Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin ábyrgð atvinnurekenda á vinnuvernd

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnu Vinnueftirlits ríkisins
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnu Vinnueftirlits ríkisins

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir að með nýrri reglugerð um skyldu atvinnurekenda til að gera áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sé ábyrgð vinnuveitenda aukin og kerfisbundnu vinnuverndarstarfi komið á. Meginmarkmið þess sé að greina áhættuþætti þannig að koma megi í veg fyrir slys og vinnutengda sjúkdóma.

Félagsmálaráðherra setti fjölsótta ráðstefnu Vinnueftirlits ríkisins um áhættumat og forvarnir á vinnustöðum á Grand hótel í gær með því að brýna stjórnvöld, atvinnurekendur og launafólk til að taka höndum saman um öryggi og góðan aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

„Það hefur takmarkaða þýðingu að setja lög og gefa út reglugerðir ef skilningurinn á þörfinni er takmarkaður,“ sagði Magnús Stefánsson meðal annars í ávarpi sínu.

Á ráðstefnunni voru kynnt ný ákvæði reglugerðar nr. 920/2006 um skyldu atvinnurekenda til að gera áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

„Þessa áætlun skal semja í samráði við öryggisverði eða öryggistrúnaðarmenn eða aðra fulltrúa starfsmanna,“ sagði félagsmálaráðherra. „Með henni verður markvisst unnið að stöðugum umbótum á vinnustaðnum undir stjórn og á ábyrgð atvinnurekandans. Hugsunin er sú að vinnuverndin verði eðlilegur þáttur í starfi fyrirtækisins sem hafi að leiðarljósi að starfsmenn geti verið í þjónustu þess árum saman, jafnvel alla starfsævina, án þess að andlegt eða líkamlegt atgervi verði fyrir skaða.“

Auk kynningar á framangreindri reglugerð greindu talsmenn fyrirtækja á ráðstefnunni frá reynslu sinni af áhættumati og forvörnum í starfi. Loks voru pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa stjórnvalda, atvinnurekenda og launafólks.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta