Hoppa yfir valmynd
14. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 351/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 351/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070030

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. júlí 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2020, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi skv. umsókn.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi árið 1999 og fékk hann útgefið búsetuleyfi þann 26. september 2003. Kærandi var skráður úr landi 31. janúar 2015 og var búsetuleyfi hans af þeim sökum fellt niður þann 21. júní 2017. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 2. maí 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2020, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 10. júlí sl. og kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 24. júlí sl. Þann 10. ágúst sl. barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Með tölvupósti kærunefndar til kæranda, dags. 22. september sl., var kæranda leiðbeint um að leggja fram frekari gögn um framfærslu. Gögn um framfærslu bárust frá kæranda þann 24. september sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun m.a. til ákvæða 78. gr. laga um útlendinga og 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Ljóst væri að kærandi ætti tvö börn hér á landi, bæði undir lögaldri. Í dvalarleyfisumsókn kæmi fram að kærandi væri í atvinnuleit og að eigið fé hans væri 500.000 kr. en hann hefði ekki lagt fram gögn um framfærslu. Hefði stofnunin sent kæranda bréf, dags. 18. mars sl., þar sem óskað hafi verið eftir gögnum sem sýndu fram á fullnægjandi framfærslu, sbr. a-lið 1. mgr. 55. gr. og 56. gr. laga um útlendinga. Hafi kærandi lagt fram bréf, dags. 27. mars sl., en um væri að ræða yfirlýsingu frá [...] þar sem fram kæmi að hún ábyrgðist framfærslu kæranda í samræmi við lágmarksframfærsluviðmið Útlendingastofnunar á meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá stofnuninni. Að mati Útlendingastofnunar uppfyllti kærandi ekki framangreind framfærsluskilyrði og þá var það mat stofnunarinnar að undantekningarákvæði 6. mgr. 78. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í máli hans. Þá vísaði stofnunin til þess að kærandi væri með endurkomubann inn á Schengen-svæðið, útgefið af frönskum stjórnvöldum. Þá væri langt liðið frá dvalartíma hans, sbr. b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga en hann hefði dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis. Loks væri það mat Útlendingastofnunar að umönnunarsjónarmið leiddu ekki til veitingar dvalarleyfis. Með hliðsjón af öllu framangreindu var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga og var umsókn hans því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð mótmælir kærandi því að hann uppfylli ekki framfærsluskilyrði 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga en [...] hafi við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun ábyrgst framfærslu kæranda í samræmi við lágmarksframfærsluviðmið Útlendingastofnunar. Sé þannig engum vafa undirorpið að framfærsla hans sé trygg í samræmi við 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 55. gr. sömu laga. Kærandi byggir jafnframt á því að umönnunarsjónarmið ættu hiklaust að leiða til veitingu dvalarleyfis en hann eigi tvær barnsmæður á Íslandi sem hafi lýst því yfir að það sé nauðsynlegt að hann fái dvalarleyfi til þess að geta sinnt börnum sínum með fullnægjandi hætti. Vísar kærandi til þess að í upphafsgrein barnalaga nr. 76/2003 sé lögð sérstök áhersla á rétt barns til þess að þekkja báða foreldra sína. Á síðari árum hafi sjónarmið í barnarétti breyst mikið og hafi vaxandi áhersla verið lögð á rétt barns til að þekkja báða foreldra sína og njóta umönnunar og samvista við þau bæði. Það sé einnig áréttað í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá beri foreldrum jafnframt skylda til að framfæra börn sín þar til þau nái 18 ára aldri samkvæmt íslenskum rétti.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða hafi Útlendingastofnun borið að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi við ákvörðunartöku, sbr. meginreglu 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga, enda telji kærandi að hin kærða ákvörðun komi í veg fyrir að hann geti uppfyllt framangreindar skyldur sínar gagnvart börnunum. Gögn málsins bendi eindregið til þess að rík umönnunarsjónarmið séu til staðar í ljósi þess að börnin séu ung að aldri og þurfi á föður sínum að halda en enginn vafi sé um umgengni hans við börn sín. Eins og málsatvikum sé háttað hafi Útlendingastofnun borið að vanda vel til verka en þrátt fyrir það sé ekki að finna neina umfjöllun um það óhagræði sem kærandi, börn hans og barnsmæður verði fyrir við brottvísun kæranda. Þá sé með öllu óvíst hvort kærandi ætti afturkvæmt til Íslands þar sem hann sé með endurkomubann inn á Schengen-svæðið með gildistíma til 28. mars 2022, útgefið af frönskum stjórnvöldum. Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að slíta stórfjölskylduna í sundur en slík ákvörðun brjóti bersýnilega gegn hagsmunum barnanna og standist því ekki skoðun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Grunnskilyrði dvalarleyfis

Í 55. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um grunnskilyrði dvalarleyfis. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.-IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann skilyrði stafliða a-d ákvæðisins. Samkvæmt a-lið þarf framfærsla útlendings skv. 56. gr. og sjúkratrygging að vera örugg. Þá mega skv. d-lið ákvæðisins ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um útlendinga þarf útlendingur sem er eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Þá segir í 4. mgr. 56. gr. að ráðherra sé heimilt, í samráði við ráðherra sem fer með félagsmál, að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, þ.m.t. um hvað telst trygg framfærsla, hvernig framfærslu skulið háttað og í hvaða tilvikum heimilt sé að víkja frá þeim kröfum. Ráðherra hefur ekki úfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla. Þar sem ráðherra hefur ekki útfært nánar hvað teljist trygg framfærsla líkt og hann hefur heimild til skv. 4. mgr. 56. gr. laganna, telur kærunefnd að ekki sé unnt við mat á tryggri framfærslu að miða við ákveðna fasta lágmarksupphæð, s.s. lágmarksviðmið sveitarfélaga, heldur þurfi að fara fram heildstætt mat á því hvort framfærsla útlendings uppfylli skilyrði a-liðar 1. mgr. 55. gr., sbr. 56. gr. laga um útlendinga.

Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 18. mars sl., óskaði stofnunin m.a. eftir gögnum sem sýndu fram á fullnægjandi framfærslu, sbr. a-lið 1. mgr. 55. gr. og 56. gr. laga um útlendinga. Kærandi lagði fram bréf, dags. 27. mars sl., þar sem fram kemur að [...] ábyrgist framfærslu hans í samræmi við lágmarksframfærsluviðmið Útlendingastofnunar, á meðan umsókn hans um dvalarleyfi hér á landi væri til meðferðar hjá stofnuninni, en [...] undirritaði framangreint bréf. Þá kemur fram í dvalarleyfisumsókn kæranda að eigið fé hans sé 500.000 kr. og að hann sé í atvinnuleit. Einnig bera gögn málsins með sér að kærandi starfi hjá tilgreindu fyrirtæki hér á landi án atvinnuleyfis. Með tölvupósti kærunefndar til kæranda, dags. 22. september sl., var kæranda leiðbeint um að leggja fram frekari gögn um framfærslu. Þann 24. september sl. lagði kærandi yfirlit frá Íslandsbanka, dags. 24. september sl., en skv. því var innistæða á almennum reikningi hjá kæranda 1.910.000 kr. Með hliðsjón af síðastnefndu gagni er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði um framfærslu, sbr. a-lið 1. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga um útlendinga. Við það mat hefur kærunefnd litið til þess að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er ekki veitt til lengri tíma en eins árs en að heimilt er að endurnýja leyfið hafi forsendur fyrir veitingu þess í upphafi ekki breyst, sbr. 7. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Líkt og greinir í hinni kærðu ákvörðun ákvörðuðu frönsk yfirvöld endurkomubann á kæranda inn á Schengen-svæðið til 28. mars 2022, vegna [...] sem kærandi framdi þar í landi. Ákvörðun um hvort útlendingi verði synjað um dvalarleyfi á grundvelli þess að skilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt verður eins og áður greinir aðeins reist á því að ekki liggi fyrir atvik sem geti valdið því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga um útlendinga. Eigi framangreint ákvæði við í máli útlendings verða stjórnvöld að framkvæma það hagsmunamat sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, þ.e. hvort beiting d-liðar 1. mgr. 55. gr. laganna muni með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Þá skal skv. síðastnefnda ákvæðinu sérstakalega taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Samkvæmt Þjóðskrá Íslands var kærandi búsettur hér á landi á tímabilinu 10. september 1999 til 31. janúar 2015, en samkvæmt gögnum málsins flutti hann þá til Frakklands og bjó þar þangað til hann kom aftur til Íslands árið 2019. Samkvæmt gögnum málsins á kærandi tvö börn hér á landi sem eru bæði íslenskir ríkisborgarar, son fæddan [...] og dóttur fædda [...]. Með hliðsjón af dvalartíma kæranda hér á landi og fjölskyldutengslum við landið er það mat kærunefndar að beiting d-liðar 1. mgr. 55. gr. í máli hans myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Við það mat hefur kærunefnd sérstaklega litið til hagsmuna barna kæranda, sem kærandi virðist hafa góð tengsl við, og þess að það sé erfiðleikum háð fyrir börnin, einkum í ljósi ungs aldurs þeirra, að heimsækja föður sinn til heimaríkis hans [...]. Þá sé kæranda bönnuð koma inn á Schengen-svæðið til ársins 2022 og ljóst að samskipti þeirra á milli væru aðeins möguleg í gegnum samskiptaforrit og síma. Stendur ákvæðið því ekki í vegi fyrir að kærandi fái útgefið dvalarleyfi hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Í bréfi barnsmóður sonar kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 24. apríl 2019, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið hluti af fjölskyldu hennar sl. [...] ár. Þrátt fyrir að tími hafi liðið á milli samveru kæranda og sonar þeirra þá hafi heimkoma kæranda verið sú allra áhrifamesta og hafi hún skilið eftir varanleg áhrif á soninn. Sé það hjartans mál fyrir fjölskylduna að sonur þeirra fái tækifæri til þess að hafa föður sinn í lífi sínu. Sonur þeirra þurfi aðhald í skóla vegna [...] og því skipti höfuðmáli að sem flestir haldi utan um hann og aðstoði og þar geti aðkoma kæranda skipt sköpum. Kærandi hafi alltaf verið partur af lífi sonar þeirra, frá því að vera viðstaddur fæðingu hans og til dagsins í dag og hafi þeir verið í nær daglegum samskiptum. Móðuramma sonar kæranda sendi samhljóða bréf á Útlendingastofnun, dags. 24. apríl 2019.

Í bréfi barnsmóður dóttur kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 17. nóvember 2019, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið erlendis mest allt líf dóttur þeirra en sl. mánuði hafi þau feðginin verið að kynnast. Hafi þessi tími verið dýrmætur fyrir dóttur þeirra en hún hafi nú fengið tækifæri til þess að kynnast föður sínum. Samskipti þeirra á milli gangi vel og sé það sé einlæg ósk þeirra að kærandi fái að dvelja áfram á Íslandi svo þau getið haldið áfram að þróa samband sitt í framtíðinni. Það sé réttur allra barna að fá að umgangast og þekkja báða foreldra sína og telji hún því mikilvægt að þau fái tækifæri til þess.

Samkvæmt 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga skal eins og áður segir fara fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið. Við matið skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar en jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldu-, félags- og menningarlegra tengsla við landið. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga kemur fram að við þetta mat þurfi að líta til þess tíma sem útlendingur hafi dvalist hér og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Að mati kærunefndar bera ákvæði 3. mgr. 78. gr. og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga með sér að lengd lögmætrar dvalar hér á landi vegi þungt við mat á því hvort einstaklingur teljist hafa sérstök tengsl við landið. Með b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga er þó sett það skilyrði að hafi útlendingur dvalist erlendis lengur en 18 mánuði frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verði dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla almennt ekki veitt nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk.

Hér að framan hafa aðstæður kæranda verið raktar ítarlega. Ljóst er að tengsl kæranda við landið eru mikil enda dvaldi hann hér á landi í um 16 ár, á tímabilinu 1999-2015. Á þeim tíma hafi kærandi stundað nám í íslensku og atvinnu flest árin. Samkvæmt breytingaskrá þjóðskrár er kærandi skráður úr landi þann 31. janúar 2015. Kærandi kvaðst þá hafa flutt til Frakklands, af því tilefni var búsetuleyfi hans hér á landi fellt niður þann 31. janúar 2017 á þeim grundvelli að hann væri ekki lengur með lögheimili hér á landi. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá virðist kærandi hafa verið kominn hingað til lands í maí 2019 og hafið störf. Þar sem að kærandi er ekki með og hefur ekki sótt um atvinnuleyfi hér á landi verður ekki litið til þeirra tengsla sem hann kann að hafa myndað við störf sín nú. Að mati kærunefndar falla aðstæður kæranda að þeim atriðum sem nefnd eru 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Ljóst er að kærandi hefur dvalið hér á landi lengur en tvö, sbr. a-lið, og jafnvel þótt kærandi hafi dvalið erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis telur kærunefnd að tengsl hans við landið séu mjög sterk, sbr. b-lið ákvæðisins. Þá falla aðstæður kæranda jafnframt að d. og e-liðum ákvæðisins en líkt og áður greinir á kærandi tvö börn hér á landi sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar, son fæddan [...] og dóttur fædda [...]. Af framlögðum bréfum barnsmæðra kæranda, sem kærandi virðist eiga í góðum tengslum við, verður jafnframt ráðið að þær sjái fyrir sér meiri aðkomu kæranda að uppeldi barnanna en áður og að einhver umönnunarsjónarmið séu því til staðar í skilningi e-liðar 19. gr. reglugerðarinnar. Þá verður af gögnum málsins ráðið að kærandi hafi ekki komið til heimaríkis síns frá því hann flutti fyrst hingað til lands og eigi enga fjölskyldu þar í landi og verður því ekki talið að tengsl hans við heimaríki séu rík.

Með vísan til langrar lögmætrar dvalar hér á landi á fyrrgreindu tímabili auk þeirra tengsla sem kærandi hefur við landið, m.a. fjölskyldu - og menningartengsla, er það mat kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, að hann uppfylli skilyrði 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 1-3. mgr. ákvæðisins og 19. gr. reglugerðar um útlendinga, og því beri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Að mati kærunefndar bera fyrirliggjandi gögn með sér að kærandi uppfylli skilyrði 55. gr. laga um útlendinga, sbr. framangreinda umfjöllun og fyrirliggjandi gögn málsins. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to grant the appellant residence permit based on Art. 78 of the Act on Foreigners.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Hilmar Magnússon                                                                                    Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta