Úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna
Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað við hátíðlega athöfn í Bláa lónin þann 30 apríl og fengu 33 verkefni styrki að heildarupphæð kr. 35 milljónir. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrkina en í ár bárust 239 umsóknir hvaðanæva af landinu og hefur ráðgjafarnefnd metið umsóknir á undanförnum vikum.
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað síðan 1991, en það var þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafði frumkvæði að styrkveitingunum. Þeir eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í eigu kvenna og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun. Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.