Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Tímamót í stafrænni vegferð dómstóla og lögreglu

Ákærur í umferðalagabrotum er nú hægt að senda rafrænt frá lögreglu til dómstóla og boðun í dóm birtist í pósthólfi þess ákærða á island.is. Með þessu er stigið stórt skref til umbóta í meðferð mála sem fara frá lögreglu og til dómstóla, en hingað til hafa ákærur, ásamt skjalaskrám, verið fluttar á pappír á milli einstaklinga og stofnana.

Þessi áfangi er liður í verkefninu um réttarvörslugátt sem dómsráðuneytið leiðir í miklu og góðu samstarfi við stofnanir réttarvörslukerfisins svo sem lögreglu, dómstóla, ákæruvald, fangelsismálayfirvöld, lögmenn og Stafrænt Ísland.  Helsta markmið og leiðarljós verkefnisins er að gera réttarvörslukerfið einfaldara og notendavænna og tryggja greiðari málsmeðferð. Hluti af framtíðarsýninni er að bæta aðgengi að dómstólum og einfalda samskipti við lögreglu og dómstóla, auka skilvirkni og hagkvæmni í störfum þeirra sem vinna að úrlausn sakamála og draga auk þess úr kolefnisspori með því að fækka ferðalögum og minnka pappírsnotkun. Samhliða því að færa ferla í stafrænt form á sér stað umfangsmikil breyting á núverandi ferlum og verklagi.

Þetta er fyrsta skrefið í því að bæta aðgengi að upplýsingum og gögnum fyrir einstaklinga sem eiga mál til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum, en markmiðið er að sams konar ferli verði viðhaft um flest sakamál.

Síðastliðið sumar samþykkti Alþingi breytingar á lögum um meðferð sakamála sem miða að því að gera samskipti í réttarvörslukerfinu tæknilega hlutlaus og skapa forsendur til að nýta tæknilausnir í ríkari mæli. Með lögunum var réttarfarslöggjöfin meðal annars  gerð hlutlaus um afhendingarmáta gagna og tilkynninga og heimila lögin í auknum mæli notkun rafrænna lausna í stað undirritana með eigin hendi og útprentun á pappír. Samhliða þessu var heimiluð stafræn birting ákæra og annarra gagna við rannsókn og meðferð sakamála.

Dómsmálaráðuneytið hefur lagt mikla áherslu á að bæta þjónustu og auka skilvirkni í störfum hins opinbera með því að nýta nútíma tæknilausnir, stafrænar þjónustur og gervigreind. Til að styðja við þessi markmið starfar í ráðuneytinu sérstakt teymi sem vinnur markvisst að stafrænni vegferð í öllu réttarvörslukerfinu í samstarfi við stofnanir, önnur ráðuneyti og Stafrænt Ísland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta