Greinargerð um starfsemi Lindarhvols
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent Alþingi greinargerð með upplýsingum starfsemi Lindarhvols ehf. og framvindu vinnu við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Einnig er í greinargerðinni áætlun um framgang verksins til næstu mánaða.
Í bráðabirgðaákvæðum við lög um Seðlabanka Íslands er kveðið á um að Alþingi fái ársfjórðungslega upplýsingar um úrvinnslu stöðugleikaeigna.
Greinargerð ráðuneytisins til Alþingis er svohljóðandi:
I. Inngangur
Eftir að Seðlabanki Íslands veitti slitabúunum undanþágu frá gjaldeyrislögum og gaf út staðfestingu þess efnis að útgreiðsla til kröfuhafa á grundvelli fyrirliggjandi nauðasamninga, með vísan til að stöðugleikaframlag þeirra, myndi ekki valda efnahagslegum óstöðugleika, luku slitabúin nauðasamningum sínum í upphafi árs 2016. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög um Seðlabanka Íslands, veitti Seðlabankinn stöðugleikaframlögum viðtöku. Verðmætin runnu í ríkissjóð en skyldu vera til varðveislu hjá Seðlabanka. Gengið var frá sérstökum framsalsgerningum frá slitabúunum varðandi einstakar stöðugleikaeignir sem framseldar voru Ríkissjóði Íslands. Jafnframt var gengið frá þeim staðfestingum, tilkynningum, þinglýsingum og öðru sem áskilið er og tengdist hverri og einni stöðugleikaeign. Þá voru tilkynningar lögum samkvæmt sendar þar til bærum eftirlitsaðilum, þ. á m. Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu, og óskað samþykkis varðandi samruna vegna yfirtöku og ráðandi eignarhlut ásamt því sem flöggunartilkynningar voru birtar opinberlega. Loks voru aðrar nauðsynlegar tilkynningar sendar sem sneru að lántökum, veðhöfum, hluthöfum og öðrum aðilum. Jafnframt fól fjármála- og efnahagsráðuneytið Bankasýslu ríkisins á grundvelli laga að fara með fyrirsvar eignarhluta í Íslandsbanka. Þegar greinargerð þessi er rituð er framsali stöðugleikaeigna til Lindarhvols lokið og samþykki eftirlitsaðila liggja jafnframt fyrir þar sem við á.
II. Flokkun og virði stöðugleikaeigna í upphafi
Flokka má þær stöðugleikaeignir sem Seðlabanki Íslands veitti viðtöku í fernt:
- Laust fé,
- framseldar eignir,
- skilyrtar fjársópseignir,
- og framlög vegna viðskiptabanka (þ. á m. eignarhlutir).
Niðurstaða mats á virði stöðugleikaeigna, sem gert var við framsal þeirra í janúar 2016 og byggði að mestu leyti á bókfærðu virði eignanna hjá slitabúunum sjálfum, nam alls 384,3 ma.kr. Þar af var laust fé metið á 17 ma.kr., framseldar eignir um 60 ma.kr. , fjársópseignir á 18 ma.kr. og framlag vegna viðskiptabanka á 288 ma.kr. Nánari sundurliðun getur að líta hér að neðan:
1. Laust fé 17,2 milljarðar kr.
2. Framseldar eignir 60,4 milljarðar kr.
i. Skráð hlutabréf 5,9 milljarðar kr.
ii. Óskráð hlutabréf 4,9 milljarðar kr.
iii. Skráð skuldabréf 11,1 milljarðar kr.
iv. Óskráð skuldabréf 1,6 milljarðar kr.
v. Lánaeignir 18,6 milljarðar kr.
vi. Aðrar eignir 18,3 milljarðar kr.
3.Skilyrtar fjársópseignir 184 milljarðar kr.
i. Laust fé 0,0 milljarðar kr.
ii. Varasjóðir 11,8 milljarðar kr.
iii. Lánaeignir 0,7 milljarðar kr.
iv. Aðrar eignir 5,9 milljarðar kr.
4.Framlag vegna viðskiptabanka 288,3 milljarðar kr.
i. Íslandsbanki, hlutafé 184,8 milljarðar kr.
ii. Veðskuldabréf Kaupþing 84,0 milljarðar kr.
iii. Afkomuskiptasm. Arion 19,5 milljarðar kr.
Samtals stöðugleikaframlag 384,3 milljarðar kr.
III. Stofnun og starfshættir Lindarhvols ehf.
Einkahlutafélagið Lindarhvoll var stofnað með vísan til 3. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög um Seðlabanka Íslands. Samþykkt stofnskrá, stofnfundargerð og samþykktir félagsins liggja fyrir á heimasíðu félagsins, www.lindarhvolleignir.is til að tryggja fullt gegnsæi í starfsemi félagsins.
Ráðherra skipaði eftirtalda í stjórn félagsins; Þórhall Arason, formann, Ásu Ólafsdóttur og Hauk C. Benediktsson auk tveggja varamanna. Félagið setti sér reglur um starfshætti, sem samþykktar voru þann 28. apríl 2016 og birti þær opinberlega á heimasíðu félagsins en þar er m.a. að finna starfsreglur stjórnar félagsins, upplýsingar um stjórnskipulag þess, reglur um umsýslu, fullnustu og sölu eigna, reglur og viðmið vegna lánamál og siðareglur.
Lindarhvoll ehf. og fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, undirrituðu þann 29. apríl 2016 samning um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaeigna. Markmið samningsins er að Lindarhvoll ehf. hámarki verðmæti eignanna gagnvart ríkissjóði og lágmarki eins og kostur er kostnað við umsýslu þeirra Skal félagið flýta sölu eignanna og endurheimtum eins og kostur er. Við umsýslu, fullnustu og sölu eignanna skal leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni sbr. 45. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt er gagnsæi og jafnræðis bjóðenda. Samningurinn er birtur á heimasíðu félagsins www.lindarhvolleignir.is.
Í framhaldi af stofnun félagsins og undirritun samningsins við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er daglegum rekstri félagsins hagað í samræmi við samþykktar reglur og ákvarðanir stjórnar. Stjórn Lindarhvols ehf. fól í maí 2016 Steinari Þór Guðgeirssyni hrl. að veita ráðgjöf við daglegan rekstur þeirra eigna sem Lindarhvoli hefur verið falin umsýsla með. Var það m.a. gert með vísan til þess að hann sá um gerð stöðugleikasamninganna við öll þau átta slitabú sem inntu þau af hendi auk þess að hafa haft umsjón með móttöku og daglegum rekstri þessara eigna, fyrst í umboði Seðlabanka Íslands og svo í umboði ríkissjóðs. Hann þekkir því vel forsögu málsins og einstakar eignir. Stjórn Lindarhvols taldi einnig mikilvægt að gætt væri að samfellu við meðferð og rekstur þessara eigna, enda er ætlaður skammur tími til að leysa úr verkefninu.
Lindarhvoll ehf. hefur því hafið fulla starfsemi og er dagleg umsýsla stöðugleikaeigna í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til félagsins í fyrrnefndum lögum, samningi við fjármála- og efnahagsráðherra og samþykktum reglum félagsins. Sú umsýsla felur í sér umsjón með eignum í umsýslu, utanumhald með greiðsluflæði vegna lánaeigna, endurskipulagningu eigna, sölu og fullnustu. Umsýsla hinna skilyrtu fjársópseigna fer fram með reglulegum fundum með hverju og einu slitabúi til að tryggja sem best hagsmuni ríkissjóðs varðandi einstakar eignir sem falla undir þann flokk stöðugleikaeignanna. Eftirlit með eignum sem falla undir flokkinn framlag vegna viðskiptabanka var tryggt með þeim hætti að Steinar Þór Guðgeirsson hrl. var tilnefndur sem eftirlitsaðili („observer“) í stöðugleikasamningi við Kaupþing ehf.
IV. Umsýsla, sala og áætlun um framvindu verkefnis til 31.12.2016
Markmið Lindarhvols ehf. varðandi sölu og umsýslu stöðugleikaeignanna er að þeir fjármunir sem koma til greiðslu nemi að lágmarki bókfærðu virði þeirra en eins og áður er getið nam samtals bókfært virði allra stöðugleikaeigna í upphafi um 384,3 milljörðum króna við framsal þeirra í janúar 2016.
Framseldar eignir
Lindarhvoll ehf. fól Lánamálum ríkisins að auglýsa til sölu íbúða- og ríkisskuldabréf og skuldabréf án ríkisábyrgða í maí og var niðurstaðan birt opinberlega þann 26. maí 2016. Lindarhvoll ehf. gerir ekki ráð fyrir að eftirstöðvar af skráðum ríkisskuldabréfum í umsýslu félagsins fari aftur í söluferli heldur verði beðið eftir greiðslu á gjalddaga bréfanna þar sem þau eru að mestu leyti á gjalddaga í október 2016. Ríkiskaup önnuðust í júní, að beiðni Lindarhvols ehf., milligöngu um öflun tilboða frá fjármálafyrirtækjum í að selja skráðar hlutafjáreignir í umsýslu félagsins sjá nánar http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20359 og tilboða frá hugsanlegum ráðgjöfum í tengslum við sölumeðferð á Lyfju hf. (sjá nánar http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20340) . Á grundvelli þeirra tilboða sem bárust hefur Lindarhvoll ehf. ráðið Landsbankann hf. til að veita ráðgjöf við sölu skráðra eigna í umsýslu félagsins og Virðingu hf. sem ráðgjafa í tengslum við sölumeðferð á Lyfju hf. Í samræmi við reglur Lindarhvols ehf. um umsýslu, fullnustu og sölu eigna, þar sem fram kemur að sala og ráðstöfun skuli eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt er gagnsæis og jafnræðis bjóðenda. Er nú unnið að nánari útfærslu á söluferli fyrrnefndra eigna, sem kynnt verður nánar á næstu vikum. Við söluferli þeirra verður í samræmi við fyrrgreindar reglur lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Áætlun Lindarhvols ehf. gerir ráð fyrir að sala á skráðum hlutabréfum í umsýslu félagsins verði lokið á haustmánuðum 2016 og sala á hlutabréfum í Lyfju hf. verði lokið eigi síðar en í desember 2016.
Óskráð hlutabréf í umsýslu Lindahvols ehf., önnur en hlutabréfin í Lyfju hf., munu verða seld í opnu söluferli og auglýst til sölu af Lindarhvoli ehf. á haustmánuðum og gera áætlanir Lindarhvols ehf. ráð fyrir að ljúka sölu stærstum hluta þeirra fyrir lok árs 2016.
Töluvert hefur verið um endurgreiðslur og uppgreiðslur á óskráðum skuldabréfum og lánaeignum í umsýslu Lindarhvols ehf. á tímabilinu. Áætlanir Lindarhvols ehf. gera ráð fyrir að slíkar uppgreiðslur og endurgreiðslur haldi áfram á næstu misserum. Mun staðan á þeim eignaflokkum verða endurmetin í október 2016 og þá er markmiðið að setja eftirstöðvar helstu óskráðra skuldabréfa ásamt helstu lánaeignum í opið söluferli. Áætlanir Lindarhvols ehf. miðast við að sala á þeim eignum verði að mestu lokið fyrir árslok 2016.
Greiðslur vegna annarra eigna í flokknum framseldar eignir hafa verið umtalsverðar á tímabilinu og gerir Lindarhvoll ehf. ráð fyrir að eftirstöðvar til greiðslu verði að mestu lokið fyrir árslok 2016 og síðan verði aðrar eignir seldar í opnu söluferli fyrir árslok 2016.
Skilyrtar fjársópseignir
Varðandi skilyrtar fjársópseignir var í upphafi ekki gert ráð fyrir miklum endurgreiðslum til Lindarhvols frá slitabúunum á árinu 2016 vegna umtalsverðs flækjustigs ásamt því að hluti þeirra er ætlaður til að mæta rekstrarkostnaði slitabúanna á næstu árum. Hins vegar hefur gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir að endurheimta bæði varasjóði og aðrar eignir í góðri samvinnu og samstarfi við slitabúin. Þegar hafa komið til greiðslur að hluta af varasjóðum og gert er ráð fyrir að frekari greiðslur muni berast á seinni hluta árs 2016 ásamt því að tekist hefur að leysa úr ágreiningsmálum varðandi aðrar eignir sem skilað hafa töluverðum fjármunum inn á stöðugleikareikninginn.
Eignir sem falla undir flokkinn framlag vegna viðskiptabanka eru háðar frekari ákvörðunum Bankasýslu ríkisins og Kaupþings ehf. Lindarhvoll ehf. er ekki í aðstöðu til að leggja fram áætlun vegna ráðstöfunar þeirra eigna en í gegnum eftirlitsaðila er fylgst grannt með framvindu sölu Arion banka hf. af hálfu Kaupþings ehf. og að samningsskyldum sé fullnægt.
V. Greiðsluflæði stöðugleikaeigna og ráðstöfun til niðurgreiðslu skulda
Eins og fram kemur hér að framan var hluti stöðugleikaframlaga í reiðufé sem lagt var inn á sérstakan reikning í Seðlabanka Íslands. Auk þess hafa greiðslur vegna eigna borist inn á reikninginn, bæði vegna sölu þeirra, afborgana lána, uppgjörs krafna, uppgreiðslu skulda, arðs, vaxtatekna auk greiðslna vegna fjársópseigna. Á tímabilinu frá því að framsal stöðugleikaeigna slitabúanna átti sér stað og fram til þess að Lindarhvoll ehf. tók formlega til starfa þann 29. apríl 2016 nam greiðsluflæði undirliggjandi stöðugleikaeigna til þess dags, samtals kr. 37.441.360.641.
Umfang greiðslna stöðugleikaeigna frá því Lindarhvoll ehf. tók við umsýslu þeirra með samningnum dags. 29. apríl 2016 til 9.ágúst 2016 nemur samtals kr. 19.828.057.019 og hafa þeir fjármunirnir verið lagðir jafnóðum inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt.
Samkvæmt 5. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög um Seðlabanka Íslands skal haft samráð við Seðlabanka Íslands varðandi ráðstöfun stöðugleikaframlaga til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Ríkissjóður Íslands hefur samtals ráðstafað 51 ma.kr. til niðurgreiðslu skulda það sem af er ári. Þann 1. mars 2016 greiddi ríkissjóður 25 ma.kr. inn á skuldabréf við Seðlabanka Íslands. Í júní keypti ríkissjóður eigin bréf í flokknum RIKH 18 sem gefinn var út til endurfjármögnunar fjármálastofnana, samtals að nafnvirði 30 ma.kr. Var 26 ma.kr. af stöðugleikareikningnum ráðstafað til kaupanna en það sem út af stóð var greitt af almennum innstæðum ríkissjóðs í Seðlabanka. Samtals nam því fjárhæð innstæðu á stöðugleikareikningi Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands kr. 6.269.417.660 þann 10.ágúst 2016.
VI. Samantekt
Með vísan til þeirrar áætlunar sem Lindarhvoll ehf. hefur gert fram til 31.12.2016 liggur fyrir að félagið stefnir á að verkefni þess dragist verulega saman strax á árinu 2017. Áætlað er að þá verði aðeins um að ræða virka umsýslu á framseldum eignum að bókfærðu virði um 7,3 milljarðar króna og jafnframt eftirlit með skilyrtum fjársópseignum að bókfærðu virði um 6,6 milljarðar króna. Þá verði áfram gætt hagsmuna ríkissjóðs vegna sölu á Arion banka hf. í gegnum eftirlitsaðila, skv. framsalssamningi Kaupþings hf. Gerir Lindarhvoll ehf. ráð fyrir að Kaupþing ehf. muni selja Arion banka hf. að fullu eigi síðar en í árslok 2017.
Miðað við fyrrgreindar forsendur mun Lindarhvoll ehf. þá hafa ná markmiðum sínum fyrr en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum og mun starfsemi þess í árslok 2017 verða mjög óveruleg og snúa fyrst og fremst að almennum lagalegum frágangi félagsins ásamt því að ljúka uppgjöri á varasjóðum slitabúanna sem ljúka skal í síðasta lagi í árslok 2018.