Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um leiðréttingu á uppgjöri opinberra gjalda að hluta.



Ernst & Young ehf.
Ragnhildur Lárusdóttir
Borgartúni 30
105 Reykjavík

Reykjavík 13. apríl 2016
Tilv.: FJR16020001/16.2.2

Efni: Stjórnsýslukæra f.h. [X], kt. […]

Þann 26. janúar 2016 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Ragnhildar E. Lárusdóttur, lögfræðings, f.h. [X] („kærandi“). Kærð er ákvörðun tollstjóra dags. 11. desember 2015 um synjun um beiðni um leiðréttingu á uppgjöri opinberra gjalda að hluta. Ráðuneytið tekur erindið til afgreiðslu á grundvelli hinnar almennu kæruheimildar 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Málsatvik:
Með úrskurði dags. 9. desember 2014 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld kæranda vegna tryggingagjalds vegna gjaldáranna 2007-2009. Árið 2007 var það til hækkunar að fjárhæð 3.129.323 kr. með gjalddaga 1. janúar 2008 en með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags 22. desember 2014, þá að fjárhæð 7.832.616 kr. samtals. Hækkun ársins 2008 nam með dráttarvöxtum frá gjalddaga 1. janúar 2009 6.801 kr. til greiðsludags 22. desember 2014. Hækkun ársins 2009 nam 3.188.453 kr. með dráttarvöxtum frá gjalddaga 1. janúar 2010 til greiðsludags 22. desember 2014. Samtals nam hækkun tryggingagjalds með dráttarvöxtum 11.027.873 kr.

Með sama úrskurði var tekjuskattur kæranda lækkaður vegna tekjuáranna 2008-2010. Inneign myndaðist í tekjuskatti kæranda sem nam með vöxtum 15.263.793 kr. Af þeirri upphæð var 11.027.873 kr. skuldajafnað upp í skuld í tryggingagjaldi og dráttarvöxtum en félagið fékk 4.235.920 kr. greiddar hinn 22. desember 2014.

Kærandi telur að skuldajöfnun tollstjóra við uppgjör ofgreidds tekjuskatts á móti vangreiddu tryggingargjaldi hafi verið ranglega framkvæmd, þar sem hún átti sér stað í desember 2014. Skattbreytingin hafi aðeins numið 6.996.871 kr. nettó, sé hækkun tryggingagjaldsins (4.942.767 kr.) dregin frá lækkun tekjuskattsins (11.939.638 kr.). Greiðslan sem barst félaginu hafi hins vegar einungis numið 4.235.920 kr. Það stafi af því að dráttarvextir hafi reiknast allt frá janúar 2008 til desember 2014 en inneignarvextir á ofgreiddan tekjuskatt frá nóvember 2008 til desember 2014. Þetta hafi leitt til þess að vaxtagjöld á vangreitt tryggingagjald nemi 6.086.215 kr. en vaxtatekjur af inneign tekjuskatts aðeins 4.208.510 kr.

Eðlilegra hefði verið að skuldajafna inneign vegna ofgreidds tekjuskatts á móti vangreiddu tryggingagjaldi í hverjum mánuði frá árinu 2008-2014 þegar félagið átti inneign til þess.


Umsögn tollstjóra:
Umsögn tollstjóra barst ráðuneytinu dags. 29. mars 2016. Í henni kemur fram að álagning dráttarvaxta vegna vangoldins tryggingagjalds sé lögboðin og ekki sé að finna lagaheimildir sem veiti undantekningar frá því. Engar heimildir séu heldur fyrir hendi í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, fyrir að breyta gildisdagsetningum og haga skuldajöfnun krafna með þeim hætti sem kærandi telur vera réttan. Krafa vegna vangoldins tryggingagjalds hafi ekki stofnast fyrr en með úrskurði ríkisskattstjóra 9. desember 2014 og jafnframt hafi inneign í tekjuskatti stofnast hinn sama dag. Af því leiði að lagaheimildum sé ekki til að dreifa til að framkvæma skuldajöfnuð í máli þessu með öðrum hætti en gert var 22. desember 2014.

Með vísan til þess telur tollstjóri að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun frá 11. desember 2015.


Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, skal ríkisskattstjóri kanna skil þeirra sem greiða áttu tryggingagjald og eftir atvikum leiðrétta það sem áfátt kann að reynast og ákvarða vangreitt tryggingagjald. Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir svo að komi í ljós að aðili, sem greitt hefur laun sem greiða skuli tryggingagjald af, hafi vanrækt greiðslu gjaldsins að hluta eða að öllu leyti, eða ofgreitt tryggingagjaldið eða ekki skilað launaframtali, skuli ríkisskattstjóri ákvarða tryggingagjald fyrir hvert einstakt greiðslutímabil. Af vangreiddu tryggingagjaldi skuli ákvarða gjaldanda dráttarvexti frá og með gjalddaga þess í samræmi við vaxtalög, nr. 25/1987.

Í 14. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingargjald, kemur fram að við endurákvörðun tryggingargjalds skuli beita ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt eftir því sem við eigi.

Í 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að séu skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu falli viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra um hækkunina. Þá segir í 2. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að ef í ljós hafi komið við endurákvörðun skatta að gjaldandi hafi greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemi skuli endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Vextirnir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, og nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru afdráttarlaus. Enga heimild er að finna í lögunum til að víkja frá áskilnaði þeirra um greiðslu dráttarvaxta. Fallist er að auki á þann skilning tollstjóra að ekki sé unnt að breyta gildisdagsetningum og haga skuldajöfnun krafna með þeim hætti sem kærandi fer fram á.

Með vísan til framangreinds er ekki fallist á með kæranda að beiting dráttarvaxta og aðferð við skuldajöfnun hjá innheimtumanni ríkissjóðs hafi brotið gegn lögum. Niðurstaða ráðuneytisins er því sú að unnið hafi verið eftir lögum og verklagsreglum í málinu. Með vísan til þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til niðurfellingar dráttarvaxta í málinu.


Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun tollstjóra, dags. 11. desember 2015, um að synja kæranda um leiðréttingu á uppgjöri opinberra gjalda að hluta, er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta