Drög að reglugerð um vistun ungra fanga til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um afplánun ungra fanga á aldrinum 15 til 18 ára. Unnt er að veita umsögn um reglugerðardrögin til 10. október og skal umsögn berast á netfangið [email protected].
Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 19/2013. Jafnframt var lögum um fullnustu refsinga breytt í þá veru að fangar sem eru undir 18 ára aldri skuli vistaðir á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda nema sérstakar ástæður séu til að vista þá í fangelsi. Í lögunum var gert ráð fyrir að ráðherra setti reglugerð um nánari framkvæmd vistunar og birtast reglugerðardrögin nú til umsagnar. Þau eru samin í samvinnu ráðuneytisins, Fangelsismálastofnunar ríkisins og Barnaverndarstofu.
Reglugerð um afplánun ungra fanga á að taka til fullnustu óskilorðsbundinna refsinga fanga á aldrinum 15-18 ára þegar þeir eru vistaðir á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda, í fangelsi á vegum Fangelsismálastofnunar ríkisins eða hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Í reglugerðardrögunum eru ákvæði um fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, um vistun á vegum Barnaverndarstofu og meðferð á vegum hennar, fjallað er um almennar reglur, strok, flutning fanga og reynslulausn. Einnig eru í drögunum ákvæði um eftirlit Barnaverndarstofu og um þjálfun starfsmanna meðferðarheimilis sem tekur unga fanga til vistunar.