Hoppa yfir valmynd
30. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Landsneti veitt framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2

Sveitarstjórn Voga samþykkti í dag framkvæmdaleyfi til að byggja Suðurnesjalínu 2. Bygging línunnar er nauðsynleg til að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og til að auka flutningsgetu raforkukerfisins milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Áður höfðu Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Grindavík veitt framkvæmdaleyfi.

Ekki er langt síðan að alvarlegt ástand skapaðist á Suðurnesjum þegar íbúar voru án rafmagns, heits vatns og símasambands þegar bilun kom upp í Suðurnesjalínu 1. Álagið á línuna hefur aukist jafnt og þétt vegna mikillar fólksfjölgunar á Suðurnesjum og aukinna umsvifa á Keflavíkurflugvelli. Suðurnesjalína 2 mun því bæði auka öryggi á Suðurnesjum og auka tækifæri til atvinnuuppbyggingar.

„Tilkoma Suðunesjalínu 2 mun auka orkuöryggi á Suðurnesjum, tryggja að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum sem fram undan eru og treysta frekari uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Mikil vinna liggur að baki þessari niðurstöðu og vil ég hrósa sveitarstjórn Voga sérstaklega fyrir að beita sér fyrir því að ná þessari farsælu lausn í áralöngu deilumáli sem og fulltrúum Landsnets. Ný sókn fyrir Suðurnes getur nú hafist,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

„Það er mikið fagnaðarefni að náðst hafi niðurstaða í þessu mikilvæga máli sem Suðurnesjalína 2 er. Framkvæmdin mun auka verulega á öryggi fólks og fyrirtækja á Suðurnesjum og stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Ég fagna því að sveitarstjórnarfólk í Vogum hafi sýnt þá framsýni og samfélagslegu ábyrgð að veita verkefninu brautargengi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta