Aðgerðir til að efla nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu
Nýlega var kynnt stefna og áætlun á sviði nýsköpunar og tækni á sviði velferðarþjónustu sem nefnd á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra vann. Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun sem unnið verður að á árunum 2015 – 2020 til að hrinda stefnunni í framkvæmd.
Vinna er hafin í velferðarráðuneytinu í samræmi við áætlunina. Fyrir skömmu var auglýst eftir styrkumsóknum frá háskólanemum sem kunna að hafa áhuga á því að vinna að verkefnum á meistara- eða doktorsstigi með stoð í fyrrgreindri áætlun. Markmiðið er að vekja áhuga háskólanema á mikilvægi þess að unnið sé að öflugri nýsköpun á sviði velferðarþjónustu.
Í öðru lagi hefur ráðuneytið auglýst eftir styrkumsóknum frá aðilum á vettvangi sveitarfélaga og þjónustusvæða um verkefni á sviði nýsköpunar og tækni á sviði velferðarþjónustu. Markmiðið er að hvetja til nýsköpunar og samstarfs um nýsköpunarverkefni á sviði velferðarþjónustu.
Í þriðja lagi mun ráðuneytið gera samning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um námskeiðshald fyrir sveitarfélög og aðra sem á þeirra vegum starfa til þess móta nýsköpunaráætlanir sem gætu orðið öflugir vísar að kraftmikilli nýsköpun á sviði velferðarmála til framtíðar. Stefnt er að því að hafa ríkt samstarf við alla hlutaðeigandi um alla framkvæmd.