Heiðursviðurkenning veitt á Sjómannadegi
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra veitti Þorvaldi Gunnlaugssyni sjómanni, heiðursviðurkenningu vegna góðrar umgengni um hafið, fyrirmyndarstarf í úrgangsmálum og framsækna hugsun varðandi nýja orkugjafa til sjós, við hátíðarathöfn á sjómannadeginum í Reykjavík í gær.
Þorvaldur hefur stundað smábátaútgerð um langt skeið og verið ötull við að leita umhverfisvænna lausna og þannig haft hvetjandi áhrif á sína starfsfélaga. Þorvaldur lætur sig mjög varða umgengi við bryggju og förgun úrgangsolíu sem og annara spilliefna. Þá hefur hann tekið þátt í undirbúningsvinnu varðandi metan og lífdísil sem eldsneytisgjafa á hafi úti og verið til fyrirmyndar í aflameðferð og umgengni um báta.
Við athöfnina ræddi ráðherra meðal annars þá mengun sem stafar af plasti og öðrum úrgangi sem endar í hafinu. Hún sagði gamla orðatiltækið, að lengi tæki sjórinn við, alls ekki eiga við lengur. Í staðinn væri komið slagorðið „Hættum að henda í hafið“.