Mál nr. 5/2019 - Úrskurður
Mál nr. 5/2019
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Ísafjarðarbæ
Ráðning í starf. Hæfnismat.
Kærandi, sem er karl, taldi að sveitarfélagið Ísafjarðarbær hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða konu í starf skólastjóra í grunnskóla en hann taldi sig vera hæfari en konan sem hlaut starfið. Kærunefnd jafnréttismála taldi ekkert benda til þess að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns, enda hefði kærða verið heimilt að leggja áherslu á stjórnunarreynslu við ráðninguna. Loks lægi ekkert fyrir sem gæfi sérstaklega til kynna að kærði hefði farið út fyrir það svigrúm sem hann hefði notið við mat á því hvernig umsækjendurnir féllu að þeim sjónarmiðum sem lögð hefðu verið til grundvallar samkvæmt auglýsingu starfsins, en þau væru auk þess málefnaleg. Niðurstaða kærunefndarinnar var því sú að kærði hefði ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 þegar umrædd kona var ráðin.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 13. nóvember 2019 er tekið fyrir mál nr. 5/2019 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með rafrænni kæru, móttekinni 27. júní 2019, kærði A, ákvörðun sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar um að ráða konu í stöðu skólastjóra Grunnskólans á B. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 4. júlí 2019. Kærði fékk viðbótarfrest til þess að skila greinargerð og barst hún með ódagsettu bréfi 20. ágúst 2019. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. ágúst 2019.
- Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 30. ágúst 2019, með athugasemdum við greinargerð kærða, sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 4. september 2019. Með bréfi, dagsettu 14. október 2019, óskaði kærunefndin eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá bæði kæranda og kærða. Með bréfi, dagsettu 28. október 2019, svaraði kærði þeim spurningum sem beint var til hans. Þá svaraði kærandi þeim spurningum sem beint var til hans með bréfi, dagsettu 1. nóvember 2019.
MÁLAVEXTIR
- Hinn 13. apríl 2019 auglýsti kærði í Fréttablaðinu lausa til umsóknar stöðu skólastjóra við Grunnskólann á B.
- Í auglýsingunni kom fram að leitað væri að öflugum og framsýnum leiðtoga til að leiða þróttmikið skólastarf. Þá var starfssviðinu lýst með eftirfarandi hætti: Að veita skólanum faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi; að leiða samstarf nemenda, starfsmanna, heimila og skólasamfélagsins í heild; að stýra skólanum og bera ábyrgð á daglegri starfsemi, starfsmannamálum, fjárhagsáætlunum og rekstri. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur gerðar til starfsins: Leyfisbréf grunnskólakennara; viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynsla á grunnskólastigi; lipurð og færni í samskiptum; metnaður, hugmyndaauðgi, skipulagshæfni og leiðtogahæfileikar; reynsla af stjórnun og rekstri; vilji til að leita nýrra leiða í skólastarfi; góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að miðla upplýsingum, bæði í mæltu máli og rituðu; reynsla af þátttöku í þróunarstarfi teldist kostur. Í auglýsingunni var jafnframt tekið fram að leitað væri að einstaklingi sem hefði skýra framtíðarsýn í skólamálum, væri skapandi, metnaðarfullur og með mikla samstarfshæfileika.
- Tvær umsóknir bárust um starfið, ein frá kæranda, sem er karl, og ein frá konu. Fór svo að konan var ráðin í starfið. Kæranda var tilkynnt um ráðninguna 8. maí 2019. Gengið var frá ráðningarsamningi við konuna 21. júní 2019.
- Með tölvupósti, sendum 8. maí 2019, óskaði kærandi eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar og var hann veittur með bréfi kærða, dagsettu 16. maí 2019.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Í kæru segir að kærði reki fjóra grunnskóla þar sem allir skólastjórar séu kvenkyns, það sýni ekki mikinn vilja til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Í samtali við mannauðsstjóra kærða hafi komið fram að það eina sem kæranda skorti til starfans hafi verið reynsla af stjórnun. Hann hafi þó langa reynslu af því að vera staðgengill skólastjóra og stýra stofnun á vegum kærða. Að auki hafi hann mikla menntun í stjórnun sem oft sé metin á móti reynslu í stjórnun.
- Kærði hafi ekki í öllu farið eftir tilmælum umboðsmanns Alþingis í bréfi til hans frá því í janúar 2014 í máli nr. 7186/2012 þar sem umboðsmaður hafi ítrekað að ábendingar hans yrðu hafðar í huga í framtíðinni.
- Það sé mikilvægt að fá úr því skorið hvort jafnréttisstefna sveitarfélaga sé spariplagg eða raunveruleg meining sem lýsi yfir vilja þess til að stuðla að jafnrétti innan sinna vébanda.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði greinir frá því að kærandi hafi starfað sem kennari í Grunnskólanum á B til margra ára og sem staðgengill skólastjóra. Sú sem ráðin hafi verið hafi starfað sem kennari í Grunnskólanum á C um þó nokkurt skeið, leyst þar af skólastjóra og starfað sem aðstoðarskólastjóri í fimm ár, auk þess sem hún hafi starfað sem skólastjóri í Grunnskólanum á B síðastliðið ár. Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs, sem hafi starfað sem slíkur hjá kærða frá 1. júní 2011, hafi því umtalsverða innsýn í og reynslu af störfum beggja starfsmanna. Jafnframt hafi mannauðsstjóri tæplega þriggja ára reynslu af samskiptum við báða umsækjendur. Þó hafi samskipti mannauðsstjóra við þá konu sem hafi hlotið starfið verið nokkuð meiri á tímabilinu. Það hafi verið mat sviðsstjóra, mannauðsstjóra og bæjarstjóra að formleg viðtöl og umsagnir hefðu því lítið vægi í mati á umsækjendum og/eða bættu litlu við.
- Við ákvarðanir um ráðningar hjá kærða sé horft til leiðbeininga Hafsteins Dan Kristjánssonar um ráðningar í opinber störf. Þar segi meðal annars: „Einnig verður að hafa hugfast að ráðning í starf er mjög matskennd ákvörðun sem verður ávallt að einhverju marki háð huglægu mati þess sem veitir hana. Ekki er þörf á því að umbreyta matinu í reikniformúlur, t.d. með því að gefa tilteknum sjónarmiðum töluleg gildi sem og mat á umsækjanda út frá þeim sjónarmiðum og síðan reikna saman þau stig sem hver umsækjanda fær til að komast að því hver sé hæfasti umsækjandinn. Þótt nákvæm vinnubrögð sem þessi geti auðveldað matið má ekki gleyma því að um heildstætt og huglægt mat er að ræða sem verður að vera eðlilegt og viðeigandi miðað við það starf sem er verið að veita og hagsmuni og þarfir stjórnvaldsins hverju sinni.“ Með hliðsjón af þessum leiðbeiningum hafi farið fram hlutbundið mat á umsækjendum út frá umsóknargögnum sem og huglægt mat að teknu tilliti til reynslu sviðsstjóra og mannauðsstjóra af viðkomandi starfsmönnum.
- Í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni hafi verið tilgreind þau meginsjónarmið sem hafi ráðið því að sú sem ráðin hafi verið hafi verið ráðin, þ.e. reynsla hennar sem skólastjóri og aðstoðarskólastjóri, hæfni hennar í samskiptum, leiðtogahæfni og faglegur metnaður. Hún hafi reynst vera ofar í mati á öllum þessum þáttum. Stjórnunarreynsla hafi þó verið sá þáttur sem hafi haft mesta vægið. Kærði telji að ekki sé hægt að leggja til jafns störf sem staðgengill skólastjóra við störf sem skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri.
- Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, hlutlægu og huglægu mati hafi því þótt ljóst að sú sem ráðin hafi verið væri hæfari til starfans en kærandi. Að mati kærða hafi ekki verið hægt að líta svo á að umsækjendur væru jafn hæfir.
- Hefði verið um að ræða jafn hæfa umsækjendur af gagnstæðu kyni, hefði umsækjandi af því kyni sem hefði verið í minnihluta í viðkomandi starfsgrein haft forgang til starfans, líkt og tilgreint sé í jafnréttislögum. Að mati kærða sé það ekki forsvaranlegt að ráða umsækjanda eingöngu á forsendum kynjahalla, heldur séu hæfnissjónarmið ávallt höfð í forgrunni. Enn fremur sé ekki forsvaranlegt, þrátt fyrir að í jafnréttisstefnu kærða komi fram að lögð skuli áhersla á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum, að því sé framfylgt eingöngu á forsendum kynjahalla.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
- Í athugasemdum kæranda segir að nú sé það svo í mannlegum samskiptum að þau verði trauðla metin í árum heldur í gæðum en sjálfsagt sé að líta til hins sjónarmiðsins, séu samskipti mikil og vari í lengri tíma. Þá sé rétt að taka allt inn í myndina en ekki einungis afmarkaða þætti sem líti vel út en horfa ekki til annarra atriða eða sjónarmiða. Samskipti kæranda við sviðsstjóra skóla- og tómstundamála hjá kærða í gegnum árin hafi verið af mjög skornum skammti. Það helgist ef til vill af störfum hans sem kennari þar sem næsti yfirmaður hans hafi verið skólastjórinn í skólanum. Kærandi minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann átt innihaldsríkt samtal við viðkomandi um skólamál. Þá hafi sviðsstjórinn aldrei innt hann eftir faglegri skoðun eða skipulagi á skólamálum, þrátt fyrir að hann hafi langa reynslu af störfum sem grunnskólakennari og mikla faglega menntun. Varðandi mannauðsstjórann þá hafi kærandi átt eitt samtal við hann vorið 2018 um málefni Grunnskólans á B, bæði sem umsækjandi um starf hjá kærða, þó ekki starfsviðtal, og sem trúnaðarmaður grunnskólans. Fleiri samtöl um skólamál hafi þeir ekki átt, hvorki fyrr né síðar. Hvort hægt sé að leggja svona samskipti upp sem grunn að ráðningu á skólastjóra við grunnskóla leyfi kærandi sér að efast um. Gera verði þá kröfu að matskvarðinn sem notaður sé við mat á hæfni umsækjenda sé réttmætur, þ.e. að hann mæli það sem hann eigi að mæla en ekki bara hluta af því eða aðeins einn umsækjanda.
- Í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni komi fram að bæjarstjóri hafi falið fyrrgreindum starfsmönnum að sjá um ráðninguna, því hljóti að skjóta skökku við sé hann jafnframt þátttakandi í henni með beinum hætti. Einnig megi spyrja að því hver sé heimildin til að standa svona að málum, þ.e. að fela sviðsstjóra að sjá um ráðningu á nánum samstarfsmanni til margra ára, en það sé hlutverk bæjarstjórans að ráða stjórnendur við sveitarfélagið. Það sé góð regla í samskiptum að dæma ekki fólk út frá getspeki eða hugboði því að mönnum sé ekki gefið að þekkja annað fólk ofan í kjölinn.
- Í greinargerð kærða sé Hafsteinn Dan Kristjánsson nefndur. Kærandi fái ekki séð hvað þessi ráðning komi honum við. Þá sé talað um hlutbundið mat á umsækjendum sem kærandi átti sig ekki alveg á hvað sé. Áreiðanlegt mat þurfi fyrst og fremst að vera málefnalegt og stutt rökum.
