Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í leigufélögum í samráðsgátt
Ráðuneytið hefur birt í samráðgátt stjórnvalda áform um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þar eru kynnt fyrirhuguð áform stjórnvalda um að leggja fram á vormánuðum þessa árs tillögu um breytingar á lögbundnum fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Tilgangurinn er að rýmka heimildir lífeyrissjóða til þess að fjárfesta í leiguhúsnæði til einstaklinga.
Er tillögunni ætlað að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta tiltekinn hluta eignarsafns síns í hlutabréfum félaga, sem ekki eru skráð á skipulegan markað, og í hlutum eða hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sem ekki eru skráð á skipulegan markað, þar sem meginstarfsemin er að fjárfesta í íbúðarhúsnæði sem ætlað er til langtímaleigu til einstaklinga til fastrar búsetu.
Tillaga áformanna er til samræmis við yfirlýsingu stjórnvalda frá 12. desember 2022 vegna undirritunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar lýstu stjórnvöld sig reiðubúin að skoða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir sjóðanna til fjárfestinga í leigufélögum.
Samhliða áformum var birt frummat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar. Ekki er gert ráð fyrir að áformin hafi áhrif á fjárhag ríkissjóðs.