Utanríkisráðherra fundaði með Margrethe Vestager
Samkeppnismál, gróska í nýsköpun, stafræn umbreyting og samstarf Íslands og Evrópusambandsins (ESB) á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) voru á meðal þess sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Margrethe Vestager, varaforseti og framkvæmdastjóri samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar ESB, ræddu á fundi sínum í Brussel í dag.
Hin danska Vestager hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína gagnvart stórum tæknifyrirtækjum vegna samkeppnishamlandi hegðunar þeirra á stafrænum mörkuðum. „Það er mikilvægt að á innri markaðnum ríki heilbrigð og öflug samkeppni en jafnframt að fyrirtækin búi við jöfn samkeppnisskilyrði eins og EES-samningurinn tryggir,“ segir Þórdís Kolbrún. Þá væri mikilvægt að efla nýsköpun enda sé hún helsti drifkraftur heilbrigðrar samkeppni.
Mikil þróun á sér nú stað á vettvangi innri markaðarins á þessu sviði. Fyrirhuguð löggjöf ESB um stafræna markaði og þjónustu (e. Digital Markets Act og Digital Services Act), sem um þessar mundir er til meðferðar innan stofnana ESB, bar einnig á góma á fundinum. Tillögurnar fela í sér uppfærslu á reglum um stafræna markaði og þjónustu og felast í stuttu máli í sér að komið verði í veg fyrir að svokallaðir hliðverðir geti viðhaft ósanngjarna viðskiptahætti gagnvart neytendum og fyrirtækjum, einkum meðalstórum og smærri aðilum. Jafnframt að vernd neytenda og réttindi séu tryggð á netinu, til að mynda með því að auka gagnsæi og setja ramma utan um ábyrgð þjónustuaðila. Utanríkisráðherra kom því á framfæri við Vestager að mikilvægt væri að vel tækist til í þessum efnum og að búið verði um hnútana á þann hátt að hagsmunir neytenda og fyrirtækja verði hafðir að leiðarljósi.
Síðar í dag mun Þórdís Kolbrún meðal annars sækja fund EES-ráðsins, ásamt utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB.