Kynjuð fjárlagagerð - þar sem réttlæti og sanngirni haldast í hendur við efnahagslega velferð
- Vefrit fjármálaráðuneytisins 6. október 2011 (PDF 56 KB)
Undanfarna áratugi hefur kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð verið að ryðja sér til rúms sem öflugt tæki í efnahagsstjórn á heimsvísu og nú hafa yfir 100 lönd tekið hana upp í einhverri mynd.
Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er eitt af þeim tækjum sem hægt er að nýta til að stuðla að jafnrétti og réttlátari öflun og dreifingu opinberra fjármuna. Þrátt fyrir að Ísland hafi verið seint að grípa boltann getum við nú byggt á reynslu annarra þjóða sem hafa forskot í þessum efnum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 eru kynntar niðurstöður tilraunaverkefna í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð sem ráðuneyti og stofnanir hafa unnið síðastliðið. Tilraunaverkefnin voru fyrsta skrefið í að þróa tæki og aðferðir fyrir Ísland ásamt því að byggja upp þekkingu og efla vitund um mikilvægi kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Hér má lesa um meginflokka ráðuneytanna í innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar og um hugmyndafræðina bak við kynjaða hagstjórn.
Á dögunum birtust fréttir af því í Newsweek að Ísland væri besta land í heimi fyrir konur. Þetta er í samræmi við niðurstöður World Economic Forum Global Gender Gap Report um að munur milli kvenna og karla sé minnstur á Íslandi. Þetta eru að sjálfsögðu góðar fréttir en á sama tíma og við fögnum því sem vel er gert er mikilvægt að missa ekki sjónar af því að enn ríkir kynjamisrétti á Íslandi og að björninn er langt frá því unninn. Okkur bíða ýmis aðkallandi verkefni til að ná því markmiði að hér ríki jafnrétti á milli kvenna og karla og að kynin hafi jöfn tækifæri í lífinu. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er eitt af þeim tækjum sem hægt er að nýta til að stuðla að jafnrétti. Forsögu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar má rekja til Ástralíu en þar urðu femínistar innan stjórnkerfisins smátt og smátt meðvitaðari um þörfina á því að flétta kynjajafnrétti saman við fjárlagagerðina. Úr varð fyrsta verkefnið í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð árið 1984. Önnur lönd fylgdu í kjölfarið og á kvennaráðstefnunni í Peking árið 1995 var lögð áhersla á að stjórnvöld yrðu að framkvæma kerfisbundnar greiningar á kynjaáhrifum fjárlaga og aðlaga þau að þörfum beggja kynja til að uppfylla jafnréttisskuldbindingar sínar.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag hafa yfir 100 lönd tekið kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð upp í einni eða annarri mynd. Ísland stökk frekar seint á vagninn. Eitt verkefni var unnið sem hluti af norrænu samstarfi á árunum 2005-2006 en það var ekki fyrr en árið 2009 að innleiðing hófst með formlegum hætti.
Síðastliðið ár hafa ráðuneyti og stofnanir unnið tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð og eru niðurstöður þeirra eða áfangaskýrslur kynntar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Tilraunaverkefnin voru fyrsta skrefið í að þróa tæki og aðferðir fyrir Ísland ásamt því að byggja upp þekkingu og efla vitund um mikilvægi kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Verkefnin eru mismunandi hvað varðar bæði umfang og viðfangsefni. Greiningarnar leiða ýmislegt athyglisvert í ljós og í mörgum tilvikum vakna líka fleiri spurningar um kynjaáhrif í kjölfar verkefnanna. Því er mikilvægt að láta ekki staðar numið með tilraunaverkefnin þó fyrstu greiningu sé lokið heldur halda áfram og koma nauðsynlegum breytingum í framkvæmd.
Í næsta áfanga innleiðingarinnar er m.a. lögð áhersla á að öll ráðuneyti vinni með einn meginmálaflokk samkvæmt aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar næstu þrjú árin. Stefnt er að því að verkáætlun verði tilbúin um næstu áramót og árlega verði birtar skýrslur um framvindu verkefnanna. Meginmálaflokkar ráðuneytanna eru þessir :
Forsætisráðuneytið: Kynjamat á frumvörpum
Innanríkisráðuneytið: Gjafsóknir og önnur opinber réttaraðstoð
Velferðarráðuneytið: Málefni aldraðra
Fjármálaráðuneytið: Mat á kynjaáhrifum virðisaukaskattskerfisins
Iðnaðarráðuneytið: Styrkjaúthlutun úr sjóðum iðnaðarráðuneytis sem ætlað er að styðja við atvinnulíf og nýsköpun
Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Háskólar og rannsóknir
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið: Búnaðarsamningar
Umhverfisráðuneytið: Loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra, bæði með tilliti til hlýnunar loftslags og annarra þátta
Utanríkisráðuneytið: Þróunarsamvinna
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið: Efnahagsmál
Þá er einnig ánægjulegt að sjá að sum sveitarfélaganna eru að hefja innleiðingu kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar. Reykjavíkurborg hefur ráðið verkefnisstjóra tímabundið til að stýra innleiðingu hjá borginni og Akureyrarbær er sömuleiðis að stíga sín fyrstu skref í kynjaðri fjárhagsáætlanagerð. Bærinn hélt m.a. námskeið fyrir bæjarfulltrúa, nefndarfólk og deildarstjóra í september sem verkefnisstjóri fjármálaráðuneytisins leiðbeindi á. Fagna ber áhuga og framtaki sveitarfélaganna því með þátttöku þeirra skapast breiðari samstarfsgrundvöllur sem styrkir kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í sessi.
Undanfarna áratugi hefur kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð verið að ryðja sér til rúms sem öflugt tæki í efnahagsstjórn á heimsvísu. Þrátt fyrir að Ísland hafi verið seint að grípa boltann getum við nú byggt á reynslu annarra þjóða sem hafa forskot í þessum efnum. Nokkur lönd eru komin það langt að vera búin að formfesta kynjaða hagstjórn í lög hjá sér með einum eða öðrum hætti. Þar má nefna Austurríki sem er komið með ákvæði um að ríki, héruð og sveitarfélög skuli hafa jafna stöðu kvenna og karla að markmiði í fjárlagagerð og Suður-Kóreu sem er með nokkrar greinar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í sínum fjárreiðulögum. Í Bretlandi og á Norður-Írlandi hafa verið gerðar greiningar á áhrifum niðurskurðar á kyn. Þær leiða í ljós að niðurskurðurinn bitnar verr á konum en körlum og einnig að vissir hópar kvenna verða verr úti en aðrir, s.s. einstæðar mæður og ellilífeyrisþegar. Þessar niðurstöður undirstrika þörfina á því að greina hugsanleg áhrif opinberra aðgerða fyrirfram. Í þriggja ára áætlun um innleiðingu er gert ráð fyrir að áður en til ákvarðanatöku kemur verði úrræði á völdum sviðum kortlögð samkvæmt aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar og aðgerðir mótaðar í samræmi við kynja- og jafnréttissjónarmið.
Íslendingar fyllast iðulega stolti þegar kannanir leiða í ljós að við erum framarlega í jafnréttismálum. Lykillinn að því að halda þeirri stöðu felst í að vera sífellt á tánum og leita nýrra leiða til að viðhalda og auka jafnrétti. Þar skiptir einnig máli að vera vel að sér þegar kemur að þeim tólum og tækjum sem hægt er að nýta til framþróunar, enda er auðvelt að dragast aftur úr með sofandahætti. Markmiðið með kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð er að fjárlögum verði beitt á markvissan hátt til að jafna stöðu kvenna og karla og stuðla að sanngjarnri öflun og nýtingu opinberra fjármuna. Að auki er hún liður í góðri efnahagsstjórn en jafnrétti kynjanna stuðlar að auknum hagvexti og eykur samkeppnishæfi þjóða. Jafnrétti er þannig einn af hornsteinum hagsældar þjóða og sýnir að réttlæti og sanngirni haldast í hendur við efnahagslega velferð.