Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, taka þátt í svonefndri ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna dagana 22. – 27. september nk. en 63. allsherjarþing S.þ. verður sett þriðjudaginn 23. september. Ráðherrarnir munu hitta þjóðarleiðtoga og aðra ráðamenn sem sækja þingið, ræða samskipti ríkja og m.a. tala fyrir framboði Íslands til setu í öryggisráði S.þ.
Forsætisráðherra mun flytja aðalræðu fyrir Íslands hönd í allsherjarþinginu föstudaginn 26. september og sama dag fundar hann með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra S.þ. Hann leiðir fund smærri ríkja um nýjar umhverfisógnir miðvikudaginn 24. september og ávarpar fund um framkvæmd Þúsaldarmarkmiða S.þ. fimmtudaginn 25. september. Hann mun ennfremur eiga fundi með fulltrúum úr viðskiptalífi og háskólum og verður heiðursgestur við lokunarathöfn verðbréfamarkaðar NASDAQ miðvikudaginn 24. september.
Utanríkisráðherra verður einn aðalræðumanna á fundi UNIFEM um málefni Afríku mánudaginn 22. september, sækir fund utanríkisráðherra Norðurlanda, samráðsfund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess miðvikudaginn 24. september og leiðir sérstakan fund kvenutanríkisráðherra aðildarríkja S.þ. föstudaginn 26. september.
Tæpur mánuður er þar til gengið verður til kosninga íöryggisráðið og tekur starfsemi Íslands á vettvangi S.þ. mið af því á þessum síðustu vikum. Framboð Íslands nýtur stuðnings allra Norðurlandanna og munu ráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Sviþjóðar leggja framboðinu lið.