Námskeið í viðbrögðum við umhverfisvá
Fimm daga námskeið í viðbrögðum við umhverfisvá (Environment emergency training) stendur nú yfir hér á landi og er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og UNOCHA, samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um viðbrögð á sviði mannúðaraðstoðar. Í dag eru þátttakendur við æfingar í Hafnarfirði á viðbrögðum við flóði og hættum sem kunna að skapast í kjölfarið.
Þátttakendur eru alls 20 og koma víðsvegar að úr heiminum en eru allir hluti undanfarahóps Sameinuðu þjóðanna, UNDAC, sem fyrstur er á vettvang þegar náttúruhamfarir dynja yfir. UNDAC hefur um 250 manns á skrá á heimsvísu og eru 4 þeirra Íslendingar. Auk ráðuneytisins koma Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Slysavarnafélagið Landsbjörg að skipulagningu og framkvæmd námskeiðsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem námskeið af þessu tagi er haldið hérlendis en það stendur yfir til 15. febrúar.