Opið samráð um nýja evrópska tilskipun um veghæfi
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um tillögu að nýrri tilskipun um veghæfi (e. roadworthiness package). Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum er til og með 28. september 2022.
Markmið með tillögunni eru þríþætt. Í fyrsta lagi að auka öryggi á vegum, í öðru lagi að efla sjálfbærar samgöngur sem byggja á snjalltækni og í þriðja lagi að greiða fyrir og einfalda frjálst flæði vara og fólks innan sambandsins.
Bifreiðar eru stöðugt að verða flóknari að gerð vegna nýrrar tækni en einnig nýrra reglna. Til að halda í við þá þróun eru áform um að breyta því hvernig ökutæki eru skoðuð.
Í tillögunni er sérstaklega tekið á atriðum eins og virkni ýmiss konar snjalltækni í bifreiðum, svo sem eins og þeim sem tengdir eru öryggi, akstursaðstoð og sjálfvirkri viðbragðstækni sem endast þarf allan notkunartíma ökutækis. Þá er tekið á því hvernig losun gróðurhúsalofttegunda er prófuð við skoðun og reynt að tryggja að árangurinn sé marktækur. Að síðustu er reynt að tryggja að geymsla og skipti á upplýsingum sem teknar eru rafrænt úr kerfum ökutækja séu geymdar með fullnægjandi hætti og að þeim sé hægt að deila þeim á milli ríkja.