Skólinn opnar dyr: Námskynning í Laugardagshöll 12. maí
Fimmtudaginn 12. maí verður opin námskynning í Laugardalshöll kl. 11–16 í tengslum við átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur. Kynntir verða námsmöguleikar í framhaldsskólum, frumgreinadeildum og háskólum auk tækifæra til fullorðinsfræðslu.
Á kynningunni í Laugardalshöll munu ráðgjafar Vinnumálastofnunar og skólanna veita fólki aðstoð við að finna heppilegustu leiðir fyrir hvern og einn til að bæta menntun sína, auka hæfni og fjölga atvinnumöguleikum.
Með átakinu verður mun auðveldara en áður að komast að í framhaldsskóla eftir námshlé. Haustið 2011 munu skólarnir taka inn alla umsækjendur undir 25 ára aldri sem uppfylla tiltekin skilyrði, ásamt eldri umsækjendum sem hafa lokið raunfærnimati vorið 2011. Þannig gefst frábært tækifæri til að ljúka námi eða bæta við kunnáttu á ýmsum sviðum sem nýtist vel á vinnumarkaðnum.
Átakið Nám er vinnandi vegur er byggt á tillögum samráðshóps sem forsætisráðherra skipaði með fulltrúum ráðuneyta, þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hreyfinga námsmanna. Framlög til menntamála verða samtals aukin um sjö milljarða króna á næstu þremur árum og hefur fjármögnun átaksins verið tryggð með samráði ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við nýgerða kjarasamninga.