Tryggja bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir heimilislaust fólk
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 30 milljónum króna til að tryggja fólki sem er heimilislaust og með flóknar þjónustuþarfir betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Heimaþjónusta Reykjavíkur (HÞR) mun annast þjónustuna. Samningur þess efnis milli Sjúkratrygginga Íslands og HÞR hefur verið undirritaður og staðfestur af ráðherra.
Heimaþjónusta Reykjavíkurborgar (HÞR) hefur um árabil sinnt heimahjúkrun á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Síðasti samningur um þjónustuna var gerður árið 2020 og gildir í fjögur ár. Reynslan hefur sýnt að ákveðinn hópur einstaklinga er ekki fær um að sækja sér heilbrigðisþjónustu eftir hefðbundnum leiðum hjá HÞR eða á heilsugæslustöðvum. Þetta á einkum við um einstaklinga sem eru heimilislausir og með flókinn heilsufarsvanda.
Nýgerður samningur Sjúkratrygginga Íslands og HÞR um þjónustu við umræddan hóp er viðauki við gildandi samning um heimahjúkrun. Horft er til þess að með því að skipuleggja þjónustuna sérstaklega með þarfir hópsins í huga og nálgast einstaklingana þar sem þeir eru staddir hverju sinni verði betur hægt að tryggja þeim nauðsynlega þjónustu.
Reykjavíkurborg hefur um árabil starfrækt sérstakt vettvangs- og ráðgjafateymi (VoR) sem aðstoðar heimilislaust fólk með vímuefna- og geðvanda og veitir einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðning á vettvangi.