- Í rökstuðningi fyrir ráðningunni komi fram að mikið sé lagt upp úr stjórnunarreynslu þeirrar sem ráðin hafi verið. Í því samhengi sé tekið fram að kærandi hafi mikla menntun í stjórnun, auk þess að hafa gegnt starfi staðgengils skólastjóra um margra ára skeið, en í því felist meðal annars að leysa af viðkomandi skólastjóra. Þess utan sé það skilningur kæranda að eðlilegt sé að meta menntun á sviði stjórnunar til jafns við stjórnunarreynslu og hyggur hann að ýmsir innan stjórnsýslunnar séu því sammála. Að auki hafi þetta sjónarmið ekki ráðið ferðinni í öðrum sambærilegum ráðningum innan sveitarfélagsins. Kærandi hafi séð um rekstur íþróttamiðstöðvar fyrir sveitarfélagið í fjölda ára við góðan orðstír sem hafi meðal annars skilað sér í margfaldri aðsókn frá því sem áður hafði verið.
- Þá séu nefnd atriði eins og samskipti, leiðtogahæfni og faglegur metnaður. Kæranda sé ekki kunnugt um annað en að samskipti hans við aðila skólasamfélagsins og utan þess séu á einhvern hátt broguð. Fróðlegt væri að sjá einhverjar vísbendingar um annað, en honum finnist það vera gefið í skyn. Hoggið sé í sama knérunn varðandi leiðtogahæfni og því slegið sem föstu að hann sé ekki sleipur þar. Í því samhengi megi benda á að kærandi sé með sérmenntun í því að þróa og leiða skólastarf eins og skýrt komi fram í umsókn hans. Þá hafi hann átt þátt í frumkvæði að margvíslegum áherslubreytingum á löngum ferli hans sem kennari, auk þess að hafa stundað eigin starfsþróun af kappi. Sviðsstjóra skólamála ætti að vera vel kunngt um þetta eins og aðkomu hans að breytingum á kennsluháttum svo sem eins og út frá kenningum um hugsmíðahyggju, áherslum í upplýsingu og tæknimennt. Þá hafi kærandi verið brautryðjandi í því að nota gagnreyndar matsaðferðir á gæði skólastarfs. En eins og gefi að skilja þá hafi hann ekki verið í sterkri stöðu sem kennari að stuðla að miklum umbótum á skólastarfi þar sem sú ábyrgð liggi alla jafna hjá skólastjóra. Hins vegar hafi hann lagt sig í líma við að fylgja framþróun í skólastarfi að breyttum breytanda. Hvað varði faglegan metnað hafi hann í engu skort hjá kæranda, bæði hvað varði endurmenntun sem og því að stuðla að glæstum árangri nemenda hans.
- Kærandi fetti ekki fingur út í túlkun kærða á jafnréttisreglum en bendi á að sveitarfélagi sé fullkomlega heimilt að líta til annarra sjónarmiða kjósi það svo, til dæmis kynjahalla að gefnum málefnalegum rökstuðningi. Það hefði verið jafnréttisstefna í verki.
- Á árinu 2012 hafi kærandi kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna ráðningar í sama starf og skilaði umboðsmaður greinargerð sinni tveimur árum seinna. Til að stuðla að jafnrétti kynjanna verði að líta til beggja kynja við ráðningar. Spyr kærandi hvort það sé virkilega svo að fólk geti tryggt sér stjórnunarstarf um aldur og ævi vegna þess að það hafi einu sinni gegnt slíku starfi. Sviðsstjóri skólasviðs og sú sem ráðin hafi verið í starfið hafi rætt þó nokkrum sinnum fjálglega um að sú síðarnefnda yrði í því áfram eftir afleysingu.
NÁNARI UPPLÝSINGAÖFLUN KÆRUNEFNDARINNAR UNDIR REKSTRI MÁLSINS
- Með bréfi, dagsettu 14. október 2019, óskaði kærunefndin eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá bæði kæranda og kærða.
- Með bréfi, dagsettu 28. október 2019, lýsti kærði því að umsóknargögn beggja umsækjenda hafi verið afar ítarleg og gefið góða innsýn í hæfni umsækjenda. Ekki hafi þótt tilefni til að rengja það sem þar kæmi fram. Hvað samskipti sviðsstjóra við kæranda varðar þá hafi sviðsstjórinn áður tekið viðtal við kæranda vegna umsóknar um starf skólastjóra sem auglýst hafi verið 23. júní 2012. Samskipti sviðsstjóra við kæranda hafi í gegnum tíðina verið með þeim hætti sem almennt eigi við um slík samskipti, þ.e. fylgst hafi verið eftir fremsta megni með því þegar starfsmenn í skólum kærða sýni frumkvæði í starfi, komi fram með nýjar hugmyndir að kennsluháttum eða stuðli með einum eða öðrum hætti að eflingu skólastarfs. Þegar svo beri undir sé sviðsstjóri gjarnan upplýstur um slíkt á starfsmannafundum eða í gegnum næsta yfirmann.
- Hvað varði samskipti mannauðsstjóra við kæranda þá hafi þeir átt fund 7. júní 2018, þ.e. í kjölfar tímabundinnar ráðningar skólastjóra Grunnskólans á B. Þá hafi mannauðsstjóri átt nokkra sameiginlega fundi með kæranda og öðrum starfsmönnum skólans, til dæmis 12. september 2017. Mannauðsstjóri hafi átt fundi með kæranda og öðrum starfsmönnum 12., 13 og 20. febrúar 2018 og 6. nóvember sama ár. Þar að auki hafi kærandi sinnt trúnaðarmannastörfum og setið fundi sem sviðsstjóri og mannauðsstjóri hafi átt með einum af starfsmönnum Grunnskólans á B.
- Kærði vísar algjörlega á bug staðhæfingum í greinargerð kærða um að „rætt hafi verið fjálglega“ um að konan sem ráðin var í starfið yrði áfram í því eftir tímabundna ráðningu. Þá leggi kærði áherslu á að einu tengsl sviðsstjóra við umrædda konu hafi verið faglegs eðlis.
- Með bréfi, dagsettu 1. nóvember 2019, upplýsti kærandi að hann hafi leyst skólastjóra af í fjarveru hans vegna veikinda eða leyfis. Í því hafi í reynd falist að ganga í störf hans að mestu leyti. Undanskilið þeirri ábyrgð hafi einungis verið stærri innkaup og uppáskrift reikninga, en ekki að sjá til þess að daglegt starf skólans gengi snurðulaust fyrir sig og að fylgt væri skóladagatali og starfsáætlun skólans.
- Kærandi lýsir umfangi starfa hans í þágu Íþróttamiðstöðvar B þannig að um hafi verið að ræða kvöldvaktir frá kl. 16:30 til 21:00 og helgarvaktir frá kl. 11:00 til 15:00 á veturna í tímavinnu. Alla jafna hafi verið tvær kvöldvaktir á viku og helgarvakt aðra hvora helgi. Á sumrin hafi hann verið í fullu starfi og tekið þá til skiptis dagvakt eða kvöldvakt, auk vakta aðra hvora helgi. Allan tímann hafi hann starfað með öðrum starfsmönnum í íþróttamiðstöðinni í lengri eða skemmri tíma. Hann hafi borið fulla ábyrgð á því að þessi starfsemi gengi vel fyrir sig.
- Vegna beiðni kærunefndar um nánari skýringar á lýsingum kæranda á samskiptum hans og sviðsstjóra skóla- og tómstundamála hjá kærða segir í bréfi kæranda að sviðsstjórinn hafi verið að vinna með starfsumsókn frá kæranda og þá væntanlega aflað sér allra nauðsynlegra upplýsinga um hann sem máli skipti. Þá hafi kærandi gert ráð fyrir því að sökum starfa sinna væri sviðsstjóranum kunnugt um hvað horfi til framfara og þróunar í þeim stofnunum sem hann hafi faglega yfirumsjón með. Reglulega séu haldnir fundir með skólastjórum grunnskóla bæjarins, auk þess sem ritaðar séu skýrslur um skólahaldið. Áhugasamur aðili í þessari stöðu gefi því að sjálfsögðu gaum sem teljist vera breytingastarf og viðleitni til að auka enn frekar gæði skólastarfs. Þá hafi kærandi áður sótt um starf skólastjóra hjá kærða þar sem ítarlegar upplýsingar um hæfni hans hefðu átt að koma fram. Einnig hafi kærandi sótt um starf sérkennsluráðgjafa hjá kærða haustið 2015 þar sem téður sviðsstjóri hafi tekið atvinnuviðtal við hann þar sem umrædd atriði hafi komið fram. Í huga kæranda feli innihaldsríkt samtal um skólamál í sér að rætt sé um málefni skóla á faglegan og uppbyggilegan hátt og skipst sé á skoðunum sem auki gagnkvæman skilning hlutaðeigandi á því fyrir hvað aðrir standi.
