Hoppa yfir valmynd
24. júní 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fækkað um fjórar stofnanir hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

Alþingi samþykkti um helgina frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. Með staðfestingu laga um Umhverfis- og orkustofnun tekur hin nýja stofnun við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, en  Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Stofnanirnar taka til starfa 1. janúar 2025.

Þá samþykkti Alþingi niðurlagningu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og munu verkefni stofnunarinnar sameinast Háskólanum á Akureyri. Með gildistöku laganna hefur stofnunum ráðuneytisins fækkað úr 13 í 9 á þessu ári.

Umhverfis- og orkustofnun fer með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar, auk þess sem Raforkueftirlit mun starfa sem sjálfstæð eining undir stofnuninni. Megintilgangur nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar er að stuðla að því að markmið stjórnvalda um loftslagsmál gangi eftir, auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og lágmörkuð umhverfisáhrif að leiðarljósi.

Ný Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar, sem og eftirliti á ofangreindum sviðum.

Ekki  verður skipuð sérstök stjórn yfir hinni nýju stofnun, heldur munu svæðisstjórnir fara með umsjón tiltekinna landfræðilega afmarkaðra svæða í umboði ráðherra og er lögð áhersla á að efla og viðhalda það skipulag sem skilað hefur góðum árangri við stefnumótun um stjórnun og vernd innan þjóðgarðanna. 

„Það er mikið ánægjuefni að sjá nýja Umhverfis- og orkustofnun og nýja Náttúruverndarstofnun  verða að veruleika. Lögin sem samþykkt voru um helgina eru liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem unnið hefur verið að í ráðuneyti mínu frá 2022 og verða þessar nýju stofnanir stærri, kröftugri og hagkvæmari einingar með áherslu á að fara vel með almannafé í rekstri, bæta þjónustu við almenning og að fjölga störfum á landsbyggðinni. Ég legg líka mikla áherslu á að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun í þessum nýju stofnununum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Lögin sem samþykkt um helgina eru liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur unnið að, ásamt undirstofnum, frá miðju ári 2022 og sem miða að því að skapa vettvang fyrir kraftmikið fagstarf og árangur. 

Alþingi samþykkti í maí á þessu ári að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn yrðu hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fékk heitið Náttúrufræðistofnun. Þá fól umhverfis- og samgöngunefnd umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að halda áfram að skoða sameiningar Þingvallaþjóðgarðar og Minjastofnunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta