Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2023 Matvælaráðuneytið

Breyting á reglugerð um fiskeldi vegna eftirlits og lúsatalninga

Breyting á reglugerð um fiskeldi vegna eftirlits og lúsatalninga - myndiStock/eugenesergeev

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á reglugerð um fiskeldi.

Breytingarnar eru gerðar að höfðu samráði við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun og leggja m.a. þá skyldu á herðar framleiðenda að tryggja að lax verði ekki kynþroska á eldistíma. Sett verði nánari tæknileg skilyrði um notkun ljósastýringar en lýsing er notuð í eldiskvíum til að stýra eða hindra kynþroska laxa. Einnig er gert ráð fyrir að Matvælastofnun fái auknar heimildir til eftirlits með kynþroska í eldiskvíum og sláturhúsum.

Reglugerðarbreytingin felur jafnframt í sér að rekstrarleyfishöfum verði gert skylt að viðhafa neðansjávareftirlit, köfun eða neðansjávarmyndavél, með ástandi netpoka á a.m.k. 30 daga fresti. Hafi laxinn náð fjögurra kílóa þyngd á tímabilinu 1. júní – 30. nóvember skuli sama eftirlit framkvæmt á sjö daga fresti. Heimild verður fyrir Matvælastofnun að setja nánari reglur um framkvæmd og skýrslugjöf.

Að auki er lagt til að lúsatalning verði framkvæmd á tveggja vikna fresti þegar sjávarhiti mælist hærri en 4°C en vikulega þegar hann fer yfir 8°C. Þannig miðast talningartímabilið við aðstæður í sjó hverju sinni í stað þess að miðast við fastar dagsetningar. Því verður talið oftar þegar mesta hættan er á að lús fjölgi sér. Gert er ráð fyrir því að talið verði úr öllum kvíum.

Til að leita eftir viðbrögðum atvinnugreinarinnar og annarra hagaðila eru drögin eru nú í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda. Gert er ráð fyrir því að breytingin taki gildi fyrir árslok.

Drögin má sjá hér á samráðsgátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta