Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2015 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tækni – og nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra fylgdist með tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda og ávarpaði gesti

Lego-keppnin-2

Liðið „Einn + níu“ frá Grunnskóla Reyðarfjarðar sigraði í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), sem fram fór í Háskólabíói laugardaginn 31. janúar sl. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt á heimsmeistaramóti FIRST LEGO League í St. Louis í Bandaríkjunum í vor. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra fylgdist með keppninni og ávarpaði gesti og sagði m.a.: „Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eiga skólar að leggja áherslu á að nemendur öðlist sem bestan skilning á þeim viðfangsefnum sem þeir fást við í námi sínu.  Því er meðalannars hægt að ná fram með því að leggja áherslu á frjótt og skapandi starf, verklega færni, nýsköpun og frumkvöðlanám þar sem hvatt er til frumkvæðis og sjálfstæðis í vinnubrögðum, og hagnýtingu í skólastarfi og daglegu lífi. Tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanema er gott dæmi um skemmtilegan og sýnilegan hluta af því mikla starfi sem fer fram í skólum landsins“.


Greint er frá keppninni á vef Háskóla Íslands og þar segir m.a.: „Metfjöldi liða tók þátt í keppninni að þessu sinnu, eða 18 lið víðs vegar af landinu. Í hverju liði voru á bilinu 6-10 manns á aldrinum 9-16 ára og þátttakendur því samtals hátt í 200. Þeir hafa undirbúið sig að kappi fyrir keppnina allt frá því að þátttökugögn voru send út í október síðastliðnum.

Mynd: Háskóli Íslands

Keppninni er skipt í nokkra hluta þar sem reynir á margs konar hæfileika enda markmið keppninnar að efla færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni. Keppninni er valið ákveðið þema ár hvert og að þessu sinni var þemað „Skóli framtíðarinnar“. Meðal verkefna keppenda var að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Mindstorms LEGO-i til að leysa tiltekna þraut sem tengist þemanu og þá áttu keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig tengdist þemanu og jafnframt að halda ítarlega dagbók um undirbúning fyrir keppnina. Enn fremur fluttu keppnisliðin frumsamið skemmtiatriði og þá þurftu þau að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt.
Þegar stigin í keppninni höfðu verið tekin saman reyndist liðið „Einn + níu“ sigurvegari, en það er skipað níu stúlkum og einum dreng úr Grunnskóla Reyðarfjarðar“.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta