Aðstoðarutanríkisráðherra Noregs ræðir norðurslóðarannsóknir
Einar Gunnarsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins átti í dag fund með Torgeir Larsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs en Larsen kom hingað til lands vegna málþings um íslenskar og norskar norðurslóðarannsóknir.
Á fundi Larsen og ráðuneytisstjóra var rætt um ýmis mál er varða samskipti og samvinnu landanna. Norðurslóðamál voru þar ofarlega á blaði en auk þess ræddu þeir stöðuna í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins, EES-málefni, makríldeiluna og stöðuna í Mið-Austurlöndum.
Málþingið um norðurslóðarannsóknir er haldið í Háskólanum á Akureyri í dag og á morgun undir yfirskriftinni: In Northern Mists: Understanding the Past, Predicting the Future – Icelandic and Norwegian Contributions to Arctic Researches. Það er haldið í tengslum við samning um aukið vísindasamstarf Íslands og Noregs á sviði norðurslóðafræða, sem utanríkisráðherrar Íslands og Noregs, Össur Skarphéðinsson og Jonas Gahr Støre undirrituðu á síðasta ári.
Að málþinginu standa utanríkisráðuneyti Íslands og Noregs, í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, CICERO - Center for International Climate and Environmental Research, Háskólann á Akureyri og Norsk Institutt for Naturforskning.