Ísland í gestgjafahlutverki á haustfundi Global Equality Fund
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, ávarpaði í dag árlegan haustfund Hnattræna jafnréttissjóðsins þar sem mannréttindi hinsegin fólks voru til umræðu. Ísland var í gestgjafahlutverki í ár og bauð til fjarfundarins þar sem um fimmtíu meðlimir og fulltrúar styrktaraðila ásamt starfsliði sjóðsins tóku þátt.
Hnattræni jafnréttissjóðurinn, (e. Global Equality Fund, GEF), beinir stuðningi sínum að mannréttindum hinsegin fólks. Að honum standa bæði einka- og opinberir aðilar sem eiga það sameiginlegt að vilja leggja sitt af mörkum til þessa málaflokks um heim allan. Á fundinum var farið yfir síðustu ársskýrslu sjóðsins og þróun verkefna sem sjóðurinn styður við. Einnig var rætt sérstaklega um áhrif kórónuveirufaraldursins á mannréttindabaráttu hinsegin fólks.
„Í meira en þriðjungi landa heims eru mannréttindi hinsegin fólks virt að vettugi. Við sjáum líka að um allan heim hefur hinsegin fólk þurft að mæta fordómum og ofbeldi í ýmsu formi. Orsakir þess eru margþættar en oft er um að ræða hamlandi löggjöf og neikvæða afstöðu í samfélaginu gagnvart þessum hópi, sem hefur margvísleg áhrif á öryggi milljóna manna um heim allan“ sagði Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri er hann setti fundinn og áréttaði hann jafnframt mikilvægi sjóðsins í þessu samhengi. „Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki við að leiða saman líkþenkjandi ríki og einkaaðila sem vilja styðja við þetta málefni og skapar því öflugan vettvang þar sem við getum tekið höndum saman“ bætti hann við.
Ísland gerðist bakhjarl sjóðsins um síðustu áramót þegar undirritaður var samningur til þriggja ára en mannréttindi og jafnréttismál hafa fengið aukið vægi í utanríkisstefnu Íslands á undanförnum árum. Á síðasta ári samþykkti Alþingi nýja stefnu Íslands í þróunarsamvinnu fyrir árin 2019-2023 þar sem tilgreint er að öll þróunarsamvinna eigi að hafa mannréttindi að leiðarljósi. Í kjölfarið hefur Ísland fylgst sérstaklega grannt með stöðu hinsegin fólks í samstarfs- og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu, þ.e. Palestínu, Afganistan, Mósambík, Úganda og Malaví, þar sem mannréttindum hinsegin fólks er verulega ábótavant.