NIÐURSTAÐA
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
- Ákvörðun kærða um ráðningu í starf skólastjóra Grunnskólans á B var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 8/2018.
- Einu umsækjendurnir um umrætt starf voru kærandi og sú kona sem hlaut starfið. Fyrir liggur að umsækjendurnir voru ekki boðaðir í starfsviðtal vegna umsóknarinnar. Að mati kærunefndarinnar eru slík viðtöl almennt mikilvægur þáttur í rannsókn stjórnvalda við undirbúning ráðningar í opinber störf, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda þótt líta verði svo á að stundum þjóni ekki tilgangi að ræða við þá alla. Auk þess er viðbúið að nægjanleg þekking ætti alla jafnan að vera fyrir hendi hjá atvinnurekendum á hæfni þeirra umsækjenda sem þá þegar starfa hjá viðkomandi atvinnurekanda.
- Eins og mál þetta liggur fyrir verður því ekki slegið föstu að skortur á starfsviðtölum hafi haft þýðingu við umrædda ráðningu, enda lá fyrir að umsækjendurnir tveir höfðu starfað um margra ára skeið innan vébanda kærða og hefur kærandi upplýst að hann hafi áður sótt um starf skólastjóra hjá kærða auk þess sem hann hafi sótt um starf sérkennsluráðgjafa hjá kærða þar sem téður sviðsstjóri hafi tekið atvinnuviðtal við hann. Við allt þetta bætist að verulegur munur reyndist á stjórnunarreynslu umsækjendanna tveggja á vettvangi grunnskóla, eins og nánar er vikið að hér á eftir.
- Fram kom í auglýsingu umrædds starfs, eins og áður er getið, að leitað væri að öflugum og framsýnum leiðtoga til að leiða þróttmikið skólastarf. Þá var starfssviðinu lýst með eftirfarandi hætti: Að veita skólanum faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi; að leiða samstarf nemenda, starfsmanna, heimila og skólasamfélagsins í heild; að stýra skólanum og bera ábyrgð á daglegri starfsemi, starfsmannamálum, fjárhagsáætlunum og rekstri. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur gerðar til starfsins: Leyfisbréf grunnskólakennara; viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynsla á grunnskólastigi; lipurð og færni í samskiptum; metnaður, hugmyndaauðgi, skipulagshæfni og leiðtogahæfileikar; reynsla af stjórnun og rekstri; vilji til að leita nýrra leiða í skólastarfi; góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að miðla upplýsingum, bæði í mæltu máli og rituðu; reynsla af þátttöku í þróunarstarfi teldist kostur. Í auglýsingunni var jafnframt tekið fram að leitað væri að einstaklingi sem hefði skýra framtíðarsýn í skólamálum, væri skapandi, metnaðarfullur og með mikla samstarfshæfileika.
- Kærandi lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1989 og hlaut leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari árið 1990. Árið 1991 lauk hann 12 ECTS-einingum í starfsleikninámi kennara. Árið 2011 lauk hann diplómanámi í menntunarfræði með áherslu á sérkennslufræði. Árið 2014 lauk hann síðan meistaraprófi í menntunarfræði frá Háskólanum á Akureyri, með áherslu á stjórnun menntastofnana. Að auki hefur kærandi lagt stund á og lokið margvíslegu námi, til dæmis í sjávarútvegsfræðum, líftækni, forritun, tölvutækni og viðskiptafræði, svo að nokkuð sé nefnt. Kærandi rekur kennslureynslu sína í umsókn sinni. Þar kemur fram að hann hafi starfað við Grunnskólann á B frá 1982 til 1983, 1991 til 1992 og síðan frá 1996 til 2019. Fram kemur í umsókn kæranda að hann sé umsjónarkennari á unglingastigi auk þess að vera trúnaðarmaður kennara og hafi verið staðgengill skólastjóra í um 20 ár. Þá hafi hann sinnt sérkennslu samhliða almennri kennslu. Frá 1995 til 1996 hafi hann verið umsjónarkennari á unglingastigi í Grunnskólanum í Súðavík. Frá 1991 til 1992 hafi hann verið smíðakennari í Egilsstaðaskóla. Í umsókninni er einnig rakið að hann hafi haft yfirumsjón með daglegum rekstri Íþróttamiðstöðvar B á tímabilinu 1999 til 2010. Þá hafi hann útbúið námsefni um stutt skeið sem verkefnisstjóri hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
- Konan, sem hlaut starf skólastjóra við Grunnskólann á B, lauk námi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 1994 með B.Ed. gráðu í grunnskólafræðum. Árið 2012 lauk hún meistaraprófi í sérkennslufræðum frá sama skóla og síðan Dipl.Ed. í stjórnun menntastofnana árið 2017. Við hina umþrættu ráðningu státaði hún af langri stjórnunarreynslu, þ.e. sem aðstoðarskólastjóri í 11 ár og sem skólastjóri í afleysingum í tvö ár. Hún hafði kennt við nokkra grunnskóla á Vestfjörðum allt frá árinu 1995, að undanskildum fjórum skólaárum á tímabilinu 2007 til 2011.
- Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 kemur meðal annars fram að séu líkur leiddar að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal kærunefndin við nánara mat á þessu taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
- Umsækjendurnir tveir áttu að baki langan starfsferil við kennslu þegar þau sóttust eftir starfi skólastjóra við Grunnskólann á B. Auk þess uppfylltu þau lögbundnar kröfur samkvæmt 12. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, en þar segir að til þess að verða ráðinn skólastjóri við grunnskóla skuli umsækjandi hafa starfsheitið grunnskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á grunnskólastigi. Þannig virðast báðir umsækjendurnir hafa búið yfir góðri hæfni til að gegna umræddu starfi.
- Kærandi byggði á því fyrir nefndinni að sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og konan sem ráðin var í starfið hafi rætt „þó nokkrum sinnum fjálglega“ um að hún yrði áfram í starfinu „eftir afleysingu“. Þessari ásökun hefur kærði afdráttarlaust hafnað og er ekkert í gögnum málsins sem rennir stoðum undir þessa staðhæfingu hans.
- Þess skal getið að kærandi gerir að einhverju leyti athugasemd við það að í rökstuðningi kærða til kæranda komi fram að bæjarstjóri hafi falið sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs ásamt mannauðsstjóra kærða að ráða í stöðuna. Byggt er á því að það sé hlutverk bæjarstjórans að ráða stjórnendur við sveitarfélagið. Af þessu tilefni áréttast að meðferð málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála afmarkast við að skera úr því hvort gætt hafi verið að ákvæðum laga nr. 10/2008 og felur því ekki í sér sérstaka stjórnsýsluúttekt á störfum kærða við ráðninguna umfram þá greiningu sem nauðsynleg er við úrlausn málsins. Telji kærandi almennt séð að ekki hafi verið gætt að lögum og reglum við ráðninguna getur hann eftir atvikum borið slíkt mál undir umboðsmann Alþingis.
- Í rökstuðningi kærða til kæranda kemur fram að þau meginsjónarmið, sem mælt hafi með ráðningu þeirrar konu sem hlaut starf skólastjóra Grunnskólans á B, hafi verið „reynsla hennar sem skólastjóri og aðstoðarskólastjóri, hæfni hennar í samskiptum, leiðtogahæfni og metnaður“.
- Í gögnum málsins er að finna skorblað um mat á hæfni kæranda og þeirrar konu sem ráðin var í umrætt starf. Mun það hafa verið unnið á grundvelli annars vegar mats á starfsreynslu á vettvangi kærða og hins vegar mati á ferilskrá umsækjendanna tveggja. Þar er að finna eftirfarandi matsþætti: (1) Kennsluréttindi í grunnskóla, (2) viðbótarmenntun, (3) reynsla af kennslu, (4) reynsla af stjórnun, (5) samstarfshæfni/teymisvinna, (6) hæfni undir álagi, (7) sambærileg reynsla/kennslureynsla/þróunarstarf, (8) stjórnunarreynsla, opinber stjórnsýsla, starfsmannnahald, (9) veikleikar, (10) frumkvæði í starfi, (11) leiðtogahæfni, (12) samskiptafærni, færni í ræðu og riti, (13) skipulagshæfni, (14) tölvufærni, (15) faglegur metnaður. Hverjum og einum þessara matsþátta var síðan veitt misjafnt vægi, þ.e. á bilinu 1 til 3, eftir mati kærða á mikilvægi þeirra. Stig í matinu gátu numið frá 1 til 3 í hverjum þætti. Niðurstaða matsins varð sú að kærandi og umrædd kona stæðu jafnfætis hvað varðar fjóra matsþætti, þ.e. þætti nr. 1, 2, 3 og 13, en í 10 þáttum matsins teldist konan standa kæranda framar. Kærandi var einvörðungu talinn standa konunni framar varðandi tölvufærni. Verður ekki annað ráðið af þessu en að kærði hafi talið þá konu sem hlaut umrætt starf standa kæranda umtalsvert framar.
- Telja verður að við afmörkun þeirra sjónarmiða, sem litið yrði til við ráðningu í umrætt starf, hafi kærða borið að hafa nokkra hliðsjón af lögbundnu hlutverki skólastjóra í grunnskólum. Að þessu leyti mælir 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla meðal annars fyrir um að skólastjóri sé forstöðumaður grunnskóla, stjórni honum, veiti faglega forustu og beri ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Þá skuli skólastjóri stuðla að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Að þessu virtu verður að líta svo á að áhersla kærða á stjórnunarreynslu umsækjenda hafi verið málefnalegt sjónarmið. Þá gaf fyrrgreind starfsauglýsing kærða með skýrum hætti til kynna að þetta sjónarmið myndi vega þungt við ráðninguna.
- Hvað stjórnunarreynslu kæranda varðar þá er ekki unnt að fallast á það með honum að leggja megi fyllilega að jöfnu annars vegar stjórnunarreynslu og hins vegar menntun á sviði stjórnunar. Þá verður yfirumsjón kæranda með daglegum rekstri Íþróttamiðstöðvar B um tíu ára skeið, í hlutastarfi meðfram starfsskyldum sem kennari, ekki talin veigamikil stjórnunarreynsla andspænis stjórnunarreynslu þeirrar konu sem starfið hlaut. Reynsla hennar laut beinlínis að stjórn grunnskóla, ýmist sem aðstoðarskólastjóri eða skólastjóri í afleysingum, og spannaði meira en áratug eins og áður greinir.
- Loks liggur ekkert fyrir sem gefur sérstaklega til kynna að kærði hafi farið út fyrir það svigrúm sem hann naut við mat á því hvernig umsækjendurnir féllu að þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar samkvæmt auglýsingu starfsins, enda teljast þau málefnaleg að mati nefndarinnar.
- Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar skólastjóri Grunnskólans á B var ráðinn 21. júní 2019.
- Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna upplýsingaöflunar kærunefndarinnar undir rekstri málsins.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Ísafjarðarbær, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf skólastjóra Grunnskólans á B 21. júní 2019.
Arnaldur Hjartarson
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir