Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 5. nóvember 2021

Heil og sæl.

Það hefur sannarlega verið nóg að gera í utanríkisþjónustunni í vikunni. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP26 stendur nú yfir og svo lauk Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn í vikunni. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók virkan þátt í þinginu sem fór fram í Kristjánsborgarhöll, átti tvo tvíhliða fundi og sótti fund norrænu ráðherranna (N5) til viðbótar við þátttöku í hefðbundinni dagskrá þingsins.

Norrænt samstarf í öryggis- og utanríkismálum var ofarlega á baugi á nýafstöðnu þingi en Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, var m.a. gestaræðumaður á þinginu og kynnti m.a. áherslur í varnar- og öryggismálum sem varða Norðurlönd

Á fundi norrænu utanríkisráðherranna (N5) á þriðjudag leiddi Guðlaugur Þór umræður um norrænt samstarf á sviði öryggismála og tengslin yfir Atlantshafið. Guðlaugur Þór áréttaði að sterk tengsl yfir Atlantshafið væru Norðurlöndunum öllum mikilvæg. „Norræn samstaða og eining skiptir öllu máli þegar kemur að því að takast á við núverandi ógnir í öryggismálum. Skýrsla Björns Bjarnasonar leggur ríkulega áherslu á þetta og undirstrikar einnig þau tækifæri sem við höfum til þess að ná sameiginlegum markmiðum okkar. Þar á meðal eru traust tengsl yfir Atlantshafið,“ sagði Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór átti jafnframt tvíhliða fundi með Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, og Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, sem báðir fóru fram í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Á fundi Guðlaugs með Anniken Huitfeldt var pólitískur ráðgjafi hennar með í för, en hún heitir Eirin Kristin Kjær, sem dvaldi sem skiptinemi á Höfn í Hornafirði sem unglingur og talar þess vegna góða íslensku. 

„Eirin hefur vakið athygli fyrir baráttu sína fyrir betra samfélagi í Noregi en hún er á meðal þeirra sem lifðu af hryðjuverkaárásina í Útey árið 2011.  Alltaf gaman að hitta hugsjónafólk á ferðalögum erlendis og sérstaklega skemmtilegt þegar það talar íslensku!“ skrifaði ráðherra.

Í tengslum við COP26 ávarpaði Guðlaugur Þór svo viðburð Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Þar tilkynnti hann jafnframt þátttöku Íslands í fjármögnun verkefnis UNDP til stuðnings loftslagstengdrar þróunarsamvinnu. Framlag Íslands nemur 150 milljónum króna til næstu þriggja ára.  

En þá að starfsemi sendiskrifstofa okkar í vikunni.

Í Kaupmannahöfn hefur allt auðvitað meira og minna snúst um þing Norðurlandaráðs sem fór fram í borginni í vikunni. 


Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Osló, er nú stödd í embættiserindum í Aþenu en hún er einnig sendiherra gagnvart Grikkland.  Auk þess að funda með embættismönnum í utanríkisráðuneytinu og sendiherra Noregs í Aþenu, hefur Ingibjörg fundað með Eleni Sourani (sjá mynd) sem gegnir stöðu utanríkismálaráðgjafa gríska forsætisráðherrans, Kyriakos Mitsotakis.

Í London var fagnað þar sem tveir norrænir höfundar, þau Lilja Sigurðardóttir, og hinn finnski Antti Antti Tuomainen gáfu nýverið út bækur í Bretlandi:


Í París hitti Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra, Torfa H. Tulinius, prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, sem heldur um þessar mundir fjóra gestafyrirlestra um fornsögurnar við Collège de France í París.


Í Berlín fóru fram kynning á íslenska fyrirtækinu PayAnalytics og pallborðsumræður um jöfnun launa í húsnæði norrænu sendiráðanna. María Erla Marelsdóttir sendiherra opnaði viðburðinn. Víðir Ragnarsson frá íslenska fyrirtækinu PayAnalytics fjallaði um hugbúnað fyrirtækisins sem hægt er nota til þess að vega og meta launamismun innan fyrirtækja og sérstaklega hvernig hægt er nota hann til þess að sporna gegn kynbundnum launamun. 



Þar fór einnig fram samnorrænn viðburður undir forsjá finnska sendiráðsins og með stuðningi Norðurlandaráðs sem bar heitið „Smart cities“ þar sem snjalllausnir og sjálfbærni í skipulagsmálum á Norðurlöndum og netöryggismál voru í forgrunni. Hildigunnur Thorsteinsson frá Orkuveitu Reykjavíkur tók þátt í umræðunni og hélt kynningu á kostum jarðhita og svo bindingu kolefnis í jarðvegi, sem fyrirtækið Carbfix hefur unnið að, en sérfræðingar alls staðar af Norðurlöndum tóku þátt. Eftir að dagskrá lauk tók fjölmiðillinn Deutschlandfunk viðtal við Hildi Thorsteinsson.

Í Brussel sat Kristján Andri Stefánsson fund sameiginlegu EES nefndarinnar á dögunum þar sem 34 sameiginlegar ákvarðanir með 55 gerðum voru teknar upp í EES samninginn. Gerðirnar eru á ýmsum málaefnasviðum ráðuneytanna og má t.d. nefna gerð sem gerir EES EFTA ríkjunum kleift að taka þátt í Geimáætlun ESB. 


Í Genf voru drög að sameiginlegri ráðherrayfirlýsingu um alþjóðaviðskipti og jafnrétti kynjanna til umræðu á fundi óformlegs vinnuhóps sem Ísland, El Salvador og Botswana leiða á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands gagnvart stofnuninni, tók þátt fyrir Íslands hönd.

Í Kampala ritaði Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðsins Íslands í Úganda, undir samning við M/s Cardno Partners Consult, um að gera sjálfstæða útttekt á samstarfssamningi Ísland við Buikwe-hérað. Samstarfið við Buikwe-hérað hefur staðið yfir frá 2014 en stuðningur Íslands bætir lífsskilyrði fiskimanna og beinist að menntun og vatns- og hreinlætismálum.


Í Malaví stóð Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví, fyrir forvarnarfræðslu fyrir ungmenni í Mangochi-héraði um kynbundið ofbeldi, ótímabærar þunganir og barnabrúðkaup.


María Mjöll Jónsdóttir skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu fór svo í heimsókn til Washington í vikunni ásamt öðrum norrænum og baltneskum kollegum sínum þar sem hún fulltrúa utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna.

Þá ræddi hún ásamt Bergdísi Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington, við Jessicu Stern, sérstakan erindreka um mannréttindi hinsegin fólks.


Í New York kaus Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, í sæti Alþjóðadómstólsins í Hag. 


Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu var ánægður með afrakstur vinnuferðar til Svíþjóðar.



Í Japan hitti Stefán Haukur Jóhannesson Shinichi Kitaoka, forseta japönsku þróunaraðstoðarstofnunarinnar (JICA).


Í Vín var Ísland í hópi 35 ríkja sem settu af stað hina svokölluðu Vínar-aðferð (Vienna Mechanism) þar sem svara frá yfirvöldum í Belarús er krafist vegna versnandi stöðu mannréttinda þar í landi. Þetta kom fram á Twitter-reikningi Kristínar Árnadóttir sendiherra og fastafulltrúa Íslands gagnvart ÖSE í Vín.


Í Kína heimsótti Þórir Ibsen sendiherra höfuðstöðvar íslenska fyrirtækisins Arctic Green Energy sem staðsettar eru í Peking. Með í för var William Freyr Huntingdon-Williams, staðgengill sendiherra.


Við endum þessa yfirferð svo í Stokkhólmi á hressum nótum þar sem Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, kom fram í einum vinsælasta skemmtiþætti Svíþjóðar, Hellenius hörna, um síðustu helgi. Þar færði Hannes nýjasta heiðursborgara Húsavíkur, Molly Sandén, sérstakt skjal þess efnis með formlegum hætti. Sandén dvaldi á Húsavík í tvær vikur við tökur á laginu Húsavík úr Netflix kvikmyndinni um Eurovision söngvakeppnina en lagið sló rækilega í gegn og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Við segjum þetta gott í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta