefði flutt í september 2010 og farið með húsaleigusamninginn til umboðs Tryggingastofnunar ríkisins í B. Þar hefði kærandi fengið þær upplýsingar að hún ætti ekki rétt á heimilisuppbót þar sem húsaleigusamningurinn væri ótímabundinn. Þegar kærandi hefði síðan sótt um örorkubætur að nýju í mars 2011 hefði hún fengið þær upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins að hún ætti rétt á heimilisuppbót.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í bréfi frá stofnuninni til kæranda, dags. 15. febrúar 2010, hafi verið tekið fram að nauðsynlegt væri að sækja um heimilisuppbót að nýju ef kærandi myndi flytja. Þá væri tekið fram í bréfi frá Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 12. október 2010, að stofnuninni hefðu borist upplýsingar frá Þjóðskrá um breytingu á lögheimili kæranda og að hún þyrfti að sækja um heimilisuppbót að nýju. Jafnframt væri varað við því að greiðslur heimilisuppbótar myndu falla niður frá 1. desember 2010 ef ný umsókn myndi ekki berast fyrir 15. nóvember 2010. Þá væri sérstaklega væri tekið fram að ef um leiguhúsnæði væri að ræða þyrfti afrit af húsaleigusamningi að fylgja nýrri umsókn. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir einnig að stofnunin hafi haft samband við umboðið í B og spurt hvort einhver starfsmaður kannaðist við að hafa haldið því fram við kæranda að kærandi ætti ekki rétt á heimilisuppbót þar sem húsaleigusamningur kæranda væri ótímabundinn. Enginn hefði kannast við það þar enda sé alrangt að form húsaleigusamnings að þessu leyti skipti einhverju máli varðandi rétt til heimilisuppbótar.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, heimilisuppbót.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Því er skylt að sækja um heimilisuppbót eins og allar aðrar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þá kemur fram í 1. mgr. 53. gr. laga sömu laga að bætur skuli reiknast frá þeim degi er umsækjandi uppfyllti bótaskilyrði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um niðurfellingu heimilisuppbótar fól í sér skerðingu á bótum kæranda og var því mjög íþyngjandi.

Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn, dags. 3. febrúar 2010, og að greiðslur voru ákveðnar frá 1. mars 2010 til 1. mars 2011 á grundvelli hennar. Kæranda var tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. október 2010, að hún þyrfti að sækja um heimilisuppbót að nýju vegna breytinga á lögheimili og að greiðslur heimilisuppbótar féllu niður frá og með 1. desember 2010 hefði ný umsókn ekki borist fyrir 15. nóvember 2010. Kærandi sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn, dags. 22. febrúar 2011, og voru greiðslur ákveðnar frá 1. apríl 2011 á grundvelli hennar. Úrskurðanefnd almannatrygginga hefur fengið afrit af húsaleigusamningnum sem fylgdi seinni umsókninni. Í honum kemur skýrt fram að upphaf leigutíma hafi verið 15. september 2010. Húsaleigusamningurinn var því í gildi á því tímabili sem greiðslur heimilisuppbótar féllu niður, þ.e. frá 1. desember 2010 til 31. mars 2010. Samkvæmt því uppfyllti kærandi skilyrði um greiðslu heimilisuppbótar á þeim tíma sem greiðslur féllu niður, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Á kærandi því rétt á þeim greiðslum.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins beri að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. desember 2010 til 31. mars 2010.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um heimilisuppbót á tímabilinu frá 1. desember 2010 til 31. mars 2011, er hrundið. Tryggingastofnun ríkisins ber að greiða kæranda heimilisuppbót vegna framangreinds tímabils.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta