Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 47/2020 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 47/2020

 

Hundahald.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með rafrænni álitsbeiðni, dags. 28. apríl 2020, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Með bréfi kærunefndar, dags. 22. maí 2020, var álitsbeiðanda bent á álit nefndarinnar í máli nr. 20/2020 þar sem tekinn var til efnislegrar úrlausnar sambærilegur ágreiningur í sama fjöleignarhúsi. Óskað var eftir afstöðu álitsbeiðanda til þess hvort hann óskaði engu að síður eftir því að málið yrði tekið til efnislegrar umfjöllunar, sbr. 10. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1135/2019. Með tölvupósti álitsbeiðanda, sendum 25. maí 2020, óskaði hann eftir því að málið yrði tekið til efnislegrar úrlausnar. Gagnaðila var því gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Greinargerð barst ekki frá gagnaðila, þrátt fyrir ítrekaða beiðni kærunefndar þar um.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 3. júlí_2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 24 eignarhluta. Aðilar eru eigendur hvor að sínum eignarhlutanum. Ágreiningur er um hundahald gagnaðila í íbúð hennar.

Krafa álitsbeiðanda er:

     Að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að halda hund í íbúð sinni.

Í álitsbeiðni kemur fram að í íbúð gagnaðila séu tveir hundar sem samþykki hafi ekki verið fengið fyrir. Þegar óskað hafi verið eftir því hafi beiðninni verið svarað af lögmanni gagnaðila á þá leið að húsfélagið skorti valdheimild til slíks og auðséð að samþykki þess myndi ekki fást.

III. Forsendur

Deilt er um heimild gagnaðila til að halda hund í íbúð sinni, án samþykkis annarra eigenda. Eins og áður hefur komið fram var sami ágreiningur tekinn til efnislegrar úrlausnar af hálfu nefndarinnar í máli nr. 20/2020 vegna sama fjöleignarhúss.

Ákvæði 1. mgr. 33. gr. a. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, kveður á um að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. Í 1. mgr. 33. gr. b. segir að þegar hvorki sé um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða sé samþykkis annarra eigenda ekki þörf fyrir hunda- og kattahaldi í húsinu. Eigi það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Gildi það þrátt fyrir að lóð sé sameign og annað sameiginlegt rými sé í húsinu. Þegar sameiginlegur stigagangur er utanáliggjandi og gengið inn í íbúðir af svölum þurfi samþykki þeirra eigenda sem hann tilheyrir.

Þegar frumvarp til laga um fjöleignarhús var lagt fyrir Alþingi árið 1994 lögðu Samtök gegn astma- og ofnæmi mikla áherslu á að banna eða takmarka hunda- og kattahald í fjölbýlishúsum. Á það var fallist og bætt inn í frumvarpið að ákvæði um að hunda- og kattahald í fjölbýli væri háð samþykki allra eigenda ef um sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými væri að ræða. Fram kom að hér tækjust á mótstæð sjónarmið eða hagsmunir. Annars vegar þeirra sem vilja halda hunda og ketti sem gæludýr og telja það fólgið í mannréttindum og eignarráðum og hins vegar þeirra sem hafa ofnæmi fyrir slíkum dýrum. Voru hagsmunir hinna síðarnefndu látnir vega þyngra og ráða lagareglunni. Tilgangur löggjafans kom fram í nefndaráliti félagsmálanefndar sem er svohljóðandi: „Tillagan byggist fyrst og fremst á að nokkuð er um að börn og fullorðnir hafi ofnæmi fyrir þessum dýrum. Getur slíkt ofnæmi haft það alvarleg áhrif að fólk geti jafnvel þurft að flytja úr eigin íbúðarhúsnæði gangi ekki að fá skilning sameigenda á þessu vandamáli.“ Varð frumvarpið að lögum með þessari breytingu.

Með lögum nr. 40/2011 var 33. gr. laga, nr. 26/1994, breytt og skilyrðin rýmkuð með þeim hætti að ekki var lengur krafist samþykki allra eigenda við þær aðstæður sem þar koma fram. Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að ekki væri ætlunin með breytingunni að rýmka svo nokkru næmi reglum og skilyrðum fyrir hunda- og kattahaldi í fjölbýlishúsum heldur væri það forgangsverkefni að skoða fyrirmæli laganna um hundahald með tilliti til leiðsögu- og hjálparhunda. Í öllum meginatriðum væru fyrirmæli og reglur frumvarpsins í samræmi við gildandi reglur eins og þær hafi verið skýrðar og túlkaðar.

Deilt er um hvort gagnaðila sé heimilt að halda hund í íbúð sinni, án þess að afla samþykkis annarra eigenda. Um er að ræða þrjá sameiginlega stigaganga og samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið háttar svo til um íbúðir á 1. hæð að unnt er að ganga út á sérafnotafleti úr eldhúsi. Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu í áliti í máli nr. 20/2020 að hurð úr eldhúsi út á sérafnotaflötinn félli ekki undir sérinngang í skilningi 33. gr. laga um fjöleignarhús.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að í húsinu séu ekki hurðir sem geti talist sérinngangur í skilningi 33. gr. laga um fjöleignarhús. Þegar af þeirri ástæðu ber gagnaðila að afla samþykkis annarra eigenda fyrir hundahaldi sínu, sbr. 33. gr. a. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila sé óheimilt að halda hund í íbúð sinni, án samþykkis húsfélagsins, í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús. 

 

Reykjavík, 3. júlí 2020

f.h. kærunefndar húsamála

 

Auður Björg Